26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3558 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

208. mál, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. hafa nú rætt hér um frv. það, sem ég ber fram og er til umr., og eru ekki alls kostar sammála mér um það. Þó verð ég að segja að margt í því, sem þessir ágætu hv. þm. sögðu, fellur mér ekki illa, og ég vona að þegar grannt er skoðað séum við ekki ósammála með öllu í þessum efnum, enda kom það greinilega fram bæði hjá hv. 3. þm. Austurl. og hv. 8. landsk. þm. Mér virðist þó að eins og stendur greini okkur nokkuð á í grundvallaratriðum.

Hv. 3. þm. Austurl. lagði áherslu á það sem hann kallaði sjálfsákvörðunarrétt konunnar, og hv. 8. landsk. þm. sagði að frjálsræði einstaklingsins mætti ekki skerða. Þetta sögðu þeir til stuðnings þeirri skoðun sinni, að það ætti að vera konan sem réði eða tæki ákvörðun um það hvort fóstri yrði eytt. Um þetta er ég ekki sammála. Ég vona að ég geti talist eins mikill unnandi frelsisins og hv. 3. þm. Austurl. og hv. 8. landsk. þm. þó ég fallist ekki á þessa skoðun þeirra. Og mér finnst ástin á frelsinu ganga nokkuð langt ef hún á að ganga svo langt að menn hafi frelsi til þess að skerða frelsi annarra. Þar skilur á milli.

Hv. 3. þm. Austurl. sagði að það væri þýðingarmikið að það yrði rannsakað, hvernig stæði á því að fóstureyðingum hefði fjölgað svo mjög sem raun ber vitni um eftir að lögin frá 1975 voru sett. Ég hélt því fram að það væri vegna þess að tekin hefði verið upp heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum. Í mínum huga er enginn vafi á því að þetta er ástæðan. Ég vil ekki fullyrða að það geti ekki eitthvað fleira komið þarna inn í dæmið, eins og hv. 3. þm. Austurl. nefndi, að það væri minna um fóstureyðingar hjá íslenskum konum erlendis en áður. En skv. heitbrigðisskýrslum heilbrigðisstjórnarinnar í Bretlandi fyrir 1974 kemur fram að það eru 23 íslenskar konur sem létu eyða fóstri í Bretlandi það ár. Ég hygg að slíkar tölur breyti ekki heildarmyndinni. Auðvitað hefur verið hægt að framkvæma þessa aðgerð á íslenskum konum víðar en í Bretlandi, en ég hygg að það muni þó aðallega hafa verið til Bretlands sem konur sóttu í þessu sambandi. Við lendum í miklum vanda, ef við gefumst upp við þá mótun löggjafar í þessu landi sem við teljum heilbrigða, eðlilega og nauðsynlega einungis vegna þess að einhverjir geti skotið sér undan lögum með því að geta farið til útlanda. Og þá getum við ekki heldur tekið mark á slíkum sjónarmiðum í því alvarlega máli sem þetta frv. fjallar um.

Hv. 8. landsk. þm. sagði að hann kynni illa við orð sem væru í grg. frv. og ég mun hafa einnig notað í ræðu minni áðan. Það er: að tortíma mannlegu lífi. Það má nota ýmis önnur orð. Ég sé nú ekki annað en að það sé réttnefni, að þegar líf er deytt sé því tortímt. En ég fer ekki út í málssmekk okkar hv. 8. landsk. þm. í þessu efni og skal ekki gera upp á milli hans.

Þá fór hv. 8. landsk. þm. nokkrum orðum um það, að takmörk væru fyrir því hve langt væri hægt að snúa til baka aftur í tímann. Hann taldi að með frv. því, sem hér er til umr., væri tekið harla langt stökk aftur í tímann, þ. e. a. s. ef við ætluðum að hverfa frá því sem við tókum upp 1975: að leyfa fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Mér finnst það ekki að fara langt aftur í tímann.

Hins vegar finnst mér það vera að fara harla langt aftur í tímann að viðurkenna félagslegar ástæður sem ástæður fyrir því að tortíma mannlegu lífi, því það hygg ég, eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni, að hafi ekki verið gert síðan afnumin voru ákvæði, um barnaútburð hér á landi.

