27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

Umræður utan dagskrár

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hef víst stundum látið það í ljós, að ég sé lítið hrifinn af umr. utan dagskrár og finnist þær stundum vera af litlu tilefni, en ég vil nú ekki segja það um þær umr., sem hér hafa farið fram, að þær séu af litlu tilefni.

Annars vegar var spurt út af því að loðnuskipin, stóru nótaskipin, hafa nú fengið leyfi til að fara á þorskveiðar og menn hafa hrokkið við út af því. Hæstv. sjútvrh. hefur gert nokkra grein fyrir ástæðum fyrir þessu. Hann telur að það sé ekki án fyrirvara hægt að synja þessum skipum um þessar veiðar, það er m. a. vitað að með löngum fyrirvara búa útgerðarmenn þessara skipa sig undir það að fara að stunda þessar veiðar. Þetta leiðir svo hugann að því, að við erum enn sem áður, allt frá því þessar tilraunir til takmarkana hófust, nokkuð seint á ferð. Þetta sýnir að við höfum ekki náð þeim tökum á skipulagningu okkar eigin veiða sem við í raun og veru þyrftum að gera. M. a. vantar okkur sjálfsagt ýmsar lagaheimildir til þess að gera tilteknar ráðstafanir sem ég hygg að kannske sé alger samstaða um að gera þurfi í ýmsum tilvikum, og það er áreiðanlega mjög nauðsynlegt að snúast við því og afla slíkra heimilda svo fljótt sem unnt er.

En mér finnst það mjög eðlilegt að um þetta atriði sé spurt hér utan dagskrár og þá ekki síður um hitt, um það hvaða áhrif lokun af völdum hafíss komi til með að hafa, hvernig hún verði metin gagnvart þeim veiðitakmörkunum sem nú er verið að framkvæma og ákveðnar hafa verið.

Þetta atriði með hafísinn er auðvitað óhjákvæmilegt að skoða alveg sérstaklega í þessu sambandi. Það hefur sjálfsagt engum komið annað til hugar.

Þó þetta séu þannig tímabær atriði til að ræða um má auðvitað alltaf deila um það, hvenær umr. eiga að fara fram utan dagskrár. Ég tók eftir því, að einn hv. þm. gagnrýndi það að menn skyldu ekki heldur ræða þetta við viðkomandi ráðh. o. s. frv. En ég lít nú svo á, að hér sé um það veigamikil atriði að ræða að eðlilegt sé að vekja athygli á þeim opinberlega á þennan hátt.

Ég er hins vegar sammála hæstv. forseta, að það er ekki unnt að ræða þetta gífurlega umfangsmikla, vandasama og viðkvæma mál og síst til neinnar hlítar í umr. utan dagskrár hér á Alþ. sem brotið er upp á fyrirvaralítið og menn eru þá ekki undir það búnir sérstaklega. Ég skal ekki heldur fara út í almennar umr. um fiskveiðistefnu og annað slíkt, enda er satt að segja tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs fremur lítið, en það er frammíkall mitt í ræðu hv. 1. þm. Vestf., og ég skal ekki hafa um það atriði, sem okkur fór á milli, mörg orð.

Ég verð nú að segja að mér finnst það hálfbarnalegt hjá hv. þm. að fara að tala um „fjölskylduvandamál“ og að ég eigi fiskifræðing fyrir son út af svona frammíkalli. Mér finnst þetta ákaflega barnalegt og eiginlega óviðeigandi. Og mér dettur ekki í hug að láta segja mér að þegja hér á hv. Alþ. um málefni eins og þetta þó að ég eigi t. d. einn son sem starfar á Hafrannsóknastofnun og annan sem starfar á togaraflotanum o. s. frv.! En hv. þm. ýfðist við og fór að tala um fjölskylduvandamál o. s. frv. Nú, en við skulum sleppa því!

Það eru tvö atriði í máli hv. 1. þm. Vestf., sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Hv. þm. varaði þingbræður sína enn á ný — hann hefur oft gert það áður — við fiskifræðingum og varaði menn við oftrú á kenningum þeirra. Hann sagðist hins vegar styðjast við reynslu — áratugareynslu. En nú vil ég koma nokkuð á móti þessum hv. þm. og vara hann við því að taka of mikið mark á áratugareynslu, — vara hann alveg sérstaklega við því og svo aðra sem mál mitt heyra eða kunna að lesa það seinna í Alþt. og það af ástæðum sem ég skal nú greina í örstuttu máli.

