26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3547 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

208. mál, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér að þrengd er heimild til fóstureyðinga. Skv. gildandi lögum er fóstureyðing heimiluð af þrenns konar ástæðum, þ. e. a. s. í fyrsta lagi af félagslegum ástæðum, í öðru lagi af læknisfræðilegum ástæðum og í þriðja lagi ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli.

Með frv. þessu er lagt til að fella niður að félagslegar ástæður geti heimilað fóstureyðingu. Af þessu leiðir aðrar breytingar sem í frv. felast. Frv. þetta er flutt á þeirri forsendu, að félagslegar aðstæður eigi ekki að réttlæta fóstureyðingu. Í fyrsta lagi eru félagslegar ástæður ákaflega rúmt og teygjanlegt hugtak. Í öðru lagi á að bæta úr félagslegum ástæðum með öðrum hætti en að tortíma mannlegu lífi.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að félagslegar ástæður heimili fóstureyðingu þegar ætla má, eins og það er orðað, að þungun og tilkoma barnsins verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Í lögunum er svo að finna leiðbeiningar um það, til hvers skuli tekið tillit við mat á því, hvað er „of erfitt“ í þessu sambandi og hvað eru „óviðráðanlegar félagslegar ástæður“. Það er tiltekið sem ástæða fyrir fóstureyðingu að konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé frá síðasta barnsburði. Skv. þessari reglu getur fóstureyðing verið heimil þó að heimilisástæður séu góðar og heilsufar gott á heimilinu. Ef barnið er ekki velkomið í heiminn af einhverjum öðrum ástæðum skal lífi þess tortímt ef óskað er. Þá er önnur leiðbeiningarreglan sú, að fóstureyðing geti verið heimil ef kona býr við bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu. Og þriðja leiðbeiningarreglan er sú, að fóstureyðing geti verið heimil þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

Tvær síðustu leiðbeiningarreglurnar byggjast vissulega á félagslegum ástæðum, en naumast verður það sagt um fyrstu leiðbeiningarregluna. Þessar heimildir eru því mjög rúmar og öll tvímæli eru tekin af um það með því ákvæði laganna sem heimilar fóstureyðingu af öðrum ástæðum séu þær sambærilegar við hinar tilgreindu ástæður.

Skv. þessum ákvæðum laganna liggur því nærri að álykta, að fóstureyðingar séu frjálsar í þeim skilningi að fóstureyðing sé heimil af hvaða ástæðu sem er.

Lög nr. 25 frá 20. maí 1975 áttu sér þann aðdraganda, að fyrst var lagt fram á Alþ. 1973 frv. að þessari lagasmíði. Um það atriði, sem hér um ræðir, stóð þar sem hér segir:

„Fóstureyðing er heimil að ósk konu, sem búsett er hér á landi eða hefur íslenskan ríkisborgararétt, ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla á móti aðgerð.“

Skv. þessu átti fóstureyðing að vera heimil án nokkurra félagslegra eða læknisfræðilegra ástæðna eða sem eins konar getnaðarvörn er grípa mætti til sýndist konu svo. Þegar frv. var endurflutt árið 1974 var þetta ákvæði fellt niður og í staðinn sett þau ákvæði sem nú er í lögum og áður greinir. Þessi breyting átti að vera til bóta að áliti þeirra sem vilja hamla gegn fóstureyðingum. En þetta þótti breyting til hins lakara hjá þeim sem vilja sem mest frjálsræði í þessum efnum. Oddviti þeirra sagði samt sem áður í umr. á Alþ. 29. jan. 1975 um þær reglur, sem lögfestar voru, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er hægt að heimfæra svo til hvaða tilvik sem er undir þessar reglur. Ef menn lesa þær, þá ætti þeim að vera ljóst að það fer eftir mati læknis og félagsfræðings og það er hægt að framkvæma eiginlega hvaða fóstureyðingu sem er skv. þessum reglum. Ég hef ekki nokkra minnstu trú á því, að þetta feli í rauninni í sér einhverja takmörkun á þessum rétti, a. m. k. ekki miðað við þau viðhorf sem nú eru uppi hér á Íslandi“.

