27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun verða við beiðni hæstv. forseta að fara ekki út í almennar umr. utan dagskrár, þó að ég sé einn af þeim sem eru mjög óánægðir og uggandi yfir þeim aflatakmörkunum sem mér skilst að eigi að setja á, en ég mun geyma mér að ræða það þar til síðar.

Ég bað um orðið vegna þess að við höfum þungar áhyggjur af hafísnum fyrir Norðurlandi og þeim áhrifum sem hann kann að hafa, ekki einungis á sjávarútveg, heldur einnig á landbúnað og sem sagt alla atvinnu í þessum landshluta.

Þegar ljóst var að fiskibátarnir væru allir stöðvaðir hafði ég samband við forsrh. og bað hann að ræða um það á ríkisstjórnarfundi í morgun, hvort ekki væri hugsanlegt að breyta veiðitakmörkunum um páskana, ef breyting yrði á á þessu tímabili þannig að ís færi frá, og þeir gætu notað páskavikuna til veiða. Það eru margir uggandi yfir því á Norðurlandi að bátar eru að fara suður. Ég held að þeir séu farnir fjórir frá Húsavík t. d. og einn frá Þórshöfn. Ef fleiri fara er hætt við því, þó að ísinn fari frá, að þeir komi ekki aftur norður á þessari vertíð. Ef þeir vissu hins vegar nú þegar að ekki mundi verða beitt aflatakmörkunum síðar á þessu ári út af þeirri stöðvun sem nú er, mundu e. t. v. sumir þeirra ekki fara, sem eru nú að velta því fyrir sér.

Hæstv. forsrh. sagði mér í byrjun þingfundar, að hann hefði rætt þessi mál og hæstv. sjútvrh. hefði tekið þessari málaleitan vel og mundi athuga hvort hægt væri að gera eitthvað í þessu máli. Ég vænti þess að þetta verði athugað eins fljótt og kostur er, einmitt vegna þess að það gæti haft áhrif á sum skipin, hvort þau fara eða ekki.

Enn fremur bað ég hæstv. forsrh. að athuga hvort ekki væri líklegt að viðlagatrygging gæti komið eitthvað inn í það mál, ef farið yrði að flytja til, t. d. eins og gert er í dag frá Húsavík til Raufarhafnar eða frá Vopnafirði til Þórshafnar. Mér skildist á hæstv. forsrh., að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefði tekið að sér að athuga það mál. Ég hef líka rætt við hæstv. heilbr.- og trmrh. um þetta og veit að hann hefur skilning á málinu og vona að ekki verði töf á því að það verði athugað.

Það er náttúrlega athugandi í sambandi við þetta, hvort óeðlilegt sé — ég slæ því hér fram — að viðlagatrygging geri eitthvað til að auðvelda að haldið verði opnum leiðum svo að atvinnulífið stöðvist ekki á þessum stöðum, ef hægt er að koma því við. Ástandið er þannig núna, að það eru líkur fyrir því að enn muni ísinn þrengja að á næstunni, þó að það geti auðvitað brugðið snögglega til hins betra í því efni. Eins og veðurspá er nú og vindátt er líklegra að ísinn muni a. m. k. næstu dægrin þrengja enn að, og þá kann að vera að það verði erfitt um alla siglingu fyrir Norðurlandi. Og þá er spurningin, t. d. á Norðausturlandi, hvort ekki sé hægt að landa fiski á Vopnafirði fyrir Raufarhöfn og Þórshöfn.

Inn í þessar umr. hafa spunnist orðræður um hafísnefnd þá sem mun hafa verið kosin einmitt eftir þáltill. sem ég flutti fyrir 11 árum, Ef ég man rétt voru í henni Ólafur Björnsson, sem var formaður þessarar nefndar, og það var Jóhannes Stefánsson, ef ég man rétt, og hv. þm. Bragi Sigurjónsson og Pálmi Jónsson ásamt mér. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt, hv. þm. Það er önnur nefnd, sem hæstv. samgrh. var að tala um, sem mun hafa verið sett, ekki eftir þáltill., heldur með samkomulagi þingflokkanna árið 1965 eða 1966. Hæstv. samgrh. mun hafa verið í þeirri nefnd og hefur sjálfsagt gengið svo rösklega að verki að hann hafi ýtt ísnum frá.

Við verðum að vona að hafísinn verði ekki margar vikur fyrir Norðurlandi. En við verðum að gera eins ráð fyrir því, að hann geti orðið það. Það sýnir okkur reynsla liðinna alda. Það er tvennt til í þessu efni, og þess vegna þarf að taka á þessu máli og haga sér miðað við þá þróun sem verða kann. Mér finnst það vera mjög athyglisverð og skynsamleg till., sem kom fram hjá hæstv. samgrh., að það verði einhvers konar hafísnefnd sett til þess að athuga alla þætti þessa máls og hvað sé til úrræða til að minnka það tjón, eftir því sem hægt er, sem menn verða fyrir.

En í sambandi við alla þessa umr. og um fiskinn og allt það hlýtur að koma sú spurning í hugann, hvernig ástatt var með fiskstofnana 1971. Það er upplýst, að um það bil sem landhelgin var færð út hafi erlendar þjóðir veitt hér við land meira fiskmagn en nú er stefnt að því að veiða með okkar skipum. Það var gefið upp að Bretar hefðu veitt 207 þús. tonn, Vestur-Þjóðverjar 119 þús. tonn, Færeyingar um 25 þús. tonn og aðrir í kringum 15 þús. tonn. Ef ástandið er þannig nú, að það þurfi að miða aflamagnið við innan við 300 þús. tonn, hvernig hefði þá ástandið verið nú ef útfærslan hefði ekki verið framkvæmd fyrir 8 árum? Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll.