28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

184. mál, tollskrá

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og kunnugt er þá sitja móralskir meistarar í hv. núv. ríkisstj., sem rekin er undir traustri forustu Framsfl. og með stuðningi annarra þingflokka og þm. Þannig var að s. l. vor urðu allnokkrar breytingar á kjörfylgi flokkanna og kannske ekki síst vegna þess, að kerfið, af eðlilegum ástæðum, launungin, pukrið og oft ósmekkvísin fór í taugarnar á ærið mörgum og mörgum þótti allnokkurrar hreinsunar vera þörf — og það ekki að ástæðulausu. Segja má að fram eftir s l. sumri gekk þetta að mörgu leyti nokkuð vel, og m. a. þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð komu, ef ég man rétt, hástemmdar yfirlýsingar í dagblöðum um að svo siðvillt forréttindi eins og ráðherrabílar og það að ráðherrar nytu sérstakra fríðinda við kaup á slíkum tækjum yrðu auðvitað afnumin, enda ekki í nokkru samræmi við aðrar slagæðar þessa samfélags. Um þetta voru birtar yfirlýsingar í dagblöðum og móralskir meistarar höfðu þar gott fordæmi fyrir öðrum þegnum þessa lands.

Í framhaldi af þessu er kynnt hér frv. til l. frá ríkisstj. sem ég hygg að mælist vel fyrir hjá börnum þessa lands. Þar er gert ráð fyrir viðvíkjandi tollafríðindum í bifreiðakaupum að orðið „ráðherra“ falli brott, sem þýðir auðvitað að ráðh. njóti ekki slíkra fríðinda. Er það auðvitað rétt hugsun, því slík fríðindi eru óeðlileg með öllu. Þetta var mjög í samræmi við þá almennu hugmynd, að forréttindi og sérréttindi af þessu tagi eiga að heyra til liðnum tíma.

Í aths. við lagafrv. þetta, sem var dreift á hv. Alþ., segir:

Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðh. fái bifreiðar, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu.“

Þessa yfirlýsingu hafa væntanlega hv. þm. svo og allur almenningur í þessu landi átt að taka góða og gilda. En þannig var, að þegar þetta mál var til umr. í fjh.- og viðskn. og raunar þar fyrir misskilning, því menn héldu að þetta mál væri afgreitt, þá var þar staddur embættismaður sem kynnti nefndinni blað sem á stendur: „Tillaga fjmrh. um bifreiðamál ráðherra.“ Og neðst á því blaði stendur: „Samþykkt“ — þá væntanlega í ríkisstj. — „9. mars 1979.“

Fyrsti liður þessa blaðs, sem móralskir meistarar hafa samþ. allir sem einn, fjallar um það að rn. kaupi og eigi og reki á sinn reikning bifreiðar, sem ég tel vera hið eðlilega ástand og ekkert við að athuga. En móralskir meistarar bættu um betur og samþ. einnig annan lið, og þessi liður, sem er tillaga fjmrh. um bifreiðamál ráðh., virðist vera einhvers konar seglugerð í ríkisstj. Þetta er ekki reglugerð ætluð til birtingar, að því er sjá má. Ég vil gefa deildinni kost á því að skemmta sér við að hlusta á hvað þeir eru að dunda sér við að samþ. þegar þeir eru að leysa efnahagsmál þjóðarinnar eins og þeir eru sérfræðingar í eins og öllum er kunnugt um. Það hljóðar svo:

„Ríkið semji við ráðh. um afnot af einkabifreiðum þeirra. Ríkið greiði allan rekstrarkostnað bifreiðanna skv. reikningum, en auk þess greiði það fyrningarfé, 10% á ári, sem reiknast af endurkaupsverði viðkomandi bifreiðar.“

Svo bæta þeir um betur:

„Ráðherra, sem kaupir bifreið, á kost á láni úr ríkissjóði allt að 3 millj. kr. með eðlilegum viðskiptakjörum.“ Um þetta er það að segja, að í fyrsta lagi eru þetta betri kjör en þeir þykjast vera að afnema. Það er nú eitt. Í öðru lagi er okkur í grg. með þessu frv. talin trú um að við séum að samþ. eftirfarandi: „Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðh. fái bifreiðar, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu.“ Nú vil ég spyrja hv. deild: Eru það þannig kjör sem almennt gilda í landinu, að menn fái 3 millj. kr. lán úr ríkissjóði til að kaupa sér bíla fyrir? Hvenær varð ríkissjóður lánastofnun? Og ef ríkissjóður er lánastofnun, hvernig gengur það fyrir sig? Er einhver maður sem stendur á bak við disk uppi í fjmrn. og lánar mönnum út? Og á hvaða kjörum er þá lánað, með hvaða vöxtum? Hvernig gengur þessi lánastarfsemi úr ríkissjóði fyrir sig? Hér er ekki verið að tala um sjóði. Hér er ekki verið að tala um að ráðh. fái lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna eða úr Fiskveiðasjóði. Nei, hér er verið að tala um ríkissjóð sjálfan. Og ég spyr deildina enn og aftur: Hvenær varð ríkissjóður lánastofnun? Þetta er allt sukkið sem á að vera eitur í okkar beinum og við a. m. k. í mínum flokki vorum kosin til þess að afnema.

