22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

76. mál, virðisaukaskattur og afnám tekjuskatts

Jón Helgason:

Herra forseti. Hér er til umr. þáltill. um skattamál, og enda þótt það sé rétt, eins og hv. frsm. sagði, að það h afi orðið miklar umr. um þau, og hann hafi flutt hér langt mál, þá ætla ég ekki að vera fjölorður um það, en vil aðeins koma fram hér með örfá atriði í sambandi við þau.

Það hefur oft verið talað um þörf á endurskoðun skattalaga. Þær eru hins vegar orðnar alltíðar breytingarnar á skattalögunum, þannig að ég held að það sé ekki beinlínis hægt að kvarta undan því, að þeim sé sjaldan breytt. Á s. l. ári voru samþ. ný skattalög sem fólu í sér mjög miklar breytingar frá þeim lögum, sem gilt hafa, og þessi lög eiga að taka gildi nú um næstu áramót,— eða tóku gildi, réttara sagt, um s. l. áramót, en á síðan að leggja á skv. þeim á næsta ári.

Við endurskoðun þessara skattalaga, eins og sjálfsagt allar endurskoðanir, hefur verið reynt að hafa í huga a. m. k. tvennt og sjálfsagt fleira: Annað er að reyna að gera þau einföld ef hægt væri, — menn tala mjög um að einfalda skattalög svo auðvelt sé að skilja þau, — og hins vegar að gera þau réttlát. En þegar farið er að skoða þetta tvennt vill það gjarnan rekast á, því að um leið og farið er að reyna að uppfylla réttlætið fara reglurnar að verða heldur flóknar.

Eins og ég sagði voru í þessum lögum, margvísleg nýmæli og breytingar og einmitt sumar af þeim sem fjallað er um í þessari þáltill. Þar er t. d. tekið upp að hvort hjóna um sig verður sjálfstæður framteljandi, eins og gert er ráð fyrir í 3. tölul. þessarar þáltill. Einnig er reglum um afskriftir mjög mikið breytt, meira breytt en menn hafa að líkindum gert sér margir hverjir grein fyrir, þannig að það á eftir að hafa mjög róttækar afleiðingar. Þessi lög voru samþ. hér á Alþ. — ég held nærri samhljóða eða alveg, þannig að það var mjög mikil samstaða um afgreiðslu þeirra. Hins vegar þarf, áður en farið er að leggja á eftir þeim, að gera nokkrar breytingar á þeim og viðbætur. Sérstaklega er það að í fyrra, þegar frv. var lagt fram, var samhliða lagt fram frv. um staðgreiðslukerfi skatta sem ekki var afgreitt og hefur ekki verið lagt fram á þessu þingi, og þá þarf vitanlega að gera ráð fyrir einhverri annarri innheimtuaðferð skv. hinum nýjum lögum. Enn fremur held ég að það þurfi að reyna að einfalda þessar afskriftareglur, sem ég var að tala um, til þess að gera þær auðskiljanlegri. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um það.

Í þessari þáltill. er einnig talað um að taka upp virðisaukaskatt. Á sama hátt og nýju skattalögin eru mikil breyting, þá held ég að það yrði enn þá meiri breyting frá því formi sem nú er með söluskatti. Greiðendur virðisaukaskatts yrðu miklu fleiri en greiðendur söluskatts. Þess vegna finnst mér ákaflega hæpið að það sé einfaldara. Ég tek sem dæmi, að ef það væri ekki sérstaklega undanþegið, þá yrðu allir bændur greiðendur virðisaukaskatts, þannig að það er auðséð að þarna yrði um gífurlega fjölgun að ræða. Það er, eitt af grundvallaratriðum í sambandi við virðisaukaskatt, að engar undanþágur leyfist þar. Þá yrði að snúa frá þeirri braut sem hefur verið farið inn á nokkuð í vaxandi mæli síðustu árin, að undanþiggja helstu nauðsynjavörur söluskatti. Þá mundi virðisaukaskattur verða að leggjast á allar vörur. Þarna er, held ég, um mjög vandasamt mál að ræða sem þarf að skoða rækilega áður en út í það er lagt, til þess að menn geri sér vel grein fyrir hvernig það muni reynast í framkvæmd. Ég skal svo ekki að sinni tefja umr. um þétta frekar hér.