26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er meðferð frv. til laga um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslensku krónunnar sem lagt var fram í Ed. fyrstu dagana sem Alþ. sat og er 7. mál á þessu þingi. Það kom um miðjan desembermánuð til Nd. og var vísað til fjh.- og viðskn. sem hafði þetta frv. til meðferðar alllengi, en tók sig að lokum til og afgreiddi málið. Nefndin klofnaði um afgreiðslu málsins. Minni hl. skilaði sínu nál. 7. mars, meiri hl. n. skilaði sínu nál. 9. mars.

Fyrir viku spurði ég hæstv. forseta Nd. um hvernig á því stæði að þetta frv. væri ekki tekið til 2. umr. hér, svo langt sem liðið er frá því að n. skilaði áliti. Þegar þar við bætist að hér er um að ræða skiptingu á um 7 500 millj. kr. samkv. brbl., sem gefin voru út 5. sept. um ráðstöfun gengishagnaðar, og staðfestingu þess frv. sem lagt var fram í þingbyrjun, þá hefði ég talið — og ég vona að þm. geti verið mér sammála — að það liggi á að afgreiða slíkt mál.

Í Ed. var þetta mál afgreitt, eins og ég sagði áðan, fyrir miðjan desember. Þar skila fjórir nm. áliti og þar af skrifar einn undir álitið með fyrirvara, tveir nm. skila séráliti og einn nm. var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Í Nd. gerist það, að tveir nm. í fjh.- og viðskn., formaður n. og 3. þm. Suðurl., hafa lagt fram brtt. við frv., eðlilega brtt. sem ég ætla ekki að ræða fyrr en málið kemur til umr., og enn fremur höfum við nokkrir aðrir þm. lagt fram aðra brtt.

Ég tel í hæsta máta óeðlilegt, að mikilvægt stjfrv. skuli þvælast hér fyrir Alþ. allan veturinn, og skil ekki hvernig á því stendur að það sé legið á því að taka það fyrir. En hugboð hef ég um að hæstv. forseti hafi fyrir rúmri viku verið beðinn um að taka málið ekki fyrir, hæstv. forseti sem er nú fjarverandi, en 1. varaforseti gegnir nú störfum hans. Ég spyr því hæstv. forseta hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að taka þetta mikilvæga mál til umr. og afgreiðslu. Það er mikilvægt, eins og ég sagði áðan og ég ætla ekki að tengja þessar umr. með því, en ég legg á það ríka áherslu að við því verði orðið. Ég skil ekki annað en að hæstv. ríkisstj. hljóti að leggja áherslu á að þau frv. sem hún leggur fyrir Alþ., fái eðlilega þingmeðferð.