26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

347. mál, fæðingarorlof

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég saknaði þess í umr., að það virðist eiginlega ekki koma fram hvernig menn hugsi sér að fjármagn sé fengið til greiðslu á þessu hugsaða fæðingarorlofi.

Það er ástæða til þess að rekja það, að eins og allir hér innan dyra munu vita fá fastráðnar konur, t. d. hjá ríki eða bönkum, sem hafa ákveðin föst mánaðarlaun, greitt fæðingarorlof frá atvinnurekanda sínum í þrjá mánuði, þ. e. a. s. þær fá greitt kaup í þrjá mánuði þótt frá vinnu séu vegna barnsburðar. Þá fær verulegur hópur kvenna greidda, eins og kom fram áðan, 90 daga gegnum atvinnuleysistryggingar. En svo er allstór hópur kvenna sem hvorugan þennan rétt á. Hefur hvað eftir annað verið rætt um að þetta yrði að greiða gegnum almannatryggingarnar.

Í mínum huga er allt sem lýtur að almannatryggingunum þannig úr garði gert, að ég hygg að það sé yfirleitt í hugum fólks, að það er ekki hægt að láta suma hafa réttinn og aðra ekki, þ. e. a. s. ef þetta kemur inn á borð almannatrygginga verða allar konur, sem ala barn og fá fæðingarorlof, að eiga þennan rétt gegnum almannatryggingar. Hvernig á þá að fjármagna þetta, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, og hvernig á að færa það inn í kerfið frá atvinnurekendum, sem hafa greitt þetta, og frá Atvinnuleysistryggingasjóði, sem hefur greitt hluta af þessu? Þetta finnst mér vanta í umr., að það er eins og enginn hugleiði hvernig þetta á að gerast.

Málið er margþætt og ég er búinn að veita mikið vöngum yfir því, hvernig eigi að fara að. Ég játa hreinskilnislega, að ég hef ekki fundið lausnina, en það væri full ástæða fyrir þm., sem hafa áhuga á þessum málum, að reyna nú að leggja höfuðið í bleyti og hugsa um, hvernig þetta eigi að gerast, og koma því til hv. nefndar sem þegar er farin að kanna málið.