28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3693 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Með frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., um Framkvæmdasjóð öryrkja, er hreyft merku máli hvað snertir málefni öryrkja. Hitt er annað atriði þessa máls, hvort það er rétt að fara inn á þá braut sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tók til máls þegar þetta frv. var hér til 1. umr. snemma á þessu þingi og dró þar mjög í efa að það ætti að fara þessa leið. Það þýðir ekki að ég sé á móti því eða hafi minni áhuga en hv. flm. þessa frv. á því að sinna málefnum öryrkja og þá alveg sérstaklega með sérkennslu þeirra og endurhæfingu. En ef það á að vera afsökun fyrir því, ef skorin eru niður framlög til þátta sem lögum samkv, á að sinna, eins og t. d. sérkennslu þroskaheftra, þá fer ekki á milli mála, að fleiri aðilar hljóta að koma og segja. Í fjárl. var ekki gert ráð fyrir að mín stofnun, mitt mikilvæga hlutverk fái nóg fjármagn til að sinna tilteknum atriðum. Þá verðum við að flytja sérstakt frv. um stofnun fleiri sjóða til að sinna þessum verkefnum. Ég spyr: Hvar endar þá afgreiðsla fjárl. á mörgum sviðum? En sérstaklega finnst mér línur hafa skýrst síðan flm. þessa frv. fylgdi því úr hlaði, en það gerir frv. það sem hefur verið lagt hér fram og er nú fyrir fjh.- og viðskn. Ed., um stjórn efnahagsmála o. fl., og er flutt af hæstv. forsrh. Í 8. gr. þess frv. segir:

„Fyrir árslok 1979 skulu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlag,a til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verða framvegis ákveðin með fjárl. ár hvert, og í áætlun með fjárlagafrv. næstu þrjú árin eftir lok hvers fjárlagaárs, sbr. 7. gr. Við endurskoðun þessa skal höfð sérstök hliðsjón af stöðu og verkefnum einstakra sjóða, m. a. með tilliti til félagslegra markmiða. Samráð skal haft við hagsmunaaðila.

Endurskoðun þessi skal jafnframt taka til ákvæða í lögum, er kveða á um mörkun einstakra tekjustofna til sjóða og verkefna“.

Þessu frv. fylgir svo fskj. þar sem er skrá yfir framlög og markaða tekjustofna sem vísað er til í 8. gr. þessa frv. Meðal þess, sem þar er vísað til, eru jarðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Fiskveiðasjóður, Byggingarsjóður verkamanna, Lánasjóður sveitarfélaga, Bjargráðasjóður, jarðræktarframlög, Atvinnuleysistryggingasjóður, Hafnabótasjóður, Iðnrekstrarsjóður, Byggingarsjóður ríkisins, Byggðasjóður, til framræslu, uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, búfjárrækt, Kirkjubyggingasjóður, Kirkjugarðssjóður, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum, Ferðamálasjóður, Iðnlánasjóður, Styrktarsjóður vangefinna og tekjur hinna ýmsu rannsóknastofnana og til framkvæmdar skipulagsmála. Meira að segja Styrktarsjóður vangefinna er tekinn hér með og ákveður þó Alþ. ekki framlög til hans nema eitt ár í einu. Þetta kemur mér því mjög spánskt fyrir sjónir, þegar vitað er að þetta frv. um efnahagsmál er alveg sérstakt helgiplagg hjá Alþfl., þar sem talsmenn þess flokks hafa marglýst yfir hér í umr. og þá sérstaklega utandagskrárumr. að þeir væru ekki til viðræðna um neinar breytingar hér á og hafa talið þýðingarmikið að Alþingi og ríkisstj. hefðu í hendi sér, hvernig ráðstafað væri þessum tekjustofnum, og gætu breytt þeim frá ári til árs. Hvernig stendur þá á því að þessi flokkur, sem hv. flm. er í, vill að þetta eina mál sé tekið undan? Er þetta ekki í algerri mótsögn við það sem flokkur þessa þm. heldur fram? Ef flokkurinn heldur því fram, að það eigi að efla markaða tekjustofna, þá gæti ég skilið þetta. Eða er bara verið að reyna að flytja mál og eigna sér það? Þetta er framfaramál, mál sem er viðkvæmt og menn vilja gjarnan leggja lið. Ég held að það hefði verið besta liðsemdin við þetta mál við afgreiðslu fjárl. að sýna að fyrir þessum málefnum væri vel séð með fjárframlögum lögum samkvæmt.

