21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Frv. þetta, sem er stjfrv., er flutt í samræmi við fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum varðandi umbætur í félags- og réttindamálum samfara setningu laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu frá því 30. nóv. s. l. Þetta frv. er veigamest þeirra mála sem eru í hinum margnefnda félagsmálapakka er bæti átti þá skerðingu á verðbótum á vinnulaun sem kom til framkvæmda 1. des. s. l. Frv. snertir einkum hag þeirra sem lægst hafa launin og jafnframt fátæklegustu réttindin. Félmn. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., 5 nm., leggur til á þskj. 433 að frv. verði samþykkt óbreytt, en 2 nm., Gunnar Thoroddsen og Eggert Haukdal, skila séráliti.

Þetta frv. felur í sér breytingar á lögum um sama efni nr. 16 frá 1958. Helstu breytingar frá gildandi lögum varða aukinn uppsagnarfrest og einnig auknar greiðslur í veikinda- og slysaforföllum.

Varðandi uppsagnarfrestinn felst í 1. gr. frv. sú breyting, að eftir eins árs starf í sömu starfsgrein er eftir sem áður jafnlangur uppsagnarfrestur, en í gildandi lögum er svo kveðið á að unnið skuli vera hjá sama atvinnurekanda, en nú er um að ræða að ef menn hafi verið í sömu starfsgrein í eitt ár, þá eiga þeir þennan rétt þótt þeir hafi unnið hjá fleiri en einum atvinnurekanda. Hér er um að ræða samræmingu á öðrum hlunnindaákvæðum sem komin eru inn í samninga, sem ekki eru bundin við að maðurinn hafi verið hjá einum og sama atvinnurekandanum, heldur í sömu starfsgreininni. Þetta á við um nokkur ákvæði í samningum og varðar t. d. starfsgreinar eins og fiskvinnsluna, fiskiðjuna, byggingarvinnu o. fl., þar sem menn mjög gjarnan flytjast — og af eðlilegum ástæðum — á milli atvinnurekenda. Þetta virðist vera sjálfsögð og eðlileg meðferð málsins.

Aðrar breytingar á uppsagnarákvæðum eru þær, að nú er því bætt við, að þegar maður hefur verið í 3 ár hjá sama atvinnurekanda þá gildir ekki starfsgreinin, heldur skal hann hafa unnið hjá sama atvinnurekanda, og þá er uppsagnarfrestur 2 mánuðir, og eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 3 mánuðir. Þetta er nokkuð til samræmis við það sem gerist mjög víða og er vel þekkt í atvinnulífinu hjá okkur, en það er sem sagt verið að færa almennt verkafólk nær þeim réttindum sem fjöldi annarra í þjóðfélaginu nýtur í dag. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur. Það er eins þó að launþeginn vilji skipta um, þá verður hann einnig að nota þennan uppsagnarfrest, vera bundinn þessum uppsagnarfresti nema samkomulag sé um annað, sem er nú vel þekkt.

Hin meginbreytingin og sú sem er veigamesta breytingin frá gildandi lögum varðar greiðslu í sjúkdóms- og slysaforföllum. Þar er það ákvæði tekið upp í fyrsta lagi í 4. gr. frv. og er nýmæli, að ef um er að ræða fjarvistir vegna slysa við vinnuna eða vegna atvinnusjúkdóma, sem stafa af atvinnunni, skal dagvinnukaup greitt í 3 mánuði án tillits til þess hve lengi maðurinn hefur unnið. Þetta er nú í samningum einn mánuður, en hefur ekki verið ákvæði í lögum áður.

Í 5. gr. er svo breyting gerð til viðbótar. Þegar unnið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár eiga menn rétt til eins mánaðar launa, eða fjögurra vikna launa, ef þeir forfallast. Að vísu er í eldri lögum aðeins hálfur mánuður, en samningar eru búnir að vera um í mörg ár að það skuli vera einn mánuður eða 28 virkir dagar. Þetta er sem sagt óbreytt frá því sem nú er, en til viðbótar er svo í 5, gr. að menn skuli halda dagvinnukaupi — ég undirstrika: dagvinnukaupi í einn mánuð eftir þriggja ára starfstíma og dagvinnukaupi í tvo mánuði eftir fimm ára starfstíma hjá sama atvinnurekenda til viðbótar þeim réttindum sem nú eru í lögum.

Í 6. gr., sem er að vísu nýmæli einnig, er kveðið svo á að á fyrsta starfsárinu skuli menn eiga rétt til tveggja daga fyrir hvern unninn mánuð, auk þeirra réttinda sem til geta fallið samkv. 4. gr. frv., ef um slys eða atvinnusjúkdóma er að ræða.

Þetta eru höfuðbreytingarnar sem felast í frv. þessu frá þeim reglum sem nú eru gildandi. Það er fyrst og fremst fjölgun veikindadaganna sem hér er stóra atriðið, greiðslur vegna fjarvista vegna veikinda eða slysa eru aðalatriði þessa frv.

N. sendi frv. til umsagnar og var það sent þrem aðilum, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Svör bárust frá öllum þessum aðilum. Alþýðusambandið tók jákvætt undir frv. og mætti eindregið með samþykkt þess, en í umsögn samtaka atvinnurekendanna komu fram ýmsar aths. Ég ætla stuttlega að rekja helstu aths. sem komu fram hjá samtökum vinnuveitenda.

Það er þá í fyrsta lagi að þeir telja og leggja áherslu á að málum eins og þessum, sem séu vandmeðfarin og viðkvæm, eigi að ráða með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og leggja áherslu á að þeir hafi við meðferð frv. þessa á undirbúningsstigi óskað eftir nefndarskipun af hálfu samtaka launþega og atvinnurekenda með fulltrúa ríkisins til þess að freista þess að ná samkomulagi um frv. Samráð var haft hvort tveggja við atvinnurekendur á frumstigi þessa máls og einnig við launþegasamtökin, eins og hæstv. félmrh. rakti ítarlega í framsöguræðu sinni.

Ég vil aðeins segja það, að það væri mjög gott ef hægt væri að hafa þann eðlilega hátt á að þessum málum væri skipað með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins. Ég rakti það mál nokkuð við 1. umr. þessa frv. og ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá, en ég tel hins vegar mjög eðlilegt að slíkum málum, sem eru í raun og veru lágmarksmannréttindi launafólks í þessum efnum, sé skipað með löggjöf. Það væri út af fyrir sig ákaflega gott ef um þau væri samstaða milli aðila vinnumarkaðarins, en því miður hefur ekki reynst í gegnum árin möguleiki að fá samstöðu um þessi mál allt frá því að lögin frá 1958 voru sett. Þá var þrautreynt að um þau fengist samkomulag, en það var ekki fyrir hendi og það hefur því miður ekki verið fyrir hendi heldur síðan.

Í öðru lagi leggja vinnuveitendur þunga áherslu á að hin svokallaða staðgengisregla falli út. Ég rakti hér nokkuð við 1. umr., og einnig hæstv. félmrh., í hverju hún er fólgin. Í lögunum segir að launþegar skuli halda óskertum launum þann tíma sem ákveðinn er í lögum, í hverju sem þau eru greidd. Með dómum hefur það síðan verið staðfest að menn halda þeim launum, sem þeir annars hefðu haft ef þeir hefðu ekki forfallast frá vinnu.

Um þetta efni hefur verið sífelldur ágreiningur og ég er engan veginn að halda því fram, og hef aldrei gert, að þetta sé gallalaus regla, en samkomulag hefur ekki tekist og dómar hafa orðið að ganga. Þetta er niðurstaða dómstólanna og eftir því hefur verið farið. Ég vil undirstrika að í 5. gr., þ. e. a. s. um réttindi eftir eitt starfsár, er engin breyting frá þeim reglum, sem nú gilda, það er algerlega óbreytt.

Ég vil í þessu efni undirstrika það sem hæstv. félmrh. tók fram við 1. umr. um frv., að hér er um að ræða endurgreiðslu fyrir verulega eftirgjöf á kaupi og áreiðanlega — og það var fram tekið af hæstv. félmrh. — hafði ríkisstj. ekki hugsað sér að greiða þetta gjald með því að skerða þann rétt sem nú er fyrir hendi í lögum.

