26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og launa í sjúkdóms- og slysaforföllum og ríkisstj. hefur samþ. að standa að, hefur verið kynnt og rætt við fulltrúa launþegasamtakanna, Vinnuveitendasamband Ístands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna.

Fulltrúar vinnuveitenda hafa mótmælt setningu þessara laga, bæði af formsástæðum, en raunar einnig efnislega að hluta. Hvað formið varðar telja þessir aðilar að hér sé á alls óviðunandi og íþyngjandi hátt seilst með einhliða valdboði inn á samningssvið sem sé löggjafanum óviðkomandi, eins og segir í grg. Vinnuveitendasambandsins um málið. Erfitt er að taka svona staðhæfingar alvarlega.

Er þess fyrst að gæta, að lagasetning um uppsagnarfrest og sjúkdóms-og slysagreiðslur til verkafólks er ekki nýmæli í íslenskri löggjöf. Við höfum nú um 20 ára skeið búið við löggjöf í þessum efnum, lög nr. 16 frá 9. apríl 1958. Getur það því vart talist óviðunandi og íþyngjandi íhlutun um mál sem sé löggjafanum óviðkomandi þótt ákvæði þessara laga séu tekin til endurskoðunar og færð í það horf sem breyttir tímar og ný viðhorf til almennra mannréttinda gera tilkall til.

Hins er einnig að gæta, að löggjafinn hefur þráfaldlega talið sig til þess knúinn að grípa inn í gerða kjarasamninga með þeim hætti að umsamdar launahækkanir hafa ýmist verið felldar alveg niður eða þeim breytt með ráðstöfunum í verðlags- og skattamálum, jafnvel skipt á þeim og úrbótum í réttinda- og félagsmálum. Slíkt gerðist fjórum sinnum á síðasta ári. Ég hef ekki orðið var við að vinnuveitendur kvörtuðu undan því, að slíkar ráðstafanir væru ósæmileg íhlutun í samningssvið sem löggjafanum væru óviðkomandi. Þvert á móti hafa þeir látið sér slíkt vel líka og raunar stundum kvartað undan því, að ekki væri nógu langt gengið, eins og skeði í tengslum við ráðstafanirnar 1. des. s. l. þegar 6% launahækkun af þeim 14%, sem launþegar áttu samningsbundið tilkall til, var talin allt of mikil og yfir því kvartað að atvinnureksturinn fengi ekki undir slíkri hækkun staðið.

Ef samningsrétturinn væri vinnuveitendum svo heilagur sem þeir nú vilja vera láta hefði þeim borið að mótmæla kröftuglega a. m. k. fjórum sinnum áður á síðasta ári einu saman, en ekki þá fyrst er verkafólk fær að endurgjaldi fyrir verulega eftirgjöf af umsaminni kauphækkun sjálfsagða leiðréttingu á lágmarksréttindum til atvinnuöryggis og afkomuöryggis þegar veikindi eða slys ber að garði.

