29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Guðmundur Karlsson:

Forseti. Ég hef á þskj. 335 leyft mér að flytja þáltill. ásamt þeim þm. Guðmundi H. Garðarssyni, Sverri Hermannssyni, Lárusi Jónssyni og Friðjóni Þórðarsyni um könnun á atvinnu- og efnahagslegum áhrifum takmarkana á fiskveiðum Íslendinga. Þáltill. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera ítarlega könnun á atvinnu- og efnahagslegum áhrifum þess, ef farið verður að tillögum fiskifræðinga um að þorskveiðar Íslendinga í ár verði takmarkaðar við 250 þús. smál. Enn fremur verði könnuð áhrif þess, ef farið verur að tillögum þeirra um viðgang helstu fiskstofna á næstu árum.“

Það má heyra á till. að það er nokkuð langt um liðið síðan við lögðum hana fram, en ýmissa hluta vegna hefur hún ekki komið á dagskrá fyrr en nú. Það má segja, að nokkur umr. hafi farið fram í þessa átt á síðustu dögum, en samt tel ég að full ástæða sé til þess að flytja till. Grg., sem henni fylgir, er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár hafa farið fram miklar umr. um veiðiþol fiskstofna innan hinnar nýju 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Árvisst hafa fiskifræðingar látið frá sér fara aðvaranir um að ýmsir mikilvægir fiskstofnar væru ofveiddir og að grípa yrði til veiðitakmarkana. Flestir, sem til þekkja, eru sammála um nauðsyn þess að einskis megi láta ófreistað í þeim efnum að afstýra því að fiskstofnanir séu ofnýttir. Hins vegar greinir menn á um hvar draga skuli mörkin. Fara þar ekki alltaf saman skoðanir þeirra, er starfa í sjávarútvegi, og sérfræðinga.

Nú liggur fyrir tillaga frá fiskifræðingum um róttækan niðurskurð á þorskveiðum á yfirstandandi ári. Um er að ræða að leyfilegur hámarksafli þorsks verði 250 þús. smálestir, en á s. l. ári var þorskaflinn 330 þús. smálestir. Þá lögðu fiskifræðingar til að þorskafli yrði 270 þús. smálestir. Verði farið að þessari og öðrum tillögum sem fiskifræðingar gera og hníga í sömu átt, mun það hafa gífurleg áhrif á efnahagslega afkomu þjóðarinnar.

Án ítarlegrar athugunar er erfitt að gera sér grein fyrir áhrifum þessara aðgerða á útgerð, fiskiðnað og afkomu þess fólks er í þessum atvinnugreinum starfar, auk almennra áhrifa á atvinnu- og efnahagslíf landsmanna í heild.

Ljóst er þó, að fjórðungs niðurskurður á veiðum mikilvægasta fiskstofnsins, þorsksins, hlýtur að hafa í för með sér stórfelld samdráttaráhrif í atvinnu- og efnahagslífinu. Engir útreikningar né áætlanir liggja fyrir um stærð þess vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir ef farið verður að tillögum fiskifræðinga. Er því lagt til að slíkir útreikningar eða áætlanir verði gerðar hið fyrsta. Án framangreinds mats er þess vart að vænta að gerð verði viðhlítandi grein fyrir því, hvernig vinna beri að lausn þess gífurlega vanda sem verður í atvinnu- og efnahagsmálum í nánustu framtíð verði farið að tillögum fiskifræðinganna. Með tillöguflutningi þessum eru flm. ekki að leggja dóm á tillögur fiskifræðinga í fiskveiðimálum Íslendinga.“

Það liggur nú fyrir hvaða takmarkanir verða gerðar á þessu ári og að ekki verður farið að tillögum fiskifræðinganna um þorskveiðina. En jafnforvitnilegt er eftir sem áður, að þessi könnun fari fram og menn geri sér grein fyrir orsökum og afleiðingum.

Umræður leikmanna um takmarkanir og stjórnun fiskveiða markast oft fremur af tilfinningahita og trúarsannfæringu og stundarhagsmunum en raunsæi og köldum staðreyndum. Þarna mætast oft óskhyggja og veiðigleði fiskimannsins, bjartsýni útgerðarmannsins og eðlileg varfærni vísindamannsins, þar sem fiskifræðingurinn er. Fiskifræðin er ung vísindagrein og á við marga óvissuþætti að glíma. En við höfum búið fiskifræðinga okkar góðum tækjum og búnaði og þeir eru vel menntaðir. Óneitanlegt er, að það eru þeir sem gerst vita hvert stefnir um þróun fiskstofnanna, og það verður ekki annað sagt en að vel hafi til tekist þar sem ráðum þeirra hefur verið fylgt. Við getum því ekki leyft okkur þann munað að horfa fram hjá skoðunum þeirra, þótt svör þeirra við spurningum okkar séu ekki endilega þau, sem þægilegust eru hverju sinni, og þau, sem við helst vildum fá.

Það er fólkið úti á ströndinni, sem allt sitt á undir svipulum sjávarafla, sem hefur mestar áhyggjur af því, sem fram undan er í fiskveiðum okkar, og á mestra hagsmuna að gæta. En mörkuð stefna hefur mikil áhrif um afkomu þjóðarinnar allrar. Því verðum við að gera okkur glögga grein fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirra tillagna, sem uppi eru, og þeim ákvörðunum, sem teknar verða um veiðitakmarkanir og á hvern hátt megi draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á afkomu fiskimanna, fiskvinnslufólks og útgerðar og fiskvinnslufyrirtækja fiskibæjanna úti á ströndinni og þjóðarbúsins alls. Stjórnun fiskveiðanna verður að stefna að hámarksnýtingu og verðmætasköpun úr þeim afla sem á land berst, en framtíðarmarkmiðið hlýtur að vera hámarksafrakstur allra fisktegunda.

Það er óhætt að segja það, að nú á tímum allra þeirra upplýsinga og alls þess upplýsingastreymis, sem fram fer í þjóðfélaginu, sé full ástæða til að fólkið, sem býr úti á ströndinni og á allt sitt undir sjávaraflanum, verði upplýst um ekki bara þær ákvarðanir, sem teknar verða, heldur og um líklegar afleiðingar þeirra. Það er ekki nóg að stjórnvöld ein sitji inni með vitneskjuna um líklegar afleiðingar ákvarðana sinna, heldur verður það fólk, sem þetta varðar, líka að hafa vitneskjuna og gera sér grein fyrir hvað fram undan er.