21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum rifja það upp, af því að það er langt um liðið síðan þessi umr. hófst, að allir umsagnaraðilar, nokkuð margir, sem allshn. leitaði til, mæltu eindregið með samþykkt þessa frv. Það er talið að fjölgun dómara nú gefi miklu meiri möguleika til þess að nýta þriggja dómara kerfið en áður. Það, sem er aðalatriði hér og nú, er að reyna að greiða úr þeim hnút sem orðið hefur í Hæstarétti, þ. e. a. s. flýta fyrir afgreiðslu mála sem þar hafa safnast fyrir. Málafjöldinn hefur að vísu ekki aukist mikið á síðustu árum, en það hefur sýnt sig að umfang mála á þessu sviði eins og öllum öðrum sviðum þjóðfélagsins hefur vaxið gífurlega mikið og má ætla að það valdi fyrst og fremst þessari löngu töf.

Ég vil líka árétta það sem ég sagði áður í umr. um fjárveitingar til Hæstaréttar, að þetta er náttúrlega ekkert sérstakt varðandi Hæstarétt. Þetta er hluti hinnar eilífu baráttu um að reyna að standa gegn útþenslu kerfisins sem oft er talað um, en ég álit að stundum sé sótt meira af kappi en forsjá á báðar hliðar — líka af hálfu fjárveitingarvaldsins og þá okkar þm. Stundum kynni að vera hægt með ódýrasta starfsliði að hagræða og jafnvel í raun að spara. Ég vil líka árétta það, að komið hefur fram og m. a. í viðræðum við ráðuneytisstjóra dómsmrn., að þó að breytingar verði gerðar á lægri dómstigum með breyttri löggjöf og breyttum starfsháttum er ekki gert ráð fyrir að það dragi verulega úr verkefnum Hæstaréttar. Þetta ræddum við sérstaklega að frumkvæði hv. 3. landsk. þm. við ráðuneytisstjórann í dómsmrn. á fundi í allshn., og það var hans álit, og það var auðheyrt að það hafði verið rætt á þeim slóðum, að þetta mundi ekki skipta sköpum.

Hv. 3. landsk. þm. talar um að það eigi ekki að vera að krukka í löggjöf um Hæstarétt hvað eftir annað. En ég tel að það sé alls ekki verið að því. Og það var einnig skoðun þeirra nm. sem afgreiddu nál. Á allmörgum áratugum hefur aðeins einu sinni verið fjölgað dómurum þar til nú. Þetta er náttúrlega ekki að krukka í þriggja dómara kerfið, það hefur þegar verið prófað. Það er ekki verið að taka upp nýja tilhögun. Og það er till. allra umsagnaraðila um þetta, eins og ég sagði áðan, að reyna þetta, og hún er auðvitað byggð á þeirri reynslu sem fengist hefur af þessu formi, þetta hefur þótt gefast vel.

Ég vil árétta það að lokum, að auðvitað er aðalatriði í þessu máli að unnt sé að flýta fyrir afgreiðslu mála í Hæstarétti, og þetta er sú leið sem að dómi þeirra fjölmörgu aðila, sem ég hef vitnað til, er talin líklegust til þess.