Hér var lýst í vetur eftir spurningu frá hv. þm. Stefáni Jónssyni í svörum hæstv. viðskrh. Svavars Gestssonar bílasukki hjá bönkunum. Halda menn að ráðh., 9 stykki, sem svona hegða sér, séu til þess færir að bæta um betur hjá bílasukkinu í bönkunum eða hvar annars staðar sem það viðgengst úti í hinu stóra samfélagi?

Ég spyr enn og aftur: Eru það almenn kjör sem gilda í landinu, — ég les upp úr innanhússamþykkt hæstv. ríkisstj., — að ráðh., sem kaupir bifreið, á kost á láni úr ríkissjóði allt að 3 millj. kr. með eðlilegum viðskiptakjörum? Það er engin furða þó að þeir vilji hafa vextina lága og verðbólguna mikla. Það ætti að hjálpa til að hafa verðbólguna svona 60% og vextina á bílakaupunum 5% svo þeir lendi ekki í þeirri ógæfu að þurfa að borga eitthvað aftur af því. En þeir eiga víst að sjá um það að svo verði ekki eða varla.

Ég held þeir hafi vilja til þess að búa til svona prívatreglugerðir, en skorti hugmyndaflugið, og ég vil gefa þeim nokkrar hugmyndir til viðbótar til að þeir geti samþykkt það í innanhúsreglum hjá sér.

Nú vita allir að ráðh. búa í húsum og þessi hús hafa mörg hver þá eiginleika að spillast í vondum veðrum og þá þarf auðvitað að gera við húsin. Þeir ættu að samþykkja reglugerð um það í ríkisstj., að ef hús ráðh. spillist í vondum veðrum eigi þeir auðvitað að fá lán úr ríkissjóði til þess að laga húsin sín og auðvitað á eðlilegum viðskiptakjörum, á 5–6% vöxtum.

Og ráðh. eru svo eðlilegir menn, að þeir eiga maka sem þurfa að standa með þeim í opinberum veislum og makarnir þurfa að kaupa sér föt. Væri ekki eðlilegt að sett yrði fatakaupareglugerð fyrir maka ráðh. til þess að þeir geti skipt um föt. Allt á þetta auðvitað að vera á eðlilegum viðskiptakjörum og lán úr ríkissjóði! Og á ekki að vera nýtt embætti uppi í fjmrn. svo fleiri geti notið þessara nýstárlegu lánskjara sem hér er verið að leggja til?

Þessi samþykkt, sem kannske af tilviljun kom á borð fjh.- og viðskn., virðist vera innanhússamþykkt sem enginn átti að vita um. Það er gersamlega óþolandi að ríkisstj. samþ. svona reglugerð til handa sjálfri sér. Að vísu verð ég að segja að það kæmi mér ekki á óvart þó að forustuflokkur ríkisstj. og framsóknarmennirnir fjórir, sem í ríkisstj. sitja, samþ. þetta. En ég hélt að Svavar Gestsson og Hjörleifur Guttormsson og mínir þrír kratar mundu ekki samþ. reglugerðir af þessu tagi. (Gripið fram í: Hver er þessi fjórði framsóknarmaður?) Ragnar Arnalds, hæstv. ráðh. Ég hélt satt að segja að þeir mundu ekki standa í þessu. Að vísu er að finna í Þjóðviljanum í morgun eina af þessum drengilegu kommayfirlýsingum, sem fjalla um að það séu kratarnir sem séu að þessu, en „okkur datt auðvitað aldrei í hug að nota þetta fyrir okkur sjálfa“, er efnislega það sem hæstv. ráðh. Svavar Gestsson segir. Auðvitað er það rétt, að þeir eru að samþ. þetta til að kratarnir og framsóknarmennirnir geti keypt sér bifreiðar.

