22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

76. mál, virðisaukaskattur og afnám tekjuskatts

Forseti (Gils Guðmundsson):

Vegna ummæla hv. 4. þm. Vestf. í upphafi máls hans um það að miklar tafir hafi orðið á því að þessi þáltill. hafi verið tekin til umr., þá skal ég viðurkenna að svo er, eins og um fleiri mál í Sþ. á þessum vetri, og biðst velvirðingar á því að svo miklu leyti sem þar er við mig að sakast. Og það má segja að það sé að því leyti til, að ég hef e. t. v. tekið of mikið tillit til óska ýmissa hv. þm., bæði í sambandi við þessa þáltill. og aðrar, að taka mál ekki fyrir þegar viðkomandi þm. hafa verið fjarverandi.

Annars er það óneitanlega mikið áhyggjuefni hversu fjarvistir eru miklar þegar um það er að ræða að mæla fyrir þáltill. í Sþ. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það nú við það fámenni sem hér er, en mun gera það fljótlega þegar væntanlega verður hægt að ná til fleiri hv, alþm.

Þó vil ég aðeins geta þess í þessu sambandi, að ég lét kanna það nú klukkan rúmlega fimm, að af flm. 22 þingmála, sem eru á dagskrá þessa þingfundar, virtist svo sem 15 flm. væru ekki í þinghúsinu, en þá voru hér aðeins 16 hv. alþm.

Ég verð að segja það, að mér þykir þetta mjög miður farið, og óneitanlega er það umhugsunar- og áhyggjuefni, að þetta er þriðji fundur Sþ. í röð þar sem svo virðist sem ekki verði hægt að nota tímann fram að kvöldmat til þess að taka fyrir þáltill. sem sumar hafa beðið lengi vegna fjarvista hv. flm. Hér þarf að breyta um.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta atriði nú, en mun gera það þegar fleiri hv. alþm. hlýða á mál mitt.