21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

169. mál, áfengislög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hv. flm. frv. þessa segja það vera tilgang sinn að bæta veitingahúsamenninguna og danshúsamenninguna í landinu. Ég verð að taka undir það, að það er mjög góður tilgangur að gera slíkt og ástæða til að fagna hverri þeirri viðleitni sem sýnd er í þá átt. En ég hlýt jafnframt að segja það, að mér líst ekki sem best á efni þessa frv. Ég hef enga trú á því að samþykkt þess boði nýja og betri tíma 1 dans- og veitingahúsamenningu Íslendinga. Flm. tala um ómenningu í þessu sambandi og leggja á það nokkra áherslu í grg. fyrir frv. Þeir telja að það gæti ómenningar í sambandi við starfsemi dansstaða og veitingahúsa, og ég er því sammála. Ég er sammála þeim um að bæta beri úr því ómenningarástandi.

Hv, flm. koma mjög víða við þegar þeir ræða þetta mál, einkum í grg. Þeir benda á margt sem aflaga fer í þessum efnum, og þeir koma með till. sem þeir telja vera til úrbóta.

Ein meginröksemd hv. flm. er sú að kenna lögum og reglugerðum um ástandið. Þeir segja að hömlur af hálfu löggjafans hafi valdið ómenningunni í dans- og veitingahúsastarfseminni. Þess vegna er það megintillaga þeirra að losa um lagahömlur á veitingastarfsemi og rekstri dansstaða. Þannig ætla þeir að stuðla að bættri samkomumenningu í landinu. En ég verð að segja eins og mér finnst, að þessar röksemdir hv. flm. eru fjarri því að vera óyggjandi. Þær þarf að athuga miklu nánar. Og margt af því, sem þeir kalla rök, eru aðeins hæpnar fullyrðingar sem ekki munu standast ef betur er að gætt.

Það má segja að gallinn við þetta mál sé m. a. sá, hversu það er mjög hroðvirknislega unnið. En grg., sem fyrir þessu frv. er, ef menn lesa hana, er einmitt mjög ljóst dæmi um það atriði. Grg. er ákaflega einhæf og ófullnægjandi og gefur ekki rétta mynd af því máli sem um er fjallað. Á því eru miklu fleiri hliðar en fram kemur hjá flm. Það er næsta auðvelt að skoða þetta mál í allt öðru ljósi en þeir gera.

Flm. gera mikið úr þeim hömlum sem eru á veitingahúsarekstri og rekstri danshúsa. Þeir nota orðið hömlur, sem er mjög neikvætt orðalag, í þessu sambandi. Greinilega er þetta orð notað til þess að gera sem allra mest úr frelsisskerðingu þeirra reglna sem um þessi mál gilda.

Það er sagt fullum fetum, að þessar reglur séu úreltar og stuðli að ómenningu, og maður finnur þann undirtón í máli flm. að reglur þessar eigi sér naumast fordæmi í öðrum löndum. A. m. k, veit ég fyrir víst að ýmsir skilja mál flm. þannig, að íslenskar reglur um opnun og lokun dansstaða og starfstíma veitingahúsa séu afturhaldssamar og forpokaðar og í engu samræmi við það sem gerist erlendis. Ég fullyrði gagnstætt fullyrðingum flm., að reglur um opnun og lokun veitingahúsa og dansstaða hér á landi eru ekki óeðlilegar né í ósamræmi við það sem yfirleitt gerist með öðrum þjóðum austan hafs og vestan. Þvert á móti, það þykir ekki sjálfsagt, jafnvel ekki í milljónaborgum, að menn geti farið út að borða, t. d. á venjulegu veitingahúsi, um miðjar nætur. Alls staðar í heiminum eru hömlur á slíkri starfsemi, m. a. af hálfu hins opinbera, og eins stríðir það gegn smekk og daglegum lífsháttum fólks að vera með þess háttar næturgöltur. Venjulegt fólk, sem fer út að borða eða dansa, gerir það snemma kvölds og er komið heim fyrir miðnætti.

