22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

172. mál, þáttur landbúnaðarframleiðslu í atvinnulífi þjóðarinnar

Flm (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 329 hef ég ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á þætti landbúnaðarframleiðslu í atvinnulífi þjóðarinnar. Með till. er lagt til að Alþ. skori á ríkisstj. að láta kanna hvað stór hluti þjóðarinnar hefur atvinnu af framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða og þjónustu í sambandi við hana, enn fremur hvaða áhrif hugsanlegur samdráttur í búvöruframleiðslu hefði á atvinnulífið og þá sérstaklega á þá miklu möguleika til vaxandi ullar- og skinnaiðnaðar sem komið hafa í ljós á síðustu árum.

Það er ljóst að hér er um margþætt og umfangsmikið verkefni að ræða. Þörfin á að slík úttekt fari fram hefur oft komið til umr. á undanförnum árum hjá Stéttarsambandi bænda og víðar, t. d. hjá Fjórðungssambandi Norðurlands. En þeir aðilar hafa ekki haft aðstöðu til að vinna að þessu verki. Reynt hefur þó verið að gera lauslegar áætlanir um hvað margir aðrir en bændur hafa atvinnu sem byggist á einhvern hátt á búvöruframleiðslu. Sums staðar er þetta augljóst, t. d. í héruðum þar sem allir hafa atvinnu sína beint eða óbeint af henni. Annars staðar er þetta miklu flóknara mál. Þó ætti að vera hægt að gera sér nokkra gein fyrir þessu eftir þeim gögnum sem fyrir hendi eru hjá Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og fleiri opinberum aðilum. Í till. er því lögð áhersla á að þessi gögn verði notuð til að gera fyrstu áætlun um þetta, enda þótt síðan verði haldið áfram að afla ítarlegri gagna. Ástæðan fyrir því, að svo mikil áhersla er lögð á að fá sem fyrst fram áætlun um það, er það ástand, sem nú ríkir í markaðsmálum landbúnaðarins, og sú þörf sem talin er á að draga úr landbúnaðarframleiðslunni.

Það munu að vísu fáir draga í efa að við ríkjandi markaðsaðstæður er enginn grundvöllur fyrir ört vaxandi mjólkurframleiðslu síðustu ára, enda möguleiki á að draga nokkuð úr henni með fækkun arðminnstu gripanna og lækkun á framleiðslukostnaði hvers bús, með minni fóðursbætisnotkun og annarri hagræðingu sem til greina kemur, þannig að það hafi sem minnsta launalækkun í för með sér fyrir bóndann, enda nægði t. d. að mjólkurframleiðslan kæmist í svipað horf og hún var fyrir þremur árum. Samt sem áður þarf að athuga vel hversu víðtæk áhrif slíkur samdráttur, þó ekki væri meiri en þetta, hefði í för með sér.

Viðhorfið er nokkuð annað í sauðfjárrækt, þar sem óhagkvæm þróun á erlendum mörkuðum síðustu árin á stærstan þátt í erfiðleikunum nú og samdráttur að því marki að kjötframleiðslan miðist aðeins við innanlandsmarkað hefði gífurlega röskun í för með sér og virðist alls ekki koma til greina. Til þess að gera sér sem besta grein fyrir þessu teljum við flm. þessarar þáltill. nauðsynlegt að gera glöggt yfirlit um áhrif landbúnaðarins á atvinnulífið í hverju héraði og landinu í heild, að kortleggja það, ef svo má að orði kveða, þannig að hægt sé með öruggri vissu að segja fyrir um það, hversu víðtækar afleiðingar það hefur ef framleiðslan minnkar eða bændum fækkar. Það er sannfæring okkar, að þá muni koma í ljós að það er raunverulega nokkuð stór hluti þjóðarinnar sem nýtur þess fjármagns sem nú er talað um að renni til landbúnaðarins. Þá væri hægt að gera beinan samanburð á þessu fjármagni og þeim kostnaði sem það hefði í för með sér að flytja fólk til, byggja yfir það og útvega því nýja atvinnu, ef það yrði að hverfa frá fyrri störfum.

Hér hefur aðeins verið minnst á fjárhagslega hlið þessa máls. En flestir viðurkenna að landbúnaður hefur meira gildi fyrir þjóðina en aðeins að framleiða kjöt og mjólk, hann er slíkt lífakkeri að með hruni hans stefndi þjóðin út í beinan voða. Það þarf því að líta á þetta mál frá öllum hliðum þegar verið er að fella dóma, enda þótt í þessari till. sé aðeins fjallað um þá fjárhagslegu. Það er sannfæring okkar flm., að hún ein nægi til að rökstyðja fjárveitingarnar til landbúnaðarins. Með þeim orðum vil ég ekki draga úr skyldu bænda að haga framleiðslu sinni í samræmi við markaðsaðstæður eins og frekast er kostur. Sú skylda hvílir vitanlega á þeim og styður kröfur þeirra um skilning og velvilja frá þjóðarheildinni.

Ég vil svo leggja til að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til atvmn.