28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Frsm. meiri hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Meiri hl. félmn. hefur skilað nál. því er hér liggur fyrir á þskj. 350 um Framkvæmdasjóð öryrkja og flytur brtt. við frv. á sérstöku þskj., 351. Nm. félmn., sem undir nál. skrifa, mæla með samþykkt frv. með þeim brtt. sem ég mun gera nánar grein fyrir. Stefán Valgeirsson gerir væntanlega grein fyrir afstöðu sinni í umr. hér um málið.

Félmn. fjallaði mjög ítarlega um frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja og hélt um það 7 fundi. M. a. voru fengnir á fund n. ráðuneytisstjórar þriggja rn., heilbr.- og trmrn., félmrn. og menntmrn., auk þess sem leitað var umsagnar fjölmargra aðila um málið. Allir umsagnaraðilar voru sammála um nauðsyn þess að stórátak þyrfti að gera í málefnum öryrkja almennt og að kennslumál þroskaheftra hefðu dregist verulega aftur úr og enn langt í land að þeir sætu við sama borð og aðrir í því efni. Þó skoðanir væru skiptar um tekjuhlið sjóðsins og sú skoðun almenn að kennslumál þroskaheftra ætti að fjármagna beint á fjárl. eins og kennslu annarra í landinu, þá var það yfirleitt einróma álit að þar sem þetta hefði ekki verið fjármagnað eins og lóg gera ráð fyrir um sérkennslu og Alþingi ekki staðið við skuldbindingar í því efni, þá væri nauðsyn á að fjármagna slíkt tímabundið eftir öðrum leiðum, eins og í gegnum slíkan sjóð, þar sem ekki væri fyrirsjáanleg nein trygging fyrir því að þetta yrði fjármagnað eftir þeim leiðum sem lög um sérkennslu gera ráð fyrir. Slíkur sjóður gæti verið tímabundin lyftistöng til að koma kennslumálum þroskaheftra á sambærilegt stig og kennslu annarra. Ég vil ítreka það hér, að ef reglugerð um sérkennslu og 51. og 52. gr. grunnskólalaga ættu að standast, sem gera ráð fyrir að sérkennsla verði komin í viðunandi horf á árinu 1984, þá þyrfti um 600 millj. kr. á núgildandi verðlagi á fjárl. fram til ársloka 1984 til að sú áætlun stæðist, en sáralítið hefur verið veitt á fjárl. til þessara mála síðan lögin voru samþykkt 1974. N. fékk ýmsar ábendingar frá umsagnaraðilum og fulltrúum rn. sem hún hefur tekið tillit til og gert brtt. við frv. sem ég mun í örstuttu máli gera grein fyrir.

Varðandi þá breytingu, er um getur í 1. lið á þskj., að c-liður 3. gr. frv. falli niður, lýstu flestir nm. sig andsnúna því ákvæði varðandi tekjuhlið sjóðsins er gerir ráð fyrir gjaldi af verði allra seldra aðgöngumiða. Sú andstaða byggðist m. a. á því, að hér væri um tekjustofn að ræða sem Félagsheimilasjóður hefði tekjur af og gæti þetta haft þau áhrif að rýra tekjumöguleika hans. Ég sem flm. þessa frv. lagði áherslu á að halda þessu ákvæði, þar sem hér er um mjög vægt gjald að ræða og ég álit vandamálið stórt og brýnt og þetta sé vandamál sem flestir eigi að geta sameinast um að gera sameiginlegt átak í að leysa. Þeir, sem ekki neyta áfengis eða tóbaks, gætu tekið þátt í því með vægu gjaldi á selda aðgöngumiða. Með tilliti til þess, að ekki náðist samkomulag um það í n., og til þess að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um þetta mál bæði í n. og hjá hv. þdm., get ég eftir atvikum, þó með semingi sé, fallist á að þetta ákvæði tekjuöflunarinnar falli brott.

Varðandi brtt. við 4. gr. frv. kom það fram í umsögn fjmrn., að það gagnrýndi að hér væri um kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að ræða, þar sem ráð væri fyrir gert að kostnaður vegna starfrækslu sjóðsins greiddist úr ríkissjóði. Nm. þótti rétt að taka tillit til þess og gera till. um að kostnaður við starfrækslu sjóðsins greiðist af tekjum hans.

Sú skoðun kom m. a. fram, að vald sjóðsstjórnar væri óeðlilega mikið og rétt væri að ákvarðanir um fjármögnun byggingarframkvæmda væru endanlega háðar samþykki viðkomandi ráðh. Með tilliti til þess m. a., að ráð er fyrir gert í lögum um endurhæfingu, nr. 27/1970, að ráðh. veiti leyfi til að koma á fót endurhæfingarstöð og vinnustöð fyrir öryrkja og einnig þar sem rekstur sjóðsins verði undir umsjón félmrn., þá voru nm. sammála um að gera eftirfarandi brtt. við 5. gr.

„Aftan við b-lið komi:

Ákvörðun sjóðsstjórnar um fjármögnun byggingarframkvæmda er þó endanlega háð samþykki viðkomandi ráðh., sbr. 52. gr. laga nr. 63/1974 og 5. gr. laga nr. 27/l 970“.

