01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram miklar umr. hér á landi undanfarin ár um verðbólgu, orsakir hennar og afleiðingar. Við vitum að margar nefndir hafa verið skipaðar til að reyna að grafa fyrir rætur þessa mikla meins og þykkar bækur gefnar út um það, hvernig skilgreina mætti þetta efnahagslega vandamál, og reynt að gera tillögur um, hvernig mætti ráða niðurlögum verðbólgu. Ég ætla mér ekki í þessum umr. — eða reyni það a.m.k. — að fara mjög út í almennar umræður um verðbólguvandamálið, en auðvitað get ég ekki komist hjá því að vekja athygli á að nú við flutning þessa frv. og í sambandi við þann málflutning, sem nú er hafður uppi, hefur reyndar aðeins sést áður, er komin upp sú kenning að menn hafi fundið leiðina út úr verðbólguvandanum. Nú er allt í einu komin upp kenning um að það sé til ein handhæg leið, það þurfi bara að hreyfa til ákveðinn takka, það þurfi bara að hækka vextina, þá komi þetta, verðbólgan eyðist, þetta lagist allt saman. Illa hafa þeir verið gerðir þessir spekingar allir sem hafa verið að fást við þetta mál á undanförnum árum, að þeir skyldu ekki vera búnir að koma auga á þetta fyrir löngu, allir þeir erlendu hagspekingar sem um málið hafa fjallað. Ég held nú að þó að uppi hafi verið raddir hjá ýmsum þeirra, sem mjög hafa ráðið tillögugerð í sambandi við efnahagsmál á Íslandi, um að rétt væri að hækka vexti á lánum hér á landi allverulega og það gæti gert ýmiss konar gagn í efnahagskerfinu, hafi þeim yfirleitt ekki komið til hugar að vaxtahækkunin leiddi einfaldlega til þess að verðbólguvandinn yrði úr sögunni. En nú er sú kenning komin upp. Ég hlýt að ræða nokkuð þetta stóra vandamál út frá þessari kenningu.

Það hefur borið miklu meira á því í umr. um háa vexti, kosti þeirrar leiðar og galla, að háir vextir hafi verið rökstuddir með því, að réttmætt væri að hækka vextina í mikilli verðbólgu til þess að vernda spariféð í landinu, vernda eigur sparifjáreigenda. Það hefur í rauninni verið aðalröksemdin fyrir því, að rétt væri að fara hávaxtaleið. Vissulega verð ég að segja að tilgangurinn er góður að þessu leyti til, hann er eðlilegur. Ég vil fyrir mitt leyti líka reyna að vernda sparifjáreigendur og sparifé í landinu.

Það er auðvitað alger misskilningur, að maður segi ekki annað verra, þegar reynt er að halda því fram að ég og aðrir þeir, sem ekki fallast á að þessi leið sé rétt, af því að bent er á hina stóru ágalla við leiðina, séum á móti því að í landinu geti verið raunvextir eða nokkuð jákvæðir vextir fyrir sparifjáreigendur. Ég er því fylgjandi engu síður en þeir sem vilja æða með vextina upp úr öllu. Ég bendi hins vegar á að tilraunir þeirra, sem hafa viljað ná þessu marki með því að hækka vextina, hafa mistekist atgerlega. Hávaxtaleiðin hefur farið verr með sparifjáreigendur en nokkurn tíma var farið með þá á meðan lægri vextir voru í gildi. Ég vil í þessu efni leiða fram nokkrar staðreyndir um gang þessara mála og hvernig þau eru hjá okkur, en víkja síðan nokkru nánar að einstökum þáttum málsins, sem verður að ræða um vegna þess að þeir hafa mikil almenn áhrif.

Við vitum að það var 1. maí 1976 sem farið var inn á það að hækka vexti fyrir sparifjáreigendur svo að verulega munaði um. 1. maí 1976 voru vaxtaaukareikningarnir myndaðir og þá var byrjað á að gefa mönnum kost á að leggja fé inn á þessa vaxtaaukareikninga og greiða þeim 22% vexti. Síðan hefur þetta fyrirkomulag verið í gildi og alltaf hafa menn heldur verið að fikra sig upp eftir með greiðslu á vöxtum til þeirra sem vildu leggja fé inn á vaxtaaukareikninga. Næsta stökk á eftir varð 1. ágúst 1977. Þá voru vextir á þessum reikningum færðir upp í 26%, 21. nóv. 1977 voru þeir færðir upp í 29% og 21. febr. 1978 upp í 32% og það eru þeir enn í dag. Við þetta ber að bæta því, að á árinu 1977, þegar áfram var haldið á þessari braut, var ákveðið að tekin skyldi upp sú regla að binda vexti við verðbólgustigið á hverjum tíma. Var tilkynnt opinberlega hvernig þetta skyldi gert. Það átti að hreyfa þessa vexti á þriggja mánaða fresti. Þegar vextirnir voru komnir upp í þetta, upp í 32% í febrúarmánuði 1978, þá sýndi reyndar verðbólgustigið að skyndilega þurfti að hækka þessa vexti eftir þessari formúlu um rúmlega 13%. Það lögðu menn ekki í. Og við næsta útreikning var svipað uppi á teningnum. Þá þurfti enn að stórhækka vextina og það lögðu menn ekki heldur í, af því að menn sáu þá og höfðu fengið reynslu af því að þetta var ekki framkvæmanlegt.

Þessi leið, að ætla að binda vaxtastigið beinlínis við verðbólguvöxtinn á þriggja mánaða fresti, hefur verið reynd, hefur verið tilkynnt af þeim sem hefur haft með framkvæmdavaldið í þessum efnum að gera, og hann hefur gefist upp á framkvæmdinni. En ég býst við að sá, sem hér talaði sem flm. þessa frv., muni svara því til: Þeir voru aumingjar þarna í Seðlabankanum. Þeir áttu að halda áfram. Það gerði ekkert til þó að vextirnir hefðu farið upp. Þeir hefðu að vísu farið myndarlega upp í nokkrum sprettum, en svo hefði komið að þeim tíma, að þeir hefðu farið að lækka aftur því að þá hefði verðbólgan farið að eyðast. — En þessir hávaxtastefnumenn litu ekki svona á. Þeir gáfust hreinlega upp sjálfir. Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi fengið þá til að hætta við þetta nema þeir sjálfir, a.m.k. hafði ég ekkert vald til þess að gera það og þeir fóru ekki eftir mínum ráðum í þeim efnum. En þeir höfðu rekið sig illilega á.

Í sambandi við þessar tilraunir með vaxtabreytingar er eðlilegt að við lítum nokkuð á það, hvernig hefur farið í framkvæmdinni fyrir sparifjáreigendum á þessum tíma. Það liggja fyrir tölur um það líka, hverjir vextirnir hafa raunverulega orðið. Auðvitað er það svo, þegar verið er að gera sér grein fyrir því, hverjir raunvextir ættu að vera, að til eru fleiri en ein viðmiðun í þeim efnum. Gerðir hafa verið útreikningar með það í huga, að spariféð hefði átt að halda verðgildi sínu gagnvart verðlagi á þjóðarframleiðslu. Það er ein algengasta viðmiðunin að reikna með því að eðlilegt hefði verið að spariféð hefði átt að halda fullu verðgildi sínu í hlutfalli við verðlag á þjóðarframleiðslu. Auðvitað er sú viðmiðun líka til í þessum efnum að miða við þróun framfærsluvísitölunnar eða byggingarvísitölunnar. Þetta fer eftir því við hvaða viðmiðun skal halda sig.