Það er nákvæmlega samþykkt af þessu tagi sem hefur á undanförnum árum dregið úr siðferðilegum undirstöðum ríkisstj. og ráðh. Það er nákvæmlega samþykkt af þessu tagi sem á að vera upplýstu og siðuðu fólki óbærileg, og það er nákvæmlega það að pukra með þetta fyrir luktum dyrum. Hér er verið að samþ. frv. til l. og okkur er gefið í skyn með frv. að það sé verið að taka forréttindi og fríðindi af þessum háu herrum. Það segir hér, og ég les það í þriðja skipti:

Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðh. fái bifreiðar, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu.“

Hvað þýðir þessi setning? Eru það almennu kjörin sem Jóhannes Nordal nýtur í Seðlabankanum eða bankastjórar — eða eru hitt almennu kjörin, sem gilda um Jón Jónsson verslunarmann? Það hefði ég haldið að væri skilningur hins almenna manns á almennum kjörum. En á sama tíma og þetta frv. er kynnt í þinginu samþykkja þessir háu herrar reglugerð sem gengur út á allt annað, sem bætir þeim upp það sem þeir tapa með þeirri vondu samþykkt hins vonda Alþingis — og gott betur.

Ég verð að segja það, að mínir menn í ríkisstj. a. m. k. voru ekki til þess kosnir að haga sér svona. Svona mál hafa kannske aldrei skipt miklu máli í Framsfl. en ég hélt satt að segja að í þriðja stjórnarflokknum, sem hefur verið og verið ekki að undanförnu, skiptu svona mál einnig nokkru máli. En það er sagt að valdið spilli og mér sýnist satt að segja að það sé að gerast.

Af málum eins og þessum eigum við að hafa áhyggjur. Eins og allir vita er hæstv. ríkisstj. nú á förum til útlanda og ráðh. koma þar fram fyrir landsins hönd, sem vonlegt er, og ég er með uppástungu um það, ef þeir þurfa að þýða orðið ríkissjóður í dönskum plöggum, hvernig það orð er notað. Menn verða að nota orðið „Privatbanken“, því það er það sem þessi sjóður virðist vera orðinn fyrir þessa menn. Hvaðan kemur til heimild til þess að fá lán beint úr ríkissjóði? Hvar er lagabókstafur fyrir því? Hvernig er það hugsað og hvaða óendanlega ósvífni er þetta, að þykjast vera að kynna þjóðinni umbótalöggjöf af þessu tagi, glenna sig upp aðaldyramegin, glenna sig framan í þjóðina og þykjast vera móralskir meistarar, en koma svo bakdyramegin og samþ. annars konar reglugerð sem bætir persónuleg kjör þeirra og er hálfu ósvífnari en gamla fyrirkomulagið? Menn vissu þó hvað þar var verið að samþ., en hér á að gera þetta eftir allt öðrum leiðum.

Það er satt, að við hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson skrifuðum undir þetta nál. með fyrirvara þegar við sáum hvað hér var á ferðinni. Þetta varðar kannske ekki ríkissjóð stórar upphæðir, en þetta er ómerkilegt, þetta er lágkúrulegt, það er svo lágt lagst og langt til seilst í þessum efnum. Það er nákvæmlega þetta sem gróf að miklu leyti undan síðustu ríkisstj., og ég ætla ekki að horfa upp á mína menn detta í sama pyttinn. Mér er nokkuð sama um kommana, en ég ætla ekki að horfa upp á mína menn detta í þennan pytt. Ríkisstj., sem nú er að fara að skerða kjörin í landinu, sem nú er að setja takmarkanir í þorskveiðimálum, þarf á mórölskum styrk að halda. Ég dreg enga dul á það, að ég hef aldrei gert mér hugmyndir um að Framsfl. væri til þess líklegur að veita slíka móralska forustu sem á þarf að halda, en ég geri mér aðrar hugmyndir um mína menn í þessum efnum. Þessi reglugerð, sem hér er gerð að umræðuefni, er óþolandi og til þess fallin að grafa undan trausti stjórnvalda þegar síst skyldi. Og hafi þeir samþ. þetta sem fyrir tilviljun dettur á borð okkar í fjh.- og viðskn., hvað hafa þeir þá ekki samþ.? Hvað eru þeir ekki búnir að samþ. í vasana á sjálfum sér með prívattánum úr ríkissjóði í óðaverðbólgu, með lægstu vöxtum geri ég ráð fyrir? Ég ætla ekki að horfa upp á minn flokk verða að „Framsóknarflokki“ og skal standa í vegi fyrir því. Þingflokkur Alþfl. samþ. þegar á mánudag ályktun þar sem þess var krafist að þessi liður 2 yrði þurrkaður út úr þessari reglugerð. Og þegar æðsta stjórn landsins hagar sér svona, hvernig haga undirsátarnir sér þá? Það er löngu orðið tímabært að rifja upp reglur um bílakaup í bönkunum, í Seðlabankanum og annars staðar, að útrýma þessari litlu spillingu sem leikur um samfélagið, er búin að leika það grátt og fyrr en varir skaðar annað og meira en kannske þær beinu reikningslegu upphæðir sem hér er um að ræða.

