27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3615 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel það alls ekki óhjákvæmilegt, heldur þvert á móti mjög æskilegt og nauðsynlegt að umr. eins og sú sem hér fer fram fari fram á Alþingi Íslendinga um fiskveiðimálin. Ég býst við að fá mál, sem rædd hafa verið á Alþ. í vetur, skipti jafnmiklum sköpum fyrir afkomu þjóðarinnar í nútíð og framtíð og einmitt þessi mál, og við skulum gera okkur grein fyrir því, að á sama tíma og við erum að tala um hugsanlega kjaraskerðingu alls almennings, um þetta frá 1/2 til 1%, er hér um að ræða ráðstafanir sem, ef framkvæmdar yrðu, eins og sumir vilja láta framkvæma þær, mundu geta þýtt yfir 30% kjaraskerðingu fyrir ákveðinn hóp þjóðfélagsþegna.

Ég held að öllum sé ljóst, að það er óhjákvæmilegt og mjög nauðsynlegt að aðhafast eitthvað í fiskverndunarmálunum, og ég vil vekja athygli á því, að þær ráðstafanir, sem hæstv. sjútvrh. hefur beitt sér fyrir að gerðar yrðu, njóta stuðnings allra hagsmunaaðila sem sátu fund Landssambands ísl. útvegsmanna nýverið. Það segir sig auðvitað sjálft, að þegar svo er á málum haldið að öll þau ólíku öfl, sem áttu aðild að þeim fundi, geta sammælst um stuðning við þessar aðgerðir, þá hljóta þær að vera a. m. k. talsvert vandlega undirbúnar, því að hér er um að ræða aðila sem eiga mjög ólíkra hagsmuna að gæta.

Ég vil aðeins að fram komi að allir fulltrúar á umræddum L. Í. Ú.-fundi, hvaðan sem þeir voru af landinu og hvers konar veiðar sem þeir eru fulltrúar fyrir, studdu meginþættina í þeim aðgerðum sem hæstv. sjútvrh. hefur ákvarðað. Ég vil að sjálfsögðu fagna því, að þessir hagsmunaaðilar skuli sýna slíkan skilning og slíka ábyrgð. Færi betur ef ýmsir aðrir hagsmuna- og þrýstihópar í þjóðfélaginu gætu tileinkað sér svipaða afstöðu í öðrum málum. En látum það kyrrt liggja um sinn.

Ég ætla ekki í þessu sambandi, þó freistandi sé, að fara langt út í deilur við þm. annarra landshluta um fiskveiðimálin, því að eðlilega er ágreiningur á milli manna úr ýmsum landshlutum um þá stefnu, sem mörkuð er núna, með nákvæmlega sama hætti og sá ágreiningur hefur ávallt verið um þá fiskveiðistefnu sem mörkuð hefur verið, hvað svo sem sjútvrh. hefur heitið. Það hefur aldrei gerst, að neinn íslenskur sjútvrh., hvorki þáv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, né sá sem gegndi því embætti á undan honum, Lúðvík Jósepsson, hafi markað fiskveiðistefnu sem ekki var gagnrýnd. Það hefur aldrei gerst, að íslenskur sjútvrh. hafi haft afskipti af þeim viðkvæmu málum öðruvísi en svo að hann kæmi talsvert við hag einhverra aðila í þjóðfélaginn sem ekki gátu vel við unað. Það gerist að sjálfsögðu ekki heldur nú, enda er nær óhjákvæmilegt að einhverjar deilur verði um afgreiðslu á máli eins og þessu.