Sú tafla, sem ég vitna hér í, miðar svonefnda raunvexti við þjóðarframleiðsluverðmætið. Hún segir þessa sögu m.a.: Árið 1976 var talið að þessir raunvextir hafi orðið neikvæðir um 21.4%. Árið 1977 urðu þeir neikvæðir um 22.4%. Og eftir því sem næst verður komist verða vextirnir neikvæðir á yfirstandandi ári, 1978, um 28–31%. Þetta hefur sem sagt tekist heldur báglega.

Við vitum svo líka hvað hefur verið að gerast varðandi verðbólguna á síðustu árum, eftir að við fórum inn á vaxtahækkunarbrautina. Hefur verðbólgan minnkað? Nei, allar tölur sýna að hún hefur farið vaxandi, hún hefur aukist. Hér kemur það inn í þetta dæmi sem ég vil leggja áherslu á og mér þykir einna mest á skorta hjá ýmsum þeim sem ræða þessi mál hér á landi. Það er þó síður en svo að ég sé aðeins einn úr hópi þeirra, sem mættu kallast leikmenn, að tala um þetta. Einn allra menntaðasti íslenski hagfræðingurinn, dr. Magni Guðmundsson, hefur skrifað um þetta mál ítarlega grein og vitnar þar í erlenda fræðimenn. Hann virðist vera á nákvæmlega sömu skoðun og ég í þessum efnum og segir að það sé hin mesta vitleysa að ætla sér að fara þá leið sem hér hefur verið farin. Og auðvitað eru miklu fleiri aðilar á þessari skoðun.

Ástæðurnar til þess, að þessar miklu skekkjur koma upp hjá ýmsum þessum aðilum, eru að mínum dómi fyrst og fremst þær, að menn reikna ekki með þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi í íslensku efnahagslífi. Það hefur verið sagt, að í sumum efnahagskerfum erlendis séu mál þannig, að 1–2% hækkun á vaxtakjörum geti haft býsna miklar afleiðingar, geti jafnvel komið í veg fyrir að ýmsir haldi áfram að taka þátt í atvinnurekstri, sem gerðu það áður á sínu sviði, af því að þeir verða að víkja fyrir þeim sem sterkari eru og þola slíkt álag, en þeir þola það ekki sjálfir. Hér er þessu ekki svona farið.Við búum við allt annað verðmyndunarkerfi á öllum þessum sviðum. Við búum við það kerfi, að nálega allir, sem þurfa að greiða háa vexti, hafa rétt til þess og möguleika til þess innan verðmyndunarkerfis okkar að velta hinum háu vöxtum af sér út í verðlagið. Þeir þurfa ekki að rísa undir vöxtunum sjálfir. Þannig er t.d. háttað um helstu atvinnugreinar okkar.

Í þessum efnum er býsna athyglisvert að skoða hvernig er háttað útlánum bankakerfis okkar og peningalánakerfis í landinu. Ég tók upp nokkrar helstu lánatölur, sem fram koma í skýrslum bankakerfisins núna, miðað við 31. ágúst á þessu ári. Ég ætla aðeins að fara yfir nokkrar helstu stærðirnar þar, sem mynda næstum öll útlánin.

Þar er fyrst til að taka, að skráð er að verslunin í landinu hafi að láni í bankakerfinu rétt um 24 milljarða kr. Til þess að skýra þetta dæmi örlítið finnst mér eðlilegt að setja inn í dæmið að við lítum yfir hvað mundi gerast hjá okkur ef t.d. þessir vextir væru hækkaðir á tiltölulega stuttum tíma um 10%. Auðvitað mundi 10% vaxtahækkun fyrir verslunina á þessum skráðu lánum í bankakerfinu þýða vaxtaaukaútgjöld upp á 2.4 milljarða kr. af þessari fjárhæð. Dettur nokkrum manni í hug að íslenska verslunin muni borga þetta úr eigin vasa? Hafa menn t.d. kynnt sér þá útreikninga sem eru lagðir fyrir okkur þm. og voru t.d. lagðir fyrir þá sem stóðu í stjórnarmyndunartilraunum eða unnu í verðbólgunefnd? Þar voru lagðir fram útreikningar frá Þjóðhagsstofnun á rekstri heildverslunar, á rekstri smásöluverslunar og færðir þar upp allir helstu kostnaðarliðir. Auðvitað voru vaxtaútgjöldin færð þar upp eins og hver annar kostnaðarliður, eins og menn vissu best um vaxtaútgjöld verslunarinnar eins og þau voru. Síðan var dæmið gert upp á þeim grundvelli, hver væri afgangurinn sem verslunin ætti við að búa, hvað hún hefði þá mikinn afgang, af því að gengið var út frá því, eins og er í okkar verðmyndunarkerfi, að verslunin mætti velta af sér slíkum vaxtakostnaði út í verðlagið í landinu. Auðvitað eru það ekki aðeins vextir af því fjármagni, sem er tekið beint að láni úr bankakerfinu, sem hér koma til greina.

Ég tek síðan landbúnaðinn. Í þessari sömu skýrslu bankanna kemur fram, að landbúnaðurinn hafði að láni um þetta leyti, 31. ágúst, um 14 milljarða kr. Á ég að trúa því, að til séu þm. hér á Alþ. sem viti ekki hvað gerist í verðmyndunarkerfi okkar ef t.d. vextir til landbúnaðar hækka um 10%? Vita menn ekki hvernig verðmyndunarkerfið þar er byggt upp? Auðvitað færu þessir vextir út í verðið á landbúnaðarafurðum og út í verðlagskerfi okkar. Þetta yrði ekki lagt sem skattur á bændurna. Það yrði kannske í sumum öðrum löndum, þar sem menn búa við allt annað verðmyndunarkerfi, að slík stórhækkun á vöxtum mundi bitna með gífurlegum þunga á ýmsum þeim, sem t.d. stæðu í framleiðslu landbúnaðarafurða eða sölu á þeim. Hér gildir það ekki, það fer út í verðlagið.

Um sama leyti var skráð að iðnaðurinn í landinu hefði lán í bönkunum upp á rétt rúmlega 17 milljarða kr. Hvað halda menn að gerðist í íslenskum iðnaði ef hann stæði frammi fyrir verulegri vaxtahækkun? Auðvitað leggur hann á framleiðsluvörur sínar sem eru fyrst og fremst til sölu á innanlandsmarkaði. Þetta fer út í verðlagið. Þannig er fyrirkomulagið hjá okkur.

