22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3543 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

193. mál, endurskoðun laga um almannatryggingar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Af því að ég hef alltaf lítið svo á að það væri heldur hvimleiður siður að tala við sjálfan sig, þá er nú eiginlega brýn nauðsyn að sá hópur, sem hér er inni, láti í sér heyra. Ég vil taka það fram strax í upphafi, að ég get tekið undir hvert einasta orð sem hv. frsm. flutti hér. Hins vegar vil ég, og það er eingöngu erindi mitt hingað í ræðustól, benda á það, að þessi till. kemur, eins og kerlingin sagði, eins og þjófur úr heiðskíru lofti, m. a. vegna þess að í stjórnarsáttmálanum er sérstakt ákvæði um endurskoðun almannatryggingakerfisins. Ég hefði þess vegna talið eðlilegra að hv. flm. hefðu reifað þessar hugmyndir, sem fram koma í þáltill., við hæstv. félmrh. og bent honum á hvað þeir teldu að mætti gera til úrbóta. Ég teldi langeðlilegast að þessi till. færi beint til ríkisstj., þannig að hún gæti þá notfært sér þau atriði sem ekki hafa þegar verið athuguð í þeirri endurskoðun sem er hafin á almannatryggingakerfinu.