27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Umr. hefur farið býsna langt út fyrir það sem hv. þm. Páll Pétursson vakti máls á í upphafi. Það hefur verið talað almennt um fiskveiðar og takmörkun fiskveiða og þá reglugerð sem verið er að setja núna um takmarkanir fyrir þetta ár. Í þessum málum er búið að segja margt og það er mikið komið fram hjá ræðumönnum, en eins og oft vill brenna við, þegar þessi mál eru á dagskrá, eru gæðin ákaflega misjöfn og fullyrðingar afar vafasamar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í málið almennt, það tæki auðvitað allt of langan tíma. Ég vil hins vegar vekja athygli á örfáum atriðum, sem fram komu hjá frummælanda — atriðum sem mér finnst hljóma ákaflega undarlega, svo ekki sé meira sagt, þar sem m. a. er verið að skipta landsmönnum í hópa með ákaflega óviðfelldum hætti.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði, þegar hann minntist á þann fisk sem væri veiddur af togurum vestur á Hala, út af Vestfjörðum og Norðurlandi, að hann væri verkaður með vestfirskum, norðlenskum og austfirskum hætti. Eftir því sem framhaldið gaf tilefni til þýddi það að verkun á fiski í þessum landshlutum einum væri það sama og að setja allar afurðirnar í neytendapakkningar, sem sagt, við hér á Suðurlandi og Faxaflóasvæðinu hentum öllum fiskinum í skítinn, hann færi ekki í neytendapakkningar hjá okkur. Þetta er auðvitað hin hraksmánarlegasta lygi, og vil ég alls ekki draga neitt úr þessu orði þó það sé gróft. Þetta er auðvitað ruddaskapur og ekkert annað og auk þess talað af vanþekkingu.

Þessi orð voru sögð í framhaldi af þeim undarlegu staðhæfingum að sá fiskur, sem loðnuskipin fá að veiða nú í net, færi eingöngu í salt og skreið eða gúanó. Þetta var hans fullyrðing: Hvernig stendur á því að þessi fiskur þarf endilega að fara í slíka verkun? Hann gerir það ekki, alls ekki frekar en fiskur sem önnur skip veiða. Og séu net dregin daglega má gera ráð fyrir að langmestur hluti þess afla geti farið í frystingu.

Hv. ræðumaður Páll Pétursson bar engin rök fram máli sínu til stuðnings, enda á hann þau að sjálfsögðu ekki til. Maðurinn veit ekkert um málið. Hitt er svo, að það getur verið umdeilanlegt hvort nú, einmitt á þessari stundu eigi að vera að bæta fleiri skipum við á þorskveiðar með net. Það getur verið umdeilanlegt. Og það er vissulega ástæða til þess, og hefði verið fyrir löngu, að taka alla netaveiði okkar á vertíðinni til endurskoðunar, einkum með það í huga að sá fiskur, sem bærist að landi, væri góður og vel með hann farið, t. d. allur ísaður og aðgerður, svo ég nefni dæmi.

Við þurfum að leggja áherslu á að sá hluti þess þorskstofns, sem við erum að drepa og verðum að drepa, komi heill og óskemmdur á land. Þess vegna þarf auðvitað að taka til endurskoðunar alla meðferð á fiski og netaveiðarnar sem heild. Það var mjög merkilegt spor sem stigið var undir forustu fyrrv. hæstv. sjútvrh. Matthíasar Bjarnasonar, þegar netaveiðar urðu háðar leyfum. Ég taldi það mjög skynsamlegt þá og var raunar búinn að tala um það áður, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason veit, að það þyrfti að gera. En það verður auðvitað að fara svolítið eftir því hver reynslan verður af þeim skilyrðum sem í leyfi eru sett, hvort ástæða er til þess að breyta þeim skilyrðum, herða þau, hvort sé ekki ástæða til að auka eftirlit o. s. frv., o. s. frv.