Um þetta leyti hafði sjávarútvegurinn að láni hjá bankakerfinu rétt tæpa 52 milljarða kr. Við þekkjum það, sem höfum fengist við íslensk efnahagsmál í allmörg ár á Alþ., hvernig þetta hefur birst okkur. Það hefur birst okkur í því formi, að þegar um það er að ræða að sjávarútvegsframleiðslan eða önnur framleiðsla, sem á að fara á erlendan markað, segist ekki hafa nægar tekjur til að standa á móti útgjöldum, þá koma aðstandendur þessarar framleiðstu og gera kröfur til stjórnvalda að fá ákveðna aðstoð. Aldrei hefur það orðið skýrara en nú upp á síðkastið, að þessir aðilar, sem standa fyrir því að framleiða sjávarafurðir og selja þær á erlendum markaði, eru líka búnir að finna sína leið til þess að velta af sér hækkandi vöxtum. Þeir koma bara oftar en áður til stjórnvalda og segja: Við verðum að fá fleiri krónur fyrir framleiðslu okkar. Það verður að lækka gengið. — Og þannig velta þeir af sér vöxtunum þangað til ný umferð hefst.

Það, sem ég vil leggja áherslu á í þessum efnum, er að menn reyni að setja sig inn í það, að íslenskar aðstæður í þessum efnum, það verðmyndunarkerfi og verðlagskerfi, sem við búum við, er allfrábrugðið því sem er í ýmsum öðrum löndum. Það kemur augljóslega þannig fram, að t.d. vaxtaútgjöld lenda á þennan hátt út í verðlagið eða kalla á gengislækkun og hafa tiltölulega litla þýðingu.

Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að það geti ekki komið fyrir að vissir aðilar sem ég t.d. nefndi hér, geti fengið fjármagn í þessum greinum, sem þeir geti grætt á í verðbólgu. Mér er alveg ljóst, að það eru vissir aðilar í landi okkar sem geta náð í lán og fá lán, þó að það sé í miklu minna mæli en menn halda almennt fram í málflutningi sínum. Þeir geta ráðstafað þeim lánum t.d. til byggingarframkvæmda á hagstæðum stöðum í landinu, þar sem getur safnast fyrir verðbólgugróði ef viðkomandi eign er síðan seld eftir nokkur ár og þá að sjálfsögðu á hærri verði. Vegna þessa get ég að sjálfsögðu talað um það ekki síður en aðrir, að það geti fyrirfundist verðbólgugróði. En ákaflega er það skammsýnt mat í þessum efnum ef menn halda að meginlánin, sem hér er um að ræða til sjávarútvegs t.d. eða til iðnaðar eða jafnvel til verslunar, séu þess eðlis að þau feli einfaldlega í sér mikinn verðbólgugróða. Það er reginfjarstæða. Og hvernig stæði þá líka á því, að við værum í þessu stanslausa kapphlaupi, og m.a. er í þeim hópi hv. 1. flm. þessa frv., sem hér var að enda við að tala, að reyna að bjarga atvinnuvegunum? Flm. stóð ákaft að því, að það þyrfti að bjarga atvinnuvegunum nú á s.l. hausti, m.a. með gengislækkun. Þegar ég vildi gjarnan reyna að fara aðrar leiðir út úr þeim vanda sem þá lá fyrir, þá var hann auðvitað einn af þeim sem studdu hvað dyggilegast gengislækkunarleiðina. Af hverju? Var hann að moka meiri gróða í þá sem hafa verið að græða allan tímann á því að fá lánsfé? Voru þeir ekki búnir að græða nógu mikið á verðbólgunni? Þurfti að bæta við þá gróða? Stendur kannske allur leikurinn um það, að bæta þurfi við þennan verðbólgugróða?

Nei, málin liggja ekki svona fyrir. Mér er ljóst að þeir aðilar eru til, sem eins og ég segi geta komist yfir fjármagn — þó er það tiltölulega lítið úr hinu almenna bankakerfi — og geta sett þetta fjármagn sitt í góðar byggingar hér í Reykjavík, náð sér í verðbólgugróða. Ég hef alltaf verið tilbúinn til að taka þátt í því að ná þessum verðbólgugróða af þessum aðilum. Það er hægt með ýmsu móti. Þar ættum við m.a. að eiga samleið, hv. 1. flm. þessa frv. og ég. En mér er líka ljóst, að það er hægara sagt en gert að ætla bæði með háum vöxtum og með skattlagningu að ná þessum verðbólgugróða öllum. Það er t.d. alger misskilningur að halda, að háir vextir hemji eitthvað þá sem eru verulegir verðbólgubraskarar. Að þeir, sem snúa sér út lánsfé til að byggja fasteignir t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu, þar sem verðhækkunin er mest, og selja þær, losa um gróðann og ná í peningana, setji eitthvað fyrir sig að borga háa vexti er algert þekkingarleysi á gangi þessara mála. Þeir eru tilbúnir að borga enn hærri vexti en þeir borga í dag vegna þess einfaldlega að þegar þeir setja fé sitt í fast, t.d. á þessu svæði, þá velta þeir af sér vöxtunum, hversu háir sem þeir eru, út í verðlagið. Þeir selja nefnilega fasteignina með þessum háu vöxtum og eiga gott með það. Ef við værum svo skammsýnir við okkar aðstæður að reyna að hafa vextina svo háa að þeir gætu síðan sjálfkrafa stjórnað því hver tæki fé að láni, þá mundi það einkum verða verðbólgubraskarar sem tækju féð að láni. Það yrðu ekki þeir sem fá fé af beinni nauðsyn til að standa undir eðlilegum framleiðslukostnaði meðan á eðlilegum framleiðslutíma stendur í sambandi við t.d. framleiðslu á útflutningsvörum.

Nú er rétt að víkja nokkuð að þeim ókostum sem fylgja því að ætla sér að fara hávaxtaleiðina. Hvaða afleiðingar hefur hávaxtaleiðin? Hún hefur m.a. þær afleiðingar, að við aðstæður eins og þær, sem við búum við, er hún á góðum vegi með að leggja íslenskan iðnað að velli, sérstaklega þann íslenska iðnað sem kallaður hefur verið samkeppnisiðnaður. Við höfum sett okkur það mark að afnema að mestöllu leyti innflutningstakmarkanir á svonefndum samkeppnisvörum, að leggja skuli niður alla tolla og alla vernd fyrir íslenskan iðnað í samkeppni við erlendan iðnað. Þarf nokkurn speking til að sjá að innlendur iðnaður, sem þarf eins og er að borga að meðaltali yfir 25% í vexti af því fjármagni sem verður að bindast í framleiðslunni, getur ekki keppt við iðnað sem þarf ekki að borga nema 6–8% í vexti, eins og er í nálægum löndum, t.d. í Noregi? Auðvitað verður okkar íslenski iðnaður að láta þarna í minni pokann, hann getur ekki keppt við slíkar aðstæður. (VG: Eru ekki of há laun?) Of há laun? Nei, en of háir vextir eru að kveða niður launin.

