20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

113. mál, umbætur í málefnum barna

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ellefu hv. þm. Alþfl. hafa flutt hér till. til þál., og mér sýnist að nú muni vera lýðum ljóst að þar séu á ferðinni barnavinirnir mestu. Það er góðra gjalda vert að vera góður við blessuð börnin, og því stend ég upp að ég vil taka undir suma liði þessarar tillögu.

Ráðh. Alþfl. eru að sjálfsögðu ekki á þáltill. þessari, enda ekki venja, en ráðh. hefðu getað upplýst að málefni barna munu vera til meðferðar í ríkisstj. Ég hygg að ég muni það rétt, að í málaskrá ríkisstj. sé áformað að flytja frv. til barnalaga. Það hefur að vísu komið áður á borð þm. Ef ég man rétt hefur það verið flutt þrisvar sinnum og aldrei hlotið afgreiðslu. Nú hlýtur það að koma fram í fjórða sinn og eiga þá greiða leið í gegnum þingið eftir allan þennan undirbúning. En það er engan veginn einföld löggjöf, sem felst í þessu frv. til barnalaga, og hreint ekki ástæða til að kasta að því verki höndunum, því að eins og glögglega hefur komið fram í máli þeirra, sem hafa talað á undan mér, er hér um hin mikilsverðustu mál að ræða.

Þessi þáltill. felur í sér stefnuskrá Alþýðuflokkskvenna, eins og síðasti ræðumaður komst að orði. Það er þakkarvert að þær skuli setja þessa stefnuskrá saman, og það er augsýnilegt að fleiri en tilteknir hv. þm. Sjálfstfl. láta velferð fjölskyldunnar til sín taka.

Hvað varðar hugmyndina um barnaumboðsmann, þá sé ég það í hendi mér að hann muni gegna vandasömu starfi — ekki lítið vandasömu starfi. Ef maður lítur á þau verkefni sem honum yrðu falin með þessu máli, ef að lögum yrði þessi barnaumboðsmannsgrein, yrði það starfssvið víðfeðmt og ekki vandalaust að meðhöndla, svo sem eins og úrskurðarvald í ágreiningsmálum um börn o. fl., o. fl. Ég held að kannske væri fullt eins gott að setja nefnd í málið.

Hvað varðar kynlífsfræðsluna, sem hér er blandað inn í, þá er slíkt verkefni heilbrrh. Hæstv. fyrrv. heilbrrh. vann mikið starf á því sviði, og ég treysti því að núv. hæstv. heilbrrh. láti það mál einnig til sín taka.

Í þessari þáltill. eru margar góðar hugmyndir sem ég er hrifinn af, og sumar þeirra eiga áreiðanlega eftir að verða einhvern tíma að veruleika. En þetta kostar peninga. Það er áreiðanlega hægt að koma fyrir í þessu þó nokkrum milljörðum, ef framkvæma ætti allt á árinu næst á eftir barnaárinu. En sumir liðir till. eru það mikilvægir, að ég held að ástæða væri til að taka þá út úr og grisja, eins og hér hefur verið að komist að orði, því að sumt af þessu kostar ekki ýkjamikla peninga og gæti orðið mjög til bóta að koma í verk.