Í þriðja lagi fólst í aths. atvinnurekenda það, að fjölgun á þeim dögum, sem greiddir eru í slysa- og veikindaforföllum, er ekki bundin við ákveðinn dagafjölda á hverju ári eða hverjum 12 mánuðum, eins og gjarnan þekkist og er kannske höfuðreglan. Þetta telja þeir mjög erfitt viðureignar og þessi endurtekningarregla, sem vissulega gæti komið til álita, gæti skapað þeim nokkurn vanda. Ég vil hins vegar undirstrika, að hér er ekki um að ræða staðgengisregluna, heldur einvörðungu greiðslu fyrir tapaða dagvinnu í hverju veikindatilfelli og því aðeins að ekki sé um sama sjúkdóm að ræða.

Aðalatriðið í gagnrýni atvinnurekendanna í þessu efni er það, að með þessari hugsanlegu endurtekningarreglu sé erfitt fyrir atvinnufyrirtækin að tryggja sig fyrir þessum útgjöldum. Það má vera að nokkuð sé til í því. Þó hygg ég að flestir atvinnurekendur ættu að hafa í fórum sínum hvaða útgjöld hér er um að ræða. Ég held að það séu lélegar tölfræðilegar upplýsingar í fyrirtækjunum, ef upplýsingar um fjarvistir vegna sjúkdóma og slysa eru ekki nokkurn veginn þar fyrir hendi. Það má vel vera að slíkt sé eitthvað mismunandi frá einu fyrirtæki til annars eftir eðli starfanna, en alla vega ætti hér ekki að vera neinn óyfirstíganlegur vandi varðandi það að endurtryggja slík útgjöld.

Í fjórða lagi segja atvinnurekendur, að um sé að ræða þyngri greiðslur á atvinnurekendur hér en t. d. gerist á hinum Norðurlöndunum. Það mun rétt vera, að hér greiði atvinnurekendur stærri hluta slíkra greiðslna en þekkt er á Norðurlöndunum, vegna þess að þar er stærri hluti af slíkum forfallagreiðslum greiddur af opinberum tryggingum, almannatryggingum eða öðrum tryggingum sem aðilar hafa komið sér saman um að annist slíkar greiðslur. Ég fyrir mitt leyti teldi mun æskilegra að þessi háttur væri hér á hafður. En vitaskuld yrðu atvinnurekendur þá að standa undir þeim tryggingum, þó þær væru inni í almannatryggingakerfi eða öðru slíku, á sama hátt og þeir gera á öðrum Norðurlöndum. Vitaskuld greiða þeir þessar tryggingar, en má segja að þá greiði einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ég álít að þetta væri á ýmsan hátt mun hagkvæmara, einkum fyrir smærri atvinnurekendur, og tvímælalaust einnig öryggisatriði fyrir verkafólk, meira öryggisatriði en það sé komið undir atvinnurekendunum einvörðungu. En þetta er náttúrlega stærra mál en svo, að því verði nú breytt og þarf áreiðanlega miklu meiri undirbúning en nú er fyrir hendi.

N. ræddi öll þessi atriði, en meiri hl. hennar sá ekki ástæðu til að gera till. um breytingar, þótt ýmsir nm. gætu að sjálfsögðu hugsað sér að ýmsum atriðum í þessum vandmeðförnu málum væri betur borgið á annan veg en beinlínis er tekið fram í þessu frv.

Ég vil sérstaklega undirstrika, að þrátt fyrir setningu laga á þennan hátt stendur málið vissulega opið fyrir aðila vinnumarkaðarins til þess að semja um og ekki síður eftir lagasetningu sem þessa. Svo sannarlega má segja í þessu efni, að það er enn borð fyrir báru. Hér er um að ræða frv. að lögum sem aðeins fela í sér lágmarksmannréttindi á þessu sviði, en sannarlega vantar enn æðimikið á að það fólk, sem hér um ræðir og minnst réttindi hefur á þessu sviði í þjóðfélaginu, nái neitt líkt því þeim réttindum sem fjöldi annarra launþega í landinu nú býr við.

Ég vil svo, herra forseti, aðeins ítreka það að lokum, að meiri hl. n. leggur áherslu á að frv. verði afgreitt óbreytt eins og það var lagt fyrir.