21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3447 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði gert samkomulag við forseta og dómsmrh. um að hann svaraði þeim spurningum og aths. sem ég kom á framfæri síðast þegar þetta mál var til umr. (Forseti: Ég vil taka fram, að að ósk hv. 3. landsk. þm. hafði málinu verið frestað, en forseti getur ekki haft neitt forræði á því hvort ráðh. talar eða ekki. ) Nei, ég hélt að ef ráðh. ætlar ekki að upplýsa þessi atriði — (Dómsmrh.: Má ég óska eftir því að ræðumaður endurtaki þessi atriði.) Það er alveg sjálfsagt að gera það með örfáum orðum.

Ég vakti athygli á því, þegar þetta mál kom úr n., að ég teldi rökstuðninginn fyrir því, að það ætti að fjölga dómurum í Hæstarétti, mjög hæpinn, dómurum hefði verið fjölgað fyrir nokkrum árum um einn, síðan hefði málum í réttinum ekki fjölgað neitt að ráði, fækkað beinlínis allverulega eitt árið. Það séu þess vegna engar líkur á því, ef dæma má af reynslu, að fjölgun um einn dómara hafi nein áhrif í þessum efnum. Hér sé því verið að fara inn á þá braut að hreyfa við lokastigi dómstigsins í landinu, Hæstarétti sjálfum, sem við ættum síðast að hreyfa við, til þess að glíma við þann mikla vanda sem seinagangur dómsmála er í þessu landi.

Ég benti á að samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa fjármálayfirvöld á undanförnum árum hvað eftir annað neitað Hæstarétti um að fá nauðsynlega starfskrafta, aðstoðarfólk með lögfræðimenntun, til þess að aðstoða dómarana við margvíslega upplýsingaöflun, fletta upp í dómabókum og öðru slíku, sem er nánast handavinna og þeir þurfa nú að annast sjálfir. Það væri mjög varhugaverð stefna af fjármálayfirvöldum að reyna að setja réttinum þannig starfsskorður með að mínum dómi óeðlilegri tregðu við að greiða götu réttarins hvað snertir eðlilega þróun starfshátta og grípa svo til þeirra örþrifaráða, þegar allt er komið í óefni að dómi þeirra sem þar starfa, að fjölga bara dómurum í réttinum og breyta að verulegu leyti eðli hans eins og gert er í þessum lögum.

Til viðbótar vakti ég svo athygli á því, að frá gamalli tíð hefur rétturinn starfað með mjög löngu dómhléi, sem er mjög óeðlilegt á okkar tímum, þriggja mánaða dómhléi eða fríi á hverju ári, og það kæmi líka til greina að breyta þeim starfsháttum og taka upp eðlilegan vinnutíma í réttinum líkt og gerist í öðrum opinberum stofnunum. Síðast en ekki síst minnti ég á það, að þegar þetta mál kom fyrst til umr. hefði ég vakið athygli á því, að það væri vænlegri leið til þess að leysa þetta vandamál að koma upp millidómstigi, svokölluðu lögréttudómstigi, sem, ef það væri vel mannað, mundi innan tíðar afla sér slíks álits að það mundi fækka mjög málum til Hæstaréttar, en þá hafði dómsmrh. gefið yfirlýsingu um að það mál væri í undirbúningi, en síðan hefur ekkert af því frést.

Ég vildi, áður en málið heldur lengra, fá upplýsingar frá ráðh. um hvar það mál er á vegi statt. Í öðru lagi, hvort það er rétt og þá hvers vegna fjármálayfirvöld hafa á undanförnum árum, þó að ráðh. beri að vísu ekki neina ábyrgð á því, því að hann er nýkominn í embætti, verið treg til að veita Hæstarétti eðlileg starfsskilyrði með því að ráða aðstoðarfólk og hvort það geti ekki verið tilefni til þess að athuga aðrar leiðir fyrst til þess að ráða bót á seinagangi í dómskerfinu í stað þess að grípa nú í þann endann, sem ég tel að ætti að vera síðastur, ætti í raun og veru að vera lokastig, þegar allt annað hefði verið reynt, að breyta skipan Hæstaréttar sem við þurfum að skapa stöðugleika um í dómskerfi okkar og þjóðfélagskerfi.