Nú skal ég kenna hv. þm. svolítið sem hann á eftir að læra, og ég skal segja honum það strax til þess að það fari ekki fram hjá honum. Ef við t.d. færum að tillögum hans og hækkuðum núna vextina í aðalútflutningsiðnaði okkar, fiskiðnaðinum, um helming, eins og hann leggur til, því að það þarf að hækka vextina fyllilega um helming til þess að ná jákvæðum raunvöxtum, meðaltalsvöxtunum, þá væri engin leið önnur, eins og ástatt er í fiskiðnaði okkar, en að lækka kaupið um 50%. Það nafngilti því, að við yrðum að lækka kaupið um 50%. Í þessari framleiðslugrein er til nokkuð sem heitir: ákveðnir kostnaðarliðir. Þessa kostnaðarliði er hægt að hafa tiltölulega einfalda. Stærsti kostnaðarliðurinn er hráefnið. Lengi var það svo, að vinnulaunin þóttu nokkuð hár kostnaðarliður, en eru nú um 20% af heildarframleiðsluverðmætinu. Vextirnir eru nú taldir að meðaltali um 10% af framleiðslukostnaðarverðinu. Ef við tvöfölduðum þá væru þeir orðnir jafnháir og vinnulaunin eru. En það rúmast ekki í áætluninni. Þá er að knýja niður kaupið, og það er það sem ýmsir hávaxtamenn hafa séð við sína stefnu, að hún eigi að sanna mönnum að það sé ekki hægt að halda uppi kaupinu. Hér er auðvitað beint samband í milli.

En ég ætlaði að halda áfram og lýsa betur fyrir mönnum, hvernig þetta dæmi kemur út núna fyrir framleiðsluatvinnuvegi okkar, að borga mjög háa vexti af framleiðslulánum, en vera í samkeppni við þá sem borga miklu lægri vexti.

Aðaleinkennið á sjávarútveginum, eins og ég sagði, verður auðvitað það, að hann stenst ekki samkeppni og heimtar gengdarlausa gengislækkun ef hann ekki heimtar kauplækkun, því að hann heimtar vitanlega lækkun á einhverjum kostnaðarliðum á móti. En þessi hávaxtastefna leiðir beinlínis til þess, og það er ofureinfalt, að það borgar sig ekki hjá okkur að vinna við framleiðsluvöruna nema tiltekinn tíma. Ég skal taka tiltölulega einfalt og þekkt dæmi. Við eigum kost á að framleiða saltfisk. Það tókst okkur t.d. á 2–3 mánuðum á vetrarvertíðinni og stefndum þá mjög að því að flytja út óverkaðan saltfisk, venjulega í maí-mánuði. Okkur var hagkvæmt gjaldeyrislega og verðmætalega að taka nokkurn hluta af þessum saltfiski og bæta nýju framleiðslustigi við hann, en það kostaði 3–4 mánuði að þvo fiskinn, þurrka hann og búa til útflutnings á þá markaði sem tóku við honum þannig. Þannig gátum við fengið miklu hagstæðara verð fyrir vissar legundir af þessum fiski. Það var þjóðhagslegur vinningur. En þegar dæmið er reiknað út frá því að þurfa að borga þessa háu vexti, þá hafa menn komist að raun um að þetta borgar sig alls ekki, það er best að losa sig við vöruna strax. Það er ekkert vit í því að taka hana til framhaldsvinnslu. Það stendur ekki undir þessum gífurlega háu vöxtum og verkið fellur niður. Þetta er að gerast hjá okkur og mundi auðvitað gerast í stórum stíl hjá okkur ef við ætluðum að fara þá leið að leysa allan þennan vanda bara með því að hækka vexti.

Gallarnir í þessum efnum eru auðvitað miklu, miklu fleiri. Ég tók eftir því, að ritstjóri einn, sem oft hefur vakið á sér athygli með býsna einkennilegum skrifum, er sprettharður á köflum, en kafar ekki djúpt að mínu viti, a.m.k. í mörgum tilfellum, hefur haft mikið yndi af því að klappa svolítið undir hjá vissum Alþfl.-mönnum, þegar þeim dettur eitthvað í hug. Hann sagði að þetta væri stórmerkileg till., sem hér væri flutt, og hún væri rétt. Það væru að vísu á henni nokkrir meinbugir. Það væri t.d. ansi erfitt að ráða fram úr því, hvernig ætti að leysa málefni allra húsbyggjenda í landinu með hávaxtastefnunni. Það væri t.d. bölvað fyrir þann, sem þyrfti að kaupa sér íbúð eða væri að byggja hús og þyrfti, eins og nú væri býsna algengt, að taka 10 millj. kr. lán í þessu skyni, að þurfa að borga 5 millj. í vexti. Þarna kveikti hann þó á sinni peru, þetta skildi hann. Svona langt náði hans hugsun, þó að hann skildi að vísu ekkert að mínum dómi í því hvað væri að gerast í íslensku efnahagslífi á öðrum sviðum. Hann skildi að það mundi verða ansi erfitt að láta það dæmi ganga upp að venjulegur húsbyggjandi þyrfti að borga 5 millj. af kaupinu sínu á ári í vexti. Ég hef að vísu tekið eftir því, að 1. flm. frv. og nokkrir fleiri virðast halda að hægt sé að komast fram hjá þessu öllu með því bara að láta menn borga part af þessu í ár, en láta skuldarupphæðina hækka og hækka endalaust. Auðvitað eigum við að borga vextina eigi að síður undir lokin. En slíkt er engin leið út úr vandanum. Það er reginmisskilningur. Ef menn færu inn á þá braut, þá gætu þeir ekki borgað mönnum út vextina. Ef á að borga mönnum háa innlánsvexti verða útlánsvextirnir að koma inn. Það er ekki hægt að geyma greiðsluna á þeim í 50 ár.

Ég hef tekið dæmi sem ég þekki mætavel í sambandi við húsbyggjanda, og ég held það sé ekki gagnslaust að segja frá þessu litla dæmi. Það segir þó nokkuð vel söguna, þó að ekki sé farið í þá sögu sem Dagblaðið var með, hugsaði sér 50% vexti og 5 millj. í vexti af íbúðinni. Dæmi, sem ég sá á blaði af ungum hjónum, var að þau keyptu sér að mínu mati heldur lélega kjallaraíbúð hér í Reykjavík fyrir stuttu á 9.5 millj. kr., og ég býst við að allir skilji, sem hér eru, að á því verðlagi, sem gildir í dag, er það engin roknaíbúð. Þessi hjón höfðu að vísu ekki meira fram að leggja í þá útborgun, sem þarna þurfti að fara fram, 5.5 millj. kr., en 1 millj. En það var hægt að komast yfir lánsfé til að kaupa þessa íbúð. Það var hægt að fá vaxtaaukalán í tveimur ríkisbönkum, 1.5 millj. í hvorum banka um sig. Og það var hægt að fá lán úr lífeyrissjóði á 26% vöxtum, en vaxtaaukalánin auðvitað á 33%. Auk þess voru þessir kaupendur svo hamingjusamir, að þeir þurftu ekki að borga af þessum 4 millj., sem eftir stóðu hjá seljanda, nema 18% vexti. En hvað þurftu þau að borga mikið í vexti á ári af þessari litlu íbúð — bara í vexti? 175 þús. kr. á mánuði í vexti, vextina eina saman, enga afborgun, engin gjöld af húsinu. Svona er dæmið. Og afleiðingarnar af dæmi eins og þessu og öðrum slíkum verða þær, að þeir, sem í þessu lenda og verða að vinna fyrir sér með berum höndum, eins og oft vill verða, skipa sér eðlilega í hóp þeirra sem segja: Kaupið er allt of lágt. Eruð þið svo vitlausir að halda að þetta kaup, sem samið hefur verið um, dugi? — Aðilar, sem svona er ástatt um, munu skipa sér í hóp þeirra sem heimta mjög verulega hækkun á kaupi. Skilja menn það? Eða vilja menn kannske taka afleiðingunum á þann hátt að segja: Þetta fólk á alls ekki að búa í húsi. — Þetta ætlar það sér þó, að búa í gömlu, tiltölulega lélegu húsi og það venjulega kaup hrekkur varla fyrir vöxtunum einum saman.

