02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur verið sagt áður, að frv. það, sem hér er til umr., eigi sér langan aðdraganda. Ég skal ekki verða langorður um það efni. Það er raunar ekkert óeðlilegt að hæstv. ríkisstj. skuli hafa komið með og fengið lögfestar ýmsar bráðabirgða- og skammtímaaðgerðir í efnahagsmálunum áður en fram kæmu till. um langtímaaðgerðir. En það er samt sem áður svo, að aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum hafa verið því marki brenndar að stefna málum þjóðarinnar í meiri vanda og óvissu en nokkru sinni fyrr, og er þá sleppt öllum málatilbúnaði, sem hefur verið með endemum. Gleggsta dæmið um það er einmitt frv. það sem við ræðum í dag.

Þegar ríkisstj. eru myndaðar eiga þær að byggja á heildarstefnu um hin mikilvægustu þjóðmál. Ekkert var mikilvægara en efnahagsmálin, þegar núv. ríkisstj. var mynduð. En ef allt hefði verið með felldu hefði einhverri heildarstefnu átt að vera til að dreifa þegar núv. stjórnarherrar settust í valdastólana. Þeir komu sér að vísu saman um svokallaða samstarfsyfirlýsingu, plagg sem er lítils virði, en það má einu gilda, það var aldrei um neina heildarstefnu í efnahagsmálunum að ræða. Og þar sem svo var í pottinn búið var ekki við góðu að búast þegar ríkisstj. fór að láta til sín taka.

Aðgerðir til skamms tíma eða til bráðabirgða þurfa að vera í samræmi við eða liður í heildarstefnu til þess að eitthvert vit sé í þeim. Það kann því ekki góðri lukku að stýra þegar engri heildarstefnu er fyrir að fara. Aðgerðirnar 1. sept. og 1. des. s. l. eru raunalegur vottur um slíkt: Gengislækkun til að styrkja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og jafnframt að leggja nýja skattaálögur á þá hina sömu atvinnuvegi. Niðurgreiðslum á matvælum jafnt fyrir ríka sem fátæka mætt með afturvirkni skattálagningar á launafólkið í landinu. Launafólki gert að kaupa sér félagslegar umbætur með því að falla frá verðbótum á laun, en skattar jafnframt hækkaðir á þeim sömu til að greiða með endurgjaldið fyrir launaafsalið. Slíkur og þvílíkur öfugmælaleikur hæstv, ríkisstj. er að sjálfsögðu ekki í neinum tengslum við einhverja heildarstefnu í efnahagsmálunum. Slíkt og þvílíkt leysir ekki vandann, heldur eykur hann um allan helming. Á sama tíma hefur ríkisstj. boðað að langtímaráðstafanir yrðu gerðar í efnahagsmálunum, og það út af fyrir sig er góðra gjalda vert. En það er furðuleg árátta að auka vandann og gera hann erfiðari viðfangs áður en ætlunin er að taka til við að bæta úr því sem aflaga fer. Þetta framferði hæstv. ríkisstj. er ámælisvert, þótt skiljanlegt sé eins og til þessarar stjórnarsamvinnu var stofnað.

Í síðustu alþingiskosningum lögðu stjórnarflokkarnir fram fyrir þjóðina gjörólíka stefnu í efnahagsmálum. Sérstaklega deildu þeir um aðgerðir í vandanum mesta, að fást við verðbólguna. Annars vegar var Framsfl. með heimanmund frá ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Hins vegar voru Alþb. og Alþfl. gagnteknir af að brjóta niður með aðstoð svokallaðra verkalýðsforingja aðgerðir þáv. ríkisstj. til að hafa hemil á verðbólgunni. Þegar þessum leik var lokið og kosningar afstaðnar áttu núv. stjórnarflokkar enga samleið til þeirra höfuðþátta efnahagsmálanna sem mestu varða um mótun heildarstefnu til að ráða bót á verðbólguvandanum, en það hlaut að verða í senn mikilvægasta og mest aðkallandi viðfangsefni hverrar þeirrar ríkisstj. sem mynduð hefði verið að loknum kosningum. Í raun og veru áttu núv. stjórnarflokkar ekkert sameiginlegt nema löngunina til að setjast í valdastólana, sigurvegarar kosninganna til að njóta sigursins og Framsókn til að hvíla lúin bein. — Þetta verður að hafa í huga ef yfirleitt á að botna upp eða niður í fáránlegum leik núv. ríkisstj., furðutiltektum og ábyrgðarleysi. Allan þann tíma sem liðinn er síðan núv. ríkisstj. tók við völdum hefur Alþb. staðið í að halda í óraunhæfa og ábyrgðarlausa kosningastefnuskrá og Alþfl. í að afneita henni og svíkja, en Framsókn svo gert úr þessu sannkallaðan skollaleik.

