21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. sagði að samráð um þessi mál hafi verið of lítil. Það má kannske segja það, að þau hafi verið fulllítil. Þó voru mikil samráð við launþega um þessi mál og við atvinnurekendur líka. Þeir vildu aftur á móti ekki ganga neitt til móts við þau sjónarmið sem hér er verið að tala um, heldur höfðu allt á hornum sér og töluðu um að þetta kostaði mikið, eins og reyndar hefur komið fram hér, tilkostnaður margfaldaður, og sögðu að þessi aukni tilkostnaður jafngilti margfaldlega 3%. Svo hamrar Morgunblaðið og önnur málgögn sjálfstæðismanna á því, að þetta hafi bara verið plat, verkamenn hafi ekkert fengið fyrir þessi 3%. Eitthvað stangast þarna á.

Það er talað um óljós ákvæði. Ég held að það sé ekki rétt að þau séu óljós. Það er talað um að það sé erfitt að tryggja sig fyrir staðgengisreglunni. Það er auðvitað hægt að kaupa tryggingu fyrir hverju sem er. Tryggingafélög mundu auðvitað vera tilbúin til að semja um þessi mál eins og önnur sem til þeirra hefur verið leitað um. Ég held að það séu engin vandkvæði á því í sjálfu sér. Ég vil líka vekja athygli á því eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, að staðgengisreglan sem slík er hvergi útvíkkuð nema þar sem talað er um tvo daga í veikindum fyrir hvern einn mánuð unninn á fyrsta ári. Og ég vil líka vekja athygli á því að endurtekningarreglan kemur hvergi inn nema þar sem fólk hefur unnið í 3 ár eða 5 ár hjá sama atvinnurekanda. Þau auknu réttindi frá því sem nú er í gildi koma fyrst og fremst inn þegar menn hafa unnið í 3 ár hjá sama atvinnurekanda eða 5 ár — m. ö. o. fólk sem atvinnurekendum líkar væntanlega vel við og gagnkvæmt. Ef um sviksamt fólk er að ræða ætti það tæplega að vera svona lengi í vinnu. Ég er ekki mjög hræddur við þann þáttinn.

Mikið af því efni, sem frv. þetta gengur út á, eru jafnréttismál, eru lágmarksmannaréttindi, eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson orðaði það. Þetta er réttindi sem fjöldinn allur af öðrum launþegum hefur notið um langan tíma og engum þótt mikið. Við erum þarna að auka réttindi þeirra, sem hafa haft þau minnst, og náum á engan hátt réttindum annarra, sem lengst eru komnir, en nálgumst þau réttindi sem aðrir hafa haft og hafa haft lengi. Það eitt út af fyrir sig er nægilegt til þess að frv. þetta verði samþ. óbreytt.

Atvinnurekendur, eins og áður hefur komið fram, eru á móti þessu og vilja tefja það á allan hátt, tala um nefndir og allt hvað eina. Þeir hafa haft þessi mál lengi til umfjöllunar, þeir hafa skrifað öllum þm. bréf og gert aths. Ég held að það sé nú öllum þm. ljóst, hverju þeir eru á móti, en þeir mega ekki gleyma því, þessir ágætu menn, atvinnurekendur, að launþegarnir hafa nú þegar greitt fyrir þau réttindi, sem þeir eru að fá núna með þessu frv., með því að gefa eftir 3% af umsömdum launum sínum 1. des. s. l. — 3% af þeim launum sem atvinnurekendur sjálfir voru búnir að semja um að þeir mættu fá. Launþegar eru fyllilega búnir, að mínu mati, að greiða fyrir þessi réttindi, sem þeir hefðu auðvitað átt að fá án þess að greiða neitt fyrir þau, því að þetta eru tágmarksmannréttindi eins og hér hefur komið fram.

Ég leggst eindregið gegn öllum frekari töfum á afgreiðslu þessa máls á hinu háa Alþingi og mæli með að frv. fái skjóta afgreiðslu og verði samþ. óbreytt.