01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kem nú ekki í þennan ræðustól til að gagnrýna efni þessa frv. Ég get lýst fylgi við meginefni þess, þótt ég hafi fyrirvara um afstöðu mína hvað varðar einstaka framkvæmdaþætti. Ég lít svo til, að hvaða ríkisstj. sem mynduð hefði verið á haustdögum hefði ekki komist hjá því að ganga til móts við bændastéttina í sambandi við það verðjöfnunargjald sem tekið hafði verið af framleiðslu ársins 1977. Það hefði verið hægt að hugsa sér ýmis tilbrigði í því, hversu langt ætti að ganga á þeirri braut, sem hefði þá væntanlega mótast af því, með hvaða hætti aðrar efnahagsaðgerðir hefði verið sem gerðar voru á s.l. hausti., t.d. hversu langt væri gengið til móts við þarfir eða óskir annarra stétta, svo sem launastéttanna, hvaða ráða hefði verið gripið til í sambandi við skattlagningu o.s.frv., o.s.frv. Allt um það var staða þessara mála þannig, að óhjákvæmilegt var að ganga a.m.k. að verulegu leyti til móts við þær þarfir sem fyrir hendi voru hjá bændastéttinni. Aðrar aðgerðir þessarar ríkisstj. í þeim efnum, sem ég hef nefnt og birtust í brbl. frá því í sept., voru auðvitað með þeim hætti, að ekki var verjandi annað en ganga a.m.k. eins langt og hér er gert.

Í sambandi við þetta mál hef ég talið eðlilegt að kæmu fram nokkru fyllri upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. en hér hafa þegar verið gefnar, ef hæstv. landbrh. treystir sér til á þessu stigi máls:

Hverjar eru fyrirætlanir ríkisstj. í sambandi við þessi mál á næsta ári? Það er ljóst að útflutningsbótaþörfin á næsta ári samkv. 10% reglunni er ekki 5.5 milljarðar, eins og mér heyrðist hæstv. ráðh. segja. Samkv. fjárlagafrv. er um 4.5 milljarða að ræða. Þar er hins vegar um 837 millj. að ræða til viðbótar, í fyrsta lagi vegna þess að 300 millj. samkv. þessu frv. eiga að greiðast á næsta ári og 537 millj. vegna vanáætlunar til þessa útgjaldaliðar á fjárl. þessa árs. Ef ég hef skilið fjárlagafrv. rétt, er hér um 5.3 milljarða að tefla alls og þar af 4.5 milljarða vegna framleiðslu yfirstandandi verðlagsárs. Nú hefur ekki komið fram hvort hæstv. ríkisstj. hugsar sér að bæta þann halla að meira eða minna leyti umfram 10% regluna, sem búast má við að verði vegna mikillar framleiðslu á þessu hausti og framleiðslu þessa verðlagsárs í heild. Þetta væri æskilegt að vita, ef hæstv. landbrh. treystir sér til að upplýsa það.

Ég lít svo til að það sé rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að það þurfi að breyta um stefnu og móta nýja heildarstefnu hvað snertir framleiðslumál landbúnaðarins. Að þessu hefur verið unnið á undanförnum missirum, og m.a. liggja fyrir tillögur svokallaðrar 7 manna nefndar frá Stéttarsambandi bænda, — tillögur sem hæstv. ráðh. vitnaði nokkuð í. Það kom hins vegar ekki fram í hans máli, hvort hæstv. ríkisstj. hefur tekið um það ákvörðun að breyta framleiðsluráðslögum í þá átt sem þessar till. stefna. Ef ákvarðanir liggja fyrir um slíkt hjá hæstv. ríkisstj., þá væri mér þökk á því að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðh.

Hitt er algerlega ljóst, að það kostar nokkurn tíma og þarf að gefast svigrúm fyrir bændastéttina til þess að breyta um stefnu. Til þess að ná því markmiði að draga úr eða stöðva framleiðsluaukningu miðað við það framleiðslumagn, sem er nú í dag, þarf svigrúm. Ljóst er að engin lagabreyting hefur verið gerð til þessa á framleiðsluráðslögunum, sem hefur áhrif í þá átt að takmarka eða draga úr framleiðslu sauðfjár í landinu á næsta hausti. Þess vegna þarf bændastéttin að fá svigrúm til þess að aðlaga sig nýjum aðstæðum. Mér sýnist að til þess þurfi a.m.k. 2–3 ár. Þann tíma sýnist eðlilegt að ríkisvaldið gangi til móts við bændastéttina jafnvel umfram þær reglur sem nú eru í gildi í lögum til þess að ná þeim markmiðum fram að draga úr framleiðsluaukningunni. Um þessi efni vildi ég gjarnan heyra frekar frá hæstv. ráðh., ef hann hefur upplýsingar fram að færa.