Hv. 8. landsk. þm. fór nokkrum orðum um Evrópuþingið að gefnu tilefni. Ég vék að því. Hann taldi að þar hefði gætt mikilla kaþólskra áhrifa og þess vegna hefði heimild til fóstureyðinga í frjálsræðisátt ekki náð þar fram að ganga. Ekki er ég kaþólskur, en ég greiddi þó atkv. hér á móti, og það hygg ég að margur hafi gert sem ekki var kaþólskur. Ég gat þess í ræðu minni áðan, að nú færi um lönd hreyfing í þá átt að auka hömlur á heimild til fóstureyðinga. Það er í öfuga átt við það sem þróunin hefur verið hér á landi undanfarið. Og þessa gætir, eftir því sem ég best veit og ég vil leyfa mér að fullyrða, algjörlega án tillits til þess hvort menn eru kaþólskir eða ekki kaþólskir. Ég tók það reyndar fram, að þessara áhrifa gætti jafnt austan tjalds sem vestan, og ég hygg að kaþólska kirkjan hafi engin sérstök áhrif þar fram yfir ýmsa aðra aðila, enda er kaþólska kirkjan misjafnlega sterk í hinum einstöku þjóðríkjum eins og við þekkjum vel.

Ég veit að hv. 8. landsk. þm. hefur ekki ætlað sér að gera neitt lítið úr þeim aðvörunum sem ég var með um áhrif fóstureyðinga, ef þær ganga sérstaklega út í þær öfgar sem ég nefndi dæmi um í öðrum löndum, hvaða áhrif það gæti haft á vöxt og viðgang íslensku þjóðarinnar. Og ég veit að þó hann minntist á Napóleon í þessu sambandi, þá er hann ekki að gera mér það upp að fyrir mér vaki að hafa nægilegt fallbyssufóður, eins og hann sagði Napóleon hafa haft í huga. Þetta er allt of alvarlegt mál til þess að rugla þessu saman.

Eins og ég tók fram áðan þykist ég vita að ég og þessir tveir hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, höfum ýmislegt sameiginlegt í þessu efni. Ég efast ekki um að þeir hafi sama áhuga og ég á því að koma á þeim félagslegu umbótum sem nauðsynlegar eru og þarf til þess að fjarlægja þau vandamál sem nú eru látin heimila fóstureyðingu. En ég vona að menn geti fallist á að það er ekki rétt að láta félagslegar ástæður heimila fóstureyðingu þó að það sé ekki búið að koma í framkvæmd öllum þeim umbótum á félagslegu sviði sem stuðla að því að leysa þessi vandamál.

Ég lagði líka áherslu á það, að svo gæti farið að þetta mál yrði miklu meira en félagslegt vandamál, það væri siðferðilegt vandamál. Og það er þessi heimild sem nú er í lögum um að það megi eyða fóstri af félagslegum ástæðum sem getur ýtt undir að gera þetta mál að miklu meira siðferðilegu vandamáli en nú er orðið í dag.

Ég vænti þess, að hv. heilbr.- og trn. afgreiði þetta frv. svo fljótt sem verða má. Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla að það skipti mjög miklu máli að hafa þetta mál lengi í n. Að sjálfsögðu vil ég ekki mælast til þess eða ætlast til þess að n. vinni ekki störf sín af fyllstu kostgæfni og samviskusemi. En ég tók það fram í minni frumræðu og ég vil leggja áherslu á það einnig nú og með tilliti til þess hraða sem ég vænti að verði á þessu máli, að við látum barnaárið, það ár sem nú er að líða, vera okkur nokkra hvatningu í þessu efni.

Eins og ég sagði er það velviljað fólk, einstaklingar og félagasamtök, sem nú berjast góðri baráttu til þess að koma hinum ýmsu málum fram í þágu barnsins. Ég verð að segja það, að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum að hafa ekki tekið eftir því, að það hefði komið fram hjá þessum aðilum líka sá þátturinn að vinna að því að barnið þurfi ekki að sækja undir högg til þess að fá að fæðast í þennan heim. Víða er umkomuleysi og víða er varnarleysi, en hjá engum meira en einmitt þeim sem svo er ástatt um.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi að fjölyrða frekar um þetta mál og læt máti mínu lokið.