21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

148. mál, orlof

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um mál þetta hreyfði hv. þm. Friðrik Sophusson, 5. landsk. þm., atriðum varðandi orlofslögin og orlofsgreiðslur, sem hann nú hefur endurtekið og raunar einnig hv. 11. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, að nokkru leyti tekið undir. Það er alveg á sínum stað að hugleiða það, hvort ekki þurfi að taka allt þetta kerfi til endurskoðunar. Í raun og veru hefur það gjarnan verið mikið í endurskoðun, ekki svo mjög á löggjafarsviðinu, heldur í samningum.

Orlofslögin eru frá 1942 — eitt þeirra mála sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um að sett skyldi löggjöf um og hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum. Hugmyndin að baki þeirrar löggjafar er einmitt sú, að þetta fólk, kannske jafnvel ekki síst lausráðna fólkið, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson orðaði það áðan, hefði möguleika eiðs og fastráðið starfsfólk til þess að geta farið í orlof, ekki aðeins að eiga rétt á einhverjum tilteknum orlofsdögum, orlofstíma, heldur einnig, og það var kannske ekki síður aðalatriði laganna og hefur verið alla tíð, að fé væri fyrir hendi þegar orlof væri tekið.

Það er kannske ósköp gott að segja það, eins og kom fram í ræðu hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni við 1. umr. málsins, að orlofsfé ætti að greiða með launum hverju sinni og það ætti að láta launþegana sjálfa um að ávaxta þetta fé sitt og þar með að spara ríkinu veruleg útgjöld vegna þess kerfis sem haft er nú við orlofsgreiðslurnar. Þetta vissu menn einnig 1942 að hefði verið fyrir hendi. En grundvallarhugsunin var sú, að menn ættu þetta fé þegar þeir færu í orlof. Það væri kannske alveg á sama hátt hægt að leggja niður t. d. lífeyrissjóðina, það væri kannske hægt að leggja niður að verulegu leyti atmannatryggingar, færa þessa kostnaðarliði inn í kaupið og segja svo við fólkið: Þið eruð búin að fá greitt vegna þessa kostnaðar. — Málið er ekki svona. Málið er þannig, að það væri aðeins í örfáum undantekningum, bæði varðandi orlofsfé og lífeyrisgreiðslur, að menn hefðu þennan hátt á. Þess vegna voru lögin sett, þess vegna hafa menn líka komið sér saman um lífeyrissjóðina. Þetta grundvallarsjónarmið verða menn að hafa í huga. Þetta fé á að vera fyrir hendi þegar orlof er tekið.

Hitt er svo annað mál, að sjálfsagt eru margar aðferðir hugsanlegar til þess að ná þessu marki. En þetta grundvallarmarkmið verður að vera fyrir hendi. Sjálfur hef ég gjarnan verið þeirrar skoðunar að 1971, þegar orlofsmerkin voru lögð niður og gírógreiðslurnar teknar upp, hefði gjarnan mátt taka í þetta kerfi, gírókerfi, greiðslur alls orlofsfjár allra launþega. Með því móti hefði skapast traustur grundvöllur fyrir því að hægt hefði verið að verðbæta þetta fé nokkurn veginn í samræmi við vöxt verðbólgu og dýrtíðar, vegna þess að þá hefði þarna verið um svo stórkostlega fjármuni að ræða sem aðeins örlítill hluti af hefði þurft að fara til rekstrar.

Í öðru lagi hefði að mínu viti, ef þessi teið hefði verið farin, verið hægt að fá grundvöll, og ákjósanlegasta grundvöll sem menn hefðu getað fengið, fyrir margs konar launa-„statistik“, sem því miður er ákaflega bágborin í landi okkar.

