26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

347. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svör hans. Ég varð að vísu fyrir vonbrigðum með að það skyldi ekki vera komið lengra á veg þessari könnun, en ég hygg þó að það fari ekkert milli mála hver hugur hans er í þessu máli.

Það kom fram í lok ræðu hans og verður að treysta því, að reynt verði að vinna að þessu máli eins fljótt og kostur er á. Það eru nú orðin 4 ár síðan verulegar umr. hófust hér á hv. Alþ. um þetta mál og ég hygg að það hafi verið á hverju ári síðan, en niðurstaðan er þó þessi.

Ég vil svo einungis segja það, að ég get tekið undir allt það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Helga Seljan í þessu máli, en ég vona að við þurfum ekki að flytja fjórðu fsp. á Alþ. út af þessu máli.