Ég tel ekki þörf á að fara mörgum orðum um efni frv. eða einstakar greinar þess og vísa í því efni til þeirra aths. sem frv. fylgja. Ég mun þó ræða nokkuð um helstu breytingar frá gildandi lögum sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Réttur verkafólks til eins mánaðar uppsagnarfrests frá störfum er rýmkaður frá því sem nú er. Honum er breytt á þann veg, að eins árs samfellt starf innan sömu starfsgreinar nægir, en skv. eldri lögum þarf launþegi að vinna eitt ár samfellt hjá sama atvinnurekenda. Rétturinn er hins vegar takmarkaður við störf hjá aðilum sem fást við atvinnurekstur og nær því t. d. ekki til einstaklinga sem ráða verkafólk tímabundið til starfa, svo sem við húsbyggingu og þess háttar. Það er nýmæli að lögfesta með þessum hætti tiltekinn réttindaávinning með samfelldu starfi innan ákveðinnar starfsgreinar þótt hliðstæð ákvæði sé víða að finna í vinnulöggjöf nálægra þjóða. Raunar eru slík ákvæði þegar komin inn í kjarasamninga a. m. k. eins starfshóps hér á landi, þ. e. Sambands byggingarmanna. Þetta nýja ákvæði kemur einkum til góða því fólki sem stundar margvíslega árstíðabundna atvinnu, t.d. í fiskiðnaði, og hefur fram til þessa ekki náð að öðlast rétt til marktæks uppsagnarfrests. Jafnframt er þó með ákvæði í 1. málsgr. 1. gr. girt fyrir misnotkun þessara réttinda með því að setja það skilyrði, að rétt og löglega hafi verið staðið að brotthvarfi úr vinnu hjá fyrri atvinnurekanda. Auk þess koma inn ný ákvæði um lengri uppsagnarfrest þeirra sem hafa verið ráðnir samfellt hjá sama atvinnurekanda um tiltekið árabil. Eftir þriggja ára ráðningu kemur tveggja mánaða uppsagnarfrestur og eftir fimm ára ráðningu þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Ég vænti þess, að enginn hv. þm. telji það ofrausn að verðlauna með þessum hætti tryggð verkafólks við sinn vinnustað.

Í 4., 5. og 6. gr. er svo kveðið á um rétt til launa í veikinda- og slysatilfellum. Er sá réttur verulega mikið rýmkaður frá gildandi lögum, en þó á þann hátt að atvinnurekendum er gert mögulegt að tryggja sig fyrir þeim aukna tilkostnaði sem getur orðið samfara þessum breytingum.

Að vísu er þess að geta, að það getur skapað ákveðið vandamál um kaup á slíkum tryggingum, að hámarksréttur til veikinda- og slysagreiðslna innan sama 12 mánaða tímabils er ekki takmarkaður í 5. gr. Eins og frv. er nú getur sami starfsmaður átt rétt til þessara greiðslna oftar en einu sinni á sama ári. Hefur Vinnuveitendasamband Íslands bent sérstaklega á þetta í bréfi til hæstv. forsrh. frá 25. þ. m.

Þess er þó að gæta, að þau réttindi, sem verkafólki eru veitt með 5. gr. frv. til viðbótar þeim réttindum sem það nú þegar hefur, eru takmörkuð við tiltölulega þröngan hóp eða þá eina sem hafa unnið samfellt í 3 ár annars vegar og 5 ár hins vegar hjá sama vinnuveitanda. Þau koma því aðeins til góða því fólki sem sýnt hefur sig að því að vera traust og áreiðanlegt og ekki þarf að óttast að misnoti slík réttindi.

Á hitt vil ég líka benda, að þótt ekki sé til í reglum tryggingafélaganna í dag iðgjaldagrundvöllur fyrir þessari endurtekningaráhættu er ekkert vafamál að um slíkan grundvöll geta atvinnurekendur samið við tryggingarfélögin þegar það verður orðið nauðsynlegt. Hins vegar verður ekki fullyrt um það nú, hve há iðgjöld kann að semjast um vegna endurtekningaráhættunnar.

Í bréfi sínu til hæstv. forsrh., sem ég áður vitnaði til, leggur Vinnuveitendasambandið þunga áherslu á að staðgengisreglan verði algjörlega numin úr gildi. Nú skal ég játa það fúslega að ég tel þessa reglu alls ekki gallalausa, langt frá því. En við skulum minnast þess, að þessi lög eru ásamt fleirum að hluta til hugsuð sem endurgjald til verkafólks fyrir verulega eftirgjöf á launagreiðslum sem það átti samningsbundið tilkall til. Það endurgjald hefur ríkisstj. ekki hugsað sér að greiða með því að skerða þann rétt sem verkafólk hefur nú þegar skv. gildandi lögum.

