27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

182. mál, sending matvæla til þróunarlanda

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 348 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á sendingu matvæla til þróunarlanda. Flm. ásamt mér eru hv. 2. þm. Norðurl. v., hv. 5. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Norðurl. v. Till. er þess efnis, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að kanna til hlítar hvort unnt sé að auka stuðning við þróunarlönd á þann veg að íslenska ríkið kaupi búsafurðir af framleiðendum, svo sem mjólkurduft, og sendi þangað sem þörfin er brýnust fyrir matvæli.

Íslendingar gerðust aðilar að sáttmála hinna Sameinuðu þjóða 19. nóv. 1946. Þeir hafa yfirleitt getið sér gott orð á þeim vettvangi. Þar hafa þeir haft nánasta samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Stundum hafa menn velt því fyrir sér, hvort setja ætti ákveðin skilyrði um stærð og fólksfjölda þeirra þjóðlanda sem óska aðildar að Sameinuðu þjóðunum, en þá hefur verið á það bent að sumar smáþjóðir hafi starfað vel í þeim samtökum. Oftar en einu sinni hef ég heyrt tekið svo til orða á þeim samstarfsvettvangi þjóðanna, að rödd Íslands megi ekki vanta. Hvort full meining býr að baki slíkra yfirlýsinga skal ósagt látið. Á hitt ber okkur sjálfum að líta, hvort við rækjum þær skyldur, sem þessi alþjóðlega samvinna leggur okkur á herðar, með þeim hætti að sæmilegt megi teljast.

Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum verið vikið að þessu atriði, einkum í umræðu þeirri sem spunnist hefur út af skýrslu utanrrh. til Alþingis einu sinni á ári.

Svo sem kunnugt er hafa Íslendingar einnig tekið þátt í störfum ýmissa sérstofnana Sameinuðu þjóðanna, ekki síður sem þiggjendur en gefendur. Þannig fékk Ísland að jafnaði 200 þús. dala framlag árlega frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna á árunum 1972-1976, að ég ætla. Fé þetta rann til margþættra verkefna sem aðkallandi voru á ýmsum sviðum þjóðlífsins, svo sem málmleitar, ferðamála, útflutningsstarfsemi iðnaðarins, lax- og silungsrannsókna, fiskvinnslu, landbúnaðarrannsókna o. s. frv. En seinna kom á daginn að styrkir Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna voru fyrst og fremst ætlaðir hinum fátækari þróunarlöndum. Ljóst varð að mjög hallaðist á, því að ásókn okkar í þetta fé vó miklu þyngra en framlag okkar til fátækra þjóða.

Löggjöf um aðstoð Íslands við þróunarlöndin var samþ. á Alþ. 23. mars 1971. Tilgangur þeirrar löggjafar er m. a. samkv. 4. tölul. 2. gr. að vinna að því að framlög Íslendinga í þessu skyni, þ. e. til þróunarlandanna, nái sem fyrst því marki er samþykkt hefur verið á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þau nemi 1% af þjóðartekjum. Það munu að vísu fá þjóðríki hafa náð settu marki. Árið 1976 var Svíþjóð talin vera hið eina og mörg ríki voru þá komin yfir 1/2%, m. a. Noregur. En Ísland var mjög aftarlega í röðinni með aðeins 10/00 — einn af þúsundi — e. t. v. samkv. reglunni: Sælla er aðgefa en þiggja — með neikvæðu fortákni.

Íslendingar eru aðilar að FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sú stofnun hefur sett sér það takmark að útrýma hungri úr heiminum. Það er vitað, að á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1960 var gerð samþykkt þess efnis að nýta bæri um framframleiðslu matvæla í heiminum meðal þróuðu og ríku landanna til að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála í fátækum löndum. Það munu víst flestir viðurkenna að takmarkið um útrýmingu hungurs er enn fjarlægt, en að því verður að stefna og þá hlýtur það að skipta meginmáli að finna hagkvæmustu leiðir til þess að koma fæðunni þaðan sem meira en nóg er til af henni þangað sem fæðuskortur er og fólkið lifir rétt við hungurmörkin.

Ekki þarf að fletta spjöldum Íslandssögunnar lengi til þess að komast að raun um að íslensk þjóð hefur haft náin kynni af harðæri og hungri á liðnum öldum. Jafnvel þau héruð landsins, sem hvað best voru sett að þessu leyti hvað matbjörg snerti, fóru ekki varhluta af kynnum við hungurvofuna. Hinn sögufróði sýslumaður Dalamanna Þorsteinn Þorsteinsson skrifar svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjaldan varð mannfellir í Dalasýslu af harðæri og aldrei á Skarðsströnd eða Fellsströnd, en þangað sóttu uppflosningar og vergangsmenn að hvaðanæva, einkum úr Norðurlandi. Var þá oft þröngt fyrir dyrum á Ströndum. Margt þessara þurfamanna hélt fram um eyjar og til veiðistöðvanna í Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri. Sultur svarf oft fast að í suðursýslunni og Saurbæ, einkum eftir fjárpestir.“

Nú er öldin önnur. Of mikið af matvælum er framleitt í landinu. Þjóðinni er mikill og alvarlegur vandi á höndum, eins og sagt er, vegna framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða langt umfram það sem selst á innanlandsmarkaði. Offramleiðsla matvæla orðin eitt af höfuðvandamálum í þjóðarbúskapnum. Á meðan svo vindur fram hér á landi halda milljónir manna áfram að svelta í fátækum löndum. Eitt af þrem meginverkefnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem nú hefur starfað í tvö ár eða svo, er matvælaskorturinn í heiminum og mannfjölgunarvandamál, og þarf varla að minna á að árið 1979, hið nýbyrjaða ár, er ár barnsins.

Á Alþ. í fyrra ræddi þáv. hæstv. utanrrh. nokkuð um Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna í skýrslu sinni og sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn vafi leikur á, að Ísland á betur heima í hópi veitenda en þiggjenda þeirrar stofnunar, þótt alltaf megi finna hér í þessu framtíðarlandi þörf verkefni til að fjármagna.“

Það má vel vera að í þessum efnum sé við mikla framkvæmdaörðugleika að etja. En mér sýnist rík ástæða vera til þess að láta nú kanna þessi efni öll til þrautar. Fjarlægðir eru miklar og flutningskostnaður hár. Ég minnist þess úr gagnfræðaskóla fyrir 4 áratugum eða svo, að einn kennarinn sagði m. a. að vísindamenn dreymdi um að gera allar fjarlægðir að engu í framtíðinni. Vissulega hafa slíkir draumar komið fram nú þegar að verulegu leyti miðað við það sem þá var. Og enn styttast leiðir til stórra muna og hvers konar úrræði aukast í tæknilegum efnum svo að segja dag frá degi.

Ef hinar efnaðri þjóðir ætla sér að ná því marki að útrýma hungri úr heiminum, verða leiðir að finnast til þess — eins og ég nefndi áðan — að senda matvæli þangað sem þörfin er brýnust. Vitaskuld kostar það mikla peninga og einbeittan og samstilltan vilja, en viljinn er líka mikils virði.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um till. þessa nú, en mælist til þess við hæstv. forseta, þegar umr. verður frestað, að till, verði vísað til hv. allshn.