29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3720 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

209. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla hv. þm. Braga Níelssonar. — Það er ekki sérlega auðvelt að bera saman kostnað á milli hinna einstöku rekstrarforma. Það liggur a. m. k. ekki í augum uppi, vegna þess að þjónustan er afar mismunandi, mismunandi mikil göngudeildarþjónusta og mismunandi mikið af dýrum læknabúnaði og dýrum deildum, geislunarlækningar t. d. sem kosta miklu meira en annað o. s. frv., o. s. frv. Mig langar þó til að upplýsa það, vegna þess að við höfum vitneskju um rekstrarkostnað Landspítalans um langa tíð annars vegar og Borgarspítalans hins vegar, að eftir að Landspítalinn hætti að vera rekinn með daggjöldum núna í eitt ár eða liðlega það, þá sýnir það sig að rekstrarkostnaður hans vex miklu minna en Borgarspítalans, hlutfallslega miklu minna. Gæti það bent til þess, að það væri rétt að hugleiða í alvöru þann möguleika að hætta við daggjaldaformið og fara yfir í beinar fjárveitingar, eins og nú á sér stað um ríkisspítalana. — Þetta vildi ég að kæmi fram í tilefni af orðum hv. þm.