28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka aftur til máls, en flm. þessa frv. hafði hér þau orð áðan sem gerðu það að verkum að ég tel mig knúinn að koma hér aftur í ræðustól.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði bæði við 1. umr. þessa máls og eins í dag, að ég tel mig vera áhugamann fyrir að auka og efla sérkennslu og endurhæfingu öryrkja. Hins vegar tók ég fram að ég gæti ekki fallist á, að það væri stofnaður sérstakur sjóður með sérstakri sjálfstæðri stjórn. Við erum með sérkennsluna í grunnskólalögunum, og þrátt fyrir þetta frv. verður sú sérkennsla þar eftir sem áður. Kemur það mér mjög á óvart, að þegar verið er að afgreiða fjárl. virðast sumir þm. hafa ákaflega takmarkaðan áhuga á að leiðrétta það sem þeir telja miður fara með því að flytja þá um það brtt.

Flm. þessa frv. sagði að sér þætti dapurlegt að heyra hvernig sumir þm. hefðu tekið þessu frv. Það getur vel verið að hv. flm. frv. þyki dapurlegt að heyra ef einhver er ekki nákvæmlega á sömu skoðun og hún er, þessi hv. þm.

Hitt er svo annað mál, að ég flutti brtt. við fjárl. — í fyrsta skipti sem ég hef flutt brtt. við fjárlagafrv. — sem varðaði það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir. Það var til uppbyggingar heilbrigðisþjónustu á einum ákveðnum stað þar sem engin slík starfsemi var fyrir, og flm. þessa frv. var ekki mjög sorgbitin eða dapurleg á svipinn að drepa þá till. Eru áhugamálin aðeins miðuð við eitthvert ákveðið sérsvið og líka við það að ákveðnir þm. flytji þau mál? Eru það ekki málefnin sjálf? Ég held að það hefði ekki drepið ríkissjóð þó að sú till. hefði verið samþ. En það stóð ekkert á flokksfólki flm. þessa frv. að drepa þá till. ásamt ráðh. heilbrigðismála. Hún var ekki stór. Hún var sennilega ekki nema um 3% af því sem hér á að taka af ríkissjóði. En nú er það hægt, og ráðh. heilbrigðismála leggur til að frv. verði samþ. sem á að gefa um liðlega 700 millj. kr. á ári. Það yrði sennilega ekki nema rúmur hálfur milljarður eða vel það sem það gæfi á þessu ári. En frv. gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi ef frv. verður að lögum. Og þá á að kippa tekjum frá ríkissjóði með því að bæta ofan á verð á áfengi, sem er alltaf gert hvort sem er alveg til hins ýtrasta. Það hefur ekki verið neitt lát á því á undanförnum árum, og aldrei hefur gengið jafndjöfullega að ná endum saman og fyrir síðustu jól. Það þurfti að hafa opið alveg fram undir stórhátíð. Á árum áður var þó lokað á Þorláksdag og aðfangadag, en það voru eiginlega neyðarvein um að kaupa meira brennivín.

Kannske verður tekjuaukning af því að samþ. þetta frv., því ef menn kaupa meira brennivín, þá styrkja þeir Framkvæmdasjóð öryrkja, og eftir því sem menn kaupa fleiri flöskur fara fleiri 200–kallar við kaup á sterku vini til þessa ágæta málefnis. Það verður kannske þegar allt kemur til alls mjög gott fyrir fjmrh. að setja þetta í sínar fréttatilkynningar, því brennivín má ekki auglýsa, en það má gefa út fréttatilkynningar um það. (Gripið fram í.) Hvað sagði formaður þingflokksins? (Gripið fram í.) Já, það má hafa þetta myndskreytt. Þeir geta fengið vafalaust nóg af slíkum myndum. Það væri alveg nóg að taka mynd af stuðningsliði ríkisstj. í ýmsum stellingum.

Mér finnst ekki heiðarlegur málflutningur hjá flm. þessa frv. að draga þá þm. í þessari deild, sem hafa talið að það ætti að fara eftir öðrum leiðum, — að draga þá í dilka og segja: Það eru góðu þm. sem styðja mitt frv., en hinir eru mjög slæmir og sennilega mjög illa innrættir, af því þeir styðja ekki frv. mitt.

Þetta finnst mér ekki vera heiðarlegur málflutningur. Ég vil aðeins minna á það, að í sambandi við alla umönnun þroskaheftra er undirstaða þess menntun þroskaþjálfa, og á meðan ég fór með heilbrigðismál var skóli til þess byggður upp. Hann var ákaflega lítill og á veikum grunni byggður og hann var utan við fræðslukerfið, utan við menntmrn. Sá skóli er nú orðinn mjög góður, enda hefur þjóðfélagið verið mjög lánsamt með kennara við þann skóla. Ég lagði kapp á það, og naut velvilja fjárveitingavalds og annarra, að búa vel í haginn fyrir þennan skóla. Það er engin ástæða til að segja, að það hafi verið lítið gert á undanförnum árum. Hins vegar má segja að það hafi ekki verið nógu mikið gert. Það get ég alveg tekið undir. Þessi mál eru auðvitað mjög viðkvæm hjá þeim, sem eiga hér hlut að máli, aðstandendum þessa fólks og þessu fólki sjálfu. En það bætir ekki að túlka málstaðinn með þeim hætti sem hv. flm. þessa frv. gerði.

Ég tel, þrátt fyrir það að ég sé ekki á því að fara inn á þessa braut, að ég sé ekki neitt verri talsmaður eða stuðningsmaður þess hlutverks, sem þessum sjóði er ætlað að gegna, heldur en aðrir.