Hitt er annað mál, að svokallað næturlíf blómgast í stórborgum. En þá erum við komnir inn á nýtt svið. Ég efast um að menn hér í Reykjavík, hvað þá annars staðar á landinu, geti farið að keppa við milljónaborgir í ástundun næturlífs með þeirri fjölbreytni sem er í boði þar sem fjöldinn er mikill og ferðamannastraumur linnulaus. Ef það er eitthvað sem þessar opnunar- og lokunarreglur dansstaða á veitingahúsum gera, þá setja þær hömlur við næturlífi með stórborgarsniði. Þær setja skorður við því að hér starfi næturklúbbar eða næturskemmtistaðir eins og finna má í stórborgum erlendis. Strangleiki reglnanna er í þessu fólginn og varla öðru.

Þó er það svo að ýmsir útlendingar, sem kynnast danshúsamenningu á Íslandi, líta á danshúsin hér sem næturklúbba — og af hverju? Af því að þessir dansstaðir eru opnir fram yfir miðnætti, ýmist til kl. 1 eða 2. Munu ýmsir næturklúbbar erlendis ekki hafa opið miklu lengur á nóttunni, þó að aðrir hafi opið fram á bjartan dag, eins og alkunna er. Það er því skoðun mín að núgildandi reglur um opnun og lokun danshúsa og veitingastaða séu ekki úreltar og þær eigi sér eðlileg rök og eðlilegar ástæður. Þessar reglur eru alls ekkert frábrugðnar því sem gerist erlendis, heldur nauðalíkar. Ef nokkuð er eru opinberar reglur um starfstíma danshúsa frjálslegri hér en gerist víða annars staðar.

Sannleikurinn er sá, að danshús á Íslandi, t. d. í Reykjavík og á Akureyri, eru að hálfu leyti næturklúbbar. Ég fæ ekki séð að í þessum efnum ríki forpokun eða afturhaldssemi. En ef við viljum taka upp fullkomið næturlíf eins og það gerist í París, London og fleiri stórborgum heimsins, þá skulum við hugsa fyrir því sem alveg sérstöku verkefni sem verður að leysa í samræmi við eðli og tilgang málsins. Í því sambandi er þó skynsamlegt að spyrja ýmissa spurninga. Ekki síst er ástæða til að spyrja um það, hvert eigi að vera markmið og hvaða kröfum sé verið að þjóna með því að koma upp næturklúbbum og næturlífi og þar með hversu víðtækt það eigi að vera og hversu fjölþætt. En fyrst og fremst ættu menn að spyrja sig þeirrar spurningar, hver sé raunveruleg þörf fyrir næturklúbba og fjölþætt næturlíf í Reykjavík. Er ekki hugsanlegt að það sé gott að vera laus við þessa tegund stórborgarmenningar, og er ekki líklegt að innreið frekari næturmenningar í bæjarkríli á borð við Reykjavík verði þar eins og hver annar ljótur og leiðinlegur aðskotahlutur? Og má ég spyrja: Liggur fyrir einhver almenn krafa frá Reykvíkingum og öðrum landsmönnum um að breyta reglum um opnun og lokun danshúsa og veitingastaða? Mér er ókunnugt um að almenn rök eða krafa um slíkt liggi fyrir. Ég fullyrði hins vegar, og ég held að á því sé enginn vafi, að yfirgnæfandi meiri hluti Reykvíkinga og landsmanna yfirleitt er ekki þeirrar skoðunar að reglur um opnun og lokun danshúsa og veitingastaða sé ástæðan fyrir villimannlegum drykkjuskap margra Íslendinga og ógnvekjandi hegðun landans þegar hann er á fylliríi, en það er sannast mála að drykkjusiðir og hegðun drukkinna Íslendinga er skelfileg, svo að menn, sem þessu eru óvanir, verða beinlínis skelfingu lostnir þegar þeir horfa á það.