En meðan þessu öllu hefur farið fram hefur leynst lítil vonarglæta. Það hefur verið sagt að von væri á stjfrv. um stjórn efnahagsmála. Það hefur verið von á heildarstefnu í efnahagsmálum. Og hér höfum við nú til umr. frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. Að vísu er þetta frv. ekki stjfrv., það er flutt af forsrh. einum, en það er önnur saga og þó ekki óviðkomandi þessu máli. Ég skal ekki ræða þá sögu sérstaklega, enda hefur það verið gert oft. En manni er forvitni á að líta á þetta örverpi hæstv. forsrh., sem lítur dagsins ljós í frv. því sem nú er á dagskrá.

Í frv. þessu kennir margra grasa. Sumt efni frv. er þess eðlis að allir geta verið um það sammála. Um það er enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokka. En það telja ekki allir jafnnauðsynlegt að lögfesta sumt af því sem í frv. þessu er. Annað efni frv. er vafasamt og misjöfnum augum líta menn á silfrið. Enn annað varðar grundvallarafstöðu í efnahagsmálunum, sem stjórnmálaflokkana greinir mest á um. Í raun og veru ægir hér saman ýmsu því sem manni er spurn hvaða tilgang hafi til að mæta þeim vanda efnahagsmálanna sem nú er fyrst og fremst við að eiga. Spurningin er, hvort ekki hefði verið nær í gerð þessa frv. að leggja meiri áherslu á þau atriði sem kveða á um raunverulega stefnumörkun og útfæra það nánar en sáldra hér ýmsu efni sem varðar lítt eða ekki lausn aðkallandi vandamála. Þetta vil ég segja um gerð frv. án tillits til afstöðunnar til einstakra efnisatriða. Mér virðist að verið sé að draga athyglina frá aðalatriði málsins með svo fyrirferðarmiklum umbúðum sem komið er fyrir í þessu frv.

I. kafli frv. fjallar um stefnumörkun í efnahagsmálum. 1. gr. frv. er afbragðsgóð, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Meginmarkmið stefnunnar í efnahagsmálum eru að tryggja næga og stöðuga atvinnu, að halda verðhækkunum í skefjum, að stuðla að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og greiða fyrir félagslegum og efnahagslegum framförum og bættum lífskjörum alls almennings.“ — Þetta var fyrri mgr. 1. gr.

Ég fæ ekki betur séð en að þessa grein frv. hafi hæstv. forsrh. tekið með sér úr félagsbúi hans og Geirs Hallgrímssonar úr síðustu ríkisstj. Þessi meginmarkmið stefnunnar í efnahagsmálum standa fyrir sínu, þótt þau hefðu ekki verið tíunduð í frv. þessu. Hins vegar er það að sjálfsögðu megingalli frv., hversu mjög skortir á að í því sé mörkuð leið til að ná þessum meginmarkmiðum.

Mjög einkennandi fyrir frv. er hið mikla dálæti sem þar kemur fram á hvers konar áætlanagerð í hvers konar samböndum. Það fjalla ekki minna en þrír kaflar frv. aðallega um þetta efni. Ég skal samt ekki hafa á móti áætlanagerð og skipulögðum vinnubrögðum í stjórnsýslunni, en óneitanlega hefði þjónað betri tilgangi að sjá í staðinn fyrir sumt þetta fjas og skrúðmælgi raunhæfari till. um hvernig ná skuli þeim markmiðum stefnunnar í efnahagsmálum sem fram koma í 1. gr. frv. Það er naumast hægt að sjá, hvaða tilgangi það þjónar að prenta upp í frv. þessu lagaákvæði og viðteknar framkvæmdareglur um gerð fjárlaga, starfsemi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlana og annað því um líkt.

Ýmislegt í frv. þessu er, eins og ég sagði áðan, meira en vafasamt. Þó að þetta sé alvörumál liggur við að ýmislegt sé spaugilegt. Ég mun þó ekki orðlengja sérstaklega um það. En af því að ég vék að 1. gr. frv. er rétt að vekja athygli á brtt. við 2. mgr. 1. gr. frv., sem er 1. brtt. á þskj. 500. Samkv. þeirri brtt. á að fella niður úr 2. mgr. 1. gr. frv. ákvæði um að stefnt sé að framangreindum markmiðum, „án þess að efnahagslegu jafnvægi sé raskað“. Nú telur meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. að hann sé að gera bragarbót og hefur sett í staðinn fyrir orðin „án þess að efnahagslegu jafnvægi sé raskað“: að þeirra á milli sé hæfilegt jafnvægi, það komi þarna inn „hæfilegt jafnvægi“. Ég geri ráð fyrir að það hafi einhverjar miklar ástæður legið að baki þessarar brtt. sem ekki hafa komið fram enn þá og hv. frsm. meiri hl. n. skýrði ekki frá. Það kann að vera að það sé eitthvað í sambandi við það, hvað sé „óhæfilegt jafnvægi“. Ég vildi gjarnan fá að heyra frekar frá hv. 6. þm. Suðurl. um það.

Ég skal ekki fara fleiri orðum en ég hef þegar gert um I. kafla frv.