4. brtt. er um nýja grein á eftir 15. gr, svo hljóðandi: „Lög þessi skulu endurskoðuð að 6 árum liðnum frá gildistöku þeirra“.

Ekki þótti óeðlilegt að inn kæmi þetta endurskoðunarákvæði með tilliti til þess að meta hvað þá hefði áunnist og áframhaldandi nauðsyn tekjustofnsins. Við 6 ár var miðað vegna þess, að miðað við tekjuöflunarmöguleika sjóðsins gætu kennslumál þroskaheftra e. t. v. verið komin í viðunandi horf á þeim tíma, og einnig með tilliti til, að áætlun í reglugerð um sérkennslu gerir ráð fyrir svipuðum tekjum til fjármögnunar 1984 og sjóðnum eru ætlaðar. Hér gæti því verið um tímabundinn sjóð að ræða, og því er hér um nauðsynlegt ákvæði að ræða ef sýnt væri að 6 árum liðnum að kennslumál þroskaheftra væru komin í viðunandi horf og gætu eftir það fjármagnast með eðlilegum hætti á fjárl. eins og önnur kennsla í landinu.

Ég vil að lokum enn og aftur undirstrika þá brýnu nauðsyn sem er á að leysa með skjótum hætti það vandamál og verkefni sem þessum sjóði er ætlað. Tímabundinn sjóður til örfárra ára gæti orðið mikil lyftistöng fyrir þetta brýna réttlætismál. Ég vil í því sambandi minna hv. þdm. á þá staðreynd, að á þessu barnaári eru rúmlega 1000 börn bæði þroskaheft og þurfa á einhvern hátt á sérkennslu að halda, en fá ekki sökum þess að þessi verkefni hafa verið látin sitja á hakanum.

Ég vil einnig minna á það, að þó benda megi á ýmis vanrækt verkefni á þessu barnaári er varða hag og aðbúnað heilbrigðra barna sem nauðsynlegt er að koma í betra horf, þá held ég að engin börn búi við eins skert kjör, eins slæman aðbúnað og eins lítil mannréttindi og þroskaheft börn. Ég held að ekki væri hægt að leggja fram verðugri skref á alþjóðaári barnsins en að gera átak til umbóta á aðbúnaði og högum þessara barna.

Aðbúnaður öryrkja og atvinnuöryggi er einnig mjög takmarkað og bágborið, bæði hvað snertir möguleika til starfsþjálfunar og verkmenntunar til að komast á hinn almenna vinnumarkað og einnig nauðsyn á uppbyggingu verndaðra vinnustaða þegar skýrslur sýna að þörf er á vernduðum vinnustöðum fyrir um 1000 manns. Ég get vel fallist á að réttast og eðlilegast væri að fjármögnun þeirra verkefna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, færi fram á fjárl. eins og t. d. sérkennsla. En ég undirstrika og legg áherslu á að fjárframlög til þessara verkefna hafa verið svo takmörkuð að þau nægja hvergi til að standa undir þeim fjárskuldbindingum sem Alþ. tók á sig og samþykkti með grunnskólalögunum frá 1974, það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við og getum ekki gengið fram hjá. Það þarf um 600 millj. á ári á núgildandi.verðlagi til að koma sérkennslumálum í gott horf fyrir 1984, eins og ráð er fyrir gert í lögum, og það er skuldbinding sem Alþ. gerði 1974 og verður að standa við, svo brýnt er vandamálið. Fjárlög 1977 með 60 millj. kr. framlagi til sérkennslumála og fjárlög 1978 með 60 millj. kr. framlagi, sem síðan var skorið niður um 20 millj. á s. l. ári, gefa enga vísbendingu um að við þá skuldbindingu verði staðið. Frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja tryggir að við þetta verði staðið, þótt það sé ekki eftir þeim leiðum sem ráð er fyrir gert í grunnskólalögunum. Hér er bent á ákveðna tekjuöflunarleið sem ekki hafi bein áhrif á fjárl. Hér er aðeins um aukatekjur að ræða sem renna til þessara verkefna og í reynd þyrfti aðeins að vera tímabundið.

Ég vil ekki að óreyndu trúa því, að það ætti að þurfa að vefjast fyrir hv. þdm. að standa að því að samþykkja slíkt réttlætismál.

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. mælir meiri hl. hv. félmn. með samþykkt frv. Vænti ég þess fastlega, að hv. þdm. sjái hvað hér er um brýnt hagsmunamál öryrkja að ræða og nauðsynina á slíkum tekjustofni meðan ekki er sýnt að málefni þeirra komist í betra horf með öðrum hætti, þar sem Alþ. hefur ekki staðið við þær skuldbindingar sem það gerði með samþykkt grunnskólalaganna um fjármögnun og framkvæmd þessara mála sem snýr að þroskaheftum.

Ég vil að lokum geta þess, að þetta frv. var lagt fram í upphafi þings, í október, og hefur því tekið alllangan tíma að afgreiða það í þessari hv. d. Ég vil því leggja áherslu á það, að ef hv. þdm. veita þessu máli stuðning nú við þessa umr., þá verði lögð áhersla á að hraða afgreiðslu þess, ef von á að vera til þess að það geti orðið að lögum á þessu þingi.