Ég get ekki séð það og fundið að það sé réttmætt að taka þetta eina málefni út úr og stofna sérstakan nýjan sjóð. Þær tekjur sjóðsins, sem hér er um að ræða, eru tappagjald af áfengi, sem á að hækka útsöluverð áfengis um 200 kr. hverja heilflösku af sterku víni og 100 kr. hálfflösku, en 100 kr. heilflösku af léttu víni, og sömuleiðis á að hækka útsöluverð tóbaks um 20 kr. hvern vindlingapakka 2 kr. hvern vindil og 20 kr. reyktóbak. Nú vita allir menn að tekjur af áfengis- og tóbaksverslun hafa runnið til ríkissjóðs hverju sinni, og það hefur verið mat fjmrh. á hverjum tíma, hvaða verðlag ætti að vera á þessum vörum til þess að ríkissjóður fái sínar tekjur. Ég tel að með þessu, að marka hluta af útsöluverði tóbaks og áfengis, sé verið að stýfa tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. Með því að samþykkja þetta frv. er um leið verið að lækka ríkistekjur sem þessari upphæð nemur. Hvar á þá að taka þær ríkistekjur? Á að leggja á einhvern nýjan skatt til þess að ná endum saman við afgreiðslu fjárlaga?

Ég sé að n. hefur nú fellt niður c-lið þessarar 3. gr., þ. e. að leggja 20 kr. styrktargjald ofan á verð allra seldra aðgöngumiða í landinu, og flm. sagðist geta eftir atvikum fallist á það, en þó með semingi. Það hefur oft komið fyrir að flm. mála hafa lagt meira upp úr því að koma málum sínum fram en það þó að menn vilji ekki leggja því lið að leggja jafnalmenna skatta á allt skemmtana- og félagslíf í landinu og lagt er til með þessu frv.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki styðja þetta frv. af þeirri ástæðu, að ég tel að það sé skylda ríkisvaldsins að sjá um bæði þau hlutverk, sem þessu frv. er ætlað að gegna, sérkennslu og endurhæfingu, og það sé engin ástæða til að stofna sérstakan sjóð með sérstakri stjórn fyrir þetta. En ég get ósköp vel skilið að menn leggi máli sem þessu lið ef þeir telja að það sé betur gert með þessum hætti en að berjast fyrir því að fá tilskilin nauðsynleg framlög á fjárl. En mér er óskiljanleg afstaða Alþfl. til þessa máls, þegar ég lít á þær yfirlýsingar sem þessi flokkur hefur gefið varðandi efnahagsmálafrv. og sérstaklega með tilliti til 8. gr. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. að því, hvernig honum finnist þetta fara saman, að stýfa alla þessa mörkuðu tekjustofna í efnahagsfrv., en jafnhliða að stofna nýjan sjóð með mörkuðum tekjustofnum. Finnst honum vera svo miklu fjármagni varið t. d. til Styrktarsjóðs vangefinna að hann telji sjálfsagt að takmarka þar framlög? Telur hann að það sé búið að gera þar nóg, eða telur hann að það sé búið að gera þar mun meira en í samræmi við það hlutverk, sem þessu frv. er ætlað að gegna? Ég vildi mjög gjarnan fá álit hans á því. Og það er eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði áðan, að ég tel að það væri líka athugandi að spyrja um hvaða afstöðu ríkisstj. í heild hefur til þessa máls, því að þetta er algerlega gegn þeirri stefnu sem hún hefur markað eða a. m. k. sá hluti hennar sem stendur að þessu efnahagsmálafrv. Það hefur yfirleitt verið hafður sá háttur á, þegar um stórmál er að ræða sem skipta hundruðum milljóna eða milli 700 og 800 millj., eins og þetta frv., að ríkisstj. taki afstöðu til þess og marki þar sína stefnu og sitt viðhorf. Ég hefði talið að hæstv. fjmrh., sem stjórnar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, hefði þurft að vera viðstaddur umr. þessa máls, svo að við fengjum að vita hvort hann telur að þetta hafi ekkert að segja fyrir ríkissjóð og þá á hvern hátt eigi að bæta þar um.