Í II. kafla frv. er kveðið á um samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Allt kann þetta að líta vel út á pappírnum og hljóma vel í eyrum. En ég spyr: Hvað hindrar stjórnvöld í að hafa samráð við þessi samtök ef á þarf að halda? Liggur ekki í hlutarins eðli að stjórnvöld meti það hverju sinni hvernig þau haga vinnubrögðum í þessum efnum? Spurningin er, hvort rétt sé að hafa lögbundin fyrirmæli um þessi efni. Gæti það t. d. bundið hendur Alþ. óeðlilega? Það er sagt að ekki þurfi að fara að ráðum eða tillögum þessara samtaka þótt samráð sé haft. Gott og vel. En hafa menn aldrei heyrt um þrýsting á Alþ. og önnur stjórnvöld frá hagsmunasamtökum? Höfum við ekki reynt á síðustu vikum og mánuðum sitthvað í þessu efni? Höfum við ekki horft á stjórnvöld vera eins og skekið lauf í vindi eftir því hvernig blæs í skjá hagsmunahópa? Getur verið að stjórnvöld geti ekki eða veigri sér við að móta stefnu og framfylgja henni af ótta við tiltekna hagsmunahópa? Og þá er spurningin: Eigum við að festa slíkt ástand í löggjöf? Vilja stjórnvöld, sem ekki hafa þor og dug til að stjórna, skjóta sér undan skyldum með því að skírskota til hagsmunasamtaka? Eigum við að lögbinda slíkt ástand? Við skulum fara með gát í þessu efni ef við viljum á annað borð viðhalda sjálfu þingræðinu.

Þá er þess enn fremur að geta, að II. kaflinn sýnist bera allnokkur merki um sýndarmennsku í þeirri útgáfu sem hann birtist í frv. Öðru máli var að gegna um drög að þessu frv. í febr. s. l. Ef menn vilja lögfesta eitthvað um þetta efni hygg ég að þeir séu sjálfum sér samkvæmari ef þeir halda sér við drögin að frv. frá í febr.; en þar var gert ráð fyrir að kjaramálaráð starfaði og kveðið á um skipan þess. Nú eru þau ákvæði fokin út í veður og vind. Það er eitt dæmi um það, hve margt er óstöðugt og breytilegt í gerð þessa frv.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að III. kafla frv. Það má segja að ákvæði um fjárlagafrv. og áætlanir í 6. og 7. gr. frv. séu góðra gjalda verð. Þau eru ýmist sjálfsögð eða þau eru óþörf. Allt þetta er unnt að gera og sumt er núna gert án sérstakra lagafyrirmæla. Ákvæði 8. gr. fjalla um endurskoðun lagaskyldu um fjárveitingar. Þar hefur orðið breyting frá því að frv.-drögin birtust fyrst í febr. og þá auðvitað á þann hátt að ákvæðið er naumast nokkurs virði eða hefur nokkra þýðingu. Það er orðið svo úfþynnt samkv. viðtekinni reglu um breytingar frá frv.-drögunum í febr. og til þess frv. sem við nú ræðum. Og auðvitað er ljóst að endurskoðun á lagafyrirmælum um ríkisútgjöld er hægt að framkvæma án þess að sett séu lög um að slíkt skuli gert.

Í 9. gr. eru ákvæði um að niðurgreiðsla landbúnaðarafurða úr ríkissjóði skuli ekki vera hærri en svo að útsöluverð hverrar afurðar til neytenda verði lægra en sem svarar verði til framleiðenda. Enn fremur er í þessari grein talað um að ákvarðanir um niðurgreiðslur miðist við það að sem minnstar sveiflur verði í þeim. Ég hygg að þetta um sveiflurnar og sem minnstar sveiflur séu orð í tíma töluð. En það er eins með þessa grein og margt annað í frv., að það er ekki nauðsynlegt að lögfesta þessa grein til þess að geta framkvæmt það sem hún fjallar um. Til þess að framkvæma það, sem greinin fjallar um, þarf vilja stjórnvalda. Það er það sem höfuðmáli skiptir. Það er einnig að sjálfsögðu nauðsynlegt að ríkisstj., hver sem hún er, hafi skýrt afmarkaða stefnu í þessum efnum.

Ég vil í þessu sambandi minna á að nú stöndum við þessa dagana, þessar vikur frammi fyrir því mikla vandamáli hvernig á að fara með þær óseldu landbúnaðarvörur sem við liggjum með nú og eru að verðmæti milli 5 og 6 milljarða kr. Og það virðist vera svo, að ríkisstj. hafi ekki mótað neina afstöðu eða stefnu í svo þýðingarmiklu máli sem það er. Ég segi það vegna þess, að á sama tíma sem hefur legið fyrir Alþ. frá því fyrir áramót frv. til l. um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þar sem kveðið er á um aðgerðir til þess að mæta erfiðleikum offramleiðslunnar í landbúnaði, hefur ríkisstj. farið í þessu máli undan í flæmingi. Þrátt fyrir að það hafa komið fram ákveðnar beiðnir um það á fundum landbn. þingsins hefur ríkisstj. ekki treyst sér eða ekki viljað koma fram með það, hvað hún hyggst gera í þessu mikla vandamáli landbúnaðarins vegna óseldra afurða sem nú er við að glíma. Nú kemur ríkisstj. með 9. gr. þessa frv. án þess að hafa nokkuð kveðið á um þann vanda sem nú þolir ekki bið að leysa. Af því má nokkuð marka hve vel grundað og vel hugsað það ákvæði 9. gr. er sem þar er að finna.