Ég vil enn og aftur leggja áherslu á það, sem er mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi, að um þær aðgerðir, sem hæstv. sjútvrh. hefur beitt sér fyrir, náðist samstaða á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Það segir talsverða sögu, að þó svo að þeir, sem þann fund sátu, séu að sjálfsögðu ekki ánægðir með ráðstafanir skilja þeir þær og una við þær.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara ýkjalangt út í deilur við þm. annarra kjördæma um fiskveiðimálin. Ég vil aðeins láta þess getið, að einn af þm. Sjálfstfl. mun hafa látið þau orð falla í viðtali við eitt af síðdegisblöðunum í gær í sambandi við skoðanakönnun, sem gerð var um fylgi flokkanna, að það virtist vera að gerast það kraftaverk í íslenskum stjórnmálum að ákveðnir flokkar virtust geta vaxið í svefni. Það má segja um margan þann málflutning, sem maður heyrir um þorskveiðimál, að þar geti gerst kraftaverk líka, því ég held að það sé alveg ljóst, ef maður hlustar á þann málflutning sem oft er iðkaður m. a. héðan úr ræðustól, að sá þorskur, sem veiddur er í botnvörpu eða flotvörpu á Vestfjarðamiðum, virðist stækka mjög ört í lestum skipanna þegar þau eru komin suður fyrir Snæfellsnesið. Maður heyrir lítið um það talað, þó að allur togarafloti landsmanna sé á veiðum á vestfirskum miðum, að aðrir veiði þar smáfisk en Vestfirðingar og e. t. v. stöku norðlenskur togari sem þar er að veiðum. Aldrei hef ég heyrt sérstaklega um það talað, að þeim togurum af Suðurlandi og Suðurnesjum, sem veiða á þessum miðum og afla vel, hafi þótt ástæða til þess að benda á að þeir væru að koma að landi með mikinn smáfisk, heldur virðist fiskurinn í lestum þeirra hafa farið ört stækkandi eftir að þeir voru komnir suður fyrir Snæfellsnesið.

En ég vil þó aðeins — ég kemst ekki hjá því — vekja athygli á tveimur atriðum sem nýlega komu fram í Morgunblaðinu hjá blaðamanni, sem fór í róður með aflabát, netabát af Suðurnesjum. Þar segir blaðamaðurinn, í grein í Morgunblaðinu sunnudaginn 25. febr., orðrétt, með leyfi forseta:

„Þarna í „villta vestrinu°` átti Geirfuglinn fjórar trossur og 15–17 net í hverri þeirra. Fjórar voru síðan annars staðar og tvær rétt undan Reykjanesinu. Í þær hafði lítið sem ekkert fengist fram til þessa, en von var á betri tíð. Þeir sögðu að þegar liði á vertíð gengi fiskurinn alltaf með nesinu og þá væri eins gott að hafa plantað niður nokkrum trossum þar. Að öðrum kosti væri ekki smuga að koma þar niður netstúf.“

Ég býst við því, að það hafi komið einkennilegur svipur á marga sjómenn þegar þeir lásu þessa setningu. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig höfðu a. m. k. sjómenn á viðkomandi bát, og sjálfsagt mörgum fleiri, tekið það ráð að „planta niður“ nokkrum netum rétt undan Reykjanesinu til þess að hafa þau í sjónum þegar að því kæmi í framtíðinni að fiskurinn færi að ganga á þessari slóð, vegna þess að ef þessum netum væri ekki „plantað niður“, eins og sagt er, væri sennilega ekki smuga til að koma þar svo mikið sem netstúf fyrir.

Ég býst við því, að a. m. k. skipstjórinn og sjómennirnir á þessum bát hafi ekki verið sérstaklega kátir yfir því að lesa þessa frásögn, en ekki hef ég orðið var við að henni hafi verið mótmælt. Og það er mjög athyglisvert að a. m. k. frá þessum róðri er sagt að báturinn, sem í hann fer, á net á þremur stöðum: þau sem hann „plantaði“ einhvern tíma í fyrndinni suður af Reykjanesi, þau sem hann er að vitja um í „villta vestrinu“ svokallaða og svo þriðja trossuhópinn einhvers staðar annars staðar á ótilgreindum slóðum. Í þessum róðri kemst viðkomandi bátur aðeins til þess að vitja um eina netaslóðina. Hann vitjar ekki um þau sem hann „plantaði“ og ekki heldur um netin sem eru einhvers staðar á ótilgreindum stað. Og þegar hann loksins kemur í „villta vestrið“, segir blaðamaður orðrétt, með leyfi forseta: „Fiskurinn var vel lifandi, enda ekki nema 11/2 sólarhrings gamall.“ — Hann var sem sé sprelllifandi tveggja nátta fiskurinn!