Í framhaldi af þessu er náttúrlega hægt að segja enn á ný varðandi þau leyfi sem loðnuskipin hafa fengið til veiða, að það getur á þessum forsendum verið umdeilanlegt og einnig öðrum að vera einmitt að bæta við netaveiðiflota þegar á að fara að draga úr veiðum á þorski. En upplýsingarnar, sem við fengum um ástæðuna til þess að þetta var gert, eru: Það var gert eins og í fyrra. — En sannleikurinn er sá, að það, sem gert hefur verið í þessum efnum öllum, er allt of seint á ferðinni og það hefur verið allt of lítið talað við þá, sem hafa fengist við þessa hluti hér í þinginu, um þessi mál. Samráðið þyrfti að vera víðar en við „aðila vinnumarkaðarins“, eins og það heitir. Það þyrfti að hafa samráð einmitt við það fólk í þinginu sem hefur sýnt áhuga á þessum málum á undanförnum árum. Á þetta tel ég sjálfsagt að deila. Sú ádeila, sem fram hefur komið hjá mönnum um þau efni, er að mínum dómi réttmæt, þó að menn geti hagað orðum sínum með svolítið mismunandi hætti. En við erum auðvitað orðnir of seinir með þetta allt saman. Við hefðum þurfti að skoða það í haust og vera tilbúnir fyrir áramót með þær reglugerðir, sem setja átti í sambandi við veiðar í net á vertíðinni, og að reyna að taka ákvörðun um það, hvernig best væri að haga friðun þorskstofnsins með takmörkun á veiði á þorski á þessu ári. Það má helst ekki gera þetta allt á síðustu stundu, því að þá vill svo oft fara, sem eðlilegt er að flýtirinn verður svo mikill að útkoman verður ekki nógu vönduð.

Hv. þm. Páll Pétursson kom ekki með nein rök fyrir því sem ég var að rekja áðan. Hann talaði um að fiskurinn, sem þeir veiddu, það fólk í landinu sem fer svona vel með fiskinn fyrir vestan, norðan og austan, væri 51/2 árs. Hann er sem sagt fæddur í nóv. 1973 samkv. þessu. (Gripið fram í.) Það er ákaflega óvenjulegur hrygningartími hjá þessum stofni. En upp á öllum skrattanum getur nú þorskstofninn tekið. Ég nefni þetta aðeins til þess að menn sjái — á þessu einu — að það var auðvitað ekki heil brú í því sem maðurinn var að tala um. Ég skil ekki hvernig stendur á því að menn leyfa sér að koma í þennan stól og þylja svona vitleysur hverja á eftir annarri. Mér er það óskiljanlegt.

Netagirðingin er löng. Við gerum ráð fyrir að þegar nótaskipin eru komin á netin verði skipin ekki færri en 120–130. Og séu þau með u. þ. b. við skulum segja 10 trossur, 120 bátar — (Gripið fram í: Bara tíu?) Já, við skulum segja bara 10, því þeir eru flestir með meira. Hvert net er 30 faðmar á lengd, í hverri trossu eru 15 net og ef við margföldum þetta og deilum með 1000 kemur út úr dæminu 540 sjómílur eða tvisvar sinnum lengra en hv. þm. áætlaði fyrr. (Gripið fram í: Það var fram og til baka.) Já, fram og til baka.

Hv. þm. lýsti sig reiðubúinn í næstum því hvað sem var. Það er svo sannarlega ekki á hverjum degi sem maður hittir svo óhrædda menn. Hann var tilbúinn í að banna veiðar á smávöxnum fiski. Hrygningarfisk var hann tilbúinn að friða algerlega. Auk þess var hann ekki síður reiðubúinn að leggja flotanum svo mörgum mánuðum skipti. Allt saman var hann reiðubúinn að gera. Ef menn eru reiðubúnir að gera allt þetta í einu þarf svo sannarlega ekki að hafa áhyggjur af því að við drepum yfir 300 þús. tonn af fiski á þessu ári.

Ég get vel skilið að hv. þm. hafi sárnað sá hávaði sem varð út af því að skuttogarinn Dagný þurfti að sigla til útlanda, vegna þess að það þurfti að festa á henni skrúfuna — hún hafði sem sagt losnað — því að það er engin ástæða til þess að ergja sig út af því þegar verið er að reyna að kippa í lag þeim vandræðum að einhverjir eru með lausa skrúfu.

Herra forseti. Ég vil þó segja örfá orð varðandi það sem hæstv. sjútvrh. sagði. Það var auðvitað margt rétt og satt sem hæstv. ráðh. sagði. En ég vil aðeins leyfa mér að víkja að einu atriði a. m. k., þegar hann segir að það sé ákveðið að yfirbyggðir bátar, eða stærri bátarnir, eigi ekki eftir 1. apríl að fá að stunda þorskveiðar öðruvísi en að þeir komi með net sín að landi hverju sinni. Ef menn stunda þorsknetaveiðar á annað borð, með venjulegum hefðbundnum hætti get ég ekki séð annað en þetta þýði einfaldlega að þeim sé bannað að vera á þorskanetum; nema þetta sé gert til þess að skylda þá eða hvetja þá a. m. k. til þess að vera eins lengi úti og þeir mögulega geta. Það finnst mér röng stefna, því að það fer enginn að taka eina eða tvær lagnir og koma síðan með allt draslið í sér til lands. Það gerir enginn maður. Það er auðvitað hugsanlegt að þau hafi kassa í allar sínar stóru lestar, þessi skip, og það sé hægt að ísa í þá í kassa a. m. k. 150 og jafnvel 200 tonn — þeir eru stórir þessir gámar. Þá gætu þeir auðvitað tekið einar 6–7 lagnir eða meira, 8 kannske og jafnvel enn fleiri, og komið svo með alla súpuna ísaða í land.