Það er tómur fyrirsláttur að halda því fram, að drykkjuómenning Íslendinga stafi af hamlandi reglum í áfengislögum og lögreglusamþykktum. Það er bábilja að halda því fram, að hér á landi séu ákaflega strangar reglur um sölu og veitingar áfengis. A. m. k, er ekki ástæða til að tala um slíkt hvað Reykjavík snertir. Ég veit ekki betur en áfengi sé verslunarvara sem hver fullveðja maður getur keypt hindrunarlaust í áfengisútsölum og eins mikið af því og hann er borgunarmaður fyrir og í ýmsum tilvikum langt fram yfir það.

Og hvað um áfengisveitingar á opinberum veitingastöðum? Í Reykjavík eru 13 veitingahús sem selja áfengi í veitingastöðum eða vínstúkum, þar sem menn geta setið klukkutímum saman og drukkið allt það áfengi sem þeir geta í sig látið. Ég hygg að í mörgum veitingahúsum séu barir opnir alla daga, nema miðvikudaga, samtals 7 tíma á dag, frá 11.30–2.30 miðjan daginn og síðan frá kl. 19–23.30 á kvöldin og reyndar lengur um helgar. Ég get ekkí betur séð en þetta sé alveg forsvaranleg þjónusta við frelsið og sérkröfur margra um að geta stundað drykkjuskap í fallegu húsnæði, en manni skilst að það sé mjög mikilvægt fyrir drykkjumenninguna að umhverfið sé í samræmi við menningarviðleitnina, og skal ég ekkert úr því draga.

Í þessu sambandi væri ástæða til að athuga nánar um fjölda dansstaða og veitingahúsa í borginni. Eins og ég sagði áðan eru 13 föst vínveitingahús í Reykjavík með veitingasölum, mörg hver með mörgum veitingasölum, danssölum og vínstúkum og í sumum þeirra mörgum börum. Vínstúkurnar eru að vísu mismunandi stórar. Sumar þeirra rúma fremur fáa gesti, en aðrar marga tugi, ef ekki hundruð manna. Þessi 13 vínveitingahús, sem ég nefndi, rúma samtals yfir 8600 manns. Í þessum húsum geta sem sé yfir 8600 manns verið í einu að borða, dansa og drekka. Auk þess eru í Reykjavík ýmsir samkomustaðir, litlir salir og félagsheimili, þar sem er rúm fyrir 5222 gesti. Það vantar því ekki mikið upp á að um 14000 manns geti verið á balli í einu í Reykjavík.

Flm. þessa frv. tala mikið um biðraðirnar sem sjá má við danshúsin rétt fyrir kl. 11.30, a. m. k. á föstudags- og laugardagskvöldum, og það á að vera röksemd fyrir því að halda húsunum opnum lengur fram eftir. Ég skal ekki neita því að sjá megi slíkar biðraðir. Þó ætla ég að leyfa mér að draga í efa að þær séu eins miklar og almennar og hv. flm. halda fram. Ég hef leitað mér upplýsinga hjá mönnum, þ. á m. veitingamönnum, sem fylgjast með þessum málum. Þá kemur í ljós að þetta biðraðavandamál hefur stórlega minnkað á síðari árum. Það var fyrir hendi fyrir nokkrum árum, eða a. m. k. var það miklu verra áður. En hvað sem því líður tel ég það ranga kenningu að bregðast við biðraðavandamálinu á þann hátt sem flm. leggja til, þ. e. að hafa opnunar- og lokunartíma danshúsa frjálsan, sem þýðir í reynd að draga dansleikina lengra og lengra fram á nætur. Ég fullyrði að slík stefna yrði ekki til að efla íslenska menningu, íslenska vínmenningu og íslenskt skemmtanalíf sérstaklega. Þvert á móti mundi slík stefna hafa í för með sér nýjan vanda, en væri mjög óæskileg frá menningar- og félagslegu sjónarmiði, reyndar frá almennu þjóðfélagslegu sjónarnúði séð.