Í 4. gr. er öllu verkafólki, sem slasast í vinnuslysi eða veikist af sjúkdómi sem rakinn verður til þeirrar vinnu sem það stundar, tryggður réttur til dagvinnulauna í þrjá mánuði. Rétturinn takmarkast þó við þá aðila sem stunda atvinnurekstur, og er þannig fyrir það girt að t. d. einstakur húsbyggjandi, sem þarf að ráða fólk til ýmissa starfa tímabundið, geti þurft að greiða slíkar veikinda- og slysabætur.

Í 5. gr. er lagt til að fastráðið verkafólk haldi þeim rétti sem það nú þegar hefur til greiðslu svonefndra staðgengislauna í einn mánuð í öllum veikinda- og slysatilfellum, til viðbótar komi svo daglaun í einn mánuð eftir þriggja ára ráðningu og í tvo mánuði eftir fimm ára ráðningu hjá sama atvinnurekanda. Hér liggur aftur til grundvallar sú hugsun, sem ég veit að vinnuveitendur eru efnislega sammála um, að eðlilegt sé að launa tryggð við ákveðinn vinnustað með auknum starfsréttindum. Réttur verkafólks til þessara greiðslna er einungis háður fastráðningu um tiltekið árabil. Hins vegar skiptir það ekki máli hver er orsök veikindanna eða hvar launþegi verður fyrir slysi. Þegar þetta fastráðna fólk lendir hins vegar í eiginlegu vinnuslysi eða veikist af atvinnusjúkdómi getur það átt rétt til dagvinnulauna í allt að þrjá mánuði til viðbótar. Hámarksréttur til launa væri þannig í alvarlegustu vinnuslysum og atvinnusjúkdómum eftir 5 ára samfellda ráðningu hjá sama vinnuveitanda orðinn sex mánuðir og þar af einn eftir staðgengisreglunni.

Skv. 6. gr. fær verkafólk á fyrsta starfsári viðurkenndan rétt til staðgengislauna í tvo daga fyrir hvern unnin mánuð í stað eins, eins og nú er í flestum kjarasamningum, og er það eina tilfellið þar sem staðgengisreglan er útvíkkuð.

Loks er í 7. gr. ákvæði um lágmarksframlag til sjúkrasjóða verkafólks sem vera skal 1% af úfborguðu kaupi. Slíka sjúkrasjóði hafa flestir launþegar nú þegar, þó ekki verslunarfólk, og iðgjald er víða í samningum hærra en 1%. Það kann að virðast ofrausn að viðhalda þessum greiðslum eftir þá miklu aukningu á launagreiðslum í veikinda- og sjúkdómstilfellum sem frv. gerir ráð fyrir. Hér er þó þess að gæta, að þótt þetta frv. verði að lögum eru réttindi nokkurs hluta verkafólks þó enn ótrygg og geta sjúkrasjóðir því vissulega haft mikilsverðu hlutverki að gegna áfram.

Eins kemur það til, að mikill áhugi er á því að taka upp reglubundið eftirlit með heilsufari alls verkafólks, t. d. með læknisrannsókn á tveggja ára fresti og oftar hjá því fólki sem starfar á vinnustöðum þar sem sérstök hætta er á atvinnusjúkdómum, t. d. vegna hávaða eða rykmengunar. Er ráðgert að setja slík ákvæði í lög þau, sem nú er verið að vinna að, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem ég vona að hægt verði að leggja fram hér á hinu háa Alþ. eftir eina til tvær vikur. Þykir mér eðlilegt að sjúkrasjóðirnir verði látnir koma þar til og greiða kostnað af slíku eftirliti eftir því sem aðstæður þeirra og geta gefur tilefni til.

Herra forseti. Að öðru leyti vísa ég til þeirra aths. sem frv. fylgja. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. þessarar hv. d., og vona að sú n. afgreiði það fljótlega frá sér. Einnig legg ég til að því verði vísað til 2. umr.