Ég held að þessi frásögn, sem kemur væntanlega frá óhlutdrægum blaðamanni renni a. m. k. nokkrum stoðum undir það sem ýmsir, t. d. vestfirskir og norðlenskir sjómenn, hafa haldið fram um netaveiðina. Ég held að okkur sé öllum kunnugt um það, Vestmanneyingum, Sunnlendingum, Vestlendingum, Reyknesingum, Vestfirðingum og öðrum alls staðar á landinu, að það hefur viljað brenna mjög við að menn hafi ekki virt reglur um fjölda neta í sjó. Það á ekkert endilega frekar við báta af suðvesturhorni landsins, heldur en báta af öðrum landshornum. Ég býst við að við Vestfirðingarnir, a. m. k. ef við værum þvingaðir mjög, gætum nefnt ýmis dæmi um slíkt úr okkar eigin kjördæmi. Ég vil því leggja sérstaka áherslu á það við hæstv. sjútvrh. — og veit raunar að hæstv. sjútvrh. hefur fullan vilja til þess,-að herða það eftirlit, sem nær ekkert hefur verið, með því að netabátarnir fari eftir settum reglum.

Ég vil einnig láta þess getið, að að sjálfsögðu er það rétt hjá hæstv. ráðh. að erfitt er, ef gera á ráðstafanir til þess að draga úr veiðum, hvort sem það er á þorski eða öðrum fisktegundum, ef slíkar ráðstafanir eru ekki gerðar með góðum fyrirvara, þannig að menn viti með góðum fyrirvara hvaða aðgerðir verði uppi hafðar. Sú er ástæðan fyrir því að hæstv. sjútvrh. hefur ekki beitt harðara aðhaldi að loðnuveiðibátunum en hann hefur gert. En ég tel að það hafi komið fram í máli hans áðan, að hann hefur þegar tekið til greina þá gagnrýni, sem fram hefur komið á þá ráðstöfun, og hefur í huga að beita sér fyrir því á næsta ári að enn frekar verði kreppt að þessum skipum, enda mjög eðlilegt þar sem hér er um að ræða skip sem hafa betri afkomu en flest önnur fiskiskip í landinu.

Ég vil láta það koma fram, að það er mikill misskilningur þegar menn halda því fram, að þær ráðstafanir, sem er verið að gera í sambandi við þorskveiðarnar og verndun þorskstofnsins, séu í því skyni einvörðungu að stækka hrygningarstofninn til þess eins að auka öryggi í þorskveiðum almennt með stærri hrygningarstofni. Ég vil láta það sérstaklega koma fram, að með slíkum aðgerðum er einnig verið að undirbyggja að þeir landshlutar, sem eiga sínar eðlilegu veiðislóðir á slóðum hrygningarfisksins, geti aukið afla sinn. Hér er ekki aðeins um að ræða verndun þorskstofnsins, heldur einnig verið að opna fyrir möguleikana á því, að þeir landshlutar, sem sækja afla á slóðir hrygningarfisksins, geti aukið sókn sína og aukið veiðar.

Ég vil í þessu sambandi til stuðnings orðum mínum vitna í setningarræðu Más Elíssonar fiskimálastjóra sem birt er í 1. tölublaði Ægis, í janúarmánuði, 1979. Þar segir fiskimálastjóri orðrétt, með leyfi forseta:

„Við óttuðumst mjög með réttu minnkandi hrygningarstofn þorsks. Þó hefur reynslan kennt okkur tvennt, — annað er hið augljósa, að lítill hrygningarstofn hefur í för með sér lélega : þorskafla á Suður- og Suðvesturlandi, og vissulega er það ein meginástæðan fyrir lélegri afkomu báta og vinnslustöðva á því svæði og þeirra er að þessum atvinnuvegi starfa.