Ég vil undirstrika að þetta orlofsfé er ekki viðbót á launin í eðli sínu. Það er hluti af laununum sem geymdur er á þennan hátt. Ég held að það sé í verkalýðshreyfingunni fullkominn vilji til þess að skipa þessum málum á hagkvæmasta hátt, bæði hvað rekstur snertir og annað. En út frá því grundvallarsjónarmiði, þeirri grundvallarreglu að orlofsféð sé ekki eyðslueyrir, ekki daglegur eyðslueyrir, heldur eigi að vera fyrir hendi þegar orlof er tekið, verða allar aðferðir varðandi orlofskerfið að ganga.

Það má kalla kannske eitt og annað afturhaldssemi, en ég held að þetta grundvallarsjónarmið, sem ég hef verið að endurtaka hér, feli ekki í sér afturhaldssemi, síður en svo. Það á að vera öryggi fyrir verkafólkið, öryggi fyrir því að orlof sé hægt að taka.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta atriði, en aðeins fara örfáum orðum um þá brtt., sem minni hl. félmn. flytur þ. e. a. s. að fella niður 2. mgr. 1. gr. frv., að innheimtuaðilar orlofsfjár, þ. e. a. s. Póstgíróstofnunin, hafi heimild til þess að staðreyna upplýsingar innheimtuaðila með því að fá aðgang að bókum og bókhaldsgögnum launagreiðenda. Sú breyting, sem gerð er með þessu frv., er einvörðungu að skylda launagreiðendur að veita upplýsingar um greitt og vangreitt orlofsfé starfsmanna — þeir séu skyldir til þess. Sem betur fer er það ekki stór hópur sem stundar vanrækslu á þessum efnum. Langsamlega mestur hluti atvinnurekenda í landinu hefur reglu á þessu, og ég held að þeir séu ekki margir sem neita að gefa upplýsingar þegar orlofsfé hefur ekki verið greitt á þann hátt sem lög standa til, þeir gefi þá upplýsingar um hvað starfsmaður eigi inni ógoldið. Það heyrir til undantekninga að menn vanræki þetta, en undantekningar eru því miður fyrir hendi. Ég veit ekki til þess eða það er alveg nýtt fyrir mér, ef t. d. samtök atvinnurekenda vilja halda einhverri verndarhendi yfir þessum aðilum. Þeir eru jafnslæmir sínum samtökum og þeir eru með slíkum trassaskap því fólki, sem hjá þeim starfar. Þess vegna held ég ekki að það sé neitt varhugavert við það, eins og hv. 11. þm. Reykv. Gunnar Thoroddsen sagði áðan, að veita þessa heimild. Þeir, sem kynnu að verða fyrir því að þurfa að gefa svona upplýsingar, eru menn sem eru þá í raun syndaselir sem ekki eiga að komast upp með að geta hagað sér á þennan hátt.

Varðandi launþegann standa mál kannske þannig, að raunar því aðeins yrði þessi heimild notuð af innheimtuaðilanum að launþeginn hefði ekki í höndum sönnunargögnin, hann hefði glatað þeim eða ekki haft hirðu á því að halda saman þeim gögnum sem er mjög áríðandi að launafólk haldi vel saman, þ. e. a. s. skilagreinum fyrir greiðslum atvinnurekandans, bæði varðandi orlofsfé, lífeyrissjóði, skatta ó. s. frv. Einvörðungu í því tilviki, að launþeginn hefði þetta ekki í höndum, er leitað til atvinnurekandans um sönnunargögn. Og ef atvinnurekandinn neitar að veita slíkar upplýsingar, sem hann náttúrlega lögum samkv. á að hafa fyrir hendi samkv. öllum bókhaldsreglum, stendur launþeginn uppi án nokkurra gagna, án nokkurra sannana, og málið verður þess vegna erfitt. Kannske kemst slíkur atvinnurekandi upp með að þurfa ekki að greiða tilskilin gjöld. Ég vænti þess, að það séu hvorki í samtökum atvinnurekenda né hér innan veggja neinir þeir aðilar sem vilja halda verndarhendi yfir slíkum mönnum.