Sú reglugerð, sem ég er hér að kynna fyrir hv. deild, er núv. ríkisstj. til skammar, því miður. Slíkt sem þetta ætti að vera fyrir neðan virðingu hennar, og ég vil vona að það séu mistök, sem stafi af því að menn geta ekki lesið alla þá pappíra sem á borð hjá þeim koma, að okkar menn og kommarnir tóku þátt í því að samþ. þetta. Það er ekki hægt að ætlast til að menn séu með fullri meðvitund allan sólarhringinn. Menn þurfa að sofa og annað slíkt. Ég hef ástæðu til að ætla að framsóknarmennirnir hafi platað þessa reglugerð inn á Alþb. og okkar menn hafi verið annars hugar við að leysa verðbólgumálin meðan á þessu stóð. Ég get skilið það að þeim verði á mistök í ríkisstj. Þessi ríkisstj. hefur ekki verið að gera mistök, en þetta eru ein mistök sem hún hefur gert, og þegar menn gera mistök, þá leiðrétta menn mistökin, breyta þessum reglum og reyna að skapa sér annars konar stöðu og annars konar ímynd en smásukkreglugerð af þessu tagi gefur almenna hugmynd um. Pukrið í þessu er óþolandi, að vera með reglum af þessu tagi að koma peningum í eigin vasa. Þetta er svo „simpilt“, þetta er svo lítilfjörlegt og lítilmótlegt. Þetta ætti að vera fyrir neðan virðingu hæstv. ríkisstj. eða a. m. k. hluta af henni.

Ég sting upp á því að við rannsóknarþm., ég og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sem báðir sitjum í fjh.- og viðskn., tökum okkur til í framhaldi af þessu máli og á vegum n., eins og verið er að gera í fleiri n. hér, og gerum úttekt á þessu bílasukki hjá ríkinu. Það eru góðir mannasiðir að byrja að hreinsa til heima hjá sér áður en hreinsað er til annars staðar. Við erum núna að hreinsa til í hæstv. ríkisstj. og hafa vil fyrir henni, og þegar við erum búnir að því, þá eigum við að fara víða, fara í Seðlabankann, fara í bankana, fara út um þjóðfélagið allt og hreinsa upp þá spillingu sem hér hefur vaðið uppi og eyðilagt alveg ótrúlega mikið, skapað vantraust á milli stjórnvalda og þegna, skapað vantraust á milli kerfisins og hinna sem fyrir utan það standa. Þessa hluti eigum við að byrja að hreinsa upp. Ég veit að hv. þm. Lúðvík Jósepsson er mér sammála um það. Hann er formaður í fjh.- og viðskn. og við eigum að gera hana að rannsóknarnefnd, fá þar upplýsingar, byrja á ríkisstj. sjálfri, heimta að fá að sjá hvort það sé búið að samþ. fleiri reglugerðir og þá um hvað og hvernig, hvort ríkisstj. er líka farin að lána til að viðhalda húsunum ráðherranna eða drottinn veit hvað.

Þetta mál er óþolandi, og ég veit að deildarmenn eru mér sammála um það. Ég hef ástæðu til að ætla að þetta sé ekki fyrirboði um annað það sem kann að koma. Ég hef ástæðu til að ætla að hér hafi orðið á mistök, en ekki hitt, að þessi ríkisstj. sé í málum af þessu tagi orðin óþekkjanleg frá fyrri ríkisstj. Ég hef ástæðu til að ætla að það hafi orðið uppi fótur og fit í ríkisstj., þeir hafi meira og minna hlaupið til og afpantað bílana sem þeir voru búnir að panta sér eftir reglunum. Og ég hef ástæðu til að ætla að ríkisstj. skammist sín, og ríkisstj. sem skammast sín er þó betri en hin sem ekki kann að skammast sín. Og það held ég að sé þó allnokkur ávinningur af þessu máli. En það endar með því, ef svo heldur fram sem horfir, að þá verður þingflokkur Alþfl. að gera aðra samþykkt: að fá að hafa lögregluþjón til eftirlits á ríkisstjórnarfundum!