20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan þakka hæstv. samgrh. fyrir það, að hann lofar í fyrsta lagi að svara innan tíðar þeirri fsp. sem ég hef borið fram og í öðru lagi að hafa með sér nauðsynleg gögn, svo að við getum stuðst við rök, en ekki fullyrðingar. Ég skal þá lofa því jafnframt að hafa mín gögn með mér, þannig að við getum þá borið saman hvort er réttara.

Hitt getur vel verið og ég út af fyrir sig vil fallast á það, að sá mismunur, sem ég gerði að umræðuefni á gjaldskrá Pósts og síma annars vegar og gjaldskrá t. d. Landsvirkjunar hins vegar, getur auðveldlega stafað af því að hækkun hafi verið svona lítil hjá Landsvirkjun. Og ég er ekki frá því að það sé nokkuð til í því, að ríkisstjórnir hafi verið fulltregar til þess að veita því fyrirtæki nauðsynlega hækkun á heildsöluverði rafmagns með tilliti til þeirra framkvæmda, sem það fyrirtæki stendur í, og þess mikla reksturs, sem þar á sér stað, og þess, hvernig nú hagar til í þeim rekstri, þar sem í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins er um verulegan rekstrarhalla að ræða á s. l. ári og útlit fyrir miklu verri útkomu á þessu ári en nokkru sinni fyrr. Þetta vil ég mjög gjarnan taka þátt í að athuga allt saman og að sjálfsögðu hafa það sem sannara reynist. Ef upplýsingar mínar eru rangar mun ég að sjálfsögðu leitast við að leiðrétta þær, en þangað til það er upplýst mun ég halda mig við þetta.