29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

204. mál, niðurfelling og lækkun leyfisgjalda af litlum bifreiðum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil gera hér nokkra grein fyrir till. sem við erum þrír flm. að, auk mín hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson og Sighvatur Björgvinsson. Þessi þáltill. fjallar um það að fara þess á leit við ríkisstj. að hún felli niður og lækki leyfisgjöld af litlum fólksbifreiðum. Í till. er gert ráð fyrir að bifreiðum, sem í eru vélar með rúmmál sprengirýmis minna en 1600 cm3, verði 50% leyfisgjaldið alveg fellt niður og lækkað um 25% af bifreiðum með vélar þar sem sprengirými er á bilinu 1601–3000 cm3. Af bifreiðum með stærri vélar verði gjöld óbreytt.

Hugmyndin að baki þessari till. er sú, að nú þegar olíuverð fer stöðugt hækkandi verði reynt að gera fólki auðveldara að eignast sparneytnar bifreiðar en nú er. Ýmsir hafa sagt við mig, eftir að þessi till. kom fram hér á þingi, að það hefði verið eðlilegra, um leið og lækkuð væru og niður felld þessi gjöld, að lögð yrðu hærri gjöld á stórar bifreiðar á móti. Þetta tel ég mjög vanhugsað, einfaldlega vegna þess að með hækkandi bensínverði hækka raunverulegir skattar á eigendum stórra bifreiða mjög mikið, og það er hin eiginlega skattlagning sem fram kemur í þrepum ef litið er á stærð bifreiðanna. Þannig tel ég að eigendur stórra bifreiða hér á landi séu nú nægilega skattlagðir, ekki þurfi að bæta þar á.

Einnig hefur verið bent á það, að hér hefði þurft að fara þá leið sem Danir fóru í sambandi við skattlagningu á bifreiðum, þ. e. a. s. skattleggja þær eftir þunga. En sú leið hefur gefist misjafnlega, einfaldlega vegna þess að innflytjendur bifreiða hafa leikið þá leiki að flytja þær inn með sem allra minnstum aukatækjum, þannig að þær hafa oft og tíðum komist niður í lægri tollflokka, en síðan hefur þessum tækjum verið komið fyrir í bifreiðunum eftir að þær voru komnar til landsins á lágu tollunum.

Þetta mál tel ég vera mikið hagsmunamál fyrir alla þá sem hug hafa á því að spara í rekstri bifreiða sinna. Ég vil benda á að undanfarin ár hefur verið flutt hingað til lands mikið magn af bifreiðum sem varla geta flokkast undir það að vera gæðabifreiðar eða bifreiðar í háum gæðaflokkum. Þetta veldur því að þessar bifreiðar hafa mjög fljótt orðið úreltar og hafa þannig kannske skapað beint eða óbeint meiri erfiðleika en ástæða hefði verið til. Með þessari till., ef hún nær fram að ganga, eru meiri líkur á því að almenningur geti keypt sér vandaðar litlar bifreiðar, sem endast þá betur en hinar sem eru ódýrari í dag.

Ég held að enda þótt ríkissjóður kunni að verða fyrir nokkru skakkafalli vegna niðurfellingar á þessu leyfisgjaldi, þá sé nú fram undan veruleg tekjuaukning hjá ríkissjóði vegna hækkana á bensíni, því að ég hef ekki orðið var við að ríkissjóður ætli að taka til sín minna bensíngjald en hann hefur gert að undanförnu að hundraðshluta til, þannig að tekjuaukning ríkissjóðs á næstu mánuðum vegna bensín- og olíuhækkana verður mjög veruleg. Þarf ekki að fara um það mörgum orðum hve miklar tekjur ríkissjóður hefur af innflutningi fólksbifreiða og rekstri þeirra almennt.

Ég vil benda á að í grg. með till. eru nefnd tvö dæmi um tekjur ríkissjóðs af innflutningi á bifreiðum. Í fyrra tilvikinu er dæmi um bifreið sem í er vél með minna sprengirými en 1600 cm3, en undir það flokkast nær allar litlar bifreiðar sem fluttar eru til landsins. Bíll af þessari gerð, sem kostar frá framleiðanda 2985 dollara eða tæplega 3000 dollara, sem jafngildir 960 þús. ísl. kr. miðað við gengið eins og það var 23. febr. s. l., kostar kominn á götu hér í Reykjavík rúmlega 3.4. millj. og þá er ryðvörn ekki talin með. Tekjurnar, sem ríkið fær af þessari bifreið, eru í fyrsta lagi tollur 982 þús. kr., í öðru lagi leyfisgjald 546 þús. kr. og í þriðja lagi söluskattur, sem nemur 457 þús. kr. Þetta þýðir að ríkið fær í sinn hlut tæplega 2 millj. kr. af bifreið sem kostar 3.4. millj. Ef leyfisgjaldið yrði hins vegar fellt niður af þessari stærð bifreiða yrði verð til kaupanda hér í Reykjavík 2 millj. 894 þús. kr.

Hitt dæmið fjallar um bifreið þar sem sprengirými vélar er á bilinu 1601–3000 cm3. Í þessum flokki eru miðgerðir m. a. af amerískum bifreiðum og stærri gerðir af japönskum bifreiðum sem fluttar eru hingað til lands. Ef við tökum kostnaðardæmið og tekjur ríkissjóðs af þessum bíl, þá lítur dæmið þannig út að hann kostar frá framleiðanda 5000 dollara eða 1.6 millj. ísl. kr. Til kaupanda í Reykjavík yrði verðið hins vegar 5.4. millj. kr. og ríflega það. Af þessari bifreið hefur ríkið eftirtaldar tekjur: tolla tæpa 1.6 millj., leyfisgjald 876 þús. kr. og söluskatt 747 þús. kr. Til ríkisins greiðir því kaupandi þessarar bifreiðar raunverulega 3.2. millj. kr. Ef hins vegar leyfisgjaldið af þessari tegund og þessum stærðarflokki yrði lækkað um 25%, eins og gert er ráð fyrir í till., þá yrði verð bifreiðarinnar um 5 millj. kr. í stað tæplega 5.5 millj. Þá er ráð fyrir því gert að í öðrum stærðarflokkum, þ. e. a. s. bifreiðum sem eru stærri en þær sem um er fjallað í till., yrði engin breyting. Hins vegar þarf að kanna mjög vandlega bifreiðar sem notaðar eru í atvinnuskyni, t. d. sendiferðabifreiðar þar sem rúmtak vélar fer eftir burðarþoli.

Ég skal ekki lengja mál mitt um þessa till., herra forseti, en ég held að jafnvel mætti ganga lengra í lækkunarátt á sparneytnum litlum bílum sem fluttir eru hingað til lands, ef það mætti verða'hvatning almenningi til þess að kaupa fremur bifreiðar sem eru sparneytnar og eyða litlu bensíni, heldur en bifreiðar, sem eyða miklu bensíni. Það er augljóst að þetta hlýtur að vera þjóðarbúinu mjög hagkvæmt. Þetta dregur úr innflutningi á bensíni hingað til lands og sparar okkur þar með gjaldeyri, og auk þess mætti vænta þess, að þessi breyting gæti komið því fólki til góða sem í dag hefur annaðhvort ekki ráð á því að kaupa sér nýjar bifreiðar vegna fjárhagsörðugleika eða þá að það treystist ekki til þess einfaldlega vegna þess að þær eru ekki nægilega góðar.