Hæstv. ráðh. gat þess einnig, að það yrði mikil takmörkun í því að skuttogararnir yrðu að ísa. Það væri eitt skilyrðið, að þeir yrðu að ísa í kassa á millidekki fiskinn sem þeir fengju umfram það sem fer í lestina. Ég hef að vísu ekki verið á mörgum skuttogurum, tveimur þó, og þar var allur fiskur ísaður í kassa, hvort sem hann fór í lest eða á millidekk. Ég hélt því að það væri siður að ganga þannig frá fiskinum, hvort sem lestin er full eða ekki. Þannig get ég ekki séð að þarna sé um neina takmörkun að ræða. Hins vegar er það auðvitað sjálfsögð leiðbeining til manna að koma ekki með fiskinn lausan í stíum eða lausan á dekki, en takmörkun er þetta ekki í mínum augum, heldur áminning um að skemma ekki fiskinn.

En eitt undarlegasta atriðið í mínum augum af því, sem hæstv. ráðh. sagði, var það skilyrði að fiskiskip yrðu að vera búin að landa áður en þau færu aftur á veiðar. Það má vera að það tíðkist einhvers staðar á þeim svæðum landsins þar sem svona vel er farið með fiskinn að gera slíkt. En aldrei hef ég vitað annað en að það væri auðvitað byrjað á því að landa úr skipunum og þau ekki leyst fyrr en það væri búið a. m. k.

Ég vil að lokum, áður en ég lýk máli mínu, endurtaka það sem ég sagði áðan, að að þessu sinni eru tveir megingallar á allri þessari málsmeðferð að mínum dómi. Það er í fyrsta lagi sá skortur á samráði við Alþingi og nefndir þess, sem raun hefur orðið á, og í öðru lagi, að þarna er allt of seint verið með hlutina á ferðinni. En úr því að ekki var búið að setja þessa reglugerð fyrir vertíðina var auðvitað alveg sjálfsagt að gera það núna, því betra er seint en aldrei. Það fer ekki á núlli mála.

Ég heyrði dálítið af ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, ekki alla, en alla vega eitthvað af þeim hluta ræðunnar sem fjallaði um hvað fiskifræðingar væru vont fólk og þekkingarlítið, sem er fastur liður þegar hann tekur til máls. Menn geta haft mismunandi trú á því, hversu marktækar þær niðurstöður eru sem vísindamenn komast að. Forsendur vísindamannanna eru auðvitað misgóðar, vegna þess að þegar á að fylgjast með fiski á gífurlega stóru hafsvæði þarf til þess mikinn tækjabúnað, mikinn mannafla og mikið fé. Hafrannsóknastofnunin er sem betur fer með betri búnað en áður var, þannig að niðurstöðurnar ættu að vera betri og betri með hverju árinu. En svo sannarlega er ljóst að bæði um botnlæga fiska og aðrar fisktegundir, eins og loðnu og fleiri tegundir, eru mjög margir óvissuþættir, og það er víst að þeir vita ekki allt í þessum efnum. Á þeim forsendum að fiskifræðingarnir viti ekki allt, að þeim séu ekki allir hlutir ljósir, eiga menn einmitt að fara fremur varlega en hitt. Ég tel að þeim mun meira sem óljóst er í þessum málum, þeim mun varlegar verði menn að fara. Það er nefnilega ekki alveg víst að skekkjan sé þeim í vil sem vilja fiska meira. Þeir hafa ekki sýnt fram á nokkurn skapaðan hlut hingað til sem sanni að svo sé, nema segja, eins og hæstv. forsrh. og ýmsir aðrir hv. alþm.: „Mér finnst.“