Ég held að þetta hafi á sínum tíma verið rétt mat á þeim ákvæðum um fóstureyðingu í frv. sem lögfest voru með lögum nr. 25 frá 1975. Það hefur reynslan síðan leitt í ljós.

Og hver hefur svo framkvæmdin verið? Í því sambandi skulum við athuga 28. gr. laga nr. 25 frá 1975. Í grein þessari segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Rísi ágreiningur um, hvort framkvæma skuli fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, skal málinu tafarlaust vísað til landlæknis og skal hann tafarlaust leggja málið undir úrskurð n., sem skipuð skal í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Í n. skulu eiga sæti þrír menn og jafnmargir varamenn, einn læknir, einn lögfræðingur og einn félagsráðgjafi, og skulu þeir skipaðir af heilbrrh. til fjögurra ára í senn. N. skal úrskurða málið innan viku frá því að henni berst það í hendur.“

Þessi n., sem skal hafa eftirlit með framkvæmd laganna, hefur í fjögur ár ekki fengið nein mál til úrskurðar um fóstureyðingu fyrir lok 12. viku meðgöngutímans, nema tvö mál, en þá var svo ástatt að viðkomandi konur höfðu látið eyða fóstri áður á sama árinu og þessi mál komu fyrir.

Skv. 11. gr. laganna skal, áður en fóstureyðing má fara fram, liggja fyrir skrifleg, rökstudd grg. tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa sé einungis um félagslegar ástæður að ræða.

Spurningin er þá sú, hvort konur; sem leita eftir fóstureyðingu við þessa aðila, fái yfirleitt vilja sínum framgengt án ágreinings þar sem mál eru ekki lögð undir úrskurð eftirlitsnefndar skv. 28. gr. laganna. Þetta er spurningin um hvort fóstureyðingar séu í raun og veru frjálsar hér á landi fyrir lok 12. viku meðgöngutíma — eða er á því sú skýring að eftirlitsnefnd fái ekki mál til úrskurðar vegna þess að þegar læknar og félagsfræðingar neita að fóstureyðingar fari fram, þá láti konan það gott heita og neyti ekki réttar síns til þess að skjóta máli sínu til eftirlitsnefndar?

Þrátt fyrir að dæmi eru til þess, að konur hætti við að láta eyða fóstri, renna staðreyndir því miður ekki stoðum undir síðari skýringuna, heldur hina fyrri og að fóstureyðingar fyrir lok 12. viku meðgöngutíma séu í raun frjálsar hér á landi eða því sem næst.

Síðan gildandi lög um fóstureyðingar komu til framkvæmda 1975 hefur fóstureyðingum fjölgað ískyggilega. Þetta kemur greinilega í ljós þegar bornar eru saman tölur fyrir og eftir 1975. Á tímabilinu frá 1950–1970 urðu fóstureyðingar fæstar 45 á ári, en flestar 107, á tímabilinu 1950–1960 voru þær að meðaltali 57 á ári, en árin 1961–1970 83 að meðaltali á ári. En ef við tökum tímabilið frá 1964–1974, þá urðu þær að meðaltali 123 á ári. Árið 1971 urðu fóstureyðingar 142, árið 1972 151, árið 1973 224 og árið 1974 224. Síðan koma umskiptin. Á árinu 1975 eru fóstureyðingar 308, árið 1976 367, árið 1977 447 og 1978 rúmlega 500. Þetta er reynsla okkar af því að heimila fóstureyðingar af svokölluðum félagslegum ástæðum.

Skráðar fóstureyðingar hér á landi á hverjar 1 000 konur á aldrinum 15–49 ára voru árið 1965 1.8, árið 1970 2.1, árið 1971 3, árið 1972 3.1, árið 1973 4.5, árið 1974 4.4, árið 1975 6, árið 1976 6.7, árið 1977 8.4 og á árinu 1978 um 9.3. Þessar tölur segja ótvírætt sína sögu.