Ég skal þá víkja nokkuð að IV. kafla þessa frv., um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj. Ákvæði þessa kafla eru að miklu leyti lýsing á vinnubrögðum sem þegar eru viðhöfð. Og að því leyti sem um nýjungar er að ræða er óþarfi að setja lagafyrirmæli. Ákvæðin í 20. gr. frv. um 25% viðmiðunina 1979 er þegar að finna í fjárl. og lánsfjáráætlun. Samræming lánskjara fjárfestingarlána var framkvæmd í tíð fyrrv. ríkisstj. og þannig mætti fleira upp telja.

Í 21. gr. eru ákvæði um arðsemismat. Það fer eftir því við hvað er átt með arðsemismati hvað á að leggja upp úr því ákvæði eða raunar hvað á um það að segja. Arðsemismat getur út af fyrir sig verið góðra gjalda vert. En þetta mál er flókið og það er alls ekki vel til þess fallið að setja um það lagafyrirmæli. Í þessu sambandi er þess að minnast, að þar sem maður hefur á undanförnum árum heyrt einkum talað um arðsemismat hefur það verið til þess að draga úr, tefja og koma oft og tíðum í veg fyrir allra nauðsynlegustu framkvæmdir í dreifbýli landsins. Ég held því að það ætti að gjalda nokkurn varhug við þessu. En það er kannske ekki ástæða til þess að ræða mikið um þetta því að það er með sama markinu brennt og margt annað, að það er ekki hægt að sjá að hverju er stefnt eða við hvað er átt.

Ég kem þá að V. kafla frv., um framfarir í atvinnuvegum og hagræðingu í atvinnurekstri. Þessi kafli, sem er nýr, var ekki í drögum að þessu frv. í febr. Nú hefur þessi kafli verið settur hér inn, svo að mikið hefur þótt liggja við að betrumbæta frv. Um þennan kafla er fyrst að segja, ef svo mætti komast að orði, að hann er framúrskarandi óskýr. Það kerfi áætlana, sem þar er gert ráð fyrir, er svo flókið að það hlýtur að verða óframkvæmanlegt í reynd. Það er ekki ljóst hvaða tilgangi þessar áætlanir eiga að þjóna. Manni er spurn: Eiga þær að vera vísbendandi eða til ráðleggingar? Ef svo er þarf engin lagaákvæði um þær og miklu auðveldara fyrirkomulag er unnt að hafa. Hins vegar ef þessar áætlanir eiga að vera fyrirskipandi eða bindandi, en til þess benda ákvæði eða orðalag margra greinanna, t. d. um eftirlit Framkvæmdastofnunar með framkvæmd áætlana, sem tekið er fram í 27. gr. frv., þá þurfa ákvæði þar um, ef þau eiga að vera bindandi, að vera skýr. Mér er ekki kunnugt um að nein svipuð ákvæði um áætlanagerð sé að finna í nágrannalöndum okkar né neitt slíkt fyrirkomulag tíðkist í þeim löndum. Mér er því spurn: Hvaðan er fyrirmyndin? Við þekkjum ekki slíkar áætlanagerðir á Norðurlöndunum. Við þekkjum þær ekki í Bretlandi, Þýskalandi eða öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Hvar þekkja menn slíkar áætlanir? Vilja menn ekki láta það koma fram, hvaðan þeir hafi fyrirmyndirnar af þessum áætlunum? Það væri líka gott að heyra hvers vegna þessi kafli var ekki í drögunum að frv. í febr., en er kominn nú. Stendur það kannske í einhverju sambandi við það, hvaðan fyrirmyndin er tekin? Það verður fróðlegt að heyra nánar um þetta efni.

Herra forseti. Ég skal þá næst víkja nokkrum orðum að VI. og VII. kafla frv. Í þessum köflum, um peninga og lánamál og verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, er að finna það jákvæðasta í þessu frv. svo langt sem það nær. Það er ekki nema gott um það að segja, að mönnum sé að verða ljóst að ekki verði lengur komist hjá að efla sparnað með því að koma á raunvöxtum svo að linni því eignaráni sem sparifjáreigendur hafa lengi verið beittir. Samkv. þessu skal bönkum og öðrum innlánsstofnunum vera heimilt að taka á móti sparifé og öðrum innstæðum gegn verðtryggingu og lána út fé með verðtryggingu. Þá segir að vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skuli við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár, inn- og útlána. Og enn fremur er tekið fram, að meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróuninni, en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Hér verður að sjálfsögðu að hafa í huga að lántakandi þarf að greiða bæði hækkun höfuðstólsins og nafnvaxta og frá sjónarmiði lántakandans er enginn munur á þessu tvennu. Greiðslubyrðin leggst í heild á lántakandann eins og um samsvarandi vexti væri að ræða, nema hann fær í bili nokkurn greiðslufrest á þeim hluta sem bætist við höfuðstólinn. Þetta gæti komið þannig út núna, ef dæmið er tekið út frá innlánsvöxtum, sem nú eru 19% á almenn innlán, að innlánsvextirnir yrðu að hækka um 14% eða nema samtals 33%, svo að náð sé því verðbólgustigi sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta þarf til að raunvextir verði þó aðeins í núlli, hvað þá heldur ef markið væri sett hærra. Lántakandinn þarf svo að standa undir þessari gífurlegu vaxtahækkun. Spurning mín er því sú, hvort atvinnureksturinn í landinu geti staðið undir þessu auk skattahækkana sem ríkisstj. hefur þegar lagt á atvinnureksturinn. Ef svo er ekki, hvað ætlar þá ríkisstj. að taka til bragðs til þess að halda atvinnulífinu gangandi?