Ég tel að við megum ekki horfa fram hjá þeim rannsóknum sem einar eru til í þessu efni. (StJ.: Það er svo óskaplega mikið af fiski.) Já, herra forseti, það er óskaplega mikið af fiski. (Gripið fram í: Sérstaklega þorskfiski.) Menn hafa athugað það, af hvaða árgöngum þessi fiskur er sem leggur sig í þetta mark, og það kemur í ljós að helmingurinn og meira er af einum árgangi, frá 1973, sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði að menn hefðu haldið fram í langan tíma að væri búið að drepa. Þetta eru ósannindi. Menn hafa sagt það í mörg ár, allar götur síðan menn áttuðu sig á því að árgangurinn frá 1973 væri óvenjulega sterkur, að uppistaðan í aflanum hefur alltaf verið úr þessum árgangi, frá því að sá fiskur varð hirðanlegur. Samt sem áður hefur alltaf verið mikið til af honum og sem betur fer er það enn. En ef við drepum kannske 80–90% fiska af þessum árgangi eigum við ekki von á þeim afturgengnum á næstu vertíð. Og slíkar staðreyndir megum við ekki hafa á hv. Alþ. að neinum fíflskaparmálum. Þetta er undirstaða lífs okkar í landinu og það þarf að taka þetta allt alvarlega. Þó að það sé svona mikið til af árganginum frá 1973 og talsvert af árganginum frá 1972, vitum við að hrygningarstofninn í fyrra fór jafnvel niður fyrir það lágmark sem fiskifræðingar töldu að væri hættumarkið, því að með svo litlum hrygningarstofni gæti hrygningin misfarist. Hrygningarstofninn er, eins og menn hafa séð að undanförnu, talsvert öflugri en þá. En sú staðreynd, að mikið hefur veiðst núna af þessum árgöngum, segir ekkert um það, hvernig ástandið er í fiskstofninum að öðru leyti, því miður. (StJ.: Það sem eftir er, meinar þú.) Það segir ekkert um það. Menn verða að hafa í huga að þetta er ekki síðasta vertíðin sem við ætlum að gera út á eða síðasta árið sem við ætlum að fiska. Við ætlum að hafa þetta fyrir aðalundirstöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs í framtíðinni. Þeir menn, sem vilja leika sér of gálaust í þessum efnum, eru ekki borgunarmenn fyrir þeim skaða sem orðið gæti ef við förum út fyrir það mark sem hæfilegt er.

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason hélt áfram að gera gys að fiskifræðingunum og sagði að þeir hefðu lagt til að veiða mætti 1–11/2 millj. tonn af loðnu, en síðan hefðu þeir orðið lafhræddir, og fengið fyrir hjartað og viljað stöðva miklu fyrr. Staðreyndin er sú, að á þessu ári, með sumar- og haustveiðinni í fyrra, er búið að drepa það magn sem liggur þarna á milli, eða tæplega 1 200 þús. tonn. Þeir hafa leyft að drepa milljón tonn. Ég get því vel skilið að á tímabili á þessari vertíð séu þeir svolítið hræddir, þegar hrygningarstofninn virtist vera bara sú ganga sem var austur í Meðallandsbugt. Ég verð að segja það, að ég taldi skynsamlegt að stöðva veiðarnar eins og gert var. Og að mínum dómi hefði alveg mátt stöðva þær aðeins fyrr. En ég held að viðunandi sé hvernig þessu var hagað. Það voru allir búnir að gera góða vertíð, við vorum búnir að fá mikið aflamagn og mikið verðmæti í land. Það má segja: „mikið vill meira“, en þarna var búið að gera góða vertíð. Ég tel að einmitt vegna þess að viss göt eru í þekkingu fiskifræðinga í þessum efnum, eins og annars staðar, ósköp einfaldlega vegna þess að ýmsar forsendur eru ekki eins ljósar og æskilegt væri, — einmitt vegna þessarar óvissu, jafnvel þó að skekkjan, eins og ég sagði áðan, væri réttu megin, máttum við ekki gera þá skyssu núna að koma í veg fyrir að við gætum gert góða vertíð einnig á þessu ári.

Eins og hv. þm. Matthías Bjarnason talaði um fiskifræðinga og þekkingu sérfræðinga okkar á þessu sviði virtist ekki annað á honum að heyra en að það mætti alveg leggja fiskifræðinga og stofnun þeirra niður. Með þessu sífellda vantrauststali á sérfræðinga okkar mætti auðvitað alveg leggja Hafrannsóknastofnunina niður og láta þetta fræga tríó, sem hv. þm. Matthías Bjarnason getur alveg eins haft í höfðinu og ég, taka við þeirri starfsemi og gefa út tilskipanir eftir tilfinningum sínum. En ég er alveg sannfærður um að þó að á þekkinguna skorti fer hún vaxandi og ég tel að þessi stofnun og starfsemi hennar sé nauðsynleg þó að þar þurfi vissulega að bæta úr ýmsu og nýta betur bæði mannafla og skipakost en gert hefur verið og vinna að öðru leyti með ýmsum öðrum hætti en tíðkast hefur, því að það er aldrei svo góð stofnun til í þessu efni að ekki megi úr bæta.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta duga að sinni, þar til mér þætti kannske ástæða til að svara því sem fram kynni að koma síðar í umr.