26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

208. mál, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Margt var sem vonlegt var mætavel sagt í máli hv. flm., þó að skoðanir okkar í því meginmáli, sem hann talaði um og er hér með frv. um, fari ekki saman. Ég tek undir margt af því sem hann þar sagði vel og fallega og skal koma örlítið nánar að því, þó ég ætli ekki að upphefja hér neinar allsherjarumræður um þetta mál nú.

Ég tók á sínum tíma þátt í lagasetningu af því tagi sem hér er verið að leggja til breytingar á. Ég tók þátt í því að leggja til þá grein sem hér er lagt til að felld verði niður. Ég þóttist hafa gert það að vel yfirlögðu ráði og að höfðu góðu samráði við samvisku mína. Hitt er svo annað mál, að það er ósköp eðlilegt, eins og hér urðu um deilur á sínum tíma, að þetta mál komi fram aftur og menn vilji skoða það, m. a. í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Þetta mál fer hins vegar til þeirrar n. sem ég á sæti í, svo ég tel óþarft að fara um það mörgum orðum nú, en vil aðeins leggja áherslu á fáein atriði.

Það er nauðsynlegt að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kanni það mjög vel, ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í frv. um fjölgun fóstureyðinga. Ég dreg ekkert úr því, að hér sé um viðkvæmt mál að ræða. Ég dreg ekkert úr því, að hér er komið að mörkum sem okkur er sannarlega vandi á höndum að setja þannig að séu sem réttlátust og taki um leið tillit til sem flestra mannlegra sjónarmiða í þessu efni.

Ég lagði á það áherslu þegar þetta mál var hér til umr. á sínum tíma, að ég vildi leggja mikinn þunga á sjálfsákvörðunarrétt konunnar í þessu efni. Ég geri það enn og aftur. Ég gerði það m. a. á þeim forsendum sem ég er jafnsannfærður um og ég var þá, að fóstureyðing hljóti ævinlega að vera neyðarúrræði konunnar. Og mín skoðun, þrátt fyrir það sem segir í grg. frv., hefur þar ekkert breyst. Við fengum ýmis sjónarmið á þá nefndarfundi sem við héldum marga um þessi mál á sínum tíma, misjafnar skoðanir hinna færustu manna þar um. En þó voru þeir, sem gleggst máttu hér um fjalla og best vit áttu að hafa á, nokkuð á einu máli hér um, á þann hátt sem breytingin varð á sínum tíma, í átt til þess sem sagt er frjálsari fóstureyðingar — eða kannske í átt frá ólöglegum fóstureyðingum mætti jafnt kalla það eða fóstureyðingum erlendis.

Varðandi spurninguna um þá fjölgun fóstureyðinga sem vitnað er til í grg., þá held ég að það væri kannske það þarfasta sem við gerðum í þeirri n., sem fjallar um þetta mál, heilbr.- og trn., að reyna að átta okkur á því, hvað hefði valdið þeim fjölgunum sem hér er um að ræða og ég efa ekki að sé nákvæmlega rétt. Það voru nefnilega uppi sterkar grunsemdir um það, sem ekki tókst að kveða niður, að þeir, sem á því höfðu efni, leituðu til útlanda með fóstureyðingar af þeim sömu ástæðum sem og kannske enn síðri ástæðum en það sem við köllum félagslegar ástæður. Það voru einnig uppi sterkar grunsemdir um það, að framkvæmdar væru ólöglegar fóstureyðingar og þeim grunsemdum var ekki heldur eytt. Um þetta verður kannske seint fullyrt, en engu að síður hlýtur það að koma inn í þetta dæmi þegar fjallað er um að fella niður þessa heimild sem vegur hér sannarlega þungt. Ég tek afstöðu mína enn sem fyrr, eins og ég sagði, varðandi þetta mál, afstöðu byggða á þeirri sannfæringu minni að sjálfsákvörðunarréttur konunnar í þessu efni hljóti að vera það sem við eigum að taka mest tillit til, þó fleira komi þar vissulega inn í.

Ég vil sem sagt líka vita um það og fæ upplýsingar um það í hv. n., hvort, eins og sagt er í grg., þetta er reynsla okkar af því að heimila fóstureyðingar af svokölluðum félagslegum ástæðum, að hve miklu leyti sú fullyrðing í grg. á við rök að styðjast. En svo að við víkjum að hinum félagslegu aðstæðum, þá kom hv. flm. þessa frv. beinlínis þar inn á. Hann segir þar margt í grg. og hann taldi upp enn fleiri atriði í máli sínu sem ég get verið honum hjartanlega sammála um og get tekið algerlega undir. En þegar hann ræðir um félagslegar ástæður og segir að þjóðfélag okkar eigi ekki að vera þannig að þær félagslegu ástæður, sem eiga að vera forsenda þessara heimilda, eigi hreinlega ekki að vera til, þá kemur hann engu að síður inn á það í grg. að mörgu sé enn ábótavant, að mörgu þurfi enn að hyggja. Síðan kemur löng upptalning á því sem þurfi úr að bæta og gera í þessum málum, og ég skal sannarlega taka undir með flm. og fylgja honum og þá væntanlega hans flokki í því að koma fram þeim úrbótum sem þar um ræðir og okkur hefur stundum ekki þótt vera allt of mikill áhugi á sums staðar í þeim röðum. Hann tók einnig fram í sinni framsögu veigamikil tryggingaleg atriði sem þarna kæmu inn í einnig, og ég skal sannarlega taka undir þau líka. Og þegar allt þetta er til framkvæmda komið, sem hv. flm. réttilega benti á að við ættum að stefna að, þá skal ég vera til viðræðna um breytingar hér á, en fyrr ekki.

Ég segi það enn og aftur, að hér eru það forsendur konunnar sem ég álít að eigi að ráða mestu, að konan sjálf beri þarna ábyrgð. Hún fær til þess ráðgjöf, fyrir því er séð í lögum, hún fær leiðbeiningar. Það er ekki rasað að neinu um ráð fram í því efni. En skoðun mín er sú, að enginn utanaðkomandi aðili geti þarna tekið ákveðnari og skýrari afstöðu en einmitt konan sjálf.