26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

188. mál, Byggingarsjóður ríkisins og íbúðalán

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóð svör við spurningum mínum. Þessi svör eru þess eðlis, að þau gætu gefið tilefni til margháttaðra umr. um þessi þýðingarmiklu mál. Ég ætla mér þó ekki að fara að hefja almennar umr. um þessi mál, en aðeins víkja að nokkrum þýðingarmiklum atriðum sem svar hæstv. ráðh. gefur tilefni til.

Hæstv. ráðh. gaf okkur upp hvað væri áætlað að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs næmi miklu á þessu ári, og það voru rúmir 12 milljarðar. Hann gaf okkur einnig upp hverju var áætlað að útlán Byggingarsjóðs mundu nema, en það voru rúmir 14 milljarðar kr. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir meiri útlánum en nú liggur fyrir að fjármagn hrökkvi til. Ég geri ráð fyrir að þessi áætlun sé sett upp í trausti þess, að leyst verði úr þessum málum þannig að nægilegt ráðstöfunarfé verði til að mæta fyrirhuguðum lánveitingum. Ég þekki það af nokkurri reynslu, að stundum hefur komið fyrir að stjórnvöld hafa ætlað að bæta úr slíkum vanda sem hér er fyrir hendi, en minna hefur orðið um framkvæmdir en ætlað var. Við skulum vona að slíkt verði ekki.

Annað mál, sem varðar þessar spurningar, er það, hve lánin eru há í hlutfalli við byggingarkostnað. Samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, og miðað við að lánveitingar verði í samræmi við það ráðstöfunarfé sem nú er fyrir hendi, eða rúmir 12 milljarðar kr., hefur ráðstöfunarfé aukist um tæp 20% frá því á árinu 1977. En ef við reiknum með að hægt sé að auka þetta ráðstöfunarfé, eins og ráðh. gerði ráð fyrir, upp í rúma 14 milljarða hefur ráðstöfunarfé hækkað um tæp 40%. Á sama tíma sem ráðstöfunarfé hækkar við skulum segja um 40% hækkar lánsupphæð almennra íbúðarlána, þ. e. a. s. f. lána, um 50%. 1978 voru þau 3.6 millj. kr., en í ár eru þau 5.4 millj. kr. Þetta er 50% hækkun. Nú sýnist mér þetta benda til þess, að ætlunin sé að draga úr byggingarframkvæmdum á þessu ári frá því sem var á síðasta ári, því jafnvel þó að við reiknum með að þeir 2 milljarðar fjár, sem enn er óútvegað, fáist og verði fyrir hendi nægir það ekki til að mæta þeirri hækkun á lánsupphæðinni sem hefur orðið frá síðasta ári.

Þetta er, að ég hygg, allalvarlegt mál að ýmsu leyti. Ég skal ekki fara frekar út í það, en bendi á þetta. Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að ekki ætti að reikna með fullri upphæð áætlunar um útlán á þessu ári vegna þess að öll útlán, sem nú eru áætluð, komi ekki til úfborgunar á þessu ári. Það er rétt. En hæstv. ráðh. minntist ekki á það að til útborgunar koma á þessu ári ýmis lán sem voru ákveðin á síðasta ári. Ég hygg að þetta jafni sig nokkuð upp þannig að það sé ekki mikið traust í þessari röksemd.

Ég sagði, hæstv. forseti, að þessi svör gæfu tilefni til margháttaðra umr. um húsnæðismálin. Það er ekki staður né stund til þess nú, en mér þótti samt rétt að vekja athygli á þeim atriðum, sem ég hef hér rætt um, og vænti þess, að hæstv. ráðh. taki þau til nánari athugunar, um leið og ég þakka honum fyrir svör hans.