Við Íslendingar erum ekki einir um þessa reynslu af því að fella niður hömlur á fóstureyðingum. Fjölgun fóstureyðinga í mörgum löndum hefur verið mjög mikil þar sem fóstureyðingar í reynd hafa verið gefnar frjálsar. Tölur frá Norðurlöndum fyrir og eftir að hömlum á fóstureyðingum hefur verið aflétt sýna þetta glöggt. Árið 1969 voru fóstureyðingar í Danmörku 7 474, en 1973, eftir að löggjöf hafði verið færð mjög í frjálsræðisátt, 18 750 og árið 1977 26 661. Í Finnlandi voru fóstureyðingar 1969 8 175, en 1973 23 362 og árið 1977 17 772. Í Noregi voru fóstureyðingar 6 270 árið 1969, en 13 680 árið 1973 og árið 1977 15 528. Og í Svíþjóð voru þær 196913 735, en 25 990 árið 1973 og árið 1977 31 462.

Af upplýsingum, sem má finna í heilbrigðisskýrslum, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út, má sjá t. d. að í New York-ríki í Bandaríkjunum var árið 1970 löggjöf um fóstureyðingar breytt í þá áttina að frjálsar fóstureyðingar voru upp teknar. 1971 voru skráðar fóstureyðingar í New York-ríki 179 900, árið 1972 urðu þær 228 100. Í Japan voru lög um fóstureyðingar færð í það horf að þar voru heimilaðar fóstureyðingar að ósk konu árið 1949. Á árunum 1949–1972 voru skráðar leyfðar fóstureyðingar í Japan um 20 millj. Þannig mætti telja áfram.

Hér þarf ekki lengur vitnanna við. Það er og staðreynd, að í þeim Íöndum, þar sem fóstureyðingar hafa verið gefnar frjálsar, yfirgengur reynslan það sem gert hafði verið ráð fyrir. Mönnum ofbýður hin óhugnanlega þróun sem málið hefur tekið. Á sama tíma sem Íslendingar hafa gengið til meira frjálsræðis í þessu efni hafa þær þjóðir, sem reynsluna hafa fengið af þessu frjálsræði, tekið til meðferðar nauðsyn þess að þrengja aftur heimildir og hamla á móti fóstureyðingum. Eru þess dæmi víða og hér í Evrópu bæði austan og vestan járntjalds.

Það væri fróðlegt að ræða hér frekar um reynslu annarra þjóða af fóstureyðingum. Þeim mun fremur væri ástæða til þess, að oft er látið liggja að því í umræðum um þessi mál að við gætum ýmislegt lært af þeim sem hömlulausastar hafa fóstureyðingar. En ég held að sá lærdómur örvi ekki til fóstureyðinga hér á landi. Þvert á móti hræða sporin. Þar sem ég þekki til virðist margt benda til þess að þróunin hnígi frekar í öfuga átt, þ. e. a. s. að þrengja heimildir til fóstureyðinga.

Það yrði of langt mál að fara að ræða þessi mál almennt í þessum umr., en ég get ekki stillt mig um að víkja rétt aðeins að tvennu í þessu sambandi.

Haustið 1972 var lögð fram á þingi Evrópuráðsins tillaga, vandlega undirbúin og ítarleg, um fóstureyðingar í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Um þessa tillögu urðu miklar og eftirminnilegar umr. Í till. þessari fólst m. a. áskorun á aðildarríki Evrópuráðsins að rýmka heimildir til fóstureyðinga þannig að í undantekningartilfellum, eins og það var orðað, yrðu fóstureyðingar heimilaðar af félagslegum ástæðum. Reglurnar um fóstureyðingar eru mjög mismunandi í aðildarríkjum Evrópuráðsins, svo sem kunnugt er. Það eru líka miklar deilur um mál þetta á þingi Evrópuráðsins og aðallega um heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum. Till. þessi hlaut þau örlög að vera felld, svo að ekki fékk Ísland sem aðildarríki Evrópuráðsins uppörvun úr þessari átt til að lögfesta heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum.

Ég skal víkja að öðru atriði erlendis frá um fóstureyðingar. Það er frá Vestur-Þýskalandi. Í júnímánuði 1974 samþykkti ríkisþingið í Bonn lög um fóstureyðingar sem rýmkuðu heimildir til fóstureyðinga. Þessi lög voru samþ. eftir mikinn ágreining og sterka andstöðu í vesturþýska þinginu. Andstæðingar þessarar lagasetningar áfrýjuðu lögum þessum til stjórnlagadómstóls ríkisins á þeirri forsendu að sú rýmkun heimildar til fóstureyðinga, sem lögin fólu í sér, bryti í bága við stjórnarskrá Vestur-Þýskalands.

