26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í þessu frv. er miðað við 20 lengdarmetra. Hér er um tvö ákaflega takmörkuð svæði að ræða og við flm. þessa frv. höfum miðað við 20 lengdarmetra, en það er sama stærð og gildir um dragnótaveiði. Í raun og veru eru þarna bátar af þeirri stærð og við teljum ekki eðlilegt að það séu heimilaðar á þessu svæði eingöngu dragnótaveiðar, heldur einnig botnvörpuveiðar. Það er þrjár stærðir: 20 lengdarmetrar, 26 lengdarmetrar og 39 lengdarmetrar, í núgildandi löggjöf, og við töldum eðlilegt, þar sem hér væri um afmörkuð svæði að ræða, að miða þetta við minnstu gerð. Eftir því sem fleiri hafa heimild til veiða á þessu svæði, því þrengra verður og minna er upp úr því að hafa og meiri erfiðleikar að gera upp á milli þeirra sem um leyfi sækja, svo að þetta atriði er fullkomlega viljandi gert, að vera ekki að miða þessa stærð við 26 m, heldur 20.

Ég get látið í ljós þá skoðun mína varðandi möskvastærð, að ef frv. fær afgreiðslu og samþykkt verður að heimila togveiðar á þessum tveimur svæðum, þá tel ég eðlilegt að þá sé gildandi sú möskvastærð sem er í togveiðarfærum almennt á hverjum tíma og ekkert frábrugðið á þessu svæði frá öðrum.

Ég ætla ekki að ræða um það, hvort fiskifræðingum finnst þetta svæði of lítið. Við erum auðvitað til umræðu um það. Hér eru tiltekin þau svæði sem áður voru leyfðar veiðar á eins og þessar, og það kemur mér nokkuð á óvart að heyra það frá hæstv. sjútvrh. að fiskifræðingar viti ekki um skarkola á nyrðra svæðinu. Þetta er margkannað svæði og þarna áttu dragnótaveiðar sér stað. Ég er hræddur um að það hafi einhver svarað þessu þar sem hefur ekki verið almennilega vaknaður.