21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3440 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

217. mál, söluskattur

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 429 er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breyt., og er það hér til 2. umr. Frv. þetta flutti fjh.- og viðskn. að beiðni fjmrh. Samkv. því skal fjmrh. heimilt að ákveða með reglugerð að frá heildarsöluverði verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa megi framleiðandi þeirra draga við söluskattsuppgjör tiltekinn hundraðshluta verðsins. Skal frádráttarhlutfallið ákveðið sérstaklega fyrir hin ýmsu afhendingarstig verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og taka mið af því að sú verksmiðjuvinna verði undanþegin söluskatti er unnin hefði verið söluskattsfrjáls á byggingarstað við smíði húss á hefðbundinn hátt.

Á þskj. 64 fluttu þeir Helgi F. Seljan, Eyjólfur K. Jónsson og Hannes Baldvinsson snemma á þessu þingi frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt og því frv. var þá vísað til fjh.- og viðskn. Samkv. því skal öll vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð vera undanþegin söluskatti, hvort sem hún er unnin á byggingarstað, eins og er í gildandi lögum, eða í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð. Sama skal gilda um endurbætur og viðhald.

Hér væri um að ræða mjög umfangsmikla breytingu, þar sem samkv. henni félli niður söluskattur m. a. af öllum innréttingum og öðrum hlutum til húsbygginga, sem eingöngu eru unnir á verkstæðum eða í verksmiðjum. Er erfitt að sjá hvar ætti að setja þar mörk og vafaatriði við framkvæmd yrðu því mörg, jafnvel þótt menn vildu höggva svo stórt skarð í söluskattstekjur ríkissjóðs sem af því leiddi. Fjh.- og viðskn. hefur því ekki séð sér fært að mæla með samþykkt þess frv. Hins vegar er í grg. þess sérstaklega bent á þann mismun sem er á greiðslu söluskatts af íbúðarhúsum eftir því hvort þau eru byggð á hefðbundinn hátt eða eru svonefnd einingahús, sem framleidd eru að nokkru eða miklu leyti á verkstæði. Um þennan mismun eru flestir sammála að hann sé bæði ósanngjarn og óheppilegur. En eins og fram kemur í grg. með frv. á þskj. 64 hefur það verið flutt áður, og sennilega eru það að nokkru leyti áhrif frá því, að það mál hefur verið í athugun í fjmrn. hvað þarna er um mikinn mismun að ræða og hvernig væri hægt að jafna hann. Á grundvelli þeirrar athugunar hefur frv. verið samið sem hér er til umr. og fjh.- og viðskn. flutti. Með nál. fjh.- og viðskn. eru prentuð sem fskj. frumdrög að reglugerð, þar sem tekin eru dæmi um tvenns konar byggingarstig verksmiðjuframleiddra húsa.

Í a-lið eru þau hús sem afhent eru tilbúin undir málningu og innréttingar, án allra lagna eða án verulegs hluta þeirra. Sýna niðurstöður á athugunum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins á tilboðum frá húseiningaverksmiðjunum, að eðlilegt er að draga frá 43% af söluverði einingahúsanna áður en söluskattur er reiknaður. Í b-lið eru hús sem skemmra eru á veg komin. Þar væri frádrátturinn 42%. Um nokkurn mismun getur því verið þarna að ræða eftir byggingarstigi húsanna.

Endurbætur hafa orðið á framleiðslu verksmiðjuframleiddra húsa og margir telja sér hagkvæmt að velja þau. Mismunandi söluskattsinnheimta eftir byggingaraðferð er því líkleg til að draga úr hagræðingu við húsbyggingar. Þetta dregur hugann að því, hvort ekki væri á fleiri sviðum hægt að stuðla að aukinni framleiðni atvinnuveganna með breytingum á lögum sem kunna að standa þar í vegi. Sama má einnig segja um reglur og ákvæði á vinnumarkaðnum sem voru eðlileg og sjálfsögð þegar þau voru sett, en kunna nú að vera úrelt við gjörbreyttar aðstæður.

Það er a. m. k. hægt að benda á alkunn dæmi erlendis frá í þessu sambandi. Allir kannast t. d. við baráttu breskra hafnarverkamanna þegar svokallaðir gámar voru teknir til notkunar. Afstaða eins og kom fram hjá þeim er e. t. v. skiljanleg þar sem við atvinnuleysi er að stríða, en um slíkt þarf ekki að ræða hér þar sem of langur vinnutími er talinn vandamál og draga þarf úr nauðsynlegum framkvæmdum vegna of mikillar spennu á vinnumarkaðnum.

Það er a. m. k. íhugunarvert að mínu mati, hvort ekki væri hægt að ná fram aukinni hagræðingu og framleiðni í íslensku atvinnulífi, sem svo mjög er nú talað um, að einhverju leyti með breyt. á lögum og reglugerðum sem allir hafa raunverulega hagnað af og ég tel að sú breyt., sem hér er lögð til, sé eitt dæmi um. — En fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt.