27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

132. mál, varanleg vegagerð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg, að hér liggi nú fyrir okkur eitt af merkari þingmálum stjórnarandstöðunnar á þessu þingi. Menn mega leiða getum að því hver í sínu lagi, hvað þetta framkvæmdatímabil, sem hér um ræðir, tákni, hvort 15 ára tímabilið eigi að vera tímabil svona eins konar „alibí“ fyrir Sjálfstfl. í stjórn vegamála hér á landi eða ekki. En mér finnst það liggja í augum uppi, það lítið sem ég hef kynnt mér þetta mál, að að baki þessari þáltill. liggi töluverð vinna, og ég efast ekki um að þar hafi þeir sjálfstæðismenn notið aðstoðar hinna færustu sérfræðinga. Og ég treysti mér alls ekki til þess að gagnrýna hvorki kostnaðarútreikninga í þessu sambandi né heldur vegalengdir. Að vísu hlýt ég að játa það, að mér virtist, þegar hv, 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, tilgreindi vegalengdir áðan, að þar mundi skakka nokkuð frá því sem gefið er upp í vegabókum núna. En síðan minntist ég þess, að hann gat þess sérstaklega að sums staðar væru teknar af beygjur sem þá stytta veginn, en að vísu virtist mér að annars staðar hefði verið bætt við beygjum. En það er ekki hægt fyrir mig að gagnrýna þetta vegna þess að ég veit ekki hvað sérfræðingar Sjálfstfl. hafa lagt til grundvallar þegar þessir útreikningar voru gerðir sem náttúrlega koma síðan inn í verðáætlunina.

Ég hlýt að fagna því, að í þessari þáltill. er sérstaklega fjallað um vegakerfi landsins í heild. Ég hef farið undanfarin ár talsvert um vegi í grennd við Reykjavík og þá sérstaklega á Reykjanesi og undrast það og fagna því raunar, vegna þess að ég er ekki öfundsjúkur maður, hversu vel hefur miðað áfram lagningu bundins slitlags á þessum slóðum þar sem hv. þm. Reykn. eiga leið um milli kjósenda sinna á hinum síðari árum og bætast umvörpum við nýir olíubornir kaflar ár hvert. Samanborið við samgönguvandamál og umferðarvandamál út á landsbyggðinni annars staðar, norðan heiða og austan t. d., eru þau vandamál, sem þeir eiga hérna á Faxaflóasvæðinu við að glíma þegar þeir eru að komast á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, lítils háttar og allt annars eðlis og tekur ekki að nefna þau í sömu andránni, hvað þá meir. Og ég verð að segja eins og er, að mér finnst hv. þm. þeirra Reykn., Ólafur G. Einarsson, ekkert setja niður við það þótt hann sé 2. flm. að þessari till., finnst hann ekki maður að minni þótt hann — enda fæddur og uppalinn í snjóþungu héraði norður í landi — sjái þessa neyð og þessa nauðsyn, að nú yrði hlynnt lítils háttar að byggðunum fyrir norðan, austan og vestan líka.

Ég fagnaði því í ræðum frsm. áðan, að þeir skyldu ekki tala um varanlegt slitlag, og eignaði raunar þetta afturhvarf í skynsamlegri notkun í íslenskri tungu sérstaklega hv. þm. Sverri Hermannssyni. Ég vildi bara að hann hefði í fyrirsögn till. gætt hinnar sömu varúðar og stillt sig um að nefna málið þáltill. um varanlega vegagerð, því að einn af þeim kostnaðarliðum, sem mér virðist að ekki sé tekið tillit til í þessari 15 ára áætlun, er viðhald þessara vega. Ég hef rökstuddan grun um að þeir verði ekki varanlegir beinlínis, enda er svo um fá mannanna verk. Og enn fleiri atriði í tekjuöflunaráætlun og kostnaðaráætlun eru efalaust þess eðlis að betur þarf á að líta. Hv. þm. Sverrir Hermannsson ræddi um fjáröflunarmöguleika og möguleika ríkisins, hins opinbera, og fjárframlaga í þessu skyni. Hann gat þess beinlínis í framsöguræðu sinni, að tekjur ríkissjóðs af innflutningi bifreiða hljóti að skerðast um yfir 60% einmitt vegna þessara framkvæmda. Í útreikningum þeirra ágætu sérfræðinga, sem fjallað hafa um vegáætlanir til langs og skamms tíma á landi hér, hefur þess jafnan gætt að þeir ganga út frá stirðnuðum eða frosnum forsendum að mörgu leyti. Það mun vera svo, að sérfræðingum hættir til þess, þeir framreikna yfirleitt ekki breyttar aðstæður umfram það sem lýtur að kostnaði. Ég er hálfhræddur um að eins mundi fara fyrir þeim ágætu sérfræðingum þótt þeir önnuðust útreikninga fyrir aðra stjórnmálaflokka en Sjálfstfl., að þá mundi reka í vörðurnar ef við legðum fyrir þá grundvallarspurningar sem lúta að í fyrsta lagi breytingu á bensínverði eða eldsneytisverði á næstu 15 árum og þó e. t. v. fyrst og fremst ef við legðum fyrir þá spurninguna, hvaða eldsneyti bílarnir eða farartækin, sem um þessa vegi munu fara eftir 15 ár, eiga að brenna? Hvernig verða farartækin knúin áfram eftir þessum vegum? Ég er ekki með þessu að halda því fram að við eigum ekki að gera okkar áætlanir, leggja einhver plön um samgöngur á landi hér. En ég hygg að við gerum varlega í því að treysta á kostnaðaráætlanir til svo langs tíma og hagkvæmniáætlanir til svo langs tíma. Við neyðumst náttúrlega til þess að reyna að gera okkur einhverja grein fyrir þessu, en ég hygg að við getum ekki treyst á kostnaðaráætlanir til svo langs tíma og e. t. v. enn þá síður á tekjuöflunaráætlanir af þessu tagi til svo langs tíma. Það breytir ekki þeirri skoðun minni, að hér sé um að ræða merkt þingmál og vel þess virði að um það verði fjallað af fullkominni alvöru og lagður bæði tími og talsverð vinna í að fjalla um þetta mál.

