26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

347. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 396 fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh., sem er svo hljóðandi:

„Hvað liður könnun ríkisstj. á því, á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni, samkv. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 28 11. maí 1977.“

Bráðabirgðaákvæðið, sem vitnað er til, er þannig, með leyfi forseta:

„Fyrir 1. janúar 1978 skal ríkisstj. kanna, á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof, og tryggja tekjustofna í því skyni. Niðurstöður þessarar könnunar skal leggja fyrir Alþingi.“

Við Þórarinn Þórarinsson fyrrv. alþm. vorum flm. að bráðabirgðaákvæði þessu á þinginu 1976–1977 og var það samþ: á hv. Alþ. 2: maí 1977. Þegar lagasetningin um fæðingarorlof var samþ., sem var breyt. á lögum um atvinnuleysistryggingar, kom fram að sú löggjöf væri bráðabirgðalausn, en stefna yrði að því að allar konur í landinu sætu við sama borð í þessu efni. Rétta fyrirkomulagið væri að slíkar greiðslur yrðu látnar heyra undir almannatryggingar, og ekki mætti dragast að koma þessu réttlætismáli í höfn. Það kom fram hjá mörgum hv. þm., þegar lagasetningin um fæðingarorlofið var lögfesti, að stuðningur við málið í þeim búningi, sem það var þá í, væri með þeim fyrirvara að án tafar yrði málið athugað og sett í þann farveg sem að framan greinir. Þegar frv. kom fram um breyt. á fyrrgreindum lögum og liðin voru þá tvö ár frá samþykkt laganna án þess að heyrst hefði um að í gangi væri endurskoðun á því veigamikla atriði að fæðingarorlofið næði til allra kvenna í landinu, þá sáum við Þórarinn Þórarinsson að eitthvað yrði að gera frekar í málinu og fluttum því brtt. við fram komið frv., eins og að framan greinir.

Hv. þm. Helgi Seljan varð á undan mér á síðasta þingi að bera fram fsp. um það, hvernig athugun þessari liði, en því miður kom í ljós að mjög lítið hafði verið gert í málinu. Hins vegar hefði mátt gera ráð fyrir, að sú fsp. ýtti af stað könnun. En nú er liðið rúmt ár síðan þessari könnun átti að vera lokið samkv. bráðabirgðaákvæðinu og er því fsp. fram sett, þar sem niðurstöður könnunarinnar átti að leggja fyrir Alþ. þegar henni væri lokið og enn hefur ekkert af henni heyrst.

Ég man að í umr. um þetta mál voru bændakonur sérstaklega tilnefndar og þær konur sem ekki geta unnið úti, m. a. vegna fjölskyldustærðar. Ég held að enginn geti neitað því, að engar konur hafi meiri þörf fyrir fæðingarorlof en konur sem bundnar eru við heimili sín yfir stórum hóp barna. Ég hef líka orðið áþreifanlega var við að mikill áhugi er á því að viðunandi lausn finnist á þessu máli, því mikið er spurt eftir því, hvað könnun þessari líði. Það er ekki vansalaust að stjórnvöld skuli ekki láta framkvæma slíka könnun fyrir tilskilinn tíma, þegar lagafyrirmæli eru sett um að slík könnun skuli gerð.