Auðvitað er um að ræða í þessum tilfellum sem ég hef verið að nefna — og hægt er að nefna miklu fleiri tilvik: varðandi húsnæði almennings, varðandi aðstöðu samkeppnisiðnaðarins, í sambandi við stöðu okkar útflutningsatvinnuvega, þar er um svo stórkostleg vandamál að ræða sem fylgja hávaxtastefnunni, ef við verðum að borga hér allt aðra vexti af starfsfé en aðrir, að það er í rauninni alveg furðulegt að það skuli finnast fullvaxnir menn sem koma hér fram með þá kenningu, að það sé sjálfsagt að borga háa vexti, án þess að ræða um þau vandamál sem fylgja þessum háu vöxtum. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þarna er um vandamál að ræða sem verður að leysa.

Ég viðurkenni að vandamálið gagnvart sparifjáreigendum er til. Ég vil reyna að finna lausn á því vandamáli. Þar eigum við samleið. En ég segi: Hávaxtaleiðin er röng. Hún hvorki leysir hjá okkur verðbólguvanda né bjargar sparifjáreigendum. Af því höfum við þegar reynslu. Það getum við í rauninni séð mjög augljóslega ef við rekjum dæmið í sundur fyrir okkur.

Ég held því fram, að við okkar aðstæður leiði tíðar gengislækkanir augljóslega af hávaxtastefnunni. En gengislækkanirnar eru einmitt einhver versti óvinur sparifjáreigenda, sem um er að ræða. Það er einmitt í gegnum gengislækkanirnar sem verið er að skera niður verðmæti sparifjárins. Allt innistæðufé í bönkum landsins og í bankakerfinu í heild var nú fyrir mánuði 115 milljarðar kr. Með 15% gengislækkun eins og framkvæmd var á s.l. hausti var skorið niður verðgildi þessarar upphæðar um rúmlega 17 milljarða gagnvart erlendum vörum, eða erlendu vörurnar hækkuðu í hlutfalli við verðgildi innanlands um rúma 20 milljarða. Það er brennsla á sparifjáreigninni á þennan hátt sem ég vil forðast. Það er engin lausn fyrir sparifjáreigendur að hafa fengið nokkra vaxtahækkun, en fá svo á sig hverja gengislækkunina eftir aðra á móti.

Það er eðlilegt, að menn spyrji í framhaldi af þessu: Er þá engin leið út úr þessum ósköpum fyrir sparifjáreigendur, ef ekki er hægt að hækka vextina þannig að þeir fái verðgildi peninga sinna greitt til baka? Er engin leið? Jú, það er tvímælalaust til leið. En þá erum við komin að því stóra deilumáli sem ég minntist á í upphafi míns máls, þá erum við komin að verðbólguvandamálinu í heild.

Ég er á þeirri skoðun, að það sé hægt að ráðast gegn verðbólgunni með ýmsu móti og það sé hægt að vinna bug á henni eftir öðrum leiðum en þeim að hækka aðeins vextina. Og ég álit að það sé þar sem við eigum að taka á vandamálinu. Við höfum tamið okkur það búskaparlag nú um nokkurt skeið, þó að við tökum ekki nema stutt tímabil, að við rekum ríkissjóð þannig, að við myndum skuld við Seðlabankann sem sveiflast á milli 25 og 30 milljarða kr. Þarna er um að ræða rekstrartöp sem hafa myndast á ákveðnum tíma hjá ríkissjóði í viðskiptum við Seðlabankann. Það er enginn vafi á því og ég þekki enga, sem halda uppi neinum ágreiningi um að það, hvernig til hefur tekist í þessum efnum, hefur haft verulega verðbólgumyndandi áhrif hér á landi.

Ég er líka einn í hópi þeirra sem halda því fram, sem kom mjög fram í verðbólgunefndinni hjá sumum af okkar þekktustu hagfræðingum sem þar áttu sæti eða höfðu rétt til setu þar, að mjög miklar erlendar lántökur í sambandi við okkar stóru fjárfestingarmál í landinu, m.a. okkar stórframkvæmdir, eins og virkjunarframkvæmdir, sem við höfum fjármagnað að öllu leyti svo að segja með erlendum lántökum, ekki aðeins erlenda þáttinn í framkvæmdinni, við höfum lagt fram sáralítið sjálf, — það er enginn vafi á því, að þessar gífurlega miklu framkvæmdir fjármagnaðar á þennan hátt hafa haft geysilega þenslumyndandi áhrif í okkar kerfi.

Einnig hefur nú um alllanga hríð gengið svo til hjá okkur, að við höfum látið yfirbygginguna í okkar hagkerfi vaxa og vaxa frá ári til árs, en hún tekur venjulega sinn kostnað fyrst af óskiptu. Það hefur ekki fengist samstaða um að reyna að hamla gegn þessum óskaplega yfirvexti í efnahagskerfinu hjá okkur, með þessum afleiðingum sem ég var að nefna. Frægasta dæmið í þessum efnum er t.d. þenslan hjá okkur í bankakerfinu. Yfirmenn í bankakerfinu lögðu fram skýrslu til Alþingis fyrir nokkrum árum og játuðu þar í greinargóðri skýrslu, að bankakostnaður á Ístandi væri í kringum 40% hærri fyrir sambærilega þjónustu heldur en væri að meðaltali í þremur öðrum löndum á Norðurlöndum. Og það er enginn vafi á því, að yfirbyggingarkostnaður bankakerfisins hefur stórlega vaxið síðan með tilheyrandi kostnaði. Ég er í hópi þeirra sem segja: Við eigum að taka á þessu vandamáli og færa niður þennan yfirbyggingarkostnað sem er verulega ríkur þáttur hér í verðbólgumyndun í okkar landi.