Á liðlega 20 árum hefur heildarstofnstærð þorsksins minnkað úr 2.6 millj. tonna 1955 í 1.2 millj. tonna 1978. Hitt er þó miklu verra, að hrygningarstofninn er talinn 1 millj. tonna á árunum 1957–1959. Hann er talinn 700 þús. tonn 1970 og 165 þús. tonn árið 1978. Auðvitað dettur mér ekki í hug fremur en öðrum, að hér séu nákvæmar tölur upp á kg eða tonn eða jafnvel þúsund tonna, en það er alveg útilokað fyrir nokkurn mann að skella skollaeyrum við þessum tölum, að skella skollaeyrum við áliti fræðimanna á þessum efnum eða öðrum sem fræðimenn hafa rannsakað áratugum saman. Álit fiskifræðinganna var eitt beittasta vopn okkar þegar slegist var um þorskinn í þorskastríðinu, það fer ekkert á milli mála: eitt beittasta vopn. Og það vill svo til þá, að þegar farið er að gera upp sakirnar á erlendri grund verða útlendir fræðimenn að gera svo vel að samþykkja í meginatriðum niðurstöður íslenskra fræðimanna að þessu leyti. Það er alveg útilokað fyrir okkur nú, t. d. eftir þau not, þá reynslu sem við höfðum að þessum niðurstöðum af þessu starfi, að láta sem ekkert sé. Það er alveg útilokað. Það er þess vegna sem ég vil vara þennan hv. þm. og aðra við því að leggja að þessu leyti of mikið traust á reynslu fyrri áratuga, eins og hv. þm. orðaði það, vegna þess að á fyrri áratugum var allt annað upp á teningnum, eins og þessar tölur, sem ég áðan nefndi, gefa alveg ótvírætt til kynna eða öllu heldur gefa okkur vissu um. Þá var allt annað upp á teningnum, öðruvísi umhorfs í hafdjúpunum, og þess vegna er ekki hægt að taka þessa svokölluðu reynslu fyrri áratuga eins hátíðlega og hv. 1. þm. Vestf. virtist vilja vera láta.

Svo var hitt atriðið. Ég kallaði fram í fyrir hv. þm. þegar hann sagði að nú væri verið að veiða þann þorsk sem ekki ætti að vera til í sjónum. Þetta er rangt. Það er einmitt þetta sem ekki hefur verið sagt! Það var spáð miklum afla úr árganginum 1973 strax þegar seiðarannsóknum lauk haustið 1973. Þá strax og ætíð síðan hafa fiskifræðingar spáð miklum afla úr þessum sterka árgangi. Og þessi sterki árgangur hefur reynst svo sterkur að árið 1978 hefur hann skilað 49% af afla togaranna á tilteknu svæði. Það er ekkert annað. En það er eins og sagt er um peningana: það er ekki hægt að nota sömu krónuna tvisvar. Og það er einmitt þessi árgangur sem fiskifræðingar telja nauðsynlegt að vernda eftir föngum til þess að efla veikan hrygningarstofn þorsksins og byggja hann upp. Þetta er lóðið, þetta vita fiskifræðingar og þetta skilja nefnilega sjómenn og útvegsmenn yfir höfuð að tala, eins og hér hefur komið fram í ræðum sumra hv. alþm., þó hv. 1. þm. Vestf. botni hvorki upp né niður í þessu.

Svo að lokum vil ég víkja að því, að þessi sami hv. þm. tók smárispu út af loðnuveiðum og loðnuspám. Það er nú ekki langt síðan farið var að veiða loðnu hér í stórum stíl og fylgjast með henni á vísindalegan hátt, en loðnuspár hafa ætíð verið settar fram með mjög miklum fyrirvörum og þær hafa í öllum meginatriðum gengið eftir til þessa. Hitt er svo annað mál, að veiðitoppurinn á loðnunni er núna orðinn óhugnanlega hár.

Herra forseti. Ég skal svo að lokum aðeins segja það, að takmarkanir á þorskveiðum geta orðið dýrar og komið illa við. Og auðvitað hefur verið reynt og verður reynt áfram, að hliðra þar til og jafna þar á milli svo sem menn hafa frekast getu og vit til. En þó að þessar takmarkanir geti .orðið dýrar á einstökum svæðum fyrir einstakar greinar fiskveiða, þá er þó hitt áreiðanlega dýrast af öllu: að tefla á tvær hættur í þessum efnum.