21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3451 í B-deild Alþingistíðinda. (2700)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að andmæla því, að fyrrv. hæstv. dómsmrh. hafi verið andsnúinn því að Hæstiréttur fengi eðlilega starfskrafta. Ég orðaði það ekki svo. Fyrrv. hæstv. dómsmrh. hafði efasemdir um að fjölgun lögfróðra manna við Hæstarétt mundi að nokkru ráði flýta meðferð réttarins á málum. Ég skýrði það jafnframt, að efasemdirnar væru byggðar á því að varla mundi styttast sá tími sem nokkru nemur sem dómarar þurfa sjálfir að verja til að kynna sér vandlega öll mál og grundvallaratriði. Ég vil hafa þetta alveg á hreinu. Hins vegar hefur lengi verið leitast við í dómsmrn. að fá meiri starfskrafta þarna, en það hefur staðið á því sama og við allar stofnanir, það er spyrnt gegn því. Því var valið núna að fjölga dómurum fyrst og fremst. En jafnframt skýrði ég frá því, að ég mun leita eftir því í haust að þarna verði ráðnir fleiri starfsmenn. Ég vona að hv. þm. veiti mér ötullega lið í þeirri viðleitni, mig grunar að ekki muni af veita, og væntanlega einnig flokksbróðir hans, hv. formaður fjvn. (Gripið fram í.) Þá heyrum við það. Hins vegar er illt ef sá dómari, sem þarna verður væntanlega ráðinn ef Alþ. fellst á það, þarf að vera að pikka á ritvél.

Svo vil ég minnast á störf dómara fyrir dómsmrh. Það er rétt, að nokkrir dómarar, að vísu ekki allir, hafa verið fengnir til þess að taka þátt í endurskoðun laga. Það hefur vitanlega ráðist af því, að þarna eru menn sem ég hygg að óumdeilanlega búi yfir víðtækastri þekkingu á ýmissi flókinni lagagerð og dómsmrh., ég hygg allri svo langt sem ég hef séð, hafa talið sjálfsagt að leita til þessara manna, þannig að slík lagagerð mætti verða sem best undirbúin fyrir hv. Alþ. að fjalla um. Ég skal fúslega viðurkenna að í vanþekkingu minni, því ég er eins og hv. ræðumaður ekki löglærður maður út af fyrir sig, hef a. m. k. ekki lært lög, hef ég talið ákaflega mikils virði að geta leitað til þessara manna um ýmis viðkvæm mál. Ég hygg hins vegar að þetta hafi ekki dregið úr starfi þeirra að dómsmálum. Ég hef ekki nokkra ástæðu til að ætla slíkt og vil alls ekki taka undir það.

Svo vil ég að lokum segja það, að hv. þm. segir að augljóst sé að ekkert verði gert til að hraða dómsmálum. (ÓRG: Varðandi dómskipun.) Já, dómskipunina. Ég vil hins vegar segja það, að ég hef ekki kosið að vera að bera á torg ýmislegt sem verið er að gera. Þetta eru viðkvæm mál. Ég get t. d. sagt það hér, að í athugun á einkamálum, sem taka að meðaltali 4 ár í kerfinu, sem er náttúrlega óheyrilega langur tími og allir sammála um að verður að stytta, kemur í ljós að það er ekki nema svona um helmingur, þó að það sé nógur tími, sem er hjá dómstólunum. Hitt er í alls konar undirbúningi lögfræðinga sem eru með þessi mál. Svo verður líka að viðurkenna að dómstólar og dómarar eru ákaflega tregir að neita um fresti ef færa má rök að því að sakborningur fái ekki eðlilegar aðstæður til að verja sig. Þarna er náttúrlega átt við, að enginn er sekur fyrr en sektin er sönnuð og allir verða að fá næg tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Þetta eru því ákaflega vandmeðfarin mál.

Ég get jafnframt getið þess, sem ég mun gera miklu ítarlegar í sambandi við skýrslu um dómsmál, sem liggur fyrir Alþ., að við upplýsingasöfnun s. l. haust óskaði ég eftir tillögum frá öllum dómurum, sem til var leitað, um nýskipun í dómkerfinu sem gæti orðið til að hraða meðferð mála. Þarna komu fram margar athyglisverðar hugmyndir sem allar eru skoðaðar. Hins vegar kemur einmitt mjög ríkulega fram hjá dómurum að ekki megi þarna rasa um ráð fram. Ég hef því talið að ítarlegur undirbúningur á þessu viðkvæma sviði sé nauðsynlegur.

Ég hef áður lýst lögréttumálinu. Ég veit að hv. þm. getur flett upp í þskj. og lesið þar um mjög miklar efasemdir sem komu fram á s. l. ári um það mál, bæði um kostnað og einnig um hluti eins og hæstv. forseti þessara d. nefndi, að þarna væri ekki gætt byggðasjónarmiða t. d. og þess háttar, þ. e. a. s. málin væru færð úr byggðunum til Reykjavíkur eða a. m. k. miðstöðva sem var gert ráð fyrir að yrðu tvær á landinu. Ég hef talið skylt að skoða öll slík ummæli og aths. sem fram hafa komið. En ég endurtek það, að ef ég verð í þessu starfi verður lögréttumálið annaðhvort lagt fram næstkomandi haust eða aðrar hugmyndir um að flýta meðferð dómsmála.