28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar brbl. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu. Í frv. er fjallað um þau efnisatriði sem þarf að hrinda í framkvæmd vegna gengisfellingar. Þarna eru ákvæði um tollafgreiðslu, gjaldeyrisskil, gengismun og ráðstöfun gengismunar. Það eru í frv. ákvæði um gengismunarsjóð og hvað á að gera við þennan gengismun.

Þingheimi mun sennilega vera kunnugt um að þegar hafa verið gefnar út reglugerðir um nánari framkvæmd á þessum brbl., svo sem lögin heimila að sjálfsögðu, og jafnvel hefur þegar reynt á framkvæmd laganna.

Í fjh.- og viðskn. Nd. urðu nokkuð skiptar skoðanir um þetta frv., en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., en þó hafa einstakir nm. úr meiri hl. áskilið sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt. Minni hl. hefur skilað séráliti. Þessir aðilar munu að sjálfsögðu gera grein fyrir máli sínu hér í umr. á eftir, en ég ítreka það, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.