28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. N. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Hér er um að ræða að veita húsnæðismálastjórn heimild til þess að veita lán til byggingar vistheimila fyrir aldraða sem geta ekki lengur búið á eigin heimilum og þarfnast umönnunar án þess þó að hafa þörf fyrir sjúkrahúsvist. Húsnæðismálastjórn hefur nú heimild til þess að veita lán úr byggingarsjóði til byggingar leiguíbúða fyrir aldraða, en sú heimild nær ekki til byggingar slíkra vistheimila sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Raunin hefur orðið sú, að þeir, sem hafa notið þeirrar fyrirgreiðslu og aðstoðar sem heimildin um byggingu leiguíbúða fyrir aldraða hefur veitt, geta margir hverjir ekki annast sjálfir allt sitt heimilishald og þurfa nauðsynlega á að halda aðstoð og einhverri hjúkrun. Nærtækast er að búa þeim stað á slíkum vistheimilum sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þar sem þeim væri búin aðstaða til einhverrar umönnunar og jafnframt aðstaða til að bjarga sér að verulegu leyti sjálfir.

Í þessum vistheimilum, sem hér um ræðir, yrðu ekki íbúðir, heldur herbergi með eldunaraðstöðu og því eiga þan ekki kost á lánum úr byggingarsjóði að óbreyttum lögum. Með samþykki slíkrar heimildar sem frv. gerir ráð fyrir gæfist kostur á að beina fjármagni jöfnum höndum til leiguíbúða fyrir aldraða og vistheimila, eftir því hvar þörfin væri brýnust hverju sinni. Því mælir félmn. með samþykkt þessa frv. og væntir að afgreiðslu málsins verði hraðað á þessu þingi. Stefán Valgeirsson skrifar undir nál. með fyrirvara.