Stjórnlagadómstóllinn kvað upp úrskurð sinn 25. febr. 1975 á þá leið, að fóstureyðingalögin voru dæmd ógild þar sem þau samrýmdust ekki stjórnarskrá ríkisins. Í forsendum úrskurðarins vitnar dómstóllinn til 1. málsgr.

1. gr. stjórnarskrár ríkisins, þar sem segir að mannhelgi megi ekki raska og það skuli vera skylda ríkisvaldsins að virða hana og vernda. Dómstóllinn vitnaði og til 2. málsgr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að sérhver maður skuli hafa rétt til lífs og friðhelgi. Með þessum úrskurði hafnaði stjórnlagadómstóllinn að nokkur stjórnskipulegur mismunur væri á mannlegu lífi, hvort heldur það væri fætt eða ekki fætt. Þá var tekið fram í forsendum þessa úrskurðar, að hin bitra reynsla af þýska nasismanum hvetti til þess að ófætt mannslíf væri verndað.

Þessi tvö dæmi, sem ég hef nú drepið á erlendis frá, sýna harðnandi andstöðu gegn fóstureyðingum og vissa tilhneigingu til að þrengja heimildir til að eyða fóstri. Þetta er ekki að ófyrirsynju. Þetta er vegna hinnar hörmulegu reynslu sem fengist hefur víða um lönd af frjálsum fóstureyðingum eða rúmum heimildum til fóstureyðinga.

Það var því fullkomin öfugþróun sem átti sér stað hér á landi með setningu laga nr. 25/1975. Með frv. þessu er því lagt til að bregða á annað ráð. Það er lagt til að þrengja heimildir til fóstureyðingar. Frv. felur í sér að fóstureyðingar verði ekki heimilar af félagslegum ástæðum. Enginn neitar að félagsleg vandamál eru fyrir hendi. Bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis á heimili eða þroskaleysi móður getur skapað félagslegt vandamál. En spurningin er hvernig á að bregðast við þeim vanda. Það á ekki að gera með því að veita heimild til fóstureyðingar. Þjóðfélag, sem leyfir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum, lítur fram hjá hinum raunverulega vanda, sættir sig við óleyst vandamál. Félagslegur vandi verður ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum.

Það vill svo til að í þessu landi búum við við víðtæka almenna tryggingarlöggjöf og margs konar opinbera aðstoð í félagslegu tilliti. Við teljum okkur standa allframarlega í þessum efnum og erum stundum harla ánægð með það sem áunnist hefur á síðustu áratugum til lausnar hinum ýmsu félagslegu vandamálum. En satt er það, að mörgu er enn ábótavant og að ýmsu þarf að hyggja. Betur þarf að gera í málum barnshafandi kvenna, svo sem fæðingarorlofi og mæðraheimilum. Barnaheimilum þarf að fjölga og bæta, svo og vöggustofum, dagvistarheimilum og leikskólum. Það þarf að bæta félagslega þjónustu og ráðgjöf við barnshafandi konur svo að þær fái mætt tímabundnum erfiðleikum. Það þarf að beita almannavaldinu og samhjálp þjóðarinnar um land allt, jafnt í strjálbýli sem í þéttbýli, til aðstoðar við þá konu sem býr við slæmar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, svo að barnið, sem hún gengur með, verði velkomið í þennan heim og góður aðbúnaður þess sé tryggður. Ekkert annað er til lausnar þeim vanda sem um er að ræða.