Hitt var ekki eins augljóst, að lítill hrygningarstofn gæti gefið af sér jafngóða árganga fisks og dæmin frá 1976 og 1978 sanna.

Vandamál þau, sem glíma þarf við, eru því ekki síður félagsleg og efnahagsleg en líffræðileg, þ. e. að finna skynsamlegar leiðir til að efla svo hrygningarstofninn, að afkoma byggðarlaga sunnan- og vestanlands batni, jafnframt því að sæmilegir hrygningarstofnar auka á öryggi fyrir viðgangi stofnanna — án þess þó að raska um of afkomumöguleikum fyrirtækja og fólks í öðrum landshlutum.

Þetta er, eins og ég gat um, ekki síst félagslegt og efnahagslegt vandamál.“

Þar með, herra forseti, lýkur tilvitnun minni í setningarræðu fiskimálastjóra frá 37. Fiskiþingi.

Ég vildi leggja sérstaka áherslu á það, að í orðræðum manna um nauðsyn á aðhaldsaðgerðum í þorskveiðimálum hefur af mörgum verið einblint á það sjónarmið, að með því að takmarka þorskveiðarnar sé verið að auka öryggi þorskstofnsins, auka öryggi fyrir viðgangi stofnsins alfarið, og þeir menn, sem þessi rök hafa flutt, hafa því nefnt sig verndunarmenn — þeir séu að vernda ákveðna auðlind. En þetta er ekki alls kostar rétt. Þessir menn eru ekki aðeins að vernda auðlindina. Dæmin sanna, eins og fiskimálastjóri benti á, að jafnvel þó að hrygningarstofninn sé ekki stærri en hann er getur hann gefið af sér jafngóða árganga og dæmin frá 1976 og 1978 sanna. Og fiskifræðingar viðurkenna að það sé hægt að halda áfram að veiða álíka mikið magn af þorski og veitt hefur verið undanfarið án þess að frekari verndunaraðgerðir séu gerðar: — Þetta viðurkenna fiskifræðingar. Hins vegar segja þeir að sjálfsögðu að hættan sé sú, að allt fari á hliðina ef klakið mistekst. En meginástæðan, a; m. k. ein mjög rík ástæða fyrir málflutningi þeirra sem vilja gjarnan kalla sig verndunarmenn, er sú, að þeir eru að óska eftir að hrygningarstofninn verði stækkaður í því skyni að þau byggðarlög sunnan- og suðvestanlands, sem eiga sitt eðlilega veiðisvæði á slóðum hrygningarfisksins, geti aukið afla sinn og bætt afkomu sína. Þetta er alveg ljóst. Þetta er meginatriði í málflutningi mjög margra, hvað svo sem þeir segja að fyrir sér vaki. Og það er líka alveg ljóst að menn verða að fara mjög varlega í þessum málum, því það bjargar engu, hvorki fyrir ákveðna landshluta né þjóðfélagið í heild, ef gripið er til þess ráðs að sækja svo fast þessi mál að þeir landshlutar og þau fyrirtæki, sem vel standa sig í dag, séu neydd til taprekstrar og atvinnuleysi verði þar innleitt í þeirri von að á árinu 1983 og síðar verði endurskapaður sá mikli vertíðarafli hér sunnan- og suðvestanlands sem enn er í minnum manna og krafðist þess að íbúar Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða færu hingað í hálfgerðum hungurgöngum á vetrarvertíð á Suður- og Suðvesturlandi til þess að hafa í sig og á. Menn skyldu ekki gleyma því, að þessi svokallaða þorskverndun er ekki bara verndun. Þarna eru líka hagsmunaátök milli landshluta sem hófust þegar fyrirtæki í sjávarútvegi á Suður- og Suðvesturlandi fóru að grípa í tómt. Fyrr varð ekki verndunarstefna til í þessum málum en að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í þessum fjölmennasta hluta landsins fóru að grípa í tómt. Þá byrjuðu menn að tala um verndun og nauðsyn þess að varðveita fiskstofna. Þetta skyldu menn hafa í huga, að það er rétt sem fiskimálastjóri sagði, að hér er síður en svo aðeins um að ræða líffræðileg vandamál, heldur ekki síst, sagði fiskimálastjóri, félagsleg og efnahagsleg vandamál.