Þá hefur einnig verið á það bent og ég sé ástæðu til að víkja að því örfáum orðum í þessum umr., að það hafi átt sér stað hjá okkur um alllangt árabil fjárfesting sem við höfum kostað ýmist beint á vegum ríkisins eða óbeint, — fjárfesting í mjög ríkum mæli, sem hefur tekið af okkur ákveðinn skatt sem krefst fjármagns, en skilar ekki tilsvarandi verðmætum í þjóðarbúið. Ég veit að hv. 1. flm. þessa frv. tekur fljótlega undir með mér þegar jafnaugljóst dæmi er nefnt í þessum efnum og Kröfluframkvæmdirnar, hvað sem má svo segja um þá framkvæmd að öðru leyti. Nú höfum við fengið fjárlagafrv. þar sem segir að þurfi að borga af fjárfestingunni í Kröflu nokkuð á þriðja milljarð kr., sem verður að taka inn á fjárl. hjá okkur. Það er fjármagnskostnaður sem við verðum að borga af þessu mannvirki án þess að það færi okkur nokkuð á móti. En þetta á sér stað í miklu fleiri tilvikum en varðandi Kröflu. Við getum nefnt miklu fleiri stórar og miklar fjárfestingar sem hafa verkað í okkar efnahagskerfi á sama hátt.

Það er hins vegar misskilningur þegar menn ætla að afgreiða þetta vandamál á þann hátt að segja: Þetta er allt afleiðingar af því, að við búum við ranga vexti. Fjárfestingin verður öll öfug vegna þess að hér eru ekki á ferðinni raunvextir. Þannig eru þessi mál ekki. Sannleikurinn er nefnilega sá, að það kemur í ljós, þegar fjárfestingin í landinu er skoðuð, ekki aðeins á einu ári, heldur um lengra árabil, að langsamlega stærstu þættirnir í fjárfestingunni hverju sinni verða til vegna beinnar ákvörðunar stjórnvalda. Ég trúi því t.d. ekki, að hv. 1. flm. þessa frv. eða neinn annar haldi því fram, að menn hafi farið í Kröfluvirkjun bara til að hagnast á verðbólgunni. Hver skyldi hafa ætlað að græða á verðbólgunni þar? Ég trúi því ekki, að sú hafi verið ástæðan. Stjórnvöld landsins tóku þessa ákvörðun og framkvæmdin var byggð upp á erlendu fjármagni, aðallega með erlendum lánskjörum. Þessi opinberi þáttur okkar í fjárfestingunni verður til alveg án tillits til þess, að þar liggi til grundvallar einhver sérstök sjónarmið varðandi vexti. Það er ekki um það að ræða.

Það er líka að mínum dómi alrangt að halda því fram um verulegan hluta eða langsamlega stærsta hlutann, að ég segi ekki meira, af fjárfestingu á vegum sjávarútvegsins hér á landi, að þar sé um verðbólgugróðabrall að ræða. Það er misskilningur. Menn ráðast ekki í það að byggja loðnuverksmiðju eða síldarverksmiðju við hafnir víða úti á landi vegna þess að þeir ætli sér að græða á verðbólgunni. Það er alger misskilningur. Ég vil líka benda á að um mjög langan tíma höfum við búið við það fyrirkomulag hér á landi, löngu áður en það var tekið upp hjá öðrum atvinnugreinum, — ég býst við að það séu a.m.k. 12–15 ár síðan það skipulag var tekið upp, — að þeir, sem keyptu t.d. fiskiskip, urðu að fá erlend lán í sambandi við kaup á þeim skipum sem nam 80% af verðmæti skipanna til minnst 8 ára. Þessi stóri hluti af verðmæti skipanna var í erlendum gjaldeyri á ábyrgð þeirra sem keyptu. Hér var því ekki um það að ræða, að það væri auðvelt fyrir viðkomandi aðila að græða á innlendu verðbólgunni, enda er það ekki rétt skýring á þessu. Hitt er rétt, að ég gæti tilnefnt vissar greinar, einkum í seinni tíð, þar sem um hefur verið að ræða aðila sem hafa fengið lán úr lífeyrissjóðakerfinu og úr vissum stofnlánasjóðum og eflaust fengið lán með þeim kjörum að þeir hafi getað komist yfir nokkurn verðbólgugróða. Það er vissulega til, en það er tiltölulega lítið, miklu minna en menn búast við þegar um er að ræða þau lán sem koma úr hinu almenna bankakerfi.

Það er líka reginmisskilningur, að menn hafi verið með fjárfestingu í íslenskum landbúnaði vegna þess að þeir hafi verið að græða á verðbólgu. Það hafa verið heldur skrýtnir spekúlantar sem hafa fjárfest í landbúnaði með það í huga. Hitt er allt annað mál, hvort sú fjárfesting, sem átt hefur sér stað í landbúnaði eða ýmsum öðrum greinum, hafi að öllu leyti verið hyggileg.

Ég hef dregið fram nokkra ókosti við að fara þessa hávaxtaleið. Ég hef líka sýnt fram á að reynslan er allt önnur en flm. þessa frv. gera ráð fyrir. Reynslan er þveröfug. Auk þess vil ég taka undir það sem t.d. dr. Magni Guðmundsson bendir á, að það er auðvitað alger misskilningur, þegar þessi mál eru rædd, að ætla sér að stilla upp annars vegar sparifjáreigendum og hins vegar lántakendum. Í mjög ríkum mæli er hér um sama aðilann að ræða, bara ekki á nákvæmlega sama tímanum.

Hinir minni sparifjáreigendur, þeir sem eiga yfirleitt minna fjármagn í bönkunum, það einkennilega kemur í ljós að þeir leggja ekki fjármagn sitt inn á hávaxtareikningana. Það er t.d. býsna merkilegt, að meira að segja eftir allan þennan tíma sem menn hafa fengið hefur sparifjáraukningin á þessu ári orðið álíka mikil inn á almennu bankabækurnar með 19% vöxtum eins og inn á vaxtaaukareikningana með 32% vöxtum. Ástæðan er einfaldlega sú, að það er hinn almenni sparandi sem getur lagt til hliðar nokkurn hluta af kaupi sínu, sem leggur inn á hina almennu sparisjóðsbók. En það kemur í ljós, að allir þeir, sem ráða yfir stórum sjóðum og voru jafnvel áður búnir að binda fjármagn sitt á 10 ára bókum eða bókum til nokkurra ára, hafa flutt fjármagn sitt yfir á 32% lánin.

Auk þessa höfum við haft möguleika fyrir sparifjáreigendur til þess að binda fjármagn sitt. Við höfum haft möguleika á því að kaupa verðtryggð bréf allan þennan tíma og þau hafa verið boðin út í svo ríkum mæli, að þau hafa ekki einu sinni selst. En fjármagnið hefur leitað inn á 19% bækurnar eigi að síður, af því að það er eðli málsins, að fólkið, sem getur ekki sparað mikið í einu, leggur inn á þessar bækur með það í huga, að það þarf síðar að nota það fé annaðhvort til þess að borga af húsinu sínu eða kaupa sér hús eða t.d. hefur í huga að kaupa sér bíl.

Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að það er ekki leið til að bjarga sparifjáreigendum að velja hávaxtaleið. Þvert á móti, miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag, bendir allt til þess, að t.d. mundi veruleg hækkun vaxta nú beinlínis leiða til tiltölulega snöggrar gengislækkunar sem auðvitað mundi bitna mjög illilega á sparifjáreigendum, því að þar er ekki aðeins um það að ræða að sparnaðarféð, sem fellur til á viðkomandi ári, missi verðgildi, heldur er allur sparifjárstofninn, sem hefur orðið til á löngum tíma, skorinn niður að verðgildi.

Það er býsna sérkennileg kenning sem kemur fram í rökstuðningi fyrir þessari till., að ef farin væri þessi hávaxtaleið yrði það til þess að knýja stjórnvöld til að taka á annan hátt á efnahagsmálum en hefur verið gert. Ég held að hugmyndir, sem fram hafa komið hjá ýmsum um að ætla að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem eru svo stórkostlegar að þær setja í rauninni allt úr skorðum, og réttlæta slíkar aðgerðir með því, að þá hljóti stjórnvöld að taka við sér, — ég held að allar slíkar aðgerðir séu varla frambærilegar, það sé fjarstæðukennt að ætla að beita þeim. Menn verða vitanlega að átta sig á því, hvers eðlis vandinn er, og reyna að bregðast við honum á þann hátt sem þeir telja skynsamlegast.

Ég hef t.d. heyrt þá kenningu hjá ýmsum að segja: Við skulum fara inn á þá braut að verðtryggja allt sparifé í landinu. Hafa menn áttað sig á því, hvað af því leiðir að verðtryggja spariféð? Af því leiðir það einfaldlega, að þá væri algerlega þýðingarlaust úr því að fara í gengislækkun. Gengislækkunin felur í sér að það er verið að skera niður verðmæti þess sem er geymt og skráð í krónum. Ef gengislækkun ætti að fylgja að það yrði að borga verðuppbætur á allt sparifé um leið, þá færi glansinn að fara af henni.

Ég er einn af þeim sem hafa talað mest um það á Alþ. um árabil, að ég er á móti gengislækkunarleið. Ég tel í rauninni gengislækkunarleiðina í sambandi við lausn á okkar efnahagsvanda jafngilda því að víkja sér undan vandanum. Það leysir engan vanda, það frestar vandamáli, færir örlítið til, en afleiðingarnar koma strax og vandinn er jafnvel enn verri eftir en áður. Því hef ég mjög aðhyllst þær till. sem miða að því, að tekið sé á vandamálinu eftir öðrum leiðum en gengislækkunarleið. Samt er ég ekki svo forhertur að ég vilji búa til einhverja reglu sem í rauninni strikar gengislækkunarmöguleikana algerlega út. Ég er þannig gerður að ég segi: Ef í þessu landi eru stjórnvöld sem vilja fara gengislækkunarleið, þá verður það að anga yfir þjóðina, ef hún kýs þannig stjórn yfir sig. — Ég býst líka við því, að eiginleg gengislækkunarstjórn gerði sér lítið fyrir og breytti slíkum verðtryggingarlögum í skyndi og færi sína venjulegu gengislækkunarleið eftir sem áður.

Það er auðvitað engin tilviljun að erlendir aðilar eru í rauninni alveg gáttaðir á því, að við skulum alltaf fara þá leið að lækka gengi okkar krónu í hvert skipti sem við stöndum frammi fyrir efnahagsvandamálum. Það er vegna þess að þeir meta þá leið yfirleitt óhæfa. Ég segi þó, að slíkt ástand getur vissulega komið upp að það þurfi að breyta skráningu gengisins að einhverju leyti. En það á ekki að nota þá leið sem almenna aðferð út úr efnahagslegum vandkvæðum sem upp kunna að koma. Það er röng aðferð.

Svo aðeins að lokum þetta: Fyrir mér er þessi till., sem hér er á ferðinni, ein af mörgum sem heyrist um nú í seinni tíð af þeim toga, að menn eru alltaf að leita að einhverju „patenti“ til að leysa allan vanda. Ein af þessum leiðum er sú sem gengur yfir í dag, þar sem hver æpir upp í annan og segir: Vandinn í þessu öllu saman er helvítis vísitalan. Það er vísitalan, maður. Hvernig ætlið þið að leysa þetta með vísitölunni? — Það er vísitalan, segir hver í kapp við annan. Og í rauninni hefur þetta verið svona hjá okkur í efnahagsmálum nú um langa hríð. Ýmsir svonefndir sérfræðingar hjá okkur eru alltaf að detta niður á eitthvað svona „patent“. Eitt „patentið“ var það, að menn segja: Það eru vextirnir, maður. Það eru vextirnir. Það þarf að hækka vextina nógu mikið, þá er þetta allt leyst. — Þetta er í mínum huga afskaplega svipað því, ef menn á fiskiskipi yrðu varir við að gangurinn í vélinni væri ekki alveg eðlilegur, eitthvað heyrðist hökta í henni óeðlilega, og þá færi einhver af dekkinu niður og fiktaði í einhverjum takka til að prófa hvort það lagaði ekki ganginn í vélinni. Það er þetta sem við erum alltaf að gera í efnahagsmálunum, og það er það sem flytjendur þessa frv. eru að gera. Þeir segja: Þarna er takki, við skulum prófa hann. — En þeir hafa ekki gert sér neina grein fyrir því, hvað það mundi þýða að fikta við þennan takka.

Við þurfum að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig hagkerfi okkar er, hvernig það svarar tilteknum aðgerðum. Dæmið með vísitöluna höfum við reynt. Það var búið fyrir nokkrum árum að hrópa vísitöluna af. Þá héldu menn að það væri allra meina bót. En auðvitað kom þá í ljós að þeir, sem höfðu notað vísitöluna á kaupgjald sitt til varnar í sambandi við kaupmátt launa, svöruðu því, þegar bannað var að miða við vísitölu í kaupgjaldssamningum, með því að þeir sömdu aðeins til þriggja mánaða í senn og það var alltaf verið að semja, alltaf verið að breyta grundvellinum, með tilliti til verðlagsþróunar. Og allt snerist þennan sama gang þangað til menn höfðu dansað á þennan hátt í tæp 4 ár. Þá komu stjórnvöld og sögðu: Í guðanna bænum, fallist þið nú á að taka vísitöluna upp aftur svo að við getum hætt þessu. — Þá beittu stjórnvöld sér fyrir því fyrir hönd atvinnurekenda að taka upp vísitöluna aftur og sögðu: Það er miklu dýrmætara að reyna að semja og hafa vísitölu og semja þá til tveggja ára í senn. — Enginn hefur að mínum dómi sýnt skýrar og betur fram á þetta heldur en núv. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, Jón Sigurðsson. Hann hefur gefið út sérstakt rit þar sem hann gerir einmitt samanburð á þessu tímabili: fjögurra ára tímabili með vísitölu eftir 1964 og fjögurra ára tímabili án vísitölu fyrir 1964. Og hann kemst að þeirri niðurstöðu og segir skýrum orðum, að það verði ekki séð að það sé hægt að kenna vísitölunni á nokkurn hátt um þessa þróun. Vitanlega er það ekki hún sem slík. Það, sem um er að ræða í því tilfelli, er það, að ef verðlagið hækkar og ef þeir, sem taka laun mæld í krónum, sætta sig ekki við verðlagsþróunina, heimta kauphækkun á móti, ef þeir ætla að halda jöfnum kaupmætti, þá geta þeir gert það þó að þeir hafi enga vísitölu við að styðjast. Það er hægt. Og það er einmitt þetta sem hefur réttilega verið bent á núna. Nú er komið þannig hjá okkur, að fjöldamargir aðilar í okkar þjóðfélagi, einkum þeir sem fást við rekstur og sölumennsku, hafa enga vísitölu til að tryggja sér hækkun á verðlaginu. En þeir reikna það út sjálfir. Í hvert skipti sem einhver verðbreyting verður, í hvert skipti sem lágmarksverð hækkar í hvert skipti sem verð á símgjöldum hækkar, í hvert skipti sem kaupgjald hækkar reikna þessir aðilar dæmið út og leggja það fyrir rétt yfirvöld og segja: Ég á að fá svona mikla hækkun. — Þeir kunna nefnilega venjulegan vísitölureikning og þeir knýja fram sínar verðhækkanir. Þetta er allt orðið sjálfvirkt og snýst allt hjá okkur núna.

