29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

237. mál, farstöðvar

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 480 hef ég leyft mér að flytja þáltill. í þá veru, að Alþ. álykti að fela samgrh. að láta endurskoða fjarskiptareglur Pósts og síma að því er varðar notkun farstöðva í bifreiðum og öðrum farartækjum, á vinnustöðum, í heimahúsum og á víðavangi. Endurskoðunin taki mið af þeim tæknilegu framförum, sem orðið hafa í framleiðslu fjarskiptatækja að undanförnu, og stefni að því að um notkun farstöðva gildi raunhæfar reglur sem dragi ekki úr gildi þessara stöðva sem öryggistækja.

Það er skemmst frá því að segja, og ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi flestir tekið eftir því og sé það ljóst, hversu notkun þessara handhægu talstöðva hefur vaxið ört undanfarin ár. S. l. haust sendi ég bréf til yfirverkfræðings Pósts og síma með nokkrum spurningum varðandi stöðvar þessar, fjölda þeirra og sitthvað fleira. Þar komu fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar sem ég held að sé rétt að geta stuttlega hér.

Í fyrsta lagi var spurt um fjölda þessara stöðva. Með leyfi forseta, hljóðar svar Póst- og símamálastofnunarinnar á þessa leið:

„Fram að þessu hafa verið skráðar hjá radíoeftirlitinu 10 400 talstöðvar í 27 MHz tíðnisviðinu. Vitað er að 1 000 af þessum stöðvum eru ekki í notkun lengur“. Síðan segir: „Auk þess er í umferð fjöldinn allur af smygluðum stöðvum og telja ýmsir að þær skipti þúsundum“.

Ég vek athygli á því, að þetta er umsögn Póst- og símamálastofnunar.

Í öðru lagi var spurt: Hve margar slíkar stöðvar hefur Landssíminn gert upptækar og af hvaða ástæðum? Svarið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á þessu ári hafa 36 stöðvar verið gerðar upptækar og er það veruleg aukning frá fyrri árum. Ástæðan fyrir upptöku er í öllum tilfellum of mikið sendiafl, sem í flestum tilvikum var kvartað undan vegna truflana á sjónvarpsviðtöku. Í mörgum tilvikum hefur einnig verið um að ræða smyglaðar stöðvar, sem ekki voru á skrá hjá radíóeftirlitinu“.

Í þriðja lagi var spurt um ástæður fyrir takmörkun á styrk þessara stöðva og rásafjölda. Þar er ekki spurt að tilefnislausu, vegna þess að venjulegur styrkur þessara stöðva er 2.5 wött, en samkv, þeim reglum, sem gilda hjá póst- og símamálastjórn, er leyfilegt sendiafl 0.5 wött, sem þýðir að þessar stöðvar eru nánast ónýtar sem öryggistæki, draga stutt, og enn fremur þýðir þetta í raun, að ef menn flytja inn slíkar stöðvar eða kaupa þær verða þeir að láta skrá þær hjá Pósti og síma og þá er dregið úr aflinu með afskaplega einfaldri aðgerð: með því að setja þétti í stöðina. Hef ég það fyrir satt, að afskaplega lítið verk sé og flestir láti sig ekki muna um það að fjarlægja þennan þétti við fyrstu hentugleika til að hafa fullt gagn af stöðinni.

Svar Pósts og síma um ástæður fyrir takmörkun á sendiafli er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Ástæðan fyrir takmörkun á sendiafli er fyrst og fremst truflanahætta gagnvart öðrum þjónustum“ — eins og það er orðað hér — „en einnig kemur til aukin truflanahætta milli stöðva sem verið er að nota á sömu rás. Það hefur sýnt sig að í langflestum tilvikum, þar sem kvartað hefur verið yfir truflunum á sjónvarpi og hljóðvarpi og truflanavaldurinn hefur fundist, hefur verið um að ræða stöð með ólöglegu sendiafli.

Ástæðan fyrir takmörkunum á rásafjölda er í rauninni tvíþætt: Í fyrsta lagi var ákveðið að taka hluta af 23 rásum til afnota fyrir ríkis- og bæjarstofnanir og ýmis almetin hjálparfélög, t. d. slysavarnir, og heimila hinum almenna notanda ekki þær rásir. Hins vegar gegnir þessi takmörkun því hlutverki að tryggja að hópur notenda geti ekki lagt undir sig allt sviðið og meinað öðrum notkun rásanna.“

Þetta var sem sagt svar Pósts og síma við ástæðum fyrir takmörkun á styrk og rásafjölda.

Við þetta má bæta að framfarir, eins og segir í grg., hafa verið mjög örar á þessu sviði, og nú er raunar svo komið að heita má að t. d. í Bandaríkjunum, þar sem þessar stöðvar eru nú mest notaðar og eru flestar, séu ekki framleiddar og séu ekki seldar lengur stöðvar með færri rásum en 40. Póstur og sími hefur sett reglur um fjölda rása, en einfaldlega er ekki lengur hægt eða a. m. k. orðið mjög erfitt að fá keyptar stöðvar sem fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í reglum Pósts og síma.

Í fjórða lagi var spurt um reglur er giltu um notkun slíkra stöðva á Norðurlöndunum. Í svari Pósts og síma kemur fram, að Samband póst- og símamálastjórna í Vestur-Evrópu hefur sett reglur um notkun þessara talstöðva sem það mælir með að séu teknar upp. Reglur á Norðurlöndum og þar með talið Íslandi byggjast að mestu á þessum reglum, en þó ekki nema að nokkrum hluta. Þar eru ýmis frávik. T. d. eru mismunandi reglur um þetta á Norðurlöndunum. Sums staðar eru í gildi reglur sem heimila 21/2 watts sendiafl fyrir nokkrar rásir. Þetta var heimilað áður en reglur Sambands póst- og símamálastjórna komu til og menn treystu sér ekki til að afturkalla það.

Þessum málum er sem sagt komið þannig hér núna, að í notkun eru skráðar 9–10 þús. stöðvar. Enginn veit, hve margar stöðvar eru ólöglegar, vegna þess einfaldlega að reglurnar, sem Póstur og sími hefur sett um þetta, hafa verið þess eðlis að erfitt hefur verið að framfylgja þeim. Það hefur verið erfitt að hlíta þeim vegna þess að þá koma þessar stöðvar ekki að gagni sem þau mikilvægu öryggistæki sem þær eru. Þær eru nánast gagnslausar. Í þriðja lagi held ég að segja megi að þessar reglur hafi verið gegn vitund almennings um það, hvað væri rétt og sanngjarnt í þessum efnum. Þá er það gömul saga og ný, að fólk hlítir ekki slíkum reglum ef unnt er að skjóta sér fram hjá þeim.

Þess vegna held ég að það sé brýnt að breyta þessum reglum þannig að þessar stöðvar nýtist sem öryggistæki. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að þær geti bjargað mannslífum, þær hafa gert það margoft. Og reglurnar þurfa að vera þannig að þeim sé fylgt. Jafnframt skapar þetta þann möguleika fyrir Póst og síma að heimta gjald af þessum stöðvum og hafa af því verulegar tekjur. Ef reglunum yrði breytt ætti auðvitað að gefa þeim, sem eru með ólöglegar stöðvar, kost á að láta skrá þær innan ákveðins tíma án þess að komi til nein veruleg viðurlög, og að um þetta verði settar reglur sem nokkurn veginn sé öruggt að menn muni halda og séu skynsamlegar. Benda má og á það í þessu sambandi, að í ýmsum sveitum þessa lands er ekki óalgengt að slíkar stöðvar séu á mörgum bæjum. Sérstaklega gildir þetta að sjálfsögðu þar sem ekki er kominn sjálfvirkur sími, menn hafa ekki aðgang að þeirri sjálfsögðu og eðlilegu þjónustu sem þeir, sem búa við sjálfvirka símann, telja að geta hringt hvenær sem er, heldur verða að sæta lagi fáeina klukkutíma á dag, og þá hafa menn einfaldlega brugðist við þessari slæmu þjónustu Pósts og síma með því að koma sér upp slíkum stöðvum. Það er mjög eðlilegt og mikið öryggisatriði og vitað mál að það hefur oft komið sér vel.

Starfandi eru samtök þeirra sem eiga slíkar stöðvar. Ég tel eðlilegt að við meðferð málsins í n. verði haft tal af þeim og hlýtt á sjónarmið þeirra. Sömuleiðis hefur á vegum Félags ísl. bifreiðaeigenda starfað sérstök farstöðvanefnd, sem m. a. hefur gert till. um hvernig þessum málum skuli fyrir komið. Þær till. voru samþykktar á þingi FÍB, sem haldið var dagana 14. og 15. okt. s. l. Þar eru fastmótaðar till. um þetta, m. a. um sendiafl, sem þeir mæla með að verði 2.5 wött, og ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa niðurlag þessarar till. um farstöðvamál sem var samþ. á landsþingi FÍB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við teljum að með vaxandi truflun af völdum útlendra stöðva sé útilokað að ná sambandi milli bíla með minna afli ( þ. e. a. s. en 2.5 wött), — þess má geta, að 0.5 watta afl í loftneti á húsum mun nokkurn veginn samsvara 2.5 watta afli í loftneti á bíl, þetta er tæknilega viðurkennt, — enn fremur að viðurkenndar móðurstöðvar verði reknar með fullu afli vegna mikilvægis þeirra. Þá bendum við á að með þeirri endurskoðun á CB-bandinu (það er sú bylgja sem hér um ræðir), sem mælt er með, sé nauðsynlegt að Póstur og sími gerbreyti kallnúmerakerfi þessara aðila. Einnig er lagt til að eitt kallnúmerakerfi verði viðurkennt um land allt og kallmerki verði merkt þeirri persónu, sem það hefur, en ekki þeirri talstöð, sem um er að tefla.“

Það mætti ýmislegt fleira tína til í þessu sambandi. Varðandi það, sem getið var um áðan, að þessar stöðvar hefðu í för með sér truflanir varðandi sjónvarp. er þess að geta að það var rétt. En það er ekki endilega rétt lengur vegna þess að með aukinni tækni og bættri framleiðslu virðast þær stöðvar, sem síðast hafa komið á markaðinn, ekki valda þeim truflunum sem eldri stöðvar gerðu. Raunar eru þær nýju stöðvar, sem fáanlegar eru núna, með þeim hætti að það er ákaflega erfitt að breyta þeim og draga úr styrk þeirra eins og unnt var með gömlu stöðvarnar.

Það er meginatriði þessa máls að fá Póst og síma, þar sem það hefur viljað brenna við að gæti töluverðrar íhaldssemi og þverstöðu varðandi allar tæknilegar nýjungar sem koma fram og almenningur gæti hugsanlega notfært sér, — þetta er gömul saga og ný, — meginmálið er að fá þá, sem þar ráða, — og þess vegna miðar þessi ályktun að því að fela samgrh. að láta endurskoða þessar reglur, — til að viðurkenna staðreyndir nútímalífs, til að viðurkenna þær staðreyndir, sem nú eru fyrir hendi, og breyta þessum reglum í samræmi við raunveruleikann, þannig að menn geti átt og notað þessar stöðvar, haft af þeim full not, þær geti komið að fullu gagni sem öryggistæki, eins og minnst hefur verið á oftar en einu sinni í umr. úr þessum ræðustól, en að menn þurfi ekki að gerast lögbrjótar til þess að hafa full not af þessum stöðvum. Það er sem sagt tilgangur þessarar till. að fá þessum reglum breytt í nútímalegt horf. Vonandi lætur Póst- og símamálastofnun af andstöðu sinni gegn þessu og viðurkennir staðreyndir dagsins í dag.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, herra forseti, en legg til að umr. verði frestað og málinu verði vísað til allshn. til athugunar.