Í skoðanakönnunum, sem gerðar hafa verið um vilja Íslendinga í þessum efnum, kemur það mjög glögglega fram, að því er virðist, að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill leiða fiskifræðinga til hásætis yfir sjávarútvegsmálum landsmanna. Ætli það séu ekki um það bil einu sérfræðingarnir sem hafa svo takmarkalausa tiltrú þjóðarinnar. Meginhluti þeirra, sem spurðir hafa verið, hefur kveðið upp úr með það, og hafa það aðallega verið skrifstofumenn úr Reykjavík, að sjálfsagt væri að fara að tillögum fiskifræðinga og heimila aðeins veiði á 250 þús. tonnum af þorski á árinu 1979 og jafnvel helst að fara neðar. Þetta sama fólk er hins vegar reiðubúið hvenær sem er til þess að lýsa því yfir, að það sjálft, án tillits til þeirra tekna sem það ber úr býtum, sé ekki reiðubúið svo mikið sem að sætta sig við óskertan kaupmátt á árinu 1979 frá kaupmættinum sem þetta fólk hafði á árinu 1978. Því finnst það allt í lagi, eins og flestum Íslendingum, að samþykkja kjaraskerðingar á aðra.

Þeim, sem ræða mest um þetta mál í blöðum og í útvarpi uppfullir af gagnrýni, finnst alveg sjálfsagt að sjómenn, útvegsmenn og verkafólk í fiskiðnaði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi taki á sig 25–35% kjaraskerðingu. En þeim mundi ekki einu sinni detta í hug, ef þeir væru beðnir um það, að dreifa þeirri kjaraskerðingu á alla þjóðina, þannig að þeir þyrftu að sætta sig við 0.5% rýrari hlut á árinu 1979 en á árinu 1978. Þetta er gamla sagan um breiðu bökin, að allir eru sannfærðir um að það séu til breið bök í þjóðfélaginu, en þau eru bara ekki hjá viðkomandi. Og allir eru reiðubúnir til að taka undir það, að kjaraskerðing sé óhjákvæmileg, bara svo lengi sem hún lendir ekki á sjálfum þeim. Það er þetta sem þeir eru að gera sem eru að gera sig hvað breiðasta í blöðum og útvarpi um nauðsyn þess að skera þorskveiðar niður í 250 þús. tonn á árinu 1979. Þeim finnst sjálfsagt að fólkið úti á landi taki þá byrði á sig að fullu, en þeim kemur ekki til hugar að létta undir með þessu sama fólki með því að axla einhverjar byrðar. Þeim kemur ekki til hugar að staðfesta í reynd að þessi fiskverndunarstefna sé fórn fyrir þjóðina alla.

Nýlega sagði eitt af dagblöðunum frá ákveðnum hugmyndum, sem það taldi að ofarlega væru á baugi í þessum friðunarmálum, en í ljós hefur komið að úr lausu lofti voru gripnar. Þann dag, sem þessar fregnir komu á síðum Morgunblaðsins, gerði ég mér til dundurs að reyna að meta hvaða áhrif þær aðgerðir, sem Morgunblaðið var að skýra frá, en ekki urðu í reynd, hefðu haft á afkomu fólks í mínu byggðarlagi. Á s. l. ári var meðalafli vestfirsks togara á því tímabili, sem um ræddi í frétt blaðsins, 1600 tonn af þorski og 400 tonn af öðrum afla. Miðað við þá aflasamsetningu, sem var á s. l. ári, og það fiskverð, sem greitt er nú, áætlaði ég verðmæti þorskaflans — 1600 tonna — 208 millj. 320 þús. og verðmæti annars afla um 36 millj., eða heildarverðmæti afla meðaltogara á Vestfjörðum á þessu tímabili 244 millj. 320 þús. kr. Ef þær ráðstafanir hefðu verið gerðar, sem rætt var um í frétt Morgunblaðsins, hefði hámarksafli, sem unnt hefði verið að ná fyrir slíkan togara á Vestfjörðum, numið um 780 tonnum af þorski og um 900 tonnum af öðrum afla. Samanlagt aflaverðmæti miðað við óbreytta samsetningu í hverjum flokki frá því í fyrra og fiskverð í dag nemur 182 millj. kr. rúmlega. Tekjutapið á meðaltogara vegna þessara ráðstafana hefði þannig numið 61.7 millj. kr., eða um 25.3% tekjurýrnun milli ára.