Það er alger misskilningur að slíkt frjálsræði yrði til þess að bæta drykkjumenninguna í landinu, — öðru nær, það yrði til þess að stórauka drykkjuskap og magna nætursvall í borginni. Ég held að það sé ekki á slíkt bætandi. Íslendingar eiga við mikið áfengisvandamál að stríða, eins og hv. 1. flm. þessa máls gat um áðan, og þetta vandamál birtist í ótal myndum. Ég ætla ekki að gera því náin skil hver þessi vandi sé. Algengast er nú á tímum að ræða um áfengisvandamálið sem heilbrigðis- og heilsufarslegt vandamál og sem fjölskyldu- og félagslegt vandamál. Síst vil ég gera lítið úr þessum vandamálum. Ég er þeim vel kunnugur og met mikils þá viðleitni sem nú er víða að finna til þess að bæta úr slíku áfengisböli, þ. e. a. s. böli drykkjusjúkra manna, sem kemur ekki aðeins niður á þeim sjálfum, heldur einnig vandamönnum þeirra, svo sem mökum og börnum eða foreldrum og öðrum nánum ættingjum.

Ég ætla að leyfa mér að benda á annað vandamál sem fylgir áfengisneyslu á Íslandi, en það er áberandi misnotkun áfengis í sambandi við skemmtanalífið og samkomur yfirleitt ef þar er víndropa að fá. Ofdrykkja á danssamkomum er landlægur ósiður hér og þaulseta við brennivínsdrykkju nánast þjóðareinkenni. Þetta setur svip sinn á samkomuhald og dansleiki og er réttnefnt vandamál. Ég er fráleitt þeirrar skoðunar, að ástæðan fyrir þessu vandamáli sé sú að hér séu miklar opinberar hömlur á vínveitingum og áfengissölu. Þess vegna tek ég ekki undir þá skoðun að frjálslegri reglur um veitingastaði og danssamkomur leysi þennan vanda. Þetta vandamál liggur miklu dýpra en svo, að lög og reglugerðir ráði við það, næstum að segja á hvorn veginn sem þeim er beitt, hvort heldur það er í aðhalsátt eða í frjálsræðisátt. Við erum e. t. v. að berjast við skapgerðarvandamál heillar þjóðar, e. t. v. uppeldisvandamál að einhverju leyti. Kannske eigum við í stríði við smekk fólksins gagnvart menningarlegri hegðun almennt. Sem sagt, ég er þeirrar skoðunar að meðferð Íslendinga á áfengi og umgengni Íslendinga í sambandi við áfengi sé einhvers konar sambland af uppeldiságöllum og skapgerðarveilum þjóðarinnar. Lög og reglugerðir leysa ekki slíkan vanda.

Þegar menn fara fram á það t. d., eins og gert er í þessu frv., að breyta reglum um lokun veitingahúsa, gera þær frjálslegri eins og sagt er, má vel halda því fram að verið sé að þjóna þeim eina tilgangi að opna mönnum leið til þess að þreyta brennivínsdrykkju á opinberum stöðum sem allra lengst fram eftir nóttu. Ég spyr: Er slíkt þjóðfélagslega æskilegt? Og ég spyr líka: Er uppi almenn krafa frá Reykvíkingum og öðrum Íslendingum um að gera þeim mögulegar sem lengstar drykkjur á veitinga- og danshúsum? Ég held að slík almenn krafa sé ekki fyrir hendi þrátt fyrir allt. Ég held að flest fólk átti sig á því, að slík krafa er dæmalaust heimskuleg og á engan rétt á sér þegar til kastanna kemur. Það getur verið notalegt að þjóna lund sinni og Íslendingseðli með því að koma seint á ball, helst ekki fyrr en um miðnætti, og hefja þá duglegan drykkjuskap sem gæti staðið fram undir morgun. En þó að slíkt sé þjóðlegt og ánægjulegt í svipinn munu flestir viðurkenna að afþreying af þessu tagi sé skyldari villimennsku en þroskaðri siðmenningu.