Hér þarf að ganga beint til verks. Þær konur, sem ekki eiga rétt á fæðingarorlofi, þurfa að fá greidda óskerta dagpeninga skv. 33. gr. almannatryggingalaga í þrjá mánuði vegna fæðingar. Mæðralaun greidd ógiftum, mæðrum og fráskildum konum skv. 15. gr. almannatryggingalaga þarf að hækka verulega. Setja þarf ný lagaákvæði um að einstæð móðir eigi auk þess rétt á greiðslum, t. d. í 6 mánuði eftir fæðingu barns, og nemi þessar greiðslur jafnhárri upphæð og ekkjulífeyrir. Ef einstæð móðir hefði barn innan 17 ára á framfæri sínu auk nýfædda barnsins ætti hún að eiga rétt á frekari greiðslum. Þessu til viðbótar ættu að vera heimildarákvæði um að greiða einstæðri móður um tiltekinn tíma allt að fullum lífeyri einstaklings ásamt tekjutryggingu, ef sýnt þykir að hún geti ekki komist af án þess og aðrar tekjur hennar en bætur almannatrygginganna fari ekki fram úr ákveðnu tekjumarki. Þetta ætti að gilda um einstæðar mæður. En tryggingaráð ætti að geta ákveðið að kona í hjúskap geti fengið sömu greiðslur og einstæð móðir ef tekjur hjónanna færu ekki fram úr ákveðnu tekjumarki. Þetta ætti þá að vera bundið því skilyrði að konan byggi við þær félagslegu aðstæður sem í gildandi lögum heimila fóstureyðingu, þ. e. 1) hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði, 2) eigi konan við að búa bágar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, 3) vegna annarra ástæðna sem eru sambærilegar við þessar ástæður.

Það er skoðun mín að með slíkum eða álíka aðgerðum, sem ég hef hér vikið að, eigi að vera hægt að leysa þau félagslegu vandamál sem nú geta heimilað fóstureyðingu. Ég þekki hv. þdm. illa ef þeir kjósa ekki frekar að leysa hin félagslegu vandamál en að heimila fóstureyðingar á þeirri forsendu að þau séu óbreytt.

En var einhver að hugsa um kostnað? Það er rétt, þetta kostar peninga. Samt eru það smámunir, sem ekki er til að hafa orð á, samanborið við hið óbætanlega tjón sem blóðfórnir fóstureyðinganna valda nú hinni fámennu íslensku þjóð, sem þarfnast mest af öllu fleiri handa til að halda uppi sjálfstæðri tilveru sinni.

Við Íslendingar höfum sérstöðu í ýmsum efnum og svo er ekki síst að því er varðar áhrif fóstureyðinga á fólksfjölda í landinu. Í sumum löndum og þá einkum þeim fjölmennustu, er fólksfjölgun eitt meginvandamálið sem við er að glíma. Fólkinu fjölgar þar um of miðað við efnahag, félagslegar aðstæður, náttúruauðlindir og hagnýtingu þeirra til mannsæmandi lífskjara, jafnvel þótt takmarkaðar kröfur séu til lífsins gerðar. Áhrif fóstureyðinga á fólksfjölda í slíkum ríkjum eru oft sett í samband við offjölgunarvandamál sem þar er við að stríða, þótt það breyti engu um eðli þess verknaðar sem felst í fóstureyðingu. Hins vegar er þessu þveröfugt farið hjá okkur Íslendingum. Áhrif fóstureyðinga hér á landi á fólksfjöldann hljóta að vera mikið alvörumál.

Íslenska þjóðin hefur því sögulega hlutverki að gegna að halda uppi í þessu landi sjálfstæðu ríki með öllu sem því fylgir. Í þessu efni höfum við sérstöðu vegna fámennis þjóðarinnar. Okkur finnst þetta sjálfsagt og eðlilegt og getum ekki hugsað okkur annað er. að halda okkar sjálfstæðu tilveru. En það hljóta samt að vera takmörk fyrir því hvað fámennið leyfir. Einhvers staðar eru takmörkin fyrir því, hve margar hendur þarf til að geta haldið uppi sjálfstæðu ríki og hagnýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar. Ef farið er niður fyrir þessi mörk er í húfi að þjóðin megni að halda uppi sjálfstæðu ríki með þeim skyldum sem því fylgja. Það er í húfi að þjóðinni haldist á hinum miklu auðlindum sínum ef hún hefur ekki bolmagn til að hagnýta þær í þurfandi heimi. Sjálf tilvera hinnar íslensku þjóðar er þá í húfi. Að þessu er skylt að huga þegar rætt er um áhrif fóstureyðinga hér á landi á fólksfjölda þjóðarinnar.