Auðvitað segir það sig sjálft hvað hefði gerst með afkomu bæði útgerðar og sjómanna á Vestfjörðum ef þau hefðu þurft að taka á sig á einu ári 25.3% tekjutap. Þeir vestfirsku togarar, sem meira öfluðu en meðalskipið, voru t. d. togari eins og Guðbjörg, sem á árinu 1977 fékk 1903 tonn af þorski á þessum tíma og 1978 2 078 tonn af þorski á þessum tíma. Tekjutap þess fyrirtækis og sjómanna þess hefði numið um 34–35% milli ára. Það sér hver sjálfan sig að þurfa að taka á sig slíkt skakkafall. Hvernig ætli það fjölmarga fólk, sem hefur verið að belgja sig út á síðum dagblaðanna um nauðsyn þess að skera niður þorskveiðar í 250 þús. tonn, hefði tekið því ef á því hefði dunið 25–35% tekjuskerðing milli ára og það hefði þurft að standa undir þeirri tekjuskerðingu og greiða jafnframt af aflafé sínu skatta af tekjum fyrra árs, eins og þessir aðilar hefðu þurft að gera?

Til allrar lukku voru þessar fréttir Morgunblaðsins, ekki réttar og sú stefna, sem hæstv. sjútvrh. hefur boðað og sagt frá, mun ekki skerða tekjur sjómanna á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi neitt nálægt því um þetta hlutfall. En ég held að menn verði að gera sér það ljóst að hér er um að ræða ákvörðun sem tekin er af stjórnvöldum og skerðir stórkostlega tekjur ákveðins hóps í landinu, tiltölulega fámenns hóps. Þetta er ákvörðun af því tagi að þjóðinni ber siðferðisleg skylda til þess að axla tekjutapið, en láta ekki örfáa einstaklinga standa undir því eina.

Ég vildi svo aðeins að lokum geta þess, að því miður, þrátt fyrir þessar löngu og miklu umr. sem hér hafa farið fram, hefur lítið komið fram af nýjum hugmyndum eða öðrum hugmyndum um stjórnun á fiskveiðimálum en hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram. Þrátt fyrir miklar og langar umr. valinkunnra alþm., sem margir hverjir hafa mjög mikið vit á þessum málum, hefur harla lítið verið á þeim að græða hvað það varðar að það hafi komið fram aðrar og nýjar hugmyndir — aðrar hugmyndir en þær sem hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir.

Hins vegar vildi ég láta þess getið, að mér fyndist það eðlilegra, í staðinn fyrir að vera stöðugt að horfa á einhverja tonnatölu, að reynt yrði að draga úr þorskveiðunum með því að draga úr kostnaðarhliðinni, með því að halda niðri kostnaðarhliðinni við að afla fisksins, m. a. með aðgerðum til þess að draga úr sókn, því að við hljótum að stefna að því um þennan atvinnuveg eins og allan annan, að það sé reynt að skila af honum mestum arði með minnstum tilkostnaði. Og ég held að það ætti a. m. k. í framtíðinni að athuga hvernig haga mætti fiskveiðistefnunni þannig að sú auðlind, sem fiskurinn er, nýttist þjóðinni til sem mests arðs með sem minnstum tilkostnaði, en það tel ég að hvorki þær aðgerðir, sem nú er gripið til, né þær aðgerðir, sem fyrrv. sjútvrh. beittu, hafi gert.