01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þar sem þessi umr. hefur snúist allnokkuð upp í almenna umr. um landbúnaðarmál, taldi ég ástæðu til að vekja athygli deildar á nokkrum staðreyndum sem við blasa.

Við þurfum ekkert að fara í grafgötur með þann vanda sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir. Sá vandamálabálkur er býsna langur. Ég ætla ekki að rekja þær ástæður sem ég tel liggja til grundvallar þessum vanda sem víð okkur blasir. Hins vegar vil ég benda á nokkrar tölur viðvíkjandi því fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, og vil vekja athygli á þeim.

Samkv. nýjustu tölum eru birgðir af mjólkurafurðum geysilega miklar í landinu, líklega meiri en þær hafa verið nokkru sinni fyrr. Smjörbirgðir um þessi mánaðamót nema 1460 tonnum. — Þetta er heildarneysla landsmanna á einu ári. — Ostabirgðir í landinu eru 1440 tonn. Heildarbirgðir mjólkurafurða eru 3880 tonn og er verðmæti þessara birgða áætlað 6.8 milljarðar kr. Þetta er um 66% hækkun á verðmæti birgða, ef miðað er við árið í fyrra.

Það hefur verið áætlað, hverjar birgðir af kindakjöti yrðu til í landinu 1. des. n.k. Áætlunin er 11 252 tonn. Má ætla að magnaukningin sé um 8.4% frá síðasta ári, en áætlað verðmæti þessara birgða er 15 milljarðar 354 millj. kr. Þetta er um 45.5% hækkun á birgðum frá síðasta ári. Af þessum tölum má ljóst vera, að eftir 1. des. eða um miðjan desembermánuð verði í landinu birgðir mjólkurafurða og kjöts að verðmæti um 22 milljarðar kr., og eru þá ekki taldar birgðir af nautakjöti. Af kindakjötsframleiðslunni þurfum við að selja úr landinu að öllum líkindum 40%. Má því ætla að þær útflutningsuppbætur, sem gert er ráð fyrir í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, séu að nokkru vanáætlaðar.

Það hefur verið reynt að afla markaða fyrir dilkakjöt í ýmsum löndum og okkur hafa borist fréttir af árangri síðustu daga. Þær fréttir gefa ekki beinlínis góðar vonir um aukna sölu eða hækkað verð á dilkakjöti. Ég held að hér séum við komin að mjög verulegu og alvarlegu vandamáli, sem þingið þurfi einmitt að fást við næstu daga og þær stofnanir sem fjalla um landbúnaðarmál.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu á þessum fundi, þannig að menn gerðu sér grein fyrir því, að það eru ekki bara vandamálin í sambandi við afurðalán, útflutningsuppbætur, rekstrarlán o.fl. sem við er að stríða. Það eru nákvæmlega þessi vandamál, sem ég hef lýst hér, birgðasöfnunin í landinu, sem við er að etja, og mér er í hug að spyrja: Hvað ætlum við t.d. að gera við smjörbirgðir sem nema 1460 lestum? Þetta eru mikil og alvarleg mál. Þessa birgðasöfnun upp á 22 milljarða veit ég ekki hvernig við leysum. En það er augljóst mál, að það þarf a.m.k. þá samvinnu sem þetta þing getur lagt af mörkum til þess að leysa þessi vandamál.