Það mætti auk þessa segja margt um VI. og VII. kaflann. Í raun og veru er VI. kafli frv. með öllu tilgangslaus, þá á ég ekki við bráðabirgðaákvæðin í 32. gr., vegna þess að í VI. kaflanum eru sett fram stefnumið sem annaðhvort er þegar að finna í seðlabankalögum eða ríkisstj. getur sett sér og Seðlabanka hvenær sem er án lagasetningar. Tveggja ára áætlun um útlán og þróun lánamarkaðar samkv. 29. gr. frv. er hægt að gera án lagasetningar. Eina ákvæði þessa kafla, sem lagasetningu þurfti um, var heimild til aukinnar bindingar hjá Seðlabankanum á innlánsfé innlánsstofnana. En það vill svo til að það ákvæði er ekki í frv. Það var í drögunum að frv. í febr. s. l., og þá var betur hægt að skilja hvað ríkisstj. var að fara eða taldi sig vera að fara. Það var ómögulega hægt að sjá af frv. eins og það var lagt fram. En ég sé að meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. hefur bætt úr þessu með brtt. þeirri sem hún ber fram og gerir ráð fyrir að fjárbindingin sé hækkuð úr 25% í 28%, eins og hv. 6. þm. Suðurl. hefur gert grein fyrir. En allt er þetta með nokkrum ólíkindum eins og margt annað í frv. þessu og sýnir — mér liggur við að segja: það fálm og þær tilviljanir sem virðast hafa ráðið í samningu frv.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að VII. kafla frv. Þessi kafli mun, eftir því sem ég hef fregnað, hafa verið saminn mjög í samráði við Seðlabankann. En samkv. áliti Seðlabankans var mikilvægt að koma að þremur atriðum í sambandi við verðtryggingu til þess að gera hana framkvæmanlegri en hún er samkv. núverandi heimildum í lögum, þ. e. a. s. í lögum nr. 71 frá 6. maí 1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Fyrsta atriðið er að verðtrygging skuli almennt heimil í skriflegum skuldbindingum manna á milli þar sem skuldari greiðir peninga. Þetta er tekið fram í 34. gr. þessa frv., til þess skorti heimild í lögum frá 1966 og framkvæmd slíkrar verðtryggingar, einkum í sambandi við sölu nýbygginga, hefur byggst á dómsúrskurðum. Það verður því að telja að þessi breyting sé út af fyrir sig mikilvæg.

Annað atriði er að lögin frá 1966 settu ýmsar takmarkir á verðtryggingar sem eru til óþæginda við almenna framkvæmd verðtryggingar, þ. á m. um tímalengd lána og tegund veða. Samkv. þessum kafla frv. falla slíka. takmarkanir niður og það er gott.

Þriðja atriðið er að samkv. lögunum frá 1966 var alls ekki gert ráð fyrir að verðtrygging næði til skammtímalána, svo sem stuttra víxla. Af þessum sökum varð Seðlabankinn að byggja ákvarðanir um verðbótaþátt vaxta í reglum sínum árið 1977 á almennum vaxtaákvæðum í seðlabankalögunum. Þetta var erfitt í framkvæmd auk þess sem lagagrundvöllurinn kann að hafa verið nokkuð hæpinn. Nú koma ákvæði um verðbótaþátt vaxta beinlínis fram í 39. gr. frv.

Eins og ég sagði áðan er í þessum kafla að finna það sem jákvæðast er í þessu frv. En kaflinn er samt ekki eins og best yrði á kosið. Það verður ekki annað sagt en lagasmíð þessi sé allflókin. Það hefði sjálfsagt verið hægt að gera þetta einfaldara en hér er sett fram. Þar við bætist að framkvæmd almennrar verðtryggingar hlýtur að vera mjög erfið og varasöm, eins og reynsla annarra þjóða hefur sýnt. Það má varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki hefði verið eðlilegast að halda sig í aðalatriðum við þær aðferðir sem Seðlabankinn tók upp 1977, þ. e. a. s. að um sé að ræða skiptingu vaxta í verðbótaþátt og grunnþátt, eins og þá var gert ráð fyrir. En ég skal ekki fjölyrða frekar um það. Aðalatriðið og aðalaths. við þennan kafla er að ákvæði hans mættu vera einfaldari, skýrari og í sumu afdráttarlausari.