Ég hef frá upphafi haft aths. að gera við gerð þeirrar vísitölu sem átti að tryggja kaupmátt, hef ýmsar aths. við hana að gera. Það er allt annað mál. En það er að mínum dómi alger misskilningur, að það bjargi okkur eitthvað út úr þeim vanda, sem við stöndum í varðandi þróun verðlags í landinu, að setja alla sök á vísitölu. Það er á sama hátt alger misskilningur að halda fram að það leysi okkar verðbólguvandamál að æða upp með vextina.

Ég vil vera með í því að reyna að gera réttlátar ráðstafanir til þess að vernda spariféð í landinu, reyna að komast hjá því að það sé höggvið niður með sífelldum gengislækkunum og gert verðminna í mikilli verðbólgu. Það þarf að finna ráð til þess og það er að mínum dómi hægt. En leiðin er ekki sú að hækka vexti og stórauka þannig verðhækkanir.

Aðeins eitt dæmi enn, sem er miklu alvarlegra en svo að menn hafi að mínum dómi ekki gert sér grein fyrir því. Það er mjög um það talað nú, að þannig sé ástatt í ýmsum byggðarlögum í landinu og t.d. hjá ýmsum greinum í sjávarútvegi, okkar þýðingarmiklu atvinnugrein, að þar sé um hallarekstur að ræða á frystihúsum og sum þeirra jafnvel stöðvuð eða við það að stöðvast, og það þarf að gera sífelldar ráðstafanir fyrir þessa aðila, jafnvel gripa til gengislækkunar, af því að þarna er um hallarekstur að ræða. Ég fékk að líta á eitt af þessum dæmum sem ég veit að eru mörg. Þar var um að ræða aðila sem tiltölulega nýlega höfðu þurft að ganga í gegnum það, að þeir urðu að stöðva frystihúsið sitt í næstum heilt ár til þess að fara í breytingar á þessu frystihúsi og reyna að koma því í það rekstrarástand sem nokkurn veginn samsvarar nýtískufrystihúsi hjá okkur í dag. En af því að þetta gerðist tiltölulega nýlega, á miðju ári 1977 og stóð nokkuð fram á árið 1978, var þessi framkvæmdakostnaður auðvitað í þessu tilfelli fyrir lán með háum vöxtum og mikilli verðtryggingu og auðvitað alllangt fyrir ofan það meðallag sem frystiiðnaðurinn í landinu þarf að rísa undir. En nú gátu þessir aðilar þó fagnað því, að nú var þeim farið að takast að reka frystihús sitt þannig, eins og þeir orðuðu það, að „við erum komnir nokkurn veginn á núllreksturinn, við erum nokkurn veginn farnir að hafa tekjur á móti gjöldum, öfugt við það, sem áður var.“ Það hafa orðið verulegar umbætur í rekstrarafkomunni. En hvað svo? Hefði verið hægt að tryggja þessum aðila nægilegt hráefni og sæmilega góða aðstöðu á annan hátt til vinnslu, þá mátti búast við því að hann gæti haft jákvæðan rekstur, bara reksturinn sjálfan. En ef hann átti einnig að rísa undir ekki aðeins nýju lánunum af umbótum sínum, heldur einnig undir þeirri skuldasúpu sem hafði myndast á erfiðleikatímabilinu, ef hann átti að borga nútímavexti af þessu öllu saman, þá þurfti auðvitað að gerbreyta öllu verðlagi í landinu.

Mér varð þá hugsað til annars frystihúss, þar sem ég þekkti líka til. Ef sá rekstrargrundvöllur, sem hefði dugað nokkurn veginn því húsi, sem ég var að nefna, hefði verið lögbundinn eða ákveðinn, þá hefði hitt frystihúsið verið með mörg hundruð millj. kr. hagnað, af því að það býr við allt önnur skilyrði. Menn eru að tala um það núna, að það þurfi að reyna að bjarga t.d. rekstri, hér á Suðurnesjum eða í Vestmannaeyjum. Sannleikurinn er sá, sem ýmsir af þessum aðilum segja sem hafa með þennan rekstur að gera, að það er ekki hægt að bjarga þeim öðruvísi en að höggva af þeim skuldahalann. Hið nýja vaxta- og lánakerfi er komið þannig, það er búið að skapa slíkt misræmi hjá aðilum í atvinnurekstri í landinu, að það er sérstakt vandamál að komast út úr því aftur. Ég vara við þessu og beini því til manna að þeir leiti annarra ráða en þeirra sem felast í þessu frv. Í þessu frv. felst einstefnuakstur þeirra sem halda að þeir skynji allan sannleikann í sambandi við það sem þeir sjá allra næst nefi sínu, en þeir sjá afar skammt fram fyrir sig og það mundi fara illa fyrir þeim ef þeir færu eftir þessu sjónarmiði sínu.

Þeir, sem standa að þessu frv., halda því fram, að ég haldi uppi þeim málflutningi, sem ég hef haft hér, af því að ég sé einhver sérstakur talsmaður skuldakónga. Það er mikill misskilningur. Ég hins vegar þekki talsvert mikið til atvinnurekstrar í landinu og ég þekki líka til bankarekstrarins. Ég veit hvernig hann er byggður upp. Ég veit hvar lánin eru geymd. Ég hef fylgst með því í langan tíma. Ég geri mér talsvert glögga grein fyrir því, hvar t.d. verðbólgugróði kemur fram og hvar hann kemur ekki fram í sambandi við lán. Og það er af því sem ég vara við tillögum eins og þessari, því að hún er í rauninni skammsýnistillaga sem leysir ekki vanda, en hún mundi stórauka vandann.