Ég átta mig ekki á því, hvaðan flm. er komin hugmyndin og baráttugleðin fyrir auknu nætursvalli á Íslandi. Hverjir hafa hagsmuni af því að svo verði? Sannleikurinn er sá, að það er enginn skortur á veitinga- og danssölum á Íslandi, síst í Reykjavík. Reglur um starfstíma slíkra húsa eru engan veginn óeðlilegar né ólíkar því sem gerist í öðrum löndum. Áfengi er ekki bannvara á Íslandi, þótt um sölu þess og veitingar gildi vissar reglur. Þessar reglur eru ekki strangari en svo, að auðvelt er hverjum manni að laga sig að þeim, ef hann vill, og teljast þó frjáls maður eftir sem áður.

Sú viðbára kemur oft fram, þegar rætt er um þessi mál, og hún kemur einmitt fram hjá hv. flm. þessa frv., að nauðsynlegt sé að lengja nætursvall í veitingahúsum og dansstöðum til þess að koma í veg fyrir drykkju- og næturpartí í heimahúsum. Þetta kann að vera frómur tilgangur. En ósköp eru rök þeirra innantóm þegar betur er að gætt. Þau eru spegilmynd af því sem ég var að nefna áðan varðandi þá ónáttúru Íslendinga að þreyta brennivínsdrykkju og röfla tóma vitleysu heilar nætur og fram á rauðamorgun. Og hvað þarf mikið frjálsræði til þess að koma í veg fyrir næturpartí í heimahúsum? Hvað halda flm. að mundi nægja varðandi lokunartíma dansstaðanna til þess að stöðva næturpartí í Reykjavík og annars staðar? Ætli það sé ekki staðreyndin, að næturpartíin hafi eigið aðdráttarafl og menn vilji alls ekki missa þau úr skemmtanalífinu. Ég held að það yrði að hafa ansi lengi opið á Óðali, Þórscafé og öðrum slíkum stöðum ef það ætti að verða til þess að uppræta næturpartí eða aðrar langdregnar veislur í heimahúsum. Auk þess liggur ekkert fyrir um það, hversu mikið og alvarlegt vandamál er fólgið í þess háttar afþreyingu. Og er ekki eins gott að fólk stundi fyllirísröfl og dragi sig saman í heimahúsum eins og á rándýrum veitingastöðum?

Reyndar er aldrei minnst á einn þátt þessa máls, nefnilega fjármálahliðina á nætursvallinu. Hvað mun það kosta að reka dansstaðina sem næturklúbba, og hvert verður verðlagið á þjónustunni? Er eitthvert vit í þessu frá rekstrarlegu og fjárhagslegu sjónarmiði? Það er alveg augljóst mál, að t. d, starfsfólk veitingahúsa mun ekki láta bjóða sér aukið vinnuálag án þess að krefjast sérstakra launa fyrir. Og þá er hætt við að sjússinn verði orðinn nokkuð dýr um það er lýkur. Segja mætti mér að margur kysi heldur að róla heim í næturpartí en láta féfletta sig í morgunsárið á opinberum veitingastað. Og hvað hefur þá unnist?

Eitt er það í máli flm. sem ástæða er til að gefa gaum sem jákvæðu framlagi í þessum umr., og það er sá vandi sem oft á sér stað við að útvega dansgestum leigubíla á nóttunni. Það hljóta allir að verða sammála um að rétt sé að athuga hvernig úr þessu verði bætt á raunhæfan og skynsamlegan hátt. Reyndar er það ekkert sérvandamál Reykvíkinga að finna leigubíla á nóttunni. Það held ég að sé algengt vandamál í flestum borgum heims. Ég held að það væri skynsamlegt að lögregluyfirvöld með atbeina ríkisstj., t. d. samgrh. og dómsmrh., hefðu forgöngu um viðræður við samtök leigubílstjóra um þetta mál. Ég hef trú á því að hægt sé að finna lausn á þessu vandamáli ef rétt er á haldið. Lögreglan hefur áhyggjur af þessu, og vil ég ekki gera lítið úr því, en mér finnst þetta einnig vera mál sem snertir leigubílstjórastéttina sjálfa. Það verður ekki leyst svo að vel sé nema í samráði við hana. E. t. v. mætti einnig huga að því, hvort sérstök strætisvagnaþjónusta gæti bætt eitthvað úr þessu vandamáli, a. m. k. að einhverju leyti, en ég sé enga ástæðu til að gera úr þessu óleysanlegt eða yfirþyrmandi vandamál.