Herra forseti. Ég sé að lokið er venjulegum fundartíma. Það eru nú heppileg kaflaskil í ræðu minni, og vil ég mælast til þess að fá að fresta ræðunni í bili. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var búinn að víkja nokkrum orðum að hinum ýmsu köflum í þessu frv. eða allt að VIII. kafla frv.

Það má að sjálfsögðu margt um VIII. kafla frv. segja, eins og raunar margt annað í því. Þessi kafli setur lagaákvæði um verðbætur á laun, þar sem aftur á móti er gert ráð fyrir að grunnlaun ákveðist með samningum. Frádráttarliðir við útreikning verðbótavísitölu verða breytingar búvöruverðs vegna vinnuliðar verðlagsgrundvallar búvöru og breytingar á áfengis- og tóbaksverði eins og áður. Við bætast áhrif skatta til niðurgreiðslna á olíu eða útgjöld vegna hennar án skattabreytinga.

Nú liggja nákvæmir útreikningar um áhrif þessarar útgáfu frv. ekki fyrir, og það lágu ekki heldur fyrir nákvæmir útreikningar í drögum að frv. sem litu dagsins ljós í febr. s. l. Samt sem áður var í aths. við frv.-drögin talið að meðalhækkun framfærsluvísitölu á árinu 1979 yrði 33% og 30% frá upphafi til loka árs. En í aths. með þessu frv. eru samsvarandi tölur taldar 33–34% og 32–33%. Í útgáfunni frá því í febrúar er talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist ekki, en nú í þeirri síðari að hann hækki um 1%.

Þannig eru þessir útreikningar svo langt sem þeir ná, og nú höfum við fengið brtt. við þennan kafla frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. En enn þá meiri útreikninga hygg ég að þurfi við ef það yrði komist algerlega til botns í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að allir þessir útreikningar, sem manni virðist að eigi að draga fram að kjaraskerðing launþega sé ekki meiri en þetta eða þetta, eru að ýmsu leyti vafasamir frá mínu sjónarmiði.

Í fyrsta lagi hygg ég að þessir útreikningar séu vafasamir vegna þess að þeir eru byggðir á ýmsum þeim forsendum sem við að sjálfsögðu höfum enga tryggingu fyrir að haldist. Ég er ekki að segja að útreikningarnir séu lakar gerðir en aðrir hliðstæðir útreikningar um slík efni sem þessi, en við verðum alltaf að hafa vissa fyrirvara á slíkum útreikningum.

Í öðru lagi held ég að þessir útreikningar séu eiginlega angi af þeirri tilhneigingu og þeirri viðleitni hjá núv. ríkisstj. að halda því fram, halda því að þjóðinni, að hægt sé raunverulega að gera átak gegn verðbólgunni í landinu án þess að það komi við nokkurn mann. Þetta er angi af því viðhorfi. En þetta er að sjálfsögðu stórkostlegur misskilningur og að mínu viti ein grundvallarástæðan fyrir veikleika ríkisstj. í öllum hennar aðgerðum.

Það er forsenda fyrir því að hægt sé að gera stórátak í einhverju máli, sem varðar alþjóðjafnmiklu og viðureignin við verðbólguna, að fólki sé gerð grein fyrir því að ekki verður ráðin bót á þessum málum nema það komi við alla borgara í landinu. Og það er ekki von til þess að hægt sé að fá þann samhug og þá samstöðu meðal þjóðarinnar sem er forsenda fyrir því að gert sé eitthvert umtalsvert átak, lyft einhverjum umtalsverðum hlut í þessu efni, ef þjóðinni er ekki gerð grein fyrir því að mikið liggur við. Hér á ég ekki við, þegar ég tala um þjóðina, einungis launþega, hvað þá heldur þá lægst launuðu. Það hefur allt of mikið borið á því í umr. um þessi mál nú að undanförnu, að hugurinn staðnæmist fyrst og fremst við launþegana í landinu. En það eru fleiri en launþegarnir sem þurfa að fórna einhverju í þessum átökum, og það er fleira en við kemur launþegum sem þarf að gera. Það þarf alhliða aðgerðir. Það er ekki nægilegt að skerða kaupið. Þó nauðsynlegt sé með öðru er það ekki nægilegt ef viðeigandi ráðstafanir ná ekki fram á öðrum sviðum.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þennan kafla. Ég vil þó, áður en ég vík frá honum, leyfa mér að spyrja: Hvað þýðir það sem segir í 11. brtt. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn.? Þar stendur: „Grunnkaup þetta skal haldast óbreytt, þar til um annað hefur verið samið. Ákvæði þessara laga breyta í engu rétti til að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á laun.“ — Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað þýðir þetta ákvæði með tilliti til opinberra starfsmanna? Felst í þessu ákvæði bann við 3% grunnkaupshækkun til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, sem gert var ráð fyrir 1. apríl? Og felst í þessu bann, hvernig svo sem fer um fyrirhugaða atkvgr. um samkomulag um að gefa eftir kaup gegn því að fá aukinn verkfallsrétt? Mér finnst að það sé þýðingarmikið, að það sé skýrt fyrir d. hvað þetta ákvæði þýðir með tilliti til opinberra starfsmanna.

