26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3585 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

188. mál, Byggingarsjóður ríkisins og íbúðalán

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal fylgja þingsköpum og gera aðeins örstutta aths.

Hæstv. ráðh. sagði að það hefði þurft að taka af tekjum Byggingarsjóðs og færa til Framkvæmdasjóðs vegna þarfa atvinnuveganna. Ég efast ekki um að atvinnuvegirnir eru í þörf. En það heyrir til góðra stjórnarhátta í þessum efnum að ekki þurfi að rýra tekjur Byggingarsjóðs til þess að leysa mál atvinnuveganna, vegna þess að Byggingarsjóður er mjög þýðingarmikill, eins og ég veit að við erum sammála um.

Ég vil aðeins láta það koma fram, sem mér láðist reyndar áðan, að það er hálfömurlegt til þess að víta, að á þeim áratug, sem nú er að líða, hefur okkur ekkert miðað áfram í því efni, sem er grundvallaratriði varðandi þessi mál, að íbúðalán húsnæðismálastjórnar geti orðið meirihluti eða hlutfallslega meiri miðað við byggingarkostnað en nú er. Um 1970 og þar áður námu íbúðarlánin u. þ. b. 40% af byggingarkostnaði. Við höfum verið allan þennan áratug, sem nú er að líða undir þessu marki. Og það miðar ekkert áfram enn þá. Ef við tölum um þarfir Byggingarsjóðs miðað við að okkur miði ekki áfram í þessu efni, sjáum við að þarfirnar verða ærið miklar,ef við setjum okkur það mark að miði áfram.