Ég geri ráð fyrir að þetta mál muni verða til umfjöllunar á fleiri þingum en þessu. Einnig geri ég ráð fyrir að ýmsir þeir liðir, sem fjallað er um í þessari áætlun þeirra Sjálfstfl.-þm., kunni að koma til álita við umr. um vegáætlun sem hlýtur að verða lögð fram bráðlega hér í þinginu. Og ég vil nú mælast til þess, að hv. flm., þeir þm. Sjálfstfl., tækju það ekki sem meinbægni, heldur greindarlega tilhneigingu til rólegrar og djúprar íhugunar um vegamál, þótt þessi till. þeirra rynni ekki beinlínis gegnum Alþ. á nokkrum dögum. Ég fullvissa þá um einlægan ásetning minn að hugleiða ýmis mál varðandi þessa till. og þá e. t. v. með aðstoð góðra sérfræðinga sem kynnu að útskýra fyrir mér tæknileg atriði bæði varðandi vegalengdir, útreiknaðar eins og hv. þm. Eggert Haukdal greindi okkur frá áðan, og kostnaðarliði. Mér fannst það myndarlegt af hv. þm. Eggert Haukdal og það gladdi mig sannarlega að hann skyldi síðan taka til við í raun og veru næstu 15 ára áætlun á eftir þessari, útfæra það sem næst okkur stendur í vegamálunum samkv. þessari þáltill. Þetta mæli ég í fullkominni einlægni, vegna þess að sannleikurinn er sá að ég hef alltaf litið fyrirhugaðan hringveg að vissu leyti tortryggnum augum. Er það tilgangurinn með hringveginum að auðvelda mönnum að komast burt frá Reykjavík eða auðvelda mönnum að komast til Reykjavíkur? Er það megintilgangurinn? Ef það væri markmið út af fyrir sig að leggja hringveg á Íslandi, þá er náttúrlega ódýrast að hafa hann sem stystan, hafa þetta litinn hring. Aftur á móti hringvegurinn eins og hann hefur verið hugsaður, að því er virðist, af hálfu sumra ágætra áhugamanna um vegamál, er býsna stór hringur, en þó að því er manni virðist stundum án nokkurra teljandi tengsla við fólkið sem býr utan hrings eða innan, þörf þessa fólks fyrir samgöngur innan héraða þrátt fyrir hringveginn, undir hann eða yfir, — án nokkurrar heildarsýnar á íslensk samgöngumál. Þessi tilhneiging, sem ég hef orðið fyrir í tengslum við umr. sem hér hafa orðið stundum um hinn helga hringveg, gerði það að verkum að ég hef seinni árin frekar hneigst að hugsun um uppbyggingu vegakerfis innan héraða sem miðuðu þá að því að menn kæmust á vetri sem sumri erinda sinna í samskiptum hver við annan og í sókn til þjónustumiðstöðva innanhéraða. Af þeim sökum hefði ég nú kannske nokkra tilhneigingu til þess að æskja þess, að byrjað yrði á III. kafla áætlunarinnar og við skoðuðum þessi mál, svo að ég leggi út af líkingu hv. þm. Sverris Hermannssonar, af þeim hóli fjallasýnar Eggerts Haukdals sem lýtur að innanhéraðavegunum og sveitavegunum, fremur en við legðum slíkt ofurkapp á að koma á þessu undarlega fyrirbæri sem hringvegur hefur kallast.

Ég tek nú undir það sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði um nauðsyn rannsókna. Ég man eftir því æ ofan í æ, þegar rætt hefur verið um slitlag á þjóðvegi okkar, að hér hafa komið upp menn í ræðustól á Alþ. og vakið athygli á hættunni sem á því er að mjög slitnir vegir, malbikaðir vegir, vegir með bundnu slitlagi í fjalllendi okkar kynnu að verða erfiðari sökum hálku heldur en malarvegirnir, og því hefur ekki verið á móti mælt, að af hálfu verkfræðinga okkar hefur ekki verið fundin lausn á því vandamáli í sambandi við bundið slitlag á alla vegi. Á Suðurlandi verður slíkt hvergi vandamál, tæpast í Kömbum, svo slétt er það land og þessi eini fjallvegur, sem þar kemur til álita að bundið slitlag mundi gera erfiðan sökum hálku, er ekki lengri en svo, að vegfarendur geta sjálfir bætt úr því með sandburði, annaðhvort úr sandgeymslum við veginn eða jafnvel gætu flutt nægan sand í farangursgeymslu bifreiða sinna til þess að bjarga sér þar. En þau verða mörg vandamálin sem til álita koma þarna.

Ég held að við getum síður en svo lagt það flm. þessarar till. til lasts að þeir vilji nú ræða áætlun til 15 ára um vegabætur af þessu tagi, stórkostlegar vegabætur af þessu tagi á landi hér. Það hygg ég að sé gott. En ég vildi beina því til hv. flm. að þeir pössuðu sjálfa sig á því beinlínis að taka ekki till. of hátíðlega eða fyrir heit sjálfra sín um möguleika á því að framkvæma þetta verk á 15 árum eða þörfina fyrir að framkvæma verk af þessu tagi á 15 árum. Það rýrir ekki gildi þessarar þáltill. þó að þeir færu ekki að sverja allt of mikla eiða í þessu sambandi. Og þeim til varnaðar vil ég aðeins nefna það eitt, að það er ekki loku fyrir það skotið að Sjálfstfl. lenti í því að komast í stjórnaraðstöðu innan 15 ára, og þá er betra að vera ekki búinn að sverja sig beinlínis til vítis í sambandi við mál eins og þetta.