26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram í ræðu fyrirspyrjanda, að lög um síldarleit úr lofti eru frá 1954. Síldarleitarnefnd starfaði á sínum tíma einmitt með stoð í lögum þessum, sem eru reyndar nr. 56 frá 21. apríl 1954. Síldarleit úr lofti fór seinast fram árið 1968, en í desember 1972 voru nm. leystir frá störfum og nefndin lögð niður þar sem forsendur síldarleitar voru brostnar með hvarfi síldarinnar. Þetta ætti að svara þeim hluta fsp. sem varðar verkefni síldarleitarnefndar s. l. áratug.

Seinasta yfirlit yfir tekjur og gjöld nefndarinnar er að finna í reikningum Síldarverksmiðja ríkisins frá árinu 1968. Á s. l. áratug er því hvorki um tekjur né gjöld að ræða. Eignir síldarleitarnefndar eru húseign á Raufarhöfn, einnar hæðar, ca. 60 fm, ásamt einhverjum húsmunum. Þetta hús er í umsjá Síldarverksmiðja ríkisins. Enn fremur er innstæða á ávísanareikningi í Útvegsbanka Íslands, 346 881 kr., um seinustu áramót. Þetta er um eignir síldarútvegsnefndar að segja.

Varðandi spurninguna um endurskoðendur er því til að svara, að nefndin hafði aldrei neina endurskoðendur, en Kristinn Baldursson starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins annaðist fjármálin.

Af þessu sést að verkefni nefndarinnar og starfræksla hafa engin verið síðan 1968. Nm. voru leystir frá störfum 1972, en nokkrar eignir tilheyra nefndinni, sem eru í umsjá Síldarverksmiðja ríkisins.