Já, það er býsna margt sem hv. flm. ætla að gera til úrbóta á samkvæmismenningu Íslendinga. Eitt er það að auka fjölbreytni í veitingahúsarekstri hér á landi, auðvelda fólki að opna litla matsölustaði þar sem veitt yrði vín með mat ef svo þætti henta. Það mál vilja flm. m. a. leysa með því að gera minni kröfur um menntun og starfsþjálfun starfsliðs og um búnað í eldhúsi og veitingasölum. Ég get fallist á það með hv. flm., að margt mætti betur fara í veitingahúsarekstri hér á landi, t. d. í Reykjavík. Og ég hef samúð með þeirri hugmynd að rekin væru góð matsöluhús með minni íburði og tilkostnaði en tíðkast í sambandi við slíka staði nú. Mætti hugsa sér að slíkir staðir væru einhvers konar millistig á milli Hressingarskálans og Hótel Borgar, svo að ég nefni staði í miðborg Reykjavíkur til viðmiðunar. Annars er mér ókunnugt um rekstrargrundvöll slíkra staða og raunverulega eftirspurn eftir slíkum stöðum. Ég óttast líka að það þurfi að vera vel á verði fyrir því að slíkir staðir verði ekki drykkjuómenningunni að bráð. Þó veit ég ekki hvort það er ráð í sambandi við rekstur slíkra staða að fúska við matartilbúning og framreiðslu. Ég held að rétt sé að athuga hvort eitthvað vinnst við það. Matargerð er mjög vandasöm iðngrein. Hins vegar er auðvelt að koma þar við alls konar fúski. Hugmyndum um íburðarminni veitingahús vil ég þó alls ekki hafna, en mér finnst það vera veitingamanna sjálfra að sýna fram á það í verki hvernig slík hugmynd getur orðið að veruleika.

Eitt er það sem augljóslega vantar í samkvæmis- og veitingahúsamenningu okkar, en það eru góð kaffihús, eða öllu fremur virðist vanta áhuga hjá almenningi á kaffihúsamenningu. Íslendingar sýna sáralítinn áhuga á kaffihúsum, þannig að ekki er grundvöllur fyrir eiginlegum kaffihúsarekstri. Ég fæ ekki betur séð en mikil breyting hafi orðið á í þessum efnum frá því sem var fyrir 20–30 árum og ég ætla að leyfa mér að halda því fram, að veitingahúsamenningin hafi ekki batnað frá því sem var á þeim árum. Þessi breyting hefur gengið í átt til síaukinnar áfengisneyslu og langdregins nætursvalls frá því að vera sæmilega fáguð kaffihúsamenning. Það er svo komið, að Íslendingar koma helst ekki saman upp á annað en drekka sig fulla og láta æra sig með rafmagnstólum. Það er út af fyrir sig ekki banvænt að lenda í slíku svo sem einu sinni á ári, en meira má það varla vera ef menn ætla að halda sönsum.

Ég held að það sé fullkomlega tímabært að fara að líta með gagnrýnisaugum á samkomu- og veitingahúsamenningu Íslendinga. Það væri verðugt verkefni fyrir félagsfræðinga að gefa því máli gaum, og mér sýnist að ástandið í þessum þætti þjóðmenningarinnar gæti verið eðlilegt tilefni til ráðstefnuhalds eins og nú er talsvert tíðkað um ýmiss konar málefni.

Herra forseti. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta mál og læt máli mínu lokið.