Í Hagtíðindum frá nóvember s. l. er að finna upplýsingar um vaxtarmegin þjóðarinnar. Þar er um sérfræðilega útreikninga að ræða sem ég fer ekki hér út í. En þar segir að eftir fæðingum árin 1976–1977, kynferðishlutfalli fæddra 1851–1977, og dánarlíkum árin 1975–1976 sé vaxtarmegin þjóðarinnar 0.53% á ári. Þetta svarar til tvöföldunar þjóðarinnar á 130 árum. Á árunum 1976 og 1977 voru að meðaltali rúmlega 400 fóstureyðingar á ári. Ég hef beðið Hagstofuna að reikna út eftir sömu forsendum hvaða áhrif breytt tala fóstureyðinga hefði á vaxtarmegin þjóðarinnar miðað við að fæðingartala breyttist að sama skapi. Eru það þrjú dæmi sem sett eru upp. Í fyrsta lagi, ef fóstureyðingar hefðu að meðaltali verið 250 færri eða um 150 að meðaltali þessi ár, þ. e. 1976 og 1977, hefði vaxtarmegin þjóðarinnar hækkað upp í 0.75% á ári, en það svarar til tvöföldunar þjóðarinnar á 92 árum. Í öðru lagi, ef fóstureyðingar hefðu verið 500 fleiri eða samtals 900 á ári færi vaxtarmegin þjóðarinnar niður í 0% á ári. Þetta þýðir þó ekki að fólksfjölgun stöðvist strax, þ. e. að lifandi fæddir verði jafnmargir og dánir. Vegna aldursskiptingar mannfjöldans nú liði á löngu þar til fólksfjölgun stöðvaðist, svo að að gefnum forsendum næði mannfjöldi á Íslandi um 335 þús. um miðja næstu öld og héldist síðan óbreyttur. Í þriðja lagi, ef fóstureyðingar væru 900 fleiri eða samtals 1300 á ári minnkaði vaxtarmegin þjóðarinnar í -0.38% á ári, en það svaraði til þess að þjóðinni fækkaði um helming á 180–190 árum. Í síðasta dæminu er reiknað með jafnmörgum fóstureyðingum og svarar til tíðni fóstureyðinga í Danmörku árið 1975.

Í útreikningum á vaxtarmegni þjóðarinnar er ekki tekið tillit til fólksflutninga inn og út úr landinu. Ég legg áherslu á að í öllum þessum útreikningum um áhrif fóstureyðinga á vaxtarmegin þjóðarinnar er gengið út frá ákveðnum forsendum varðandi aðra þætti sem eru ákvarðandi um fólksfjöldaspár. Þessar forsendur kunna að sjálfsögðu að geta breyst í einhverju, en samt sem áður hljóta þessar athuganir að gefa hugboð um hversu alvarlegur þáttur fóstureyðingar hljóta að vera fyrir vöxt og viðgang þjóðarinnar.

En hvað sem þessu líður, svo alvarlegt sem það er fyrir þjóðarheildina, varðar frv. þetta fyrst og fremst einstaklinginn, siðferðilega afstöðu og lífsskoðun. Hér er gengið út frá að félagslegar ástæður geti aldrei réttlætt fóstureyðingu. Þetta leiðir af því, að það er um mannslíf að tefla þegar rætt er um eyðingu fósturs. Það er grundvallaratriði að þetta mannslíf hefur rétt til þess að vera borið í þennan heim. Réttinn til lífsins verður að viðurkenna. Það er siðferðisleg skylda að varðveita líf, jafnvel líf ófædds barns. Fóstureyðing á því ekki að koma til greina nema líf móður sé í fyrirsjáanlegri hættu eða telja megi auðsætt að barnið verði svo vangefið að ekki verði komist hjá að grípa til örþrifaráða eða konan hafi verið þunguð af refsiverðu atferli. Á þessari forsendu er frv. þetta flutt.