Fyrir liggur að aukning á sauðfjárframleiðslunni á þessu ári varð um 8–8.5%, og það er erfitt að segja fyrir um hvernig tekst að selja þessar afurðir. Það er því ekki hægt að segja fyrir um það með nokkurri vissu, hvernig 10% útflutningsbótareglan dugar vegna framleiðslu þessa verðlagsárs. En eins og ég raunar þegar hef sagt, er mjög hætt við því, að þar vanti nokkuð á. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér nákvæmlega tillögur 7 manna nefndarinnar, en nokkuð þó, og ég vil aðeins segja um þær, að mér virðist þar að mörgu leyti um athyglisverðar till. að ræða, — tillögur sem miða að því marki að stöðva framleiðsluaukninguna og halda framleiðslunni nokkurn veginn við það mark sem hún er í dag. Við þurfum þó að fara nokkuð varlega í þessum efnum, vegna þess að eitt eða tvö harðæri í landi, sem ekki eru óþekkt fyrirbrigði, gætu orðið til þess að stórskerða framleiðslu landbúnaðarins. Landbúnaðurinn er atvinnuvegur sem þolir illa miklar sveiflur. Hann er í rauninni hægfara í öllum breytingum. Snöggar breytingar kosta allt of mikið fé og það þarf að fara varlega í harkalegar breytingar. Þetta segi ég sem varnaðarorð, enda þótt ég taki að fullu undir það að breytinga er þörf. Við megum ekki halda áfram að stefna til aukinnar framleiðslu.

Hæstv. ráðh. rakti hér í nokkrum efnum þær fyrirætlanir sem rn. hefur um breytingar á landbúnaðarstefnunni, og það nálgaðist það, að það þyrfti að umbylta stefnunni á flestum sviðum. Stefnan er auðvitað þess háttar, að það þarf mörgu að breyta og margt að bæta, og skal ég ekki fara út í að rekja einstaka þætti þeirra mála frekar fyrr en þá ber að okkar garði hér á hinu háa Alþ. En meðal þess, sem hæstv. ráðh. gat um, var að það þyrfti að sjá til þess að tryggja laun bænda, orðaði hann það, — ég vildi orða það: að tryggja tekjur bænda, að tekjur bænda yrðu ekki lakari en annarra stétta þjóðfélagsins. Mér sýnist nú að hæstv. ríkisstj. hafi þegar gert eitt snilldarbragð til þess að auka tekjur bænda. Hún hefur sem sé með einu pennastriki hækkað tekjur bænda um nokkur hundruð þús. kr. að meðaltali á bónda á árinu 1977, 500 þús. til 1 millj. kr. á hvern meðalbónda í landinu. Þetta hefur ríkisstj. gert með einu pennastriki án þess að nokkur hafi þurft að borga nema bændurnir sjálfir. Þetta snilldarbragð var í því fólgið að taka fyrningarliðina á skattframtali bænda og bæta þeim við tekjurnar. E.t.v. er þetta ráð hæstv. ríkisstj. til þess að útrýma þeim mun sem hefur verið á tekjum bænda annars vegar og ýmissa launastétta hins vegar. Ég vænti þess, að síðari aðgerðir hæstv. ríkisstj. til að tryggja tekjur bænda verði með öðrum hætti en hinar fyrstu.

Þessi leikbrögð með skattframtöl bænda sem og annarra atvinnurekenda í landinu til þess í fyrsta lagi að hækka tekjur þeirra og gera þær þannig að auknum gjaldstofni til ríkisins eru að mínum dómi ákaflega einkennileg. Ef á að taka upp þá stefnu að bæta fyrningum við tekjur, þá er erfitt að sjá fyrir hvernig eigi að viðhalda tækjakosti og endurnýja tækjakost og annað það sem til atvinnurekstrarins þarf. Hér er að mínum dómi um forkostulega stefnu að ræða, forkostuleg leikbrögð, en þó í senn snilldarbragð til þess að hækka á pappírnum tekjur t.d. bændastéttarinnar og e.t.v. gert til þess að þeir geti ekki lengur sagt að þeir séu tekjulægsta stéttin í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma. Ég vil ítreka það, að ég styð meginefni þessa frv. og tel, miðað við það ástand sem ríkir í þessum málum, að það hafi verið eðlilegt og ekki hægt að komast hjá því að ganga svo til móts við þarfir bænda á þessu sviði. Og ég tel nauðsynlegt að huga að þeim árum sem verða að vera svigrúm bændastéttarinnar til þess að aðhæfa sig nýrri stefnu í framleiðslumálum. Því vil ég beina til hæstv. ráðherra.