20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fyrst í einu og öllu taka undir það sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda áðan.

Það var minnt á það áðan að hjá Pósti og síma hefði orðið umtalsverður sparnaður. Sá sparnaður hefur farið nokkuð hratt hjá okkur úti á landsbyggðinni í mannafækkun þar, en ég efast um að hjá þeirri sömu stofnun hafi orðið vart við þann sama sparnað hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég stórefa það. Mér hefur þótt sá sparnaður fara allhratt hjá okkur úti á landi með fækkun starfsfólks þar og auknum lokunartíma, sem ekki hefur verið mætt af þessari annars mætu stofnun með þeim hætti sem vera hefði átt. Ég bendi t. d. á helgarlokunina núna á flestum stöðvum úti á landi og bendi á þau óþægindi sem t. d. loðnusjómennirnir hafa orðið fyrir af þessum sökum, vegna þess að þeir hafa ekki á fjölmörgum þéttbýlisstöðum átt kost á því að komast í síma og Landssíminn ekki komið upp þeim úfbúnaði sem hann lofaði þó að yrði komið upp í kjölfar þess að stöðvarnar yrðu lokaðar bæði laugardaga og sunnudaga.

Um jöfnunarmálin mætti margt segja. Ég vil aðeins segja það, að yfirleitt þykir okkur úti á landi sem þar fari allt of hægt í jöfnunarátt. Það verður seint nægilega ítrekað. Ég vil hins vegar segja það, að átakið, sem nú var gert, ber að þakka, sérstaklega fyrir hönd okkar sem byggjum þann landshluta sem lengst er frá þessu þéttbýlissvæði og hefur orðið jafnframt að bera langhæstu símagjöldin að meðaltali. Ber að þakka það átak vegna þess að það kemur okkur sérstaklega til góða.

En ég get ekki stillt mig um það, af því að hér hafa kjördæmismál komið inn í, að minna á einn þéttbýlisstað sem hefur orðið út undan á Austurlandi með það að fá sjálfvirkan síma. Það er sá litli staður Bakkafjörður sem býr að öðru leyti við ófullkomna þjónustu á flestum sviðum, en skilar drjúgum arði í þjóðarbúið. Það er mín ósk til hæstv. ráðh., að séð verði til þess að þessi ágæti staður með sín fengsælu mið og duglegu aflamenn verði ekki lengi út undan einn allra staða á Austurlandi í þessu efni.