En fóstureyðingar eru ekki einungis brot á rétti hins veika og varnarlausa mannlega lífs í móðurkviði. Þær fela í sér hættuna á þjóðfélagslegri upplausn. Ef þjóðfélagið viðurkennir að fólk geti notið hamingju, ánægju og unaðar, en það þurfi ekki að bera afleiðingarnar, ef það vill það ekki, þá er það sama þjóðfélag að kippa stoðunum undan sjálfu sér og stefnir til hruns. Þá duga ekki jafnvel félagslegar ráðstafanir. Þá getur til þess komið að jafnvel eigin geðþótti og makræðissjónarmið ráði því, hvort mannlegu lífi er tortímt eða ekki. Fjárhagur og félagsleg aðstoð verður þá aldrei einhlít vörn í þessum vanda, því það er ekki einungis um félagslegt vandamál að ræða, heldur siðrænt vandamál. Til þarf að koma lífs- og manngildismat á siðferðilegum grunni.

Oft liggur leiðin til varanlegrar hamingju gegnum andstreymi, að ófríska konan ali barn sitt og lifi með því og fyrir það. Þau eru óteljandi dæmin um börn sem hafa fengið góða umönnun og gott vegarnesti út í lífið þótt efni hafi verið af skornum skammti. Jafnvel ríkidæmi er engin trygging fyrir því að aðhlynning og uppeldi fari vel úr hendi.

Það verður að byggja á því lífs- og manngildismati sem. er undirstaða íslenskrar menningar og arfleifðar. Samkv. því mati er rétturinn til lífs undirstaða allra annarra mannréttinda. Það er aftan úr grárri forneskju að ætla félagslegum ástæðum að breyta hér nokkru um. Langt er nú um liðið síðan aflagður var sá siður að heimila barnaútburð hér á landi. En barnaútburðurinn var heimilaður af féfagslegum ástæðum þeirra tíma: ómegð, fæðuskorti og öðrum framfærsluvandamálum. Ef fóstureyðing hefði í þá tíð verið framkvæmanleg með sama hætti og nú hefði sú aðferð verið vafalaust notuð í stað barnaútburðar. Það var nefnilega ekki sama hve lífið hafði langt fram gengið þegar því var tortímt. Samkv. Grágás var ekki heimilt að bera út barn eftir að það hafði fengið næringu: Þá hét það morð og varðaði við lög. En verknaðurinn var heimill og löglegur ef barnið hafði ekki fengið næringu. Okkur finnast slík lög og reglur nú víðs fjarri. En árið 1975 setjum við samt lög sem heimila að mannlegu lífi sé tortímt af félagslegum ástæðum og um lögmæti þess fari eftir því hvað þroska þessa lífs sé langt komið. Hér var stigið spor um langan veg aftur á bak, því að félagslegar ástæður eiga aldrei að geta heimilað tortímingu mannlegs lífs, á hvaða þroskastigi sem það er.

Kristilegar siðgæðishugmyndir leiddu til afnáms hins forna siðar um tortímingu mannlegs lífs af félagslegum ástæðum. Síðan hefur þjóðin á löngum ferli við harðæri og áþján megnað að halda í heiðri þau lífsviðhorf sem liggja þessu til grundvallar. Það væri kaldhæðni örlaganna ef þjóðinni ætti ekki að takast þetta á mestu velmegunar- og velgengnistímum sem hún hefur búið við. Með frv. þessu er þess freistað að svo megi verða. Því verður vart trúað að þetta megi ekki takast.

Nú ber hátt umræður um velferð barnsins. Má ekki vænta þess að hið svokallaða barnaár, sem nú stendur yfir, verði okkur einhver hvatning í þessu efni? Hvarvetna í þjóðfélagi okkar leggur sig nú fram velviljað og áhugasamt fólk, einstaklingar og félagasamtök, um að vinna að velferðarmálum barnsins. Aldrei hefur áhugi og skilningur verið meiri á þörfum hinna umkomulausu og varnarlausu en einmitt nú. En ekkert er umkomulausara og varnarlausara en það mannslíf sem á undir högg að sækja um að það fái að vera borið sem barn í þennan heim. Þessa ætti að minnast á sjálfu barnaárinu og raunar alla tíð. Hér er verk að vinna. Hvað væri háleitari hugsjón en að þjóðin setti sér á þessu ári barnsins það markmið, að ekkert íslenskt barn væri óvelkomið í þennan heim af félagslegum ástæðum: Í því trausti er frv. þetta lagt fram.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.