20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

113. mál, umbætur í málefnum barna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till. þó að hún gefi vissulega tilefni til margháttaðra umr., svo margir liðir eru taldir upp hér sem sú nefnd eða samstarfshópur eigi um að fjalla sem gert er ráð fyrir að komið verði á fót.

Það er vissulega þakkarvert þegar stjórnmálasamtök taka þannig á málum að þau einskorða sig við afmarkað verkefni og reyna að vinna þar eins vel og mér sýnist þarna hafa verið gert. Ég verð því að þakka það framtak sem Samband Alþýðuflokkskvenna hefur þarna gefið þingflokki sínum sem veganesti, sem hlýtur að teljast mjög til fyrirmyndar.

Ég veit að hjá því rn., sem fer með málefni varðandi barnaárið, er verið að vinna að ýmsu því sem komið gæti helst til greina að setja á oddinn á ári barnsins: Það er þegar að verki samstarfshópur um það, hvað þar skuli helst gera, sem ég hygg að nokkuð margir eigi aðild að. Það hefur þegar verið haldin ein ráðstefna, mjög fjölmenn, kannske of fjölmenn, varðandi það hvað gera ætti, en síðan aftur þrengri hópur myndaður til að vinna sérstaklega að þeim málaflokkum sem menn vildu leggja áherslu á. Till. þessi, ef samþ. yrði með þeim atriðum sem hún telur upp, ætti því að ganga til þess hóps á vegum menntmrn. sem er hér sérstaklega að að vinna.

Ég dreg auðvitað enga dul á það, að þó að þarna sé um markverð atriði að ræða út af fyrir sig hvert og eitt eru þarna nokkur atriði sem hafa í mínum huga forgang og ætti sérstaklega að taka upp. E. t. v. ætti að draga það út úr sem mestu skiptir í þessu máli, grisja örlítið, vegna þess að ég hygg að sumir liðirnir, ef grannt er skoðað, séu miklu þýðingarmeiri en aðrir, eins og eðlilegt er þegar um svona mikla og langa upptalningu er að ræða. Þar er ég ekki að gera lítið úr þeim liðum, sem minna skipta og eru eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, kannske þess eðlis að þeir kosta tiltölulega lítið nema viljann til að framkvæma þá.

Ég bendi alveg sérstaklega á þau viðamiklu verkefni sem reiknað er með í 3. lið í grg. að svokallaður barnaumboðsmaður fengi. Þar er um geysilega víðtækt starfssvið að ræða og e. t. v. væri í því tilfelli sjálfsagt að setja um það ákveðna löggjöf. Ég geri mér hins vegar ekki alveg ljóst hvernig á að framkvæma þetta, því að mér sýnist að það sé geysilega viðamikið verkefni sem þessi umboðsmaður fengi sérstaklega til meðferðar. Þar er upptalning á nokkrum atriðum, m. a. einhverjum viðkvæmustu og vandasömustu atriðum sem snerta t. d. foreldravaldið og áhugamál og réttindi barna í heild.

Í 5. liðnum er svo líka komið að máli sem ég tel mjög stórt, — hefur reyndar verið flutt á Alþ. sérstaklega. Ég geri mér von um varðandi fæðingarorlofið í heild, að það hljóti að koma inn í þá endurskoðun almannatryggingalaganna sem nú stendur yfir, þó að búast megi við að það yrði í öðru formi og ekki eins stórtæku og þarna er ráð fyrir gert.

Ég tek líka alveg sérstaklega undir 11. liðinn, um að ríkið taki að nýju þátt í rekstri dagvistarstofnana. Það mál er einnig komið hér inn sem beint þingmál.

Ekki síður legg ég áherslu á 12, og 13. lið, sem eru nátengdir. Þar er um einstaklinga að ræða sem við öll vitum að hafa verið um of vanræktir á undanförnum áratugum. En vaxandi skilningur á málefnum þeirra hefur valdið því að nú er farið að setja mál þessi á oddinn meira en gert hefur verið. Ég hafði gert mér svo sannarlega von um að sá samstarfshópur, sem vann að málefnum þroskaheftra á vegum þriggja rn. ásamt með fulltrúa frá samtökunum Þroskahjálp, birti okkur álit sitt í frv. formi áður en þessu þingi lyki. Á því væri vissulega full þörf. Ég veit hins vegar ekki um stöðu þess máls í dag, en trúi vart öðru en þegar svo víðtæk samstaða hefur náðst um almenna heildarlöggjöf varðandi hið þroskahefta fólk hljóti það mál að sjá dagsins ljós fyrr en síðar. Þar er auðvitað komið inn á þau atriði sem 12. liðurinn og reyndar 13. liðurinn að hluta tekur til. Það, sem e. t. v. skiptir mestu, er að í áliti þessu eða frv.-drögum er komið inn á þau nútímavinnubrögð, sem verður að fara að viðhafa í málefnum þroskaheftra, sneitt fram hjá um margt úreltri hælastefnu eins og mögulegt er. Ég dreg enga dul á það og hef aldrei gert að sú stefna er löngu úrelt, þó að við höldum okkur enn við hana í allt of ríkum mæli, og jafnvel síðasti samstarfshópur, sem skilaði áliti á vegum sömu rn. í fyrra, hélt sig enn við hana að mjög miklu leyti.

Ég legg svo áherslu á 14. liðinn í þessari till., þó að ég viti að í efri bekkjum grunnskóla á að fara fram ákveðin fræðsla um þjóðfélagsleg efni, réttindi og skyldur einstaklingsins í þjóðfélaginu. Það er nú þegar gert. En ég dreg ekkert úr því, að þar megi betur gera. Það er staðreynd, að í skólakerfi okkar hefur þessi þáttur orðið um of út undan og menn heldur viðkvæmir fyrir honum. Það er varla viðeigandi hér og nú að benda á það, að þetta fer ansi mikið á skakk við nýframkomið frv. í Ed., þar sem manni sýnist í raun og veru að það eigi að takmarka þessa fræðslu sem allra mest. Vegna fjarveru flm. þess frv. er ekki viðeigandi að fara miklu nánar út í það atriði, en ef það frv. um breytingu á grunnskólalögunum kæmi til framkvæmda óbreytt eins og það er nú mundi það hreinlega loka fyrir þann þátt sem er vikið að í sambandi við sem eðlilegasta fræðslu í þessum efnum, sem hlýtur að koma meira og minna inn á þau svið sem frv. það fjallar um.

Ég sem sagt vildi nota þetta tækifæri til þess að taka undir meginmálið í þessari till. til þál. og þakka um leið það framtak, sem þarna er sýnt, og þar mættu fleiri huga að. En. ég tel eðlilegast og sjálfsagðast að sá hópur, sem vinnur að þessu máli á vegum menntmrn., fái þetta sem verkefni, kannske að hluta til sem viðbótarverkefni. En e. t. v. er þessi hópur þegar farinn að huga að veigamiklum þáttum þess án þess að ég viti það.