28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í nál. á þskj. 350 kemur það fram, að við hv. 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal og ég, skrifum undir þetta nál. og mælum með því að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem meiri hl. n. flytur. Hér er um að ræða eitt af okkar meiri háttar félagsmálum sem hefur ekki verið sinnt nægilega á undanförnum árum, og í rauninni hafa ræður allra, sem hér hafa talað, fallið í þann farveg að um mikið nauðsynjamál sé að ræða. En sumir, sem hér hafa talað, leggjast á móti þessu frv. vegna þess að fé eigi að veita til þessara þarfa í fjárl. Þetta mál ræddum við nokkuð við 1. umr. og þá var á það bent að við afgreiðslu fjárl. bæði nú síðast og mörg undanfarin ár hefur ekki fengist fé neitt í námunda við það sem nauðsynlegt er til að sinna málum öryrkja. En hér er um svipað að ræða og varðandi fjölmörg önnur félags-, mannúðar- og líknarmál á undanförnum árum og áratugum, að við afgreiðslu fjárl. er þeim málum því miður stundum ekki sinnt nægilega. Af þeirri ástæðu og vegna þeirrar reynslu, sem menn hafa orðið fyrir hvað eftir annað, hefur orðið að grípa til hinna svokölluðu mörkuðu tekjustofna, og veit hver einasti hv. þm. að mörgum félagsmálum og mannúðar- og líknarmálum hefur skilað betur áfram og jafnvel verið bjargað í höfn einmitt vegna þessara mörkuðu tekjustofna. Ef hin kenningin hefði verið algild, að eingöngu ætti að leysa þessi mál með afgreiðslu fjárlaga, þá værum við miklu verr á vegi stödd í þessu þjóðfélagi um félagsmál heldur en nú er. Auðvitað er hægt að halda ræður um það, að allt eigi þetta að koma inn í fjárlög. En við rekum okkur bara á reynsluna bæði fyrr og síðar.

Út af fyrir sig er það ekki nýmæli að lagt sé fram frv. um markaðan tekjustofn til að leysa aðkallandi vandamál. Í frv. um efnahagsmál á þskj. 453 frá hæstv. forsrh., grg. þess, eru á bls. 34–35 taldir upp nokkrir hinna mörkuðu tekjustofna sem hafa verið og eru í gildi. Þar segir svo: „Meðal tekjustofna, sem ráðstafað er til sérstakra þarfa, má nefna eftirtalin gjöld.“ Ég ætla að þarna séu taldir upp 32 markaðir tekjustofnar sem eru í gildi. Þeir eru fleiri, því að þessir eru „meðal tekjustofna“.

Þess var getið áðan, að það mundi vera sjónarmið fjmrn. og fjmrh., hverjir sem þeir væru á hverjum tíma, að vera andvígir hinum mörkuðu tekjustofnum. Þetta er ekki rétt. Ég vil t. d. taka það fram, að þau 5–6 ár, sem ég starfaði í fjmrn., var mér þetta vel ljóst og flutti sjálfur till. um markaða tekjustofna til að leysa ýmiss vandamál, vegna þess að mér var ljóst að það var ekki hægt að fá samþykki ríkisstj. og Alþ. til að leysa þau með fjárlagaframlögum. Sem dæmi vil ég nefna markaða tekjustofna til Slysavarnafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands, — ég tek það af handahófi, — sem voru teknir upp á þeim tíma að minni till. sem fjmrh. og hafa staðið síðan.

Ég vil eindregið mæla með samþykkt þessa frv., og ég vil út af þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar gegn málinu, benda á það, að í efnahagsmálafrv. er ekki lagt til að afnema þá mörkuðu tekjustofna sem fyrir eru. Og núv. hæstv. ríkisstj. hefur á þessu þingi gengist fyrir að bæta við nýjum mörkuðum tekjustofnum. Má t. d. nefna iðnaðarmálagjald sem var búið að fella úr gildi. Og hún hefur boðað verulega hækkun á öðrum mörkuðum tekjustofnum, t. d, á jöfnunargjaldi.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að með allan þann sæg af mörkuðum tekjustofnum og nýlegar viðbætur og boðaðar viðbætur sætir það furðu ef nú skal spyrna við fótum þegar öryrkjar eiga í hlut.