Ég kem þá að IX. kafla frv. þessa sem fjallar um vinnumarkaðsmál. Mér finnst sjálfsagt að haft sé hið hentugasta skipulag á starfsemi félmrn. Ég leyfi mér samt að efast um að það sé einhver sérstök ástæða til þess að leggja það til í þessu frv. um efnahagsmál, að sett skuli á fót sérstök vinnumálaskrifstofa innan félmrn., eins og 52. gr. frv. gerir ráð fyrir. Spurningin er hvort hér sé ekki verið að setja á fót nýja ríkisstofnun sem gæti orðið heilmikið bákn þó að smá kynni að vera í sniðum í byrjun.

Varðandi þennan kafla vil ég þó sérstaklega vara við ákvæðum 54. gr., þar sem atvinnurekendum er gert skylt að tilkynna vinnumálaskrifstofunni og viðkomandi verkalýðsfélagi, eins og þar segir, með tveggja mánaða fyrirvara ráðgerðan samdrátt eða aðrar þær varanlegar breytingar í rekstri sem leiða til uppsagnar fjögurra starfsmanna eða fleiri. Ég læt mér detta í hug, ef þetta á að verða eitthvað annað en orðin tóm, að það geti orðið töluverðum vandkvæðum bundið í ýmsum atvinnugreinum að fullnægja bókstaf þessara laga. Ég sé t. d. fyrir mér hvernig væri fyrir hraðfrystihúsin að gefa með tveggja mánaða fyrirvara upplýsingar um hvað fyrirhugað er um samdrátt hjá verkafólki við fiskverkun. Ég veit ekki hvernig á að gera það svo að marktækt sé. Ég læt mér ekki detta í hug að neinir stjórnendur fyrirtækis geti undir flestum kringumstæðum sagt um það. Þetta fer eftir því hvernig fiskast og eftir fleira og fleira. Það er kannske réttast að treysta á þorskinn sjálfan til þess að fylla út þau eyðublöð og gefa þær upplýsingar sem þarf til þess að þetta sé hægt. Ég held að menn hljóti við nánari athugun að greiða atkv. á móti þessari grein frv.

Ég kem þá að X. kafla frv., sem fjallar um verðlagsmál. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan kafla. Hann innleiðir ströng verðtagshöft í stað frjálsrar verðmyndunar samkv. lögum nr. 56/1978 og þrengir viðmiðun verðákvarðana frá því sem eldri lög um verðlagsmál, sem enn gilda, gerðu. Þessi kafli er eiginlega ömurlegur vottur þess, hvernig getur farið fyrir hinum ágætustu mönnum. Þá á ég við að í fyrrv. ríkisstj., þegar hæstv. forsrh. fór með verðlagsmálin, stóð hann að því og hafði forustu í því samkv. embættisstöðu sinni að láta semja, leggja fram og fá samþykkt ný verðlagslög. Og það var ekki að ófyrirsynju að þetta verk var unnið í tíð fyrrv. ríkisstj. Án þess að ég ætli að fara að rifja upp þær umr., sem hafa orðið um verðlagsmálin og nauðsyn þess að hverfa frá því skipulagi sem svo illa hefur reynst á undanförnum árum og áratugum, minni ég á að almennt er talið að þetta skipulag hefur haldið uppi verðlagi í landinu um leið og það hefur verið að brjóta niður verslunina, bæði einkaeign og samvinnuverslun og alveg sérstaklega úti um landsbyggðina. Það voru lögin, sem samþ. voru á síðasta þingi, sem brutu í blað í þessum efnum. Hæstv. forsrh. var þá viðskrh. og fór með verðlagsmálin. Nú felur X. kafli frv. í sér að halda á áfram ströngum verðlagshöftum í stað þeirrar frjálsu verðmyndunar sem löggjöfin frá síðasta þingi gerði ráð fyrir. Og það er full ástæða til þess að spyrja: Hvaða rök eru fyrir þessu? Er hægt að færa einhver frambærileg rök fyrir þessum hringsnúningi? Eða er það svo, að það fari eftir því með hverjum hæstv. forsrh. vinnur hvort hann vinnur góð verk eða miður góð?

Ég kem þá að síðasta kafla frv. sem ég ætla að víkja að, og það er XI. kaflinn, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þessi kafli er að sumu leyti, ef svo mætti komast að orði, góðra gjalda verður. En það hljóta í sambandi við hann að vakna ýmsar spurningar varðandi Aflatryggingasjóðinn.

Spurningin er sú í fyrsta lagi, hvort ekki sé verið að ofbjóða getu sjóðsins, þar sem tekjustofn hans hefur og verið skertur, og í öðru lagi, hvort t. d. ákvæði 63. gr. sérstaklega eigi ekki frekar við Verðjöfnunarsjóð en Aflatryggingasjóð, sem greinin fjallar um.

