27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

132. mál, varanleg vegagerð

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef nú á nokkrum dögum tvisvar átt erindi hingað vegna þáltill. sem snerta samgöngumál, og í bæði skiptin hefur ungur maður, hv. 4. landsk. þm., séra Gunnlaugur Stefánsson, — ég ávarpa hann ekki undir minna standi, — teflt fram sérkennilegum vísindakenningum í sambandi við samgöngumál þessi. Í fyrra skiptið var ég að leggja til að rannsökuð yrði innsiglingin í Höfn í Hornafjörð, en það vildi svo til að þangað var fengið skip til þess að opna innsiglingarrennuna þannig að skip gætu siglt þar út og inn, bæði fiskiskip og millilandaskip. Þetta heppnaðist þann veg að í allan vetur hefur þessi hin mesta fiskiskipahöfn og sjávarútvegsiðnaðarhöfn haldist opin. En af því var till. sérstaklega flutt að þar var enginn að halda því fram að búið væri að ráða neina lokabót á þeim vanda. En það sem hann fór með í sambandi við það, þessi hv. þm., var aldeilis frábært kjaftæði sem ég hef sjaldan orðið áheyrandi að hér á hinu háa Alþ.

Og nú endurtók sagan sig heldur betur. Hann áleit að sjálfstæðismenn væru með þessari tillögugerð að treysta vinstri stjórn betur en sér fyrir þessu verkefni. Það er skemmst frá að segja, að við treystum henni ekki til neins og það hefur margsinnis komið fram. En þessi till. hefur verið í undirbúningi, vinnsla hennar, ítarlega í tvö ár. Hún var flutt fram meðan sjálfstæðismenn héldu kannske að þeir ættu möguleika á að komast sem allra fyrst í stjórn aftur og ætluðu sér þá heldur betur að fylgja henni eftir, og af því sem þeir vita að auðvitað verður hún ekki framkvæmd af neinu viti fyrr en þeir taka um stjórnvölinn aftur, — hverjir svo sem druslast með þeim í stjórn, það er önnur saga.

Hann tók það fram, þessi hv. þm., að hann væri ekki á móti vegagerð — það var líka þörf á því að taka það fram, — og nú þegar hann hætti að þvarga um innsiglinguna í Höfn gekk hann á guðs vegum og tók fyrir vegamálin. Hann áleit að það þyrftu að fara fram ítarlegar rannsóknir. Hvað skyldi hann halda að liggi að baki þessari tillögugerð? Einhver heimavinna hjá mér kannske? (Gripið fram í: Já.) Ónei, það vill svo til að svo er ekki, heldur er þetta unnið af hæfustu mönnum sem við eigum til verkanna, og ég get upplýst hv. þm. nákvæmlega um það þegar og ef hann kærir sig um að fá að vita hið sanna í málunum, en ganga ekki svona í villu og svíma, þó hann þykist á guðs vegum.

Hann sagði að hér væri kastað fram tölum um tekjuöflun. Það var rætt fram og aftur ítarlega með hvaða hætti mætti að þessu standa. Er hægt að hrekja það, að það sé skynsamlegt að verja fé úr Byggðasjóði í þetta? Er til meira byggðamál í landinu en þetta? Þeim, sem hafa stolið af honum í óreiðuskuldir 1130 millj., ætti ekki að ofbjóða þó að það væri varið 1 milljarði í slíkt verkefni sem þetta. Er það til of mikils mælst að taka af sérsköttum umferðarinnar, umframsköttum 2 milljarða á ári í stað þess að láta það fé renna stjórnlaust í ríkissjóðshítina? Er ekki rétt að til þess að laga vegina fari meira af sköttum umferðarinnar? Allir hafa verið sammála um þetta sem ég hef talað við, þangað til þessi hv. piltur kemur hér upp til þess að hafa aðrar skoðanir sem ekkert er nema frábært múður.

Engum tölum var kastað fram. Málið er ekki illa unnið. Það er betur unnið en nokkurt annað mál sem ég hef komið nærri frá því að ég hóf þingstörf hér. (Gripið fram í.) Og er þá mikið sagt, því ætlaði ég sjálfur að bæta við. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka af mér ómakið, enda hefur hann sjálfsagt oft fundið til þess.

Hv. þm. sagði að það væri nauðsynlegt að fela Vegagerðinni að rannsaka hagkvæmni og gera till. um fjármálin. Þetta hefur allt saman verið unnið í nákvæmu samráði við hana og aðra sem álíka gott vit haf á þessum málum. Fjármagnsniðurskipan mála sem og framkvæmdaniðurskipan frá upphafi til enda, hver spotti sem hér er lagður til, hefur þannig verið unninn. Hv. þm. hefði ekki þurft nema spyrja mig að þessu, ef hann hefði kært sig um að vita hið sanna og rétta í málinu. Annars var það svo eftir ræðu hans um innsiglinguna í Höfn að ég hugsaði með mér að ekki tæki því að eiga orðastað við svoddan sjálfskipaðan spesíalista í samgöngumálum.

Hv. þm. skaut því fram, að Ólafur Einarsson, 2. flm. að þessari till., virtist ekki hafa mikinn áhuga á Reykjanesbraut. Má ég benda á það, að hér er lagt til að tekið verði erlent lán til þeirra framkvæmda vegna þess að hún er álitin af flm. algert forgangsverkefni. Í mínum flokki varð ekki samkomulag um að taka yfirleitt erlent fé til slíkra framkvæmda nema hinna brýnustu, eins og þessarar framkvæmdar. Ja, það er jafnvel hægt að ofbjóða skapstillingarmönnum eins og mér með svona tali. Og í þetta kvað hv. þm. að yrði að verja öllu tiltæku fé. Við leggjum svo þunga áherslu á þetta, að við förum skör fram úr því, því að erlent fé er ekkert tiltækt fé yfirleitt eins og stendur fyrir Íslendinga, nema við getum sýnt fram á alveg sérstaka hagkvæmni, að það sé sérstaklega hagkvæmt og muni stórborga sig og gera okkur betur færa um að endurgreiða skuldir okkar, ef við ætlum að taka fé að láni erlendis.

Herra forseti. Ég hef ekki miklu fleira um þetta að segja. En ég hefði kosið að svo mikilvægt mál hefði verið rætt ögn málefnalegar en hv. 4. landsk. þm. gerði. Ég vil aðeins geta þess varðandi ræðu hv. 1. þm. Suðurl., að hann lagði þar aðeins stærra undir í sínum útreikningum, þar sem hann fór töluvert fjallasýn líka, tók inn fleira en það sem bókstaflega hefur verið tilgreint, þannig að ef mönnum hefur ekki sýnst að hljómaði alveg saman um alla útreikninga, þá er þar aðallega sú skýring, því að vitanlega hallast á merinni ef menn þeysa um of langa leið eins og mér virðist að hann að sumu leyti vilji leggja til. En auðvitað er það framtíðarstefnan að komast lengra en hér er lagt til. Eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt mun mega stytta þetta framkvæmdatímabil, og eins og hæstv. samgrh. sagði á FÍB-þinginu, þá gera menn sér fyllstu vonir um að undirtektir verði það rösklegar að það megi stytta framkvæmdatímabilið.

Hv. 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, er flm. að þessari till. Það, sem hann rakti í þeirri grg., sem hann flutti hér, var aðeins stærra í sniðum, en að öðru leyti er sú grg. ekki að neinu leyti hjáróma við þetta. (Gripið fram í.) Já, hann fór nánar út í það sem segir hér, eins og hann segir sjálfur, að lokið skuli hringvegi o. s. frv., þá fór hann nánar út í þá sálma og er ekkert nema gott um það að segja. En af því sem ég veit, að menn blöndra með mál, þá þótti mér bera nauðsyn til að þeir væðu ekki í þeirri villu að hér væri ekki verið að tala um sama málið þótt útfærslan væri á annan veg og þess vegna niðurstaðan í fjármunum ekki nákvæmlega hin sama.