Vera kann að ríkisstj. sé starsýnt á núverandi sjóðseign Aflatryggingasjóðs sem mun nema um 2.5 milljörðum kr., en það svarar þó ekki nema til smíðakostnaðar svo sem eins og hálfs loðnuskips eða skuttogara. Eign þessari hefur aðallega verið safnað tvö undangengin ár, þegar markaðsverð flestra sjávarafurða hefur verið hagstætt og afli mikill og einkum á loðnu, svo sem kunnugt er. En það er nauðsynlegt að slá varnagla í þessu efni. Það er nauðsynlegt að benda á nokkur tímabil þegar fé Aflatryggingasjóðs hefur verið af skorunum skammti vegna aflabrests eða óhagstæðs verðlags á erlendum markaði. Það má nefna í þessu sambandi tvö nýleg dæmi, t. d. 1967–1969 og svo 1972–1974. Í bæði þessi skipti hrukku tekjur Aflatryggingasjóðs ekki fyrir gjöldum, þannig að það var gengið á eignir sjóðsins. Það má því öllum vera ljóst, að til þess að geta mætt slíkum áföllum þarf sjóðurinn að geta safnað sæmilegum innstæðum þegar vel árar.

Í núgildandi lögum sjóðsins eru ákvæði er heimila bætur ef stöðva þarf veiðar vegna hrygningar nytjafiska eða óheyrilegs seiðadráps. Það verður að skilja ákvæði 61.–63. gr. frv. svo, að þessar heimildir til bótagreiðslna verði allmjög víkkaðar. En þetta atriði þarf nánari athugunar við.

Þá ber að hafa það í huga í sambandi við 62. gr. frv., að í reynd hafa núgildandi lög verið túlkuð í anda þeirra ákvæða sem þar er að finna, þ. e. að tekið er tillit til langvarandi aflaleysis þegar meðalveiðimagn, sem bætur miðast við, er ákveðið á þann veg að meðalveiðimagn er ekki látið fylgja meðalafla. Þá er þess og að geta, að sóknartakmarkanir eins og þær, sem ákveðnar hafa verið á síðustu árum, hafa verið viðurkenndar til bótaréttar. En samkv. núgildandi lögum er hins vegar ekki víst að þannig færi um aðrar aðferðir til takmarkana, sérstaklega ekki langvarandi veiðibönn, enda æskilegt að Aflatryggingasjóðsstjórn hafi nokkurt svigrúm til þess að meta aðstæður hverju sinni.

Um 63. gr. sérstaklega má benda á að þar er verið að setja fram hugmyndir um hvernig beri að endurskoða lögin og hvaða auknar skyldur Aflatryggingasjóði beri að taka á sig til að bæta upp verð á vannýttum fisktegundum. Vannýttir stofnar eru núna ufsi, kolmunni og spærlingur, sem jafnt má veiða á bátum og togurum ef svo ber undir, svo og karfi, sem er að langmestu leyti veiddur af togurum. Á móti þeirri útgjaldaaukningu, sem slík lagaákvæði hefðu í för með sér, sem hér er gert ráð fyrir, kemur heimildarákvæði til skattlagningar verðmætari fisktegunda, sem væntanlega Alþ. eitt gæti ákveðið hverju sinni. Ég verð að segja það, að hér er um svo varhugaverðar heimildir og fyrirætlanir að ræða að það er ekki hægt annað en greiða atkv. gegn 63. gr. frv.

Herra forseti. Ég hef nú farið nokkrum orðum um hina einstöku kafla frv. Ég skal ekki fjölyrða frekar um frv. í heild en ég gerði í upphafi ræðu minnar. Ég vil taka fram, eins og ég raunar hef áður gert, að sumt í frv. gæti verið til bóta undir vissum kringumstæðum, ef við gæfum okkur að það væri að öðru leyti heildarstjórn á efnahagsmálunum. Mörgu ægir saman í þessu frv. Þetta er eins og eins konar ruslakista. Það kennir margra grasa. Það eru til þarna hlutir sem gætu orðið til gagns í góðum höndum, en er vonlaust að geti þjónað nokkrum sérstökum tilgangi að taka til handargagns nú í því formi að samþykkja þetta frv. Það er vegna þess, að frv. þetta markar ekki neina heildarstefnu í efnahagsmálunum. Hv. 6. þm. Suðurl. tók fram í ræðu sinni að þetta væri einstæðasta tilraun — eða eitthvað á þá leið — sem gerð hefði verið til þess að móta heildarstefnu í efnahagsmálunum. Ég held að þetta sé mikið öfugmæti. En þetta er einstæð tilraun að einu leyti. Allar starfsaðferðir við að koma þessu frv. svo á legg að það sæi dagsins ljós hér á Alþ. hafa verið með alveg einstökum hætti. En það er ekki aðalatriði málsins. Frv. sjálft er með einstæðum hætti, ekki fyrir það hve vel það þjóni þeim tilgangi, sem boðaður er nú með flutningi þess, að koma á heildarstefnu í efnahagsmálunum